18.9.2007 | 20:55
Uppgefinn borgarmeirihluti ófær um að takast á við manneklu á leikskólum og frístundaheimilum
Í borgarstjórn í dag var hart tekist á um leiðir til að leysa mannekluvanda í leikskólum borgarinnar. Meirihlutinn vill velta ábyrgðinni á þjónustu leikskólanna yfir á fyrirtækin. Fyrirtækjaleikskólar er sú lausn sem meirihlutinn telur líklegasta til að vinna á biðlistum eftir plássi á leikskólum.
Það verður jafn erfitt fyrir fyrirtækin að ráða starfsfólk og leikskóla borgarinnar ef ekki á að hækka laun starfsfólksins. Hærri laun verða ekki borguð nema að draga saman í þjónustunni eða að fyrirtækin borgi laun umfram framlagið sem fæst frá borginni.
Þá get ég ekki betur séð en að borgarmeirihlutinn sé farinn að leggja skatt á fyrirtæki. Leikskólaskatt sem fyrirtækin verða að borga til að tryggja að starfsfólk þeirra geti stundað vinnu sína. Þessi hugmyndafræði er undarleg blanda af uppgjöf og útvistun.
Þau fyrirtæki munu sinna kallinu sem geta og vilja, önnur ekki og foreldrar sem vinna hjá þeim síðarnefndu verða þá eftir sem áður í sama mannekluvanda og áður. Jafnvel meiri - ef fyrirtækjaleikskólarnir borga betur. Ég á reyndar eftir að sjá að fyrirtæki rjúki upp til handa og fóta og stofni leikskóla.
Á meðan borgarstjórnarmeirihlutinn eyðir tíma og kröftum í að ræða fram og aftur hvernig væri hægt að varpa pólitískri ábyrgð sinni á leikskólamálum yfir á fyrirtækin bíður fólk enn eftir að börnin þeirra fái leikskólapláss.
Uppgjöfin er enn sorglegri í ÍTR þar sem hátt á annað þúsund börn bíða eftir plássi á frístundaheimilum borgarinnar. Íþrótta- og tómstundaráð á að funda aðra hverja viku. Margir hefðu haldið að þeir sem kalla sig athafnastjórnmálamenn myndu reyna að funda oftar þegar þúsundir bíða eftir því að málin verði leyst.
Formaður Íþrótta- og tómstundaráðs hefur ekki haldið fund í Íþrótta- og tómstundaráði í 5 vikur! Í fyrra haust liðu 6 vikur á milli funda á meðan fólk beið eftir aðgerðum. Hvers vegna? Er það af áhugaleysi eða af því að hann kemst ekki yfir að sinna því sem hann hefur tekið að sér? Of erfitt að vera 6% maður með 35% völd?
Meirihlutinn hefur gefist upp á því pólitíska hlutverki sínu að takast á við mannekluvandann. Farsælast væri fyrir borgarbúa að meirihlutinn segði sig frá þessari pólitísku ábyrgð sinni. Útvistaði henni einfaldlega til minnihlutans.
Samfylkingin er tilbúin að taka verkefnið að sér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Facebook
Athugasemdir
Samfylkingunni tókst nú ekkert að leysa þennan vanda þau tólf ár sem hún fór með stjórn þessara mála þannig að "margt er líkt með k... og sk..." eins og einhver sagði.
Mér finnast þetta athyglisverðar hugmydir hjá Tobbu og gott hjá henni að leita lausna "út fyrir kassann". Hins vegar held ég að þessi tiltekna hugmynd sé ekki góð. Helsti gallinn er að ég held að þetta dragi úr hreyfanleika vinnumarkaðarins. Maður er síður líklegur til að vilja skipta um starf ef það þýðir að maður þarf að rífa börnin sín úr leikskólanum og yfir í nýjan skóla þegar maður hættir hjá núverandi vinnuveitanda.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 18.9.2007 kl. 23:15
Þið vitið nú betur en þetta strákar.
Sjálfstæðismenn töpuðu völdum í borginni 1994 ekki síst vegna þess að þeir höfðu ekki nokkurn áhuga á leikskólamálum og að leysa þann vanda sem skortur á leikskólaplássum olli þúsundum foreldra um allan bæ. Það sama virðist vera að endurtaka sig núna.
Félagshyggjufólk hafði þá sums staðar tekið sig saman og stofnað foreldrarekna (=einkarekna) leikskóla til að bæta fyrir áhugaleysi Sjálfstæðismanna.
Reykjavíkurlistinn lyfti svo grettistaki í leikskólamálum á næstu árum. Það voru byggðir leikskólar út um allan bæ, fjármagn stóraukið til einkarekinna leikskóla, starfsfólki leikskóla fjölgað um meira en helming og opinberu dagforeldrakerfi komið á.
Sem sagt gjörbreyting og stöðug þróun fram á við - þangað til núna að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur standa frammi fyrir verkefninu. Þá sést hver er hvað.
Dofri Hermannsson, 19.9.2007 kl. 11:23
Það er dáldið einkennilegt að hlusta á tillögur núverandi borgarstjórnarmanna á þessum vanda, þeir minnast ekki á launin, en alls konar krúsidúllur og vangaveltur um eitthvað sem skipta litlu. Ef það vantar starfsfólk þá er bara ein leið; það er að bjóða fólki ásættanleg laun og góða vinnuaðstöðu. Samfylkingin sýndi að hún hefði skilning á þessu þegar hún kippti laununum upp og núna verður að fara þá leið
Guðmundur Gunnarsson, 19.9.2007 kl. 12:49
Leikskólavandinn var áður leystur með því að neita unga fólkinu um lóðir og ýta því til nágrannasveitarfélaganna.
Rétt skal vera rétt Dofri Hermannsson.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 19.9.2007 kl. 18:17
lausnin virðist sem sagt vera hærri laun.. þá kemur fólkið ! það er svo sem ágætis lausn.. en hvaða fólk á að koma ? Það er 1 % atvinnuleysi svo fyrirtækin leysa ekki málið nema með innflutningi á fólki í störfin. Held að sjallarinir svo uppfullir af sjálfum sér sem þeir nú eru, geta ekki leyst þennan vanda og ekki einu sinni með því að ýta honum yfir á fyrirtækin.
BTW, konan mín fær ekki vinnu við ummönnun barna þrátt fyrir háskólamenntun í faginu en afsökunin er sú að hún talar ekki nógu góða íslensku.
Óskar Þorkelsson, 19.9.2007 kl. 18:34
Kosturinn við Heimi er að rangfærslurnar hans eru stuttar. Það er kostur sem Dharma mætti reyna að tileinka sér.
Dharma segir að leikskólakennarar borgarinnar séu ekki góðir. Ég er ósammála því. Börn hafa góða leikskólakennara og leikskólar borgarinnar eru góðir. Bæði þeir borgarreknu og þeir einkareknu - sem þvert á fullyrðingar Dharma fá sama framlag með hverju barni og hinir.
Það er rétt hjá Dharma að það þarf að hækka laun leikskólakennara til að starfið sé samkeppnisfært og fleira hæft fólk sæki í það. Hvort það er gert í gegnum borgina eða fyrirtækin breytir engu fyrir almenning. Hann borgar hækkunina á endanum hvort sem það er í gegnum útsvar eða hækkað verð á vöru og þjónustu. Fyrirtækin búa ekki til peninga frekar en borgin - það ætti Dharma að vita.
Dharma ætti, líkt og Heimir, að sleppa því að segja gamla lóðabrandarann sem allir vita að er á kostnað sjálfstæðismanna eftir að þeir hækkuðu "kostnaðarverðið" svo mikið að það er hærra en meðal uppboðsverðið var þegar þenslan á byggingarmarkaðnum var hæst. Hvað ætli þeim finnist þá um Garðabæ þar sem sjálfstæðismenn eru við völd og auglýstu um daginni lóðir á frá 14-20 milljóna.
Dharma finnst gaman að leika sér með tölur en hann mætti vanda sig betur. Þessir 5 þúsund starfsmenn þeirra 10 fyrirtækja sem hann telur að væru til í að reka fyrirtækjaleikskóla mega alla vega vera í meira lagi frjósamir ef þeir eiga samtals 1000 börn á leikskólaaldri. Miðað við mannfjöldatölur Hagstofunnar væri 350 nær lagi.
Ég get ekki séð að það myndi hafa stórkostleg áhrif á stöðuna, jafnvel þótt fyrirtækin borguðu leikskólakennurum hærri laun - á kostnað viðskiptavina sinna. Staðreyndin er sú að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmaðurinn hafa gefist upp á verkefninu og vilja velta ábyrgðinni af sér. Úthýsa pólitískri ábyrgð sinni á málaflokknum.
Dofri Hermannsson, 19.9.2007 kl. 21:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.