Heimil útrás eða óheimil innrás?

Um fátt er meira talað þessa dagana en fjárfestingar útlendinga í íslenskum orkufyrirtækjum - sem öll eru að sjálfsögðu í rómuðum útrásarhugleiðingum. Þarna finnst manni óneitanlega vera einhver þversögn, af hverju er það útrás þegar erlend fyrirtæki kaupa Hitaveitu Suðurnesja og helminginn í dótturfyrirtæki OR? Er það ekki frekar innrás?

Persónulega er ég almennt séð frekar hlynntur innrásum erlendra aðila í íslenskt atvinnu- og viðskiptalíf. Ég myndi t.d. fagna því mjög að einhver erlendur banki keypti Spron, lánaði mér peninga á eðlilegum vöxtum, rukkaði mig ekki um seðilgjöld fyrir rafrænu beingreiðslurnar og gæti útskýrt fyrir mér hvaða kostnaður er að baki fit-kostnaðinum. Ég er hins vegar afar skeptískur þegar kemur að innrás erlendra aðila á íslenskan orkumarkað.

Nú mun það vera svo að Orkuveitan og fleiri orkufyrirtæki eiga talsvert af þeim jörðum sem orkuvinnsla þeirra fer fram á. Skv. lögum um einkaeignarrétt mun orkuauðlindin því vera í eigu viðkomandi fyrirtækis. Til þessara fyrirtækja var auðvitað í upphafi stofnað til að veita íbúum yl og ljós svo enginn hefur kannski haft áhyggjur af því hvernig þessi saga endaði. Ég hef hins vegar vaxandi áhyggjur af því. Mér finnst ekkert verulega skemmtileg tilhugsun að nokkrir einkaaðilar eigi um alla framtíð orkuauðlindirnar sjálfar.

Ég gæti hugsað mér að fyrirtæki, íslensk sem erlend, keyptu og seldu réttinn til að nýta þær í einhvern tiltekinn tíma, þess vegna nokkra áratugi, en ef við skilgreinum ekki eignarhald þjóðarinnar á orkuuppsprettum landsins þá er ég hræddur um að við séum að leika enn verri afleik en gert var með frjálsu framsali aflaheimilda.

Þá finnst mér einu gilda hvort um er að ræða orkulindir fyrir almannaveitur eða til stóriðju. Eftir 15-20 ár er ekki ólíklegt að bílar verði knúnir áfram með rafmagni á einhvern hátt. Ísland gæti þá átt möguleika á að verða sjálfbært orkusamfélag og smám saman væri hægt að taka stóriðjurafmagnið úr sambandi og nota það til að knýja samgöngur. Væri þá ekki frekar óheppilegt að vera búin að selja uppsprettu þeirrar orku um alla framtíð til einkaaðila?

Reyndar finnst mér orkufyrirtækin vera komin nokkuð langt fram úr sjálfum sér. Það mun vera búið að ganga frá kaupum hins bandaríska fyrirtækis Goldman Sachs í Geysi Green sem á 32% í Hitaveitu Suðurnesja.

Lög um fjárfestingu erlendra aðila frá 1991 kveða þó skýrt á um að:

2. Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. [Sama rétt hafa einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum og lögaðilar sem heimilisfastir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum.]1) Heimilt skal að kveða svo á í fjárfestingarsamningum milli Íslands og ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins að einstaklingar sem þar eru búsettir eða lögaðilar sem þar eru heimilisfastir hafi einnig sama rétt, enda verði slíkir samningar lagðir fyrir Alþingi til staðfestingar með þingsályktun.

Mér finnst svo sem ekki skipta neinu máli hvort einkafyrirtæki sem eiga varanlega einkaeignarrétt á orkuauðlindum íslensku þjóðarinnar eru bandarísk, evrópsk eða íslensk en ég get ómögulega séð að þarna leiki nokkur vafi á því að Goldman Sachs mun þurfa leyfi Alþingis til þessarar innrásar á íslenskan orkumarkað. Ef þetta er misskilningur bið ég lögfróða að leiðrétta það.


mbl.is Útlendingar geta eignast íslenska orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þetta er merkilegur pistill, frændi, ætla að lesa hann í rólegheitum um helgina. Sýnist þú vera að boða nokkurs konar kvótakerfi í orkugeiranum- en kannski er það misskilningur?

María Kristjánsdóttir, 14.9.2007 kl. 10:04

2 identicon

Ég skora á alla ábyrga stjórnmálamenn að taka af skarið og íslenskan almenning að mótmæla þessum ráðbruggi sem mun þýða stórkostlega skerðingu lífskjara á Íslandi í framtíðinni. Forráðamenn þessara fyrirtækja á að láta svara til saka og taka til bæna þá pólitíkusum sem stuðla að þessum lymskulega ÞJÓFNAÐI Á ÞJÓÐAREIGN!

Hrúturinn (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 10:23

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Þetta er skýrt. Sem betur fer....

Gestur Guðjónsson, 14.9.2007 kl. 13:52

4 Smámynd: Heiða  Þórðar

Hann er ekkert merkilegur Guðrún.

Hann er stórmerkilegur þessi pistill.

Takk fyrir mig.

Heiða Þórðar, 14.9.2007 kl. 14:35

5 Smámynd: Heiða  Þórðar

Aðeins og fljót á mér þarna (minnir mig á Guðrúnu rithöfund á smámyndinni :) fyrirgefðu María mín, skeður oft og marsinnis í mínu athöfnum í lífinu þ.e.;

FLJÓTFÆR!

Heiða Þórðar, 14.9.2007 kl. 14:36

6 Smámynd: Sævar Helgason

Það er nú málið... er þetta svona klárt í lögunum ? Mér finnst þau alveg kafloðin.

Er ekki mjög líklegt að þessi virti fjárfestingarbanki hafi látið greina rétt sinn svona fyrir fram og komist að því að ekkert sé í veginum fyrir þá að eignast hlut í örkuauðlind á Íslandi ?

En pistillinn er góður hjá þér Dofri. 

Sævar Helgason, 14.9.2007 kl. 16:39

7 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það er ótrúlegt að svona mál geti komið upp. Eru ráðamenn þjóðarinnar svona skammsýnir eða eru þeir að maka krókinn einhvern vegin sjálfir? Þetta er ekki lengur bara spurning með að vernda landið, heldur langtíma afkomu þjóðarinnar. Fólk verður að skilja það og gera eitthvað í málinu.

Villi Asgeirsson, 14.9.2007 kl. 16:58

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þá á auðvitað að vera kolólöglegt og verður að stoppa áður en fjöregg komandi kynslóða endar í höndum feitra fingra.  Ekkert er meira aðkallandi.  Menn ættu að lesa sig í gegnum ENRON skandalann eða horfa á heimildamyndina "Smartest guys in the room"  til að fá einhverja mynd um ástand og horfur eða þó ekki sé nema að skyggnast inn í hugarheim þessara glæpona.  Ef fer sem horfir mun þetta verða hirt af okkur í þrepum, svo klókindalega flettuðum að enginn á eftir að taka eftir því fyrr en of seint.

Þetta með fittið.  Þar eru Bankar að ákveða sektarfjárhæð, sem viðurlög við opinberum lögum og stinga svo sektinni í eigin vasa. Hve lógískt hljómar það?  Minnir mig á Ítalska lögreglu, sem sektar fyrir hraðakstur.  Prúttar um sektina í reiðufé og stingur henni svo í vasann... þú bara gegnir, annars ertu í vondum málum.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.9.2007 kl. 21:42

9 identicon

Vekja þarf athygli á nöfnum þeirra pólitíkusa (kvislinga) sem styðja þessa lymskulega tilraun til ÞJÓFNAÐAR Á ÞJÓÐAREIGN. Látum þá vita að við sjáum til þess að þeir vermi ekki sæti á Alþingi til frambúðar! Miklar líkur eru á að hægt sé að þverpólitíska samstöðu fólksins í landinu!

Hrúturinn (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband