Virkjum nýrnaauðinn!

Algengt verð fyrir eitt stykki lifandi nýra til líffæragjafa mun vera í kringum 17.000 USD eða rúmlega 1.000.000 ísl. kr. Flest fæðumst við með tvö heilbrigð nýru þótt eitt sé í rauninni nóg. Þarna er vannýtt auðlind sem okkur ber skylda til að nýta ekki síður en vatnsföllin og jarðhitann.

Til að hámarka arðinn af auðlindinni væri best að hver einstaklingur léti taka úr sér annað nýrað við 18 ára aldur. Því yngra sem fólk er því fljótara er það að jafna sig eftir aðgerðina, líffærið er heilbrigðara, hærra verð fæst fyrir það og því fyrr sem hægt er að koma því í lóg því lengur er hægt að hafa rentur af söluvirðinu.

Auðvitað er fólki í sjálfs vald sett hvort það kaupir sér bíl fyrir milljónina eða fjárfestir í einhverju varanlegra. Einhverjir gætu eignast útborgun í íbúð, aðrir myndu kaupa sér dýrari menntun og enn aðrir ákveða að fjárfesta til elliáranna. Þannig gæti Gummi, áhættufælinn 18 ára menntaskólanemi, sett milljónina sína í öruggan sparnað með 5% nafnávöxtun og átt um 11 milljónir þegar hann hættir að vinna 50 árum síðar.

Höldum okkur við þessa hóflegu ávöxtun, reiknum með að hefja nýtingu þessarar auðlindar smátt og að aðeins um 3600 af rúmlega 4000 í hverjum árgangi 18 ára Íslendinga selji nýra sitt og setji í sparnað á ári hverju. Að 50 árum liðnum væri auðlindasjóðurinn Kidney Group, í dreifðri eignaraðild (180.000) íslensku þjóðarinnar, kominn upp 754 milljarða króna.

Bjartar vonir gera ráð fyrir 4 milljarða hagnaði af Kárahnjúkavirkjun á svipað löngum tíma. Það er því ljóst að hagnaðurinn af öllum virkjunum stórfljóta og jarðhita á Íslandi til samans bliknar við hliðina á því að virkja nýrnaauð landsmanna.

Þegar betur er að gáð er reyndar skemmtilegur skyldleiki með þessu tvennu.

Nýting nýrnaauðsins yrði ávallt gerð með ýtrustu hliðsjón af heilsu einstaklingsins og aldrei yrði nema annað nýrað tekið. Á sama hátt reyna orkufyrirtækin eftir fremsta megni að taka tillit til náttúrunnar og granda ekki verðmætum náttúruperlum - nema tryggt sé að önnur svipuð finnist annars staðar.

Þeir sem virkja nýrnaauðinn væru ekki aðeins að bæta sína eigin stöðu heldur bæta og bjarga lífi annarra um leið. Eins eru orkufyrirtækin að láta gott af sér leiða og framleiða  græna orku fyrir álbræðslur svo þær neyðist ekki til að nota mengandi kolaorku í útlöndum.

Fyrir utan áberandi meiri hagnað hefur þó virkjun nýrnaauðsins tvennt umfram virkjun orkulindanna. Hættan á að nýrnagjafar láti lífið í nýrnatöku eru hverfandi eða um 1/100.000 og nýting auðlindarinnar er sannarlega sjálfbær því stöðugt fæðast nýjir einstaklingar sem nánast hver einasti er með tvö nýru þegar eitt er alveg nóg!

(Pistill birtur í Viðskiptablaðinu í dag)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fiðrildi

góður samanburður.

Fiðrildi, 5.10.2007 kl. 11:41

2 identicon

Blessaður Dofri,

takk fyrir frábæra grein í helgarblaði VB.

Bestu kveðjur,

Pétur Óskarsson

Pétur Óskarsson (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 08:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband