6.11.2007 | 10:01
Kynning á Bitruvirkjun í OR í dag kl. 17
Hvet alla sem áhuga hafa til að mæta á þennan fund í dag. Þar munu fulltrúar OR kynna sætustu útgáfu sem þeir telja sig geta boðið fólki upp á. Hér er auglýsing OR um fundinn:
Nýr kynningarfundur vegna umhverfismats nýrra virkjana.
Í ljósi umræðna um umhverfismat nýrra virkjana Orkuveitu Reykjavíkur undir Hverahlíð og í Bitru hefur fyrirtækið ákveðið að bjóða til nýs kynningarfundar um fyrirhugaðar framkvæmdir. Einungis einn gestur mætti á fund sem auglýstur var í blöðum og haldinn í höfuðstöðvum OR 3. október sl. Nýr fundur verður haldinn þriðjudaginn 6. nóvember kl. 17:00 að Bæjarhálsi 1. Frummatsskýrslur vegna framkvæmdanna eru m.a. aðgengilegar á vef Orkuveitunnar á slóðinni http://www.or.is/Forsida/Frodleikur/Skyrslurumumhverfismal.
Umhverfismatsferlið hefur staðið frá því á miðju ári 2006. Fundir hafa verið haldnir með ýmsum hagsmunaaðilum, s.s. aðilum í ferðaþjónustu, náttúruverndarsamtökum, sveitarstjórnum og fleirum. Hafa áformin tekið nokkrum breytingum á undirbúningstímanum og munar þar mest um að fyrirhugað framkvæmdasvæði Bitruvirkjunar hefur verið minnkað um meira en helming, dregið hefur verið úr sýnileika mannvirkja á svæðunum og athafnasvæði og stöðvarhús Bitruvirkjunar flutt fjær gönguleiðum og athyglisverðum jarðhitamyndunum við Ölkelduháls. Frummatsskýrslan var kynnt á tveimur opnum fundum sem haldnir voru 3. og 4. október í Reykjavík og í Hellisheiðarvirkjun.
Orkuveitan fékk rannsóknarleyfi á þessum svæðum árið 2001 og gildir það í 15 ár. Öll svæðin sem eru innan rannsóknarsvæðis Orkuveitunnar falla í umhverfisflokk (c) fyrir virkjunarkosti sem teknir voru til skoðunar í 1. áfanga Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma frá árinu 1999 og taldir eru hafa minnst umhverfisáhrif.
Markmiðið með virkjununum er að mæta aukinni eftirspurn atvinnuvega eftir raforku. Samningar liggja fyrir um að útvega raforku til álframleiðslu og þá standa yfir viðræður um raforkusölu til netþjónabús og kísilframleiðslu. Til að tryggja viðskiptavinum Orkuveitunnar fullnægjandi öryggi og til að anna vaxandi eftirspurn á næstu árum er ljóst að fyrirtækið þarf að auka framleiðslugetu sína á raforku.
Virkjanirnar eru í sveitarfélögunum Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi. Þær eru á því háhitasvæði sem kennt er við Hengilinn. Á þessu háhitasvæði eru þegar jarðgufuvirkjanir á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Áætlað er að framkvæmdir við Hverahlíðar- og Bitruvirkjanir hefjist 2008.
Áætlað er að virkjun við Hverahlíð verði með uppsett afl 90 MW og Bitruvirkjun allt að 135MW.
Hengilssvæðið er eitt stærsta háhitasvæði landsins. Fyrsta borholan á svæðinu var boruð 1946 en nýting svæðisins til annars en heimanotkunar á bæjum hófst á Nesjavöllum árið 1990. Á áratugunum þar á undan fóru fram ýmsar rannsóknir á svæðinu, sem Orkuveitan kostaði að langmestu leyti. Nú er til ítarlegt reiknilíkan af afkastagetu alls svæðisins. Tilraunaboranir og nýting þess á Nesjavöllum og í Hellisheiðarvirkjun hafa gefið fyrirheit um að meiri orku sé að finna á svæðinu en varfærnar áætlanir byggðar á líkaninu gefa til kynna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég vil að við skilum landinu jafngóðu eða betra til komandi kynslóða. Gegndarlaus virkjanastefna núverandi stjórnvalda til að fæða álbræðslupotta misjafnra erlendra stórfyrirtækja er ótrúleg skammsýni og undirgefni.
Kristinn Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 21:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.