Evruvæðing ferðaþjónustunnar og "Öngstræti peningamálastefnunnar"

EvranÍ lítilli frétt á síðu 21 í Mogga dagsins segir í fyrirsögn "Fyrstu evruposarnir".

Þar segir að fyrirtækið Kortaþjónustan hafi sett upp fyrstu posana hér á landi sem taka við evrum. Posarnir eru sérstaklega hugsaðir fyrir ferðaþjónustuna en nýnæmi þeirra er að þeir gefa upp verð í evrum og - eins og áður segir - möguleikann á að greiða með evrum fyrir vörur og þjónustu.

Þetta er tímanna tákn. Allir sem mögulega geta eru að flýja herkostnaðinn af óstöðugri krónu. Ferðaþjónustan hefur eins og aðrir útflutningsatvinnuvegir farið illa út úr gengisflökti krónunnar og ljóst að æ fleiri ferðaþjónustufyrirtæki munu reyna að færa öll sín viðskipti - einnig launaliði - yfir í evrur.

Það gæti verið snjallt, jafnt fyrir ferðaþjónustufyrirtækin sem starfsfólk þeirra. Það væri drjúg búbót fyrir starfsfólk þeirra að geta, án gengisáhættu, tekið óverðtryggð erlend íbúðar- og bílalán á broti af þeim vöxtum sem hagstæðust bjóðast á íslenskum lánum.

Afborganir alls af algengu erlendu íbúðarláni upp á 10 milljónir til 40 ára eru um 16 milljónir. Af verðtryggðu íslensku láni á hagstæðustu vöxtum má hins vegar reikna með að þurfa að borga um 50 milljónir á jafn löngum tíma. Algeng upphæð íbúðarlána í dag eru 20 milljónir svo það má tvöfalda þetta.

Það er drjúg kjarabót að losna við 72 milljóna skatt til 40 ára með því að geta tekið erlent fasteignalán án gengisáhættu. Ég er ekki frá því að þetta ætti að vera meginsamningsmarkmið kennarastéttarinnar í komandi kjarasamningum.

Ég vil líka vekja athygli á góðri grein undir fyrirsögninni "Öngstræti peningamálastefnunnar" eftir Ársæl Valfells, lektor í HÍ, á bls. 28 í sama Mogga. Hann bendir á þá klemmu sem Seðlabankinn er kominn í með peningamálastefnunni.

Með því að hækka stýrivexti hefur Seðlabankinn reynt að draga úr eftirspurn eftir fjármagni. Í umhverfi þar sem flæði fjármagns er frjálst hvetur þetta hins vegar til útgáfu jöklabréfa og stóraukinnar erlendrar lántöku. Innspýting þessa fjármagns ýtir genginu upp og nú er svo komið að Seðlabankinn á erfitt með að lækka vexti því það myndi valda því að jöklabréfin hyrfu, gengið félli og verðbólga ryki upp.

Mér sýnist æ fleira benda til þess að allir sem möguleika hafa á, bæði fólk og fyrirtæki, verði löngu búin að taka upp evru eða annan stóran gjaldmiðil áður en Ísland sest niður til að ræða samningsmarkið við Evrópusambandið.

Sú hugmynd að taka Evru upp einhliða verður æ forvitnilegri kostur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband