21.9.2007 | 14:07
Liðkum til fyrir hjólandi umferð
Á þriðjudaginn samþykkti borgarstjórn tillögu sem miðar að því að efla hjólreiðar. Skoða á hvaða aðgerðir eru líklegastar til að bæta stöðu hjólreiða sem fullgilds ferðamáta innan borgarinnar.
Í umræðum í borgarstjórn benti ég á skýrslu um sérstakt hjólreiðaátak í Odense í Danmörku. Á árunum 1999-2002 lögðu yfirvöld 20 milljónir dkr. í verkefnið "Odense cykelby" en verkefnið gekk út á að greiða fyrir hjólandi umferð með breytingum á gatnakerfinu, breyta reglugerðum þ.a. þær tækjum meira mið af hjólandi umferð og í þriðja lagi var fjármunum varið í kynningu á hjólreiðum sem góðum valkosti í samgöngum.
Á þessum fjórum árum náðist að auka hjólreiðar um 20%, fækka slysum á hjólandi fólki um 20% og það sem mörgum þykir e.t.v. athyglisverðast - heildaæviárum Odensebúa fjölgaði um rúmlega 2000 og hið opinbera sparaði 33 milljónir í veikindadagpeningum. Það er dálagleg ávöxtun á 20 milljónir.
Í tilefni af samgönguviku fór ég í gær aðra leið en ég hjóla venjulega úr Grafarvogi í miðbæinn. Venjulega liggur leiðin í gegnum Bryggjuhverfið, Suðurlandsbrautina í Laugardalinn og svo sem leið liggur niður Laugaveg. Þetta er ekki sérlega skemmtileg leið eftir að komið er upp úr Laugardalnum vegna mikillar umferðar bíla inn og út af aðalbrautinni svo ég ákvað að kanna sjóleiðina.
Þar er mikil vinna eftir óunnin en frá Elliðavoginum er enginn hjólastígur svo heitið geti fyrr en við Kleppsveg eftir að komið er framhjá gamla IKEA. Eftir það er hins vegar nokkuð góð hjólagata eftir Sæbrautinni. Sums staðar lenti ég að vísu inn á gangstéttarbútum sem ég uppgötvaði skömmu síðar að lágu bara að strætóskýlum svo þar varð að snúa við.
Vegna allra þeirra króka og tafa er maður nokkurn veginn jafn lengi að hjóla úr Grafarvogi eftir Suðurlandsbraut og Laugarvegi eins og ef maður færi Fossvoginn og niður í Nauthólsvík, þótt það sé talsvert lengra. Hvort tveggja tekur svona 35 mínútur. Ef stysta leið væri hins vegar hugsuð með forgang og þarfir hjólandi fólks í huga væri eflaust hægt að stytta þennan hjólatúr niður í ca 25 mínútur.
Öryggi hjólandi fólks er ábótavant af því göturnar taka ekki mið af þessum ferðamáta. Víða á göngustígum eru blindbeygjur og hætta á að rekast á annað hjólandi eða gangandi fólk. Engar reglur eru til um í hvaða átt hjólreiðafólk má hjóla og þess vegna átta ökumenn sig oft ekki á því þegar hjól koma eftir gangstéttum úr annarri átt en bílaumferðin.
Úr þessu og mörgu öðru þarf að bæta. Það er vonandi að í Umhverfisráði fáum við að móta metnaðarfulla áætlun um að gera hjólreiðar að alvöru samgöngukosti - og fjármagn til að fylgja slíkum tillögum eftir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:55 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nú meiri þvælan hjá þér Dharma. Ég ætla nú ekki að fara út í gagnrýni þína á lóðamál í borginni en ætla að miðla aðeins af þér af 13 ára reynslu minni við að fara á reiðhjóli um höfuðborgarsvæðið þar með talið í og úr vinnu allt árið.
Fyrir þá, sem ekki komast í sturtu í vinnunni er nóg að fara fram á salerni eða annan prívat stað og fara úr reiðhjólagallanum, þurrka af sér svitan og fara síðan í vinnufötin. Ef þetta er gert kemur ENGIN SVITALYKT. Svitalykt er af fötum en ekki holdi.
Fæstir búa það langt frá vinnustað að þeir þurfi að hjóla í 40 mínútur hvora leið í vinnuna. Á 40 mínútum getur maður í meðalformi hjólað frá Hafnafirði í miðbæ Reykjavíkur.
Fleist grunnskólabörn búa í göngufæri frá skólanum þannig að það er alger óþarfi að skutla þeim í skólann. Ef þú treystir barninu þínu eða börnum ekki til að ganga án eftirlits fullorðins í skólann þá getur þú bara labbað með þeim og teymt hjólið. Síðan hjólar þú í vinnuna frá skólanum þeirra. Reyndar væri enn betri hugmynd að gefa börnunum líka hjól til að hjóla í skólann.
Ef þú ert með bögglabera bæði að framan og aftan á hjólinu og átt fjórar stórar hjólatöskur til að setja sitthvorumegin á hvorn bögglabera getur þú alveg komið um það bil sex innkaupapokum í töskurnar. Svo er líka hægt að gera 7 daga innkaupin bara um helgar og kaupa smotterí á virkum dögum ef eitthvað hefur gleymst um helgina.
Hvað varðar tal þitt um loftslag hér og í Danmörku þá get ég alveg sagt þér það af 13 ára reynslu að það er ekki verðurfarið, sem er vandamál hér á landi heldur aðstöðuleysi. Það er það, sem Dorfi er að tala um að breyta. Ástæða þess að fáir hjóla hér er ekki sú að fólk vilji það ekk heldur vegna þess að hér er engin aðstaða til þess. Hér eru nánast ekki til neinir hjólavegir og þurfa reiðhjólamenn því annað hvort að nota akvegi eða göngustíga, sem bæði eru slæmir kostir. Það myndu ekki margir synda ef ekki væru til neinar sundlaugar.
Hvað varðar meint hatur Dags og hans félaga á bílum þá er það einfaldlega þannig að það eru ástæður fyrir því að nánast öll borgaryfirvöld í heiminum eru að reyna að draga úr umferð einkabíla. Ástæðurnar hér í Reykjavík eru nokkrar
Í fyrsta lagið þá er losun gróðurhúsalofttegunda orðið alvarlegt alheimsvandamál, sem allir ábyrgir stjórnmálamenn taka þátt í að minnka.
Í öðru lagi er svifryk orðið mikið vandamál hér á höfuðborgarsvæðinu og er farið að ógna heilsu fólks.
í þriðja lagi er umferðahávaði orðið mikið vandamál víða hér á höfuðborgarsvæðinu og einhvern vegin þarf að leysa það.
Í fjórða lagi er svo komi að um 50% af landi Reykjavíkur fer undir götur og bílastæði og væri hægt að hafa skynsamlegri not fyrir það land.
Og bara þér til upplýsingar þá er núverandi meirihluti í Reykjavík líka að reyna að sporna við aukningu einkabíla á götum borgarinnar af þessum sömu ástæðum.
Sigurður M Grétarsson, 24.9.2007 kl. 15:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.