14.11.2007 | 10:26
Ókeypis í Strætó?
Framtaksöm 10 ára stúlka í Grafarholtinu skrifaði fyrrverandi borgarstjóra bréf þar sem hún benti á að það væru ekki bara nemendur í framhaldsskóla og háskóla sem þyrftu og vildu nota strætó. Hún benti réttilega á að margir grunnskólanemendur þurfi að nota strætó í tómstundir því mömmur og pabbar geti ekki alltaf skutlað þeim á bíl. Henni finnst þess vegna að það ætti að gefa grunnskólanemendum frítt í strætó eins og hinum.
Um þetta er frétt í Fréttablaðinu í dag og þar er líka sagt frá nýsprottnum áhuga bæjaryfirvalda í Kópavogi á almenningssamgöngum en Ármann Kr Ólafsson mun vilja drífa í því strax að gefa öllum frítt í strætó. Þessar 400 milljónir sem koma inn af fargjöldum séu hvort eð er svo litlir peningar.
Nú vil ég alls ekki útiloka að það geti verið hagstæðara að gefa frítt í strætó en að ausa tugum milljaraða og óheyrilega miklu af borgarlandinu í umferðarmannvirki sem þó virðast aldrei duga til að anna eftirspurn eftir greiðri för á milli staða.
Mér finnst hins vegar, ólíkt Kópavogssjöllunum, 400 milljónir á ári talsvert mikið. Þetta eru peningarnir okkar, það vantar líka peninga í margt annað og af því "frítt í strætó" er mjög áhugaverð tilraun langar mig að vita hverju hún skilar áður en tekin er ákvörðun um framhaldið.
Í frétt Fréttablaðsins var stutt viðtal við mig um erindi ungu stúlkunnar í Grafarholtinu. Ég útskýrði þar að um tilraun væri að ræða og lét þar líka í ljós þá skoðun mína að fargjöld í strætó fyrir börn væru í raun ekki há. 20 miðar kosta 750 krónur svo hver ferð er á tæpar 38 krónur. Það er ekki mikill peningur. Fyrir 75 kr. kemst unga stúlkan á kóræfingu í Langholtskirkju með strætó en ef henni er skutlað og svo sótt má gera ráð fyrir að bara bensínið á bílinn kosti um 260 krónur.
Fyrir börn 12 - 18 ára kostar meira, eða 100 krónur, hvort sem keyptir eru miðar eða staðgreitt. Það er dálítið undarlegt - auðvitað ætti að vera ódýrara að kaupa marga miða í einu en að staðgreiða eitt far. Stór hluti þessa aldurshóps fær frítt eins og er af því þau eru í framhaldsskóla en fargjöld fyrir þennan hóp finnst mér að þyrfti að endurskoða. Án vafa verður það gert.
Önnur ung stúlka sem ég þekki vel hefur árum saman tekið strætó í tónlistarskólann sinn. Á tímabili vildu vinkonur hennar fá að fara með henni í tónlistarskólann og foreldrar hennar skildu ekki hvað var svona spennandi við að sitja frammi á gangi á meðan dóttir þeirra var í fiðlutíma. Í ljós kom að þær höfðu aldrei farið í strætó og fannst ævintýri líkast hvað vinkona þeirra var frjáls að fá að nýta sér þennan ferðamöguleika í stað þess að bíða eftir að foreldrar þeirra hefðu tíma til að skutla þeim.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:33 | Facebook
Athugasemdir
Ef ég man rétt í umræðunni fyrir dálitlu síðan, þá voru þessar 400 millur tekjurnar sem öfluðust, en kostnaðurinn var líka þónokkur og því viss sparnaður í að sleppa tekjuöfluninni.. amk ekki alveg 400 millu missir, kannski 100-300millur.
Sigurður Jökulsson, 14.11.2007 kl. 11:13
Ég er afar hlyntur ókeyps strætó fyrir alla. Ég viðraði þessa hugmynd við eina sem nú er borgarfulltrúi en viðbrögð hennar ollu mér vonbrigðum. Hún tjáði mér að það hefi verið gerð tilraun til þess arna í einhverju sveitarfélagi í Svíþjóð eða Noregi og reynslan væri slæm. Ástæðan var sú að unglngar í þessu tiltekna sveitarfélagi héngu oft í strætónum, hring eftir hring.
Ég gúderaði þessa athugasemd í smá tíma en eftir á að hyggja þá er ýmislegt að röksemdinni.
1) Hvað með það að unglingar fari nokkra hringi með strætó? Eru unglingar virkilega svona slæmir?
2) leiðinlegt að svona frábær hugmynd "steikist" vegna þess að nokkrir unglingar hafa ekkert annað betra við tímann sinn að gera en að taka leið 11 Hlemmur / Fell og "hanga" eins og unglinga er siður.
Ég er fullviss um að margir myndu leggja bílunum sínum ef Strætó biði upp á að geta stokkið inn í strætó án þess að borga. Ég tek t.d aldrei strætó vegna þess að ég er aldrei með klink á mér og tími ekki að kaupa græna kortið vegna þess hve sjaldan ég nota strætó.
-Og hvað er það að geta ekki greitt með korti í strætó og hvað er það að geta ekki borgað með þúsundkalli og fengið til baka?
Annars bið ég kærlega að heilsa þér. Þú ert almennilegur stjórnmálamaður.
T.
Teitur Atlason (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 11:22
Ármann stjórnarformaður Strætó bs talaði um að nettóhagnaður af farmiðasölu væri 350 milljónir.
Minni á að það er ekkert ókeypis - við borgum þetta allt upp í topp, ég þú og öll hin. Það er bara spurning um hvernig við viljum innheimta kostnaðinn og það held ég að við ættum að ræða þegar við sjáum hverju "frítt í strætó" tilraunin hefur skilað.
Dofri Hermannsson, 14.11.2007 kl. 11:29
Þú segir: "Mér finnst hins vegar, ólíkt Kópavogssjöllunum, 400 milljónir á ári talsvert mikið. Þetta eru peningarnir okkar, það vantar líka peninga í margt annað"
Það er akkúrat mergurinn málsins. Þetta eru peningarnir OKKAR. Þ.e., okkar sem búum í bæjarfélögunum sem standa að rekstri Strætó b.s.
Það erum VIÐ sem borgum fyrir rekstur Strætó b.s. hvort sem það er frítt í strætó fyrir okkur sem búum í þessum sveitarfélögum eða ekki.
Það að stjórnsýsla bæjarfélaganna sé á það feitum spena (ekki þræta, fjórföld lágmarkslaun og uppúr er feitur speni) og "nenni ekki", "hafi ekki tíma til að.." eða "henti ekki" að taka strætó á ekki að vera afgerandi fyrir það hvort meginþorri íbúa bæjarfélagsins eigi að þurfa líða tvísköttun fyrir þjónustu.
Að sjálfsögðu á að vera frítt í strætó fyrir ALLA íbúa þeirra bæjarfélaga sem standa að rekstri Strætó b.s., ekki bara námsmenn í framhaldsnámi.
Allir íbúar ættu að fá útgefið á hverju ári eitt stykki íbúakort. Það ætti að veita þeim rétt til ókeypis heilsuþjónustu, almenningssamgangna og lágmarks íþróttaiðkunar (Sundlaugar ÍTR mfl eftir bæjarfélögum), enda þegar hluti af því sem íbúarnir greiða fyrir í útsvari sínu. Hvort þú nýtir þér aðstöðuna er þitt mál, en sem þegn í samfélaginu greiðirðu fyrir þessa þjónustu hvort sem þér líkar betur eða verr. Þú átt því ekki að þurfa greiða tvisvar fyrir hana.
Íbúakortið ætti því að veita án endurgjalds það sem getur talist sjálfsögð þjónusta bæjarfélagsins við þegna sína.
Að sjálfsögðu þyrftu utanaðkomandi sem ekki gætu framvísað íbúakorti viðkomandi bæjarfélags að greiða fullt gjald fyrir þjónustuna.
ÞAÐ teldist sanngjörn leið, og eðlileg.
Þór Sigurðsson, 14.11.2007 kl. 11:41
Ég bý í Kópavogi og sé ekki eftir mínum skattpeningum í þetta verkefni. Kópavogur skilaði rúmum fjórum milljörðum í rekstrarafgang á siðasta ári svo ekki skortir peningana.
Hverjir eru það sem nota strætó? Aldraðir, börn og þeir sem ekki hafa efni á að reka bíl. Það er ekki hægt að misnota þessa þjónustu þó hún verði gjaldfrjáls.
Sigurður Haukur Gíslason, 14.11.2007 kl. 13:53
Ég er búin að vera á þeirri skoðun í mörg ár að ókeypis eigi að vera í strætó fyrir alla, krakka með hár og kalla með skalla! Frábært framtak hjá ungu dömunni!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.11.2007 kl. 14:55
eh.... en hverja er verið að rukka börn, unglinga, gamalmenni, öryrkja, lágtekjufólk og aldraða (lesist allir sem að geta ekki annað en tekið strætó). Eðlilegast að gefa þetta frá sér sem búbót fyrir barnafjölskyldur, láglaunafólk og aldraða. Og jú, kannski eru 10% farþega "venjulegir" launaþegar og/eða umhverfisinnar, en semsagt tekur því varla að rukka bara þá. Það sem hamlar því að venjulegir launþegar taki strætó er fyrst og fremst óþægindin og þau leysast að hluta með tíðari ferðum og betra leiðarkerfi en forsenda þess er almenn notkun. Og forsenda hennar er að almenningsamgöngur séu ókeypis.
Pétur "S5 aftur eða dauði" Petersen
Pétur Henry Petersen, 14.11.2007 kl. 16:09
Niðurgreiðsla Strætó er fyrst og fremst fjárfesting (ekki kostnaður) í minni umferð, minni umferðarmannvirkjum, minni mengun og þar með bættri heilsu borgarbúa. Á höfuðborgarsvæðinu er "almenningssamgangnamenning" ekki til staðar eins og í mörgum öðrum borgum. Þess í stað hefur fjöldi bíla, að mig minnir, fjölgað um 40% á undanförnum tíu árum.
Það er mín skoðun að það þurfi að gera eitthvað verulega rótækt í almenningssamgöngum höfuðborgarsvæðisins. Það er ekkert ókeypis og því er ég á þeirri skoðun að það eigi að setja í gang tilraunaverkefni til ársins 2020 þar sem verði frítt í strætó og að lagðir verði alvöru peningar í uppbyggingu kerfisins. Þetta þarf að vera nokkuð langur tími áður en fólk sleppri því að kaupa nýjan bíl þegar það selur þann gamla. Eftir 2020 verður notkun kerfisins vonandi orðin verulega meiri, orðin til "almenningssamgangnamenning" og þá er hugsanlega komin forsenda fyrir því að láta greiða fyrir farið aftur.
Ég tel að gott almenningssamgangnakerfi gæti veitt bíl númer 2 á heimilum töluverða samkeppni. Það kostar um 700 þúsund krónur á ári að reka bíl. Fjölskyldan getur því veitt sér margt skemmtilegt ef hún losnar við að þurfa að reka bíl númer 2.
Ein hugmynd væri sú að láta Orkuveitu Reykjavíkur taka að sér almenningssamgangnakerfið. Þarna er í raun bara um að ræða veitustarfsemi, fólksveitu, og Orkuveitan er góð í því að búa til veitukerfi sem virka auk þess að hafa burði og bolmagn til að setja í þetta töluvert marga milljarða á næstu árum sem er það drastíska átak sem þarf til.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 14.11.2007 kl. 19:05
Ég er tilbúinn til að borga í mínu útsvari fyrir frían NOTHÆFAN strætó... fyrir alla, ekki bara gamla karla og krakka.. Stígið skrefið til fulls í þessum málum og ´fáið fólk til þess að fá samviskubit yfir því að fara á einkabíl í vinnuna. Spranaðurinn kæmi til baka margfalt eflaust í minna sliti á götum og færri slysum.
Óskar Þorkelsson, 14.11.2007 kl. 21:15
Hugmynd Ármanns er skynsamleg og djörf og yrði hún framkvæmd gæti það orðið upphafið að nýrri stefnumótun í samgöngumálum. Það dugar ekki að þusa sífellt yfir umferðarmannvirkjum en vilja svo ekki taka þátt í að leysa málið þegar lýst er vilja til þess, bara af því að hugmyndin kemur ekki úr réttum flokki.
Þorsteinn Siglaugsson, 14.11.2007 kl. 22:00
Skúli, hugmyndin með frítt í strætó er ekki til þess að bæta hag þeirra örfáu sem nota strætó, heldur að gera hann að alvöru samgöngukosti fyrir stóran hluta borgarbúa. Þannig gæti sparast mun meiri kostnaður en næst inn með farþegagjöldum þar sem minni þörf verður fyrir stórar mislukkaðar slaufur og minna álag á götunum. Vegna þess að gatnagerð er engu minna ókeypis en strætó.
Ingólfur, 15.11.2007 kl. 01:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.