10.11.2007 | 00:04
Athugasemdir Græna netsins við fyrirhugaða Bitruvirkjun
Svæðið við Ölkelduháls er einstaklega fjölbreytt hverasvæði og verðmætt útivistarsvæði. Í Rammaáætlun 1 var Ölkelduhálsi með röngu raðað í hóp þeirra virkjunarsvæða sem minnstur umhverfisskaði væri að. Einkunn svæðisins sem útivistarsvæðis var ákveðin á grunni gagna sem flokkuð voru í gæðaflokki D. Engin lýsing er til á gæðaflokki D en lýsing á næsta gæðaflokki fyrir ofan, flokki C, er svona:
C vísar til svæða sem ekki voru heimsótt og fáir eða jafnvel engir úr faghópnum hafa séð og myndir voru afar takmarkaðar. C vísar einnig til þess ef framkvæmdalýsing var óljós þannig að erfitt var að átta sig á staðsetningu, umfangi og fyrirkomulagi mannvirkja (Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, viðauki B1 - gæði gagna).
Af þessu er ljóst að upphafleg ákvörðun um að stefna að virkjun á þessu svæði byggðist á mikilli vanþekkingu á verðmætum svæðisins. Nú er öllum sú vanþekking ljós og því ætti umræðan ekki að snúast um hvort og hvernig draga má úr umhverfisskaða af völdum fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar.
Í nýrri rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verður sérstaklega leitast við að kanna verndargildi háhitasvæða. Undirrituð telja í ljósi þessa nauðsynlegt að allir aðilar sem að málinu koma endurskoði allar ákvarðanir og leyfisveitingar varðandi fyrirhugaða Bitruvirkjun með þann möguleika í huga að draga þær til baka.
Engin þörf fyrir Bitruvirkjun.
Á bls. 14 í frummatsskýrslu er talað um tilgang Bitruvirkjunar og sagt að hann sé að mæta aukinni eftirspurn atvinnuvega eftir raforku. Vísað er í fyrirliggjandi samninga við Norðurál og Alcan, fyrirspurnir aðila sem vilja reka netþjónabú og kísiliðju. Samningur Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir OR) við Alcan um orku er bundinn staðsetningu í Straumsvík en ljóst er að ekki verður af þeirri stækkun þar sem getið er um í samningi. Hvað Norðurál áhrærir er ljóst að Hellisheiðarvirkjun mun sjá Norðuráli fyrir öllu rafmangi sem samið hefur verið um og tugum MW betur. Það ætti því að vera nóg orka til að mæta aukinni orkuþörf almennings og þeirra netþjónabúa sem hingað kunna að vilja koma.
Landsvirkjun hefur auk þess tilkynnt að fyrirtækið muni ekki selja frekari orku til álfyrirtækja en stefna að því að eiga næga orku fyrir önnur fyrirtæki, svo sem netþjónabú og kísilframleiðslu. Það er því engin nauðsyn á virkjunum við Hverahlíð og Bitru í bráð og nær væri að reyna að bæta orkunýtingu þeirra virkjana sem fyrir eru en að brjóta ný lönd undir frekari raforkuframleiðslu með einungis 13% nýtingu orkunnar. Undirrituð telja að í ljósi þessa raunveruleika verði að meta fórnarkostnað þann sem fyrirhuguð framkvæmd við Ölkelduháls hefur í fjör með sér.
Landslag.
Framkvæmdasvæði Bitruvirkjunar er ein fegursta náttúruperla í nágrenni höfðaborgarinnar. Svæðið einkennist af stórbrotnu landslagi og landslagsheildum, þar sem skiptast á ósnortin víðerni, fjölbreyttar jarðmyndanir, berggangar, brot og framhlaup, en svæðið er allt ríkt af jarðhita. Þá er að finna heitar laugar víðs vegar um landsvæðið. Meiri hluti framkvæmdasvæðis Bitruvirkjunar flokkast undir náttúruverndarsvæði enda er það nú á náttúruminjaskrá nr. 752, en þar segir m.a. Stórbrotið landslag og fjölbreytt að jarðfræðilegri gerð, m.a. jarðhiti." Á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og í næsta nágrenni við það er að finna jarðmyndanir sem njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. l. nr. 44/1999 um náttúruvernd, svo sem einstakar hraungerðir, hverir og heitar uppsprettur, og ber þar einkum að nefna eldhraun sem rann úr Tjarnarhnúki. Verði virkjunin að veruleika verður þetta svæði fyrir óafturkræfum umhverfisáhrifum. Áhrifin eru einkum þau að heildstæðar landslagsheildir verða bútaðar niður og sérkennilegar jarðmyndanir fara forgörðum. Undirrituð gera alvarlegar athugasemdir við það að landslagið hafi ekki verið metið í heild sinni út frá ósnortnum víðernum og fjölbreyttum landslagsgerðum, heldur metið í áföngum. Ljóst er að víðernið hefur átt drjúgan þátt í verndargildi landsins sem lagt verður undir virkjunina verði hún að raunveruleika. Þá verður ekki unnt að koma í veg fyrir eða draga úr neikvæðum áhrifum Biturvirkjunar á landslagið. Við bætast sjónræn áhrif nýbyggingar í nær ósnortnu umhverfi. Með hliðsjón af markmiðum framkvæmdar og raunverulegri orkuþörf er óverjandi að fórna svæði sem hefur ámóta náttúruverndargildi og fyrirhugað framkvæmdasvæði Bitruvirkjunar.
Loftgæði
Gerðar eru alvarlegar athugsemdir við mat á áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á loftgæði í kafla 23.4-23.11 þar sem áhrifin eru sumpart vanmetin og að öðru leyti ekki gerð grein fyrir þeim óvissuþáttum sem fyrir hendi eru vegna skorts á þekkingu. Mengunarþættir af völdum fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar eru koldíoxið (CO2), brennisteinsvetni (H2S), metan (CH4) og nitur (N2) en af þeim vegur losun koldíoxíðs og brennisteinsvetnis þyngst. Í matsskýrslu er greint frá því að áætluð losun af völdum Bitruvirkjunar séu 8.000 tonn af brennisteinsvetni á ári. Undirrituð telja það rýra gildi umhverfismatsins að ekki hafi verið metin samlegðaráhrif annarra jarðvarmavirkjana á sama svæði. Þegar það er virt að nú þegar má greina áhrif Hellisheiðarvirkjunar á gæði lofts í höfuðborginni hefði borið að meta samlegðaráhrif brennisteinsvetnis á loftgæðin af Hverahlíðarvirkjun, Bitruvirkjun og Hellisheiðarvirkjunum en gera má ráð fyrir að samanlögð losun brennisteinsvetnis verði nálægt 30.000 tonnum á ári þegar allar eru komnar í gagnið. Matsskýrslan gerir ekki grein fyrir þessum raunveruleika. Þá vantar og á að gerð sé grein fyrir áhrifum losunar koldíoxíðs á loftgæði, svo og á þátt losunar í umræðum um loftlagsbreytingar. Í 23.4 er gert ráð fyrir Bitruvirkjun muni losa um 40.000 tonn af CO2 út í andrúmsloftið á ári, en ekki minnst á að þegar horft er til nærliggjandi virkjana á Hellisheiði verður samanlögð losun þeirra 100.000 tonn af gróðurhúsalofttegundum árlega. Undirrituð taka undir það sem þegar hefur komið fram að bíða eigi með frekari virkjanir en leggja meiri vinnu og fjármagn í rannsóknir á áhrifum jarðvarmavirkjana á háhitasvæðum. Viðurkennt er að mikill munur sé á lágvarmavirkjunum og jarðvarmavirkjunum á háhitasvæðum en ekki liggur fyrir nægileg þekking á áhrifum hinna síðarnefndu á loftslag jarðar.
Lífríki og gróðurfar
Matsskýrslan ber með sér óviðunandi óvissu um áhrif jarðvarmavirkjunar á lífríki í hverum og á gróðurfar. Í kafla 25.7 kemur fram að ekki sé vitað til þess að fylgst hafi verið náið með lífríki í hverum fyrir og eftir virkjun jarðhitasvæða á Íslandi og því eru bein áhrif í kjölfar virkjunar ekki þekkt. Þá hefur ekki verið þróuð aðferð til að meta verndargildi hitakærra lífvera á háhitasvæðum, en unnið sé að því að þróa slíkar aðferðir og er áætlað að þeirri vinnu ljúki árið 2009. Undirrituð gera athugsemdir við að ráðist verði í Bitruvirkjun án þess að gert hafi verið nákvæmt gróðurkort af svæðinu og án þess að fjölbreytt lífríki hvera hafi verið rannsakað sem skyldi. Það er og ámælisvert að ekki sé stuðst við niðurstöður annarra rannsókna sem gerðar hafa verið á svæðinu en Sólveigar K. Pétursdóttur. Vitað er að fleiri sérfræðingar hafa staðið að rannsóknum á náttúrufari á Ölkelduhálsi, svo sem Jón S. Ólafsson vatnalíffræðingur en hann hefur um skeið rannsakað líf í heitu vatni, m.a. á Ölkelduhálsi. Undirrituð halda því fram að skortur á kerfisbundnum rannsóknum á Ölkelduhálsi leiði til þess að fresta eigi öllum framkvæmdum á svæðinu. Þegar nauðsynlegar rannsóknir liggja fyrir verður fyrst hægt að flokka jarðhitasvæði með tilliti til verndunar þeirra og nýtingu. Lífríkið á framkvæmdarsvæði Bitruvirkjunar er lítt eða ekkert þekkt, og er það reyndar viðurkennt í matsskýrslunni.
Ágeng orkuvinnsla og hækkandi raforkuverð.
Í frummatsskýrslu er fyrirhugaðri orkuvinnslu lýst sem ágengri en það felur í sér að eftir nokkurra áratuga nýtingu svæðisins mun þurfa að hvíla það í jafnlangan tíma. Nú bendir flest til að orkuverð í heiminum fari sífellt hækkandi, einkum verð á vistvænni orku. Margt bendir til þess að á næstu árum muni tækniframfarir bæta margfalt nýtingu jarðvarmavirkjana, bætt bortækni gefur fyrirheit um margfalda nýtingu með djúpborun. Þá er ljóst að þróun í stefnuborun getur á næstu árum gert mögulegt að nýta jarðvarma undir verðmætum náttúrusvæðum án þess að fara inn á þau.
Að þessu samanlögðu verður ekki annað séð en að með fyrirhuguðum virkjunum sé verið að fara í námuvinnslu á orku á óskynsamlegum tíma með tilliti til verðs auk þess sem verið er að eyðileggja mikil náttúruverðmæti með bráðlæti sem engin afsökun er til fyrir.
Ekki gerð grein fyrir forsendum virkjunarinnar með sannfærandi hætti
Í kafla 14.2, bls. 45, er fjallað um flutning raforku frá Bitruvirkjun til notanda. Það er augljós galli við matsferli stórframkvæmda, svo sem stórvirkjana í þágu stóriðju, að þar skuli einstakir þættir hennar vera metnir sér en ekki í samhengi. Nú er t.d. ekki vitað hvert leiða á þá orku sem fengist úr Bitru- og Hverahlíðarvirkjunum en ljóst að aðilar sem stefna að byggingu álvers í Helguvík hefðu áhuga á kaupum á því rafmagni.
Með því að stefna að virkjun á Hengilssvæðinu fyrir hugsanlegan orkukaupanda yst á Reykjanesi er ljóst að flytja þarf orkuna eftir endilöngu Reykjanesi. Sé svo í pottinn búið er í hæsta máta óábyrgt að gefa jákvæða umsögn um annaðhvort virkjun eða álver án þess að meta um leið áhrifin af flutningi orkunnar. Undirrituð fara því fram á að OR verði gert að tilgreina hvert selja á orkuna og sé það til eins stórs orkukaupanda þá verði heildaráhrif af framkvæmdum metin saman.
Hljóðvist
Í kafla 28 um hljóðvist segir að áætlaður hljóðstyrkur á rekstrartíma Bitruvirkjunar verði um 45 dB. Ljóst er að ein af þeim verðmætum sem svæðið býður nú upp á er kyrrð. Í skýrslunni er getið um viðmiðunargildi fyrir hámarkshávaða útivistarsvæða í þéttbýli sem eru 45-55 dB. Í fyrsta lagi er áhrifasvæði þar sem 45 dB hljóðmengunar mun gæta alltof stórt til að það sé ásættanlegt, í öðru lagi er algerlega fráleitt að bera saman útivistarsvæði á Hengilssvæðinu og græn svæði innan borgarmarkanna, hvað þá að einungis skuli stefnt að því að vera rétt innan hámarks hávaðamarka, og í þriðja lagi eru má búast við að hljóðdeyfibúnaður virki alls ekki alltaf sem skyldi.
Ferðaþjónusta og útivist
Þegar haft er í huga hve gríðarlega neikvæð áhrif fyrirhuguð Bitruvirkjum myndi hafa á útivist og ferðaþjónustu á svæðinu má furðu sæta að kaflinn um áhrif virkjunar á þennan þátt skuli vera jafn fátæklegur og raun ber vitni. Kaflinn byggir á afar takmörkuðum upplýsingum, þ.á.m. viðhorfskönnunum sem tengjast svæðunum og framkvæmdinni aðeins óbeint.
Orkuveitan minnist ekki á viðauka VGK hf. C en þar kemur fram að á árunum 2001-2002 hafi komið um 2700-4800 manns að Kattartjörnum í Reykjadal en það gefur vísbendingu um hve mikill fjöldi fólks leitar á Ölkelduhálssvæðið sem er í næsta nágrenni. Það vekur furðu að Orkuveitan telji ekki ástæðu til að geta þessara upplýsinga í matsskýrslu sinni. Í viðaukanum er einnig bent á að aukin uppbygging orlofshúsabyggðar í Grafningi muni auka á fjölda þeirra sem nýta vilja svæðið sem útivistarsvæði. Í sama viðauka kemur fram að fjöldi ferðamanna í skipulögðum ferðum ferðaþjónustuaðila um Ölkelduhálssvæðið er um 6500-7500 manns á ári og fer vaxandi. Í frummatsskýrslunni eru þessar tölur hins vegar affærðar og sagt að 5500-6500 manns fari árlega í skipulagðar ferðir um svæðið. Ekkert er minnst á að fjöldinn fari vaxandi. Það hljóta að teljast ámælisverð vinnubrögð að draga með þessum hætti úr mikilvægi svæðisins fyrir skipulagðaferðaþjónustu.
Í viðauka með matsskýrslunni (Rögnvaldur Guðmundsson 2006) eru margvíslegar upplýsingar um neikvæð viðhorf ferðafólks og ferðaþjónustuaðila gagnvart framkvæmdum OR við Bitru. Þar er einnig að finna athyglisverðar upplýsingar um tugi þúsunda ferðafólks um Hengilssvæðið árlega, sívaxandi áhuga innlendra sem erlendra ferðamanna á svæðinu og hina miklu áherslu sem erlendir ferðamenn leggja á að njóta útivistar í lítt snortnu umhverfi. Furðulega lítið af þessum mikilvægu upplýsingum rata á síður frummatsskýrslu fyrir Bitruvirkjun.
Undirrituð vilja undir þessum lið gera athugasemd við kafla 15.4 en þar er reynt að leggja mat á hvað myndi gerast ef OR réðist ekki í fyrirhugaðar framkvæmdir. Sá kostur er kallaður Núll kostur" og það telja undirritaðir villandi samanburð.
Í kaflanum segir:
Án nýtingar á jarðhita á Bitru má ætla að framtíðarþróun á svæðinu muni aðallega tengjast ferðamennsku og útivist. Skipulögðum ferðum á Bitrusvæðið gæti fjölgað á komandi árum í takt við aukinn ferðamannastraum til landsins. Þá þyrfti líklega að stuða að uppbyggingu stíga og lágmarks þjónustumannvirkja til þess að náttúran geti borið þann fjölda gesta."
Þessu eru undirrituð sammála en ekki því sem næst kemur í kaflanum:
Verði ekki af byggingu Bitruvirkjunar má því draga þá ályktun að þær auðlindir sem liggja í jarðhitanum yrðu því ekki nýttar. Tækifæri til þess að byggja upp jarðhitanýtingu í sátt við umhverfið og samfélagið munu því liggja ónýtt. Núll kosturinn þýðir, að mati framkvæmdaraðila, að aðeins hluti þeirra náttúruauðlinda sem svæðið býr yfir yrðu nýttar."
Þarna er réttu máli hallað. Ef ekki verður farið í Bitruvirkjun á svæðið gríðarlega möguleika á nýtingu sem þó krefst þess ekki að gengið sé á framtíðarvirði svæðisins, m.a. til orkuvinnslu. Núllkostur er því rangnefni, hér ætti að bera saman annars vegar uppbyggingu svæðisins sem útivistar- og ferðaþjónustusvæðis sem ekki rýrir framtíðarvirði svæðisins til annarra nota og hins vegar fyrirhugaða virkjun á Bitru sem rýrir stórkostlega til langrar framtíðar verðmæti svæðisins sem útivistar- og ferðaþjónustusvæðis.
Aðferðafræði mats á umhverfisáhrifum
Nú er hafin vinna við afar merkilegt verkefni, að meta til fjár heildarvirði þeirrar þjónustu sem vistkerfið Heiðmörk lætur mönnum í té. Þetta er mjög þekkt aðferðafræði erlendis og víða sjálfsagður hluti af matsferli framkvæmda á náttúrusvæðum.
Það vekur furðu og er e.t.v. til marks um hve stutt yfirvöld eru á veg komin á þessu sviði að mat á þjónustu vistkerfisins við Ölkelduháls og Hverahlíð skuli ekki vera hluti af eðlilegu matsferli.
Hefði það verið gert hefði OR verið skylt að vanda jafn vel til verka þegar lagt er mat á verðmæti svæðisins fyrir útivist- og ferðaþjónustu og þegar lagt er mat á orkuforða svæðisins og hugsanlegan hagnað af orkuvinnslunni.
Vinnsla jarðhita, ágeng orkuvinnsla og meðferð á hugtakinu sjálfbær orkuvinnsla.
Í kafla 19.5 er fjallað um vinnslugetu Bitrusvæðisins. Þar kemur fram að óvissa ríkir um orkugetu og hegðun fyrirhugaðra virkjunarsvæða á meðan aflað er reynslu um viðbröðg jarðhitakerfisins við upptöku á jarðhitavökva (Sveinbjörn Björnsson 2006)".
Einnig kemur fram í matsskýrslu, kafla 19.6, að á Bitru skorti upplýsingar fyrir gerð reiknilíkans til að spá fyrir um upphafsástand og vinnslusögu jarðhitakerfanna þar sem bor og vinnslusaga svæðisins sé of stutt. Mat á áhrifum af jarðhitavinnslu á Bitru er því ágiskun út frá reynslu frá Hellisheiði og Nesjavöllum sem eru talsvert heitari svæði en Bitra skv. matsskýrslu.
Miðað við ágiskun út frá reynslu af nýtingu á Hellisheiði og Nesjavöllum er það álit matsaðila að massaforði jarðhitakerfisins undir Bitru þurfi jafn langan tíma til að endurnýjast og nýting hans varir. Til að endurnýja varmaforðann til fulls þurfi allt að 1000 ár. Þá segir í matsskýrslu:
Vafi leikur á hvort slík vinnsla falli að öllu leyti að skilgreiningunni um endurnýjanlega orkugjafa þrátt fyrir að framkvæmdin teljist afturkræf. Þar sem vinnslan felur í sér að meira er tekið upp en kemur inn um jaðrana hafa Orkuveitan og ráðgjafar hennar kosið að kalla vinnslustefnuna ágenga."
Í kafla 19.7 um sjálfbæra þróun er reynt að fegra þessa staðreynd með því að spá því að ný tækni og þekking muni leiða til betri nýtingar orkunnar og því muni hámarksstig sjálfbærrar nýtingar orkunnar hækka og um síðir ná því nýtingarstigi sem nú er stefnt að.
Undirrituð gera alvarlega athugasemd við að von um bætta þekkingu í framtínni sé notuð til að draga fjöður yfir þá staðreynd að hér er um ágenga orkunýtingu að ræða. Nýtingaraðferð sem krefst þess að svæðið sé hvílt jafn langan tíma og það verður nýtt.
Þetta er vægast sagt ábyrgðarlaus notkun á hugtakinu sjálfbær orkunýting af fyrirtæki sem ætlar sér leiðandi hlutverk á heimsvísu í nýtingu jarðvarmaorku. Ekki er ástæða til að draga í efa að tækniþekkingu muni fleygja fram en því meiri ástæða ætti að vera til að bíða og sjá hvort sú þekking gerir okkur ekki kleift að nýta jarðvarmann með ábyrgari hætti.
Lokaorð
Í Hengilssvæðinu búa ómetanleg verðmæti í fagurri, fjölbreyttri og lítt raskaðri náttúru. Áður en Búrfellslína III var lögð skartaði Hengillinn stóru samfelldu lítt röskuðu svæði. Búrfellslína III klauf þetta svæði í tvennt og smækkað margfalt það svæði sem getur talist lítt raskað.
Fyrir útivistarfólk, innlent sem erlent, eru mikil lífsgæði í því fólgin að geta komist burt úr manngerðum heimi hversdagsins og sótt sér orku í lítt raskaðri náttúru. Slík orkuuppspretta ættu hin verðmætu náttúrusvæði Hengilsins að vera áfram.
Það er skoðun undirritaðra að á næstu árum ætti að fjarlægja Búrfellslínu III en vegurinn meðfram henni var einmitt lagður á dúk til að slíkt yrði mögulegt. Með því að falla frá áformum um Bitruvirkjun og vinna í samstarfi við eigendur Búrfellslínu að flutningi hennar og endurheimt svæðisins gæti OR skapað og staðið vörð um mikilsverð lífsgæði. Með því myndi OR sýna mikla samfélagslega ábyrgð og skapa öðrum fyrirtækjum á þessu sviði mikilvægt fordæmi.
F.h. stjórnar Græna netsins - félags jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina,
Mörður Árnason,
Katrín Theodórsdóttir,
Dofri Hermannsson.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fróðleg lesning og til hamingju með vel unna samantekt á málinu.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 10.11.2007 kl. 06:19
Púkinn er nú ekki sammála þér í öllu, en þú færð prik fyrir þessa grein.
Púkinn, 10.11.2007 kl. 17:00
Ef þessi rök verða ekki tekin alvarlega er mikið að í okkar samfélagi
Landssamtök hjólreiðamanna, 11.11.2007 kl. 01:20
Mikið er ég innilega sammála síðasta ræðumanni. Þetta eru mjög góð og frábærlega málefnaleg rök.
Þeim sem hafa áhuga bendi ég á athugasemdir Landverndar hér.
Lára Hanna Einarsdóttir, 11.11.2007 kl. 01:34
Takk fyrir góða samantekt. Ég skil ekki þann flýti sem þarf skyndilega að vera á að nýta alla virkjanakosti. Af hverju erum við að missa?
Kristjana Bjarnadóttir, 11.11.2007 kl. 21:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.