Alvöru umhverfisráðherra!

Þessi frétt var á vísi í dag - það er kærkomin tilbreyting að vera loksins kominn með umhverfisráðherra sem tekur sér stöðu með umhverfinu en ekki á móti.

Umhverfisráðherra hnekkir ákvörðun Skipulagsstofnunar

Umhverfisráðuneytið hefur hnekkt ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð virkjun í Hverfisfljóti skuli ekki sæta mati á umhverfisáhrifum. Í úrskurði ráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið telji að umhverfisáhrif framkvæmdanna geti orðið umtalsverð og því verði ekki komist hjá því að fallast á kröfu kærenda um að framkvæmdin sæti mati á umhverfisáhrifum.

„Fyrirhuguð framkvæmd við virkjun Hverfisfljóts samanstendur einkum af gerð nýs 6-8 km vegslóða á svæðinu, niðurgrafinnar 900-1.400 metra langrar þrýstipípu, 100-150 fermetra stöðvarhúss, yfirfallskants, aðrennslisskurðar, frárennslisskurðar og um 15.000 rúmmetra efnistöku úr Hverfisfljóti til vegslóðagerðar vegna framkvæmdarinnar," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. „Með nýrri vegslóð að virkjanasvæðinu verður farið yfir Skaftáreldahraun á um 7 km kafla, þar af um 2 km um úfið hraun, er nýtur verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd."

Ráðneytið sendi kærurnar til umsagnar Umhverfisstofnunar, sveitarstjórnar Skaftárhrepps og Skipulagsstofnunar svo og framkvæmdaraðila. Umhverfisráðherra og starfsmenn umhverfisráðuneytisins þekktust einnig boð framkvæmdaraðila um vettvangsgöngu um fyrirhugað virkjunarsvæði að því er segir í tilkynningunni.

Í niðurstöðu ráðuneytisins segir m.a. að það taki undir þá afstöðu Umhverfisstofnunar að hraunið sé merkilegt á heimsvísu. Því þyki rök hníga að því að hagsmunaaðilum og almenningi gefist tækifæri til þess að gera athugasemdir og koma með ábendingar varðandi hina fyrirhuguðu framkvæmd í því lögbundna samráðsferli sem felst í mati á umhverfisáhrifum. Þá er það niðurstaða ráðuneytisins að áhrif virkjunarinnar á Lambhagafossa geti orðið umtalsverð og að sjónræn áhrif vegna framkvæmdanna geti orðið varanleg og óafturkræf á landsvæðinu.

Þá segir að þrátt fyrir fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir þyki þó ljóst að umhverfisáhrif framkvæmdanna geti orðið umtalsverð. Því verði ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar úr gildi og taka til greina kröfu kærenda um að hin fyrirhugaða framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Það er vandað til verka hjá umhverfisráðherra - heldur betur orðin breyting á frá tímum Framsóknar í umhverfisráðuneytinu.

Það er bjart framundan með hinn nýja umhverfisráðherra við stjórnvölinn 

Sævar Helgason, 6.11.2007 kl. 23:47

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Já, þetta var flott hjá henni.

María Kristjánsdóttir, 7.11.2007 kl. 00:58

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Góð afgreiðsla hjá alvöru umhverfisráðherra og svei mér þá ef maður verður ekki að mæta  á fund hérna í kvöld hvar hún er kynnt til sögunnar.....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 7.11.2007 kl. 16:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband