26.10.2007 | 11:11
Þættinum hefur borist bréf...
Ég hélt að umræðan um náttúruvernd, álbræðslur og virkjanir væri sérstaklega tilfinningaþrungin og að á því sviði væri fólki hættara að tala í kross en öðrum sviðum.
Ég hélt líka að Íslendingar væru yfirleitt mjög frjálslyndir í trúmálum og því kemur mér á óvart að sjá og finna hitann í sumum út af þeirri ósk meiri hluta samfélagsins (skv skoðanakönnunum) að Þjóðkirkjan leyfi samkynhneigðum pörum að kalla sig hjón.
Í gær barst mér bréf frá manni sem ég virði mikils en er mjög ósammála í þessu máli. Efni bréfsins var að frátöldum skömmunum fyrir að leyfa mér óábyrgt tal um Þjóðkirkjuna (?) rökfærsla fyrir því að halda hjónabandinu eingöngu sem heilögu sambandi karls og konu.
Bréfritari telur hjónaband karls og konu einstakt vegna æxlunarhlutverksins en viðurkennir þó jafnframt að hvorki þarf börn til að hjónaband sé fullgilt og að hjón geta eignast börn á fleiri vegu en með hinni aldagömlu aðferð. Bréfritari víkur einnig að hjónabandinu sem táknmynd fjölskyldunnar, besta skjól barna í uppvextinum og hornsteini allra samfélaga.
Þetta vekur spurningar. Ef æxlunarþátturinn er svona mikilvægur, hvað þá með samkynhneigt fólk sem hefur eignast sín börn með gamla laginu, jafnvel í heilögu hjónabandi? Eru slík börn og foreldrar verra efni í góða fjölskyldu en ef gagnkynhneigðir foreldrar væru að hefja nýtt samband?
Ef hjónabandið er í raun og sann táknmynd fjölskyldunnar - sem ég efa ekki - hvers eiga þá börn samkynhneigðra að gjalda að fá ekki viðurkenningu Þjóðkirkjunnar á sambandi uppalenda sinna og þar með ekki jafn gott skjól í uppeldinu og bréfritari telur hjónabandið vera?
Ég hef álasað Þjóðkirkjunni fyrir að fela sig í bókstafsþrætum í þessu máli í stað þess að breyta í anda trúarinnar á Krist, sýna umburðarlyndi og viðurkenna að málið snýst um sanngirni. Að öll pör sem vilja stofna til fjölskyldu standi jöfn gagnvart hornsteini samfélagsins hvort sem æxlunarfæri þeirra eru ólík eða af sömu sort. Ekki bara fyrir lögunum heldur líka í augum Þjóðkirkjunnar sem telur sig predika í nafni þess sem fyrir 2000 árum tók upp hanskann fyrir hórur og þjófa.
Einn þeirra sem hátt hefur í þessum málum krafði mig í kommenti um mína prívat afstöðu til kristninnar. Taldi mig jafnvel vera kominn út á hálan ís sem stjórnmálamann vegna athugasemda minna um Þjóðkirkjuna. Ef svo er þá er Ísland komið óþægilega nálægt vissum löndum í austri og vestri hvað tengingu trú- og stjórnmála snertir.
Það er hins vegar sjálfsagt að upplýsa að mín trú er, líkt og margra Íslendinga, blanda af trú á önnur líf, álfa og tröll og það góða í manninum, kærleika, umburðarlyndi og fyrirgefninguna eins og hann Kristur minn barðist svo mjög fyrir hér um árið. Inn í þennan kokteil blandast trú á náttúruna og að okkur beri að virða hana og vernda handa eftirkomendum okkar, fremur en að drottna yfir henni eins og sigurreifir stríðsherrar.
Mér fannst hér um árið komið nóg af peningum ríkisins til Þjóðkirkjunnar og ákvað að beina mínu framlagi frekar til Ásatrúarfélagsins. Það er trúfélag sem sýnir eftirbreytnivert umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum og þangað eru kristnir menn einkar velkomnir. Gott ef það trúfélag er ekki nær Kristi í anda en Þjóðkirkjan.
Mér er stórlega til efs að það sé Þjóðkirkjunni til góðs að vera sjálfvirkur áskrifandi að Íslendingum. Flestir Íslendingar fæðast inn í Þjóðkirkjuna og það þarf að taka um það sérstaka ákvörðun að vera ekki í klúbbnum. Ef fólk þyrfti að skrá sig í trúfélag yrðum það að velta hlutunum fyrir sér og valið yrði þá væntanlega upplýstara.
Fermingin væri þá e.t.v. nær því að vera það sem hún á að vera, staðfesting á skírninni. Ef við vildum að hún væri það í raun og veru ættum við líka að hækka fermingaraldurinn upp í 16 eða jafnvel 18 ár. En það er svo efni í aðra umræðu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég held, Dofri, að þetta mál snúist mest um skilgreiningu hjónabandsins. Viljum við viðhalda þeirri hefðbundnu skilgreiningu að hjónaband sé rammi um samkomulag karls og konu um að geta börn í sameiningu og ala þau upp, eða viljum við breyta merkingu hugtaksins? Ég hallast að því að það sé varasamt að breyta merkingu hugtaka af því bara, til að þóknast einhverjum stundarhagsmunum. Til dæmis þarf þá að velta fyrir sér hvað slík breyting leiðir af sér. Ef hjónaband er ekki sáttmáli um möguleika aðilanna á að geta börn, hvað felur það þá í sér? Er nægjanlegt að það sé þá sáttmáli tveggja einstaklinga sem ætla að stunda kynlíf hvor með öðrum? Er ekki ójafnrétti fólgið í því, t.d. gagnvart gömlum vinum sem búa saman, án þess að eiga í ástarsambandi (hvað svo sem það nú er á endanum) en vilja njóta þeirra réttinda sem hjónabandið felur í sér. Mér finnst, með öðrum orðum, mikilvægt að hugsa fyrst og mynda sér síðan skoðun þegar maður hefur velt fyrir sér öllum hliðum málsins, í stað þess að rjúka til og taka illa ígrundaða afstöðu. Það hefur mér því miður þótt margir forvígismenn hjónabanda samkynhneigðra gera.
Þorsteinn Siglaugsson, 26.10.2007 kl. 11:50
Ég verð svo óskaplega fegin að hafa aldrei gift mig í allri þessari vígslu-umræðu allri saman. Ég er mjög ósammála þeim sem trúa að gifting með blessun kirkjunnar manna sé einkaréttur gagnkynhneigðra. En nú blæs byrlega um þann einkarétt ef stjórnin samþykkir hjónaband samkynhneigðra með kirkjulegri blessun. Þá er bara að vona að ráðahagurinn hafi nú verið giftusamlegur - bæði fyrir öll hjónin og stofnanirnar sem að viðurkenna hann. Gifting er hugtak sem þýðir að gefast hvort öðru, það er hægt að gera á marga vegu hvort sem að kaldrök hönd presta leikur um kolla safnaðana og af hvoru kyninu sem maður er, eða hvaða kyngervi eða kynferði maður aðhyllist.
Anna Karlsdóttir, 26.10.2007 kl. 13:14
Hvaðan kemur þessi skilgreining á hjónabandinu um að það sé "...rammi um samkomulag karls og konu um að geta börn í sameiningu og ala þau upp..."? Nú hef ég ekki nennt að lesa þessi góðu lög, en grunar að þau fjalli um margt annað en getnað og uppeldi.
Ef þessi skilgreining kemur ekki úr lögunum, þá er rétt að benda á að hugtök á borð við þetta breyta gjarna merkingu sinni í takt við breyttan skilning manna og þjóðfélagsþróun.
Fólk hefur verið að tala um giftingar og hjónabönd samkynhneigðra svo árum skiptir. Það ber ekki á að það stangist á við málkennd manna.
Ef satt skal segja, þá fannst mér eins og biskupinn væri að leggja einhvern nýjan skilning í orðið hjónaband þegar hann talaði um að það væri verið að kasta því öskuhaugana þegar það tæki til samkynhneigðra líka.
Grímur (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 14:06
Dofri: Þú hefur sagt það sem ég hef hugsað PUNKTUR.
Það sem ég vil bæta við: Þröngsýnir aðilar innan kirkjunnar, lærðir sem leikir, eru komnir í þrot með að rökstyðja afstöðu sína til hjónabandsins og grípa því til tvenns konar raka:
Ég hvet fólk sem vill kirkjunni vel að velta þessu fyrir sér, ef kirkjan vill lifa af verður hún að vera í takt við meðlimina. Sjálf hef ég sagt mig úr félaginu því mér finnst afstaða kirkjunar ekki samræmast nútíma hugsun. Einnig hefur kirkjana of oft gert sig seka um að gleyma jafnréttishugsjóninni, viðurkenna ekki trúfrelsi og í krafti meirihluta gleymt réttindum annarra trúfélaga og þeirra sem standa utan trúfélaga.
Kristjana Bjarnadóttir, 26.10.2007 kl. 16:47
Þorsteinn, þú segir "...að hjónaband sé rammi um samkomulag karls og konu um að geta börn í sameiningu og ala þau upp..."
Nú er það þannig í dag, hvort sem okkur líka betur eða verr, að samkynhneigðir hafa stofnað til sambands og ala saman upp börn sín (þar sem barnið getið af öðrum aðilanum eða þá ættleitt).
Því er spurningin einfaldlega: Ætlar þjóðkirkjan að fara að vilja þjóðarinnar og bjóða þetta fólk velkomið í hóp annara hjóna eða ætlar hún að aðskilja það frá þeim og segja "þið eigið ekki skilið að fá að giftast"?
Nú er víst komið svar við því.
P.S. Miðað við ofangreinda skilgreiningu þína á hugtakinu hjónaband að þá eru barnlaus hjón, eða þau sem hafa ættleitt barn, í misheppnuðu hjónabandi. Mikið eru það nú skemmtileg skilaboð til þeirra.
Ingólfur, 28.10.2007 kl. 15:38
Dofri, eins og talað frá mínu hjarta
Ég vil þjóðkirkjunni allt hið besta en þessi afstaða hennar er lagalega vafasöm eins og einn laganemi bendir réttilega á. Hún styrkir því rökstuðning með fullkomnum aðskilnaði ríkis- og kirkju.
Katrín Anna fjallaði líka skemmtilega um málið á blogginu sínu, spurning hvort við eigum ekki bara að leggja niður hjónabandið og úrelta táknmynd þess og notast þess í stað við staðfesta samvist í öllum tilvikum, eða að minnsta kosti að það sé valkostur fyrir gagnkynhneigða
Þjóðkirkjan er því miður að grafa sína gröf með þessum málflutningi, ég hef að minnsta kosti íhugað það alvarlega að skrá mig úr henni.
Guðrún Birna le Sage de Fontenay, 29.10.2007 kl. 15:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.