4.12.2007 | 18:59
Stríðniskúltúrinn í íslenskri pólitík
Stríðni getur verið bráðskemmtileg, sérstaklega ef maður er sá sem er að stríða en væntanlega síður ef því er öfugt farið. Hún er hins vegar ósköp gagnslaus til að vinna að þörfum framfaramálum.
Í dag kynnti Umhverfisráðherra stefnumótun ríkisstjórnarinnar um framhald Kyoto-bókunarinnar. Þeirri stefnumótun fagna nú Náttúruverndarsamtök Íslands og það er ærin ástæða til því þar er tekin sú einarða afstaða að fyrirbyggja að andrúmsloft jarðar hitni um meira en 2 gráður á Celsíus.
Til að gera það þarf að beita margvíslegum ráðum. Nú er að störfum nefnd sem kortleggur nákvæmlega hvernig Ísland getur sem best og hraðast dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Niðurstöðu hennar er að vænta á vormánuðum. Þegar þær liggja fyrir er hægt að gera nákvæma áætlun um hvernig við ætlum að ná hinum metnaðarfullu markmiðum.
Í stað þess að fagna þessu knýr stríðniskúltúrinn og átakahefðin stjórnarandstöðuna til að snúa út úr máli Umhverfisráðherra og gera eins lítið úr markmiðum ríkisstjórnarinnar og hægt er. Framsókn er sérstaklega í mun að túlka þessi markmið sem svo að niðurstaðan sé nákvæmlega sú sama og ef Framsókn hefði verið í ríkisstjórn. Vg er síðan mikið í mun að halda því fram að niðurstaðan sé allt önnur en ef þau hefðu verið í ríkisstjórn.
Í kerskni sinni halda báðir aðilar fram að hið svokallaða íslenska ákvæði, uppáhaldsboðorð Framsóknarmanna, sé nákvæmlega það sama og sveigjanleikaákvæðið. Það tel ég vera mikinn misskilning. Þannig hefur t.d. ekki einu einasta kolaorkuveri verið lokað úti í heimi af því virkjað var fyrir álbræðslu við Kárahnjúka en það var þó hið heilaga gral þess ákvæðis, ef ég hef skildi Framsókn rétt.
Sveigjanleikaákvæðið gengur út á að þau lönd sem ná með nýrri og betri tækni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fá hluta þess sem sparast sem heimildir til sín. Þetta er mjög snjallt og hvetjandi fyrir alla að fjárfesta í nýrri og betri tækni í öllum iðnaði. Verði þessi leið farin er það mjög hvetjandi fyrir hina margumtöluðu íslensku orkuútrás - einmitt af því þekking á grænni orku verður verðmæt alls staðar í heiminum en ekki bara í löndum sérákvæðanna.
En hvaða hag hafa svo sem Framsókn og Vg af því að viðurkenna að með stefnumótun ríkisstjórnarinnar eru stigin stór skref fram á við? Hvaða hag hafa þessir flokkar af því að viðurkenna að með 2 gráðu markmiðinu hefur Samfylkingin náð mun meiri árangri en Framsókn vildi og Vg gat látið sig dreyma um í ríkisstjórnarasamstarfinu. Auðvitað engan.
Umhverfissamtök eins og Náttúruverndarsamtökin sjá hins vegar hvaða stóru skref hafa verið stigin, fagna þeim eins og vera ber og bíða spennt eftir framhaldinu.
Við í Samfylkingunni fögnum líka og umberum hinn gagnslausa stríðniskúltúr dálítið glöð í bragði yfir því að Framsókn og Vg geti náð saman um eitthvað - þótt á öndverðum forsendum sé.
Náttúruverndarsamtökin fagna stefnumótun Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:20 | Facebook
Athugasemdir
Auðvitað er sá boðskapur sem umhverfisráðherra fer með til Balí fyrir hönd Íslands, afar mikilvægur.
Markmiðið þarna suðurfrá er að freista þess að þrýsta stærstu iðnríkjunum saman um það að draga milli 25-40 % úr losun gróðurhúsaloftstegunda fyrir árið 2020- erfiðasta úrlausnarefnið eru Bandaríkin og verður þar sennilega engin breyting fyrr en núverandi forseti fer frá.
Náttúruverndarsamtök Íslands hafa lýst yfir ánægju með þróun mála hjá okkur - það segir sitt um okkar markmið.
Umhverfisráðherra Íslands , Þórunni Sveinbjarnardóttur er óskað fararheilla á ráðstefnuna á Balí.
Sævar Helgason, 4.12.2007 kl. 20:17
Dofri þú segir:
"Þannig hefur t.d. ekki einu einasta kolaorkuveri verið lokað úti í heimi af því virkjað var fyrir álbræðslu við Kárahnjúka en það var þó hið heilaga gral þess ákvæðis, ef ég hef skildi Framsókn rétt".
Það er öruggt að það þarf ekki að opna eitt einasta kolaorkuver til að framleiða það ál sem verður framleitt á Reyðarfirði. Og það eitt dregur úr losun CO2 um u.þ.b. 4.250.000 tonn á ári eða rúm 14 tonn af CO2 á hvert mannsbarn á Íslandi.
Tryggvi L. Skjaldarson, 4.12.2007 kl. 20:36
"Það þarf ekki að opna eitt einasta kolaorkuver vegna þess sem framleitt er á Reyðarfirði ? "
Eru Kínverjar ekki að taka nokkur í gagnið á ári og miklu stærri en Kárahnjúkavirkjun svo dæmi sé tekið ?
Það eina sem getur breytt þessum ferli er að öflugustu þjóðir heims komist að samkomulagi um að draga úr losuninni og henni verði fylgt fast eftir . Ekki er vafi á að þetta verður bæði Kínverjum og Indverjum erfitt , þjóðir sem eru að byggja sig upp í iðnaði í risavöxnu átaki.
Sævar Helgason, 4.12.2007 kl. 21:31
Hér á svipað við og um fíkniefnin. Til að draga úr notkun þeirra dugar lítið að hamast á þeim svæðum, þar sem efnin eru framleidd, ef eftirspurnin fer sívaxandi eftir þeim. Það verður að byrja á réttum enda og draga úr losuninni. Annað mun aldrei ganga upp því að öll vatnsorka heims er aðeins 6% af orkuþörfinni og jarðvarmi og vindmyllur leysa lítinn hluta vandans.
Í fróðlegri grein í bandarísku tímariti kom það fram að þekja þyrfti heilu ríkin í Bandaríkjunum með vindmyllum eða ökrum til etanóframleiðslu ef það ætti að duga eitthvað.
Ómar Ragnarsson, 4.12.2007 kl. 22:30
Dofri, þú segir:
"...að fyrirbyggja að andrúmsloft jarðar hitni um meira en 2 gráður á Celsíus.
Til að gera það þarf að beita margvíslegum ráðum."
Því miður er enginn að tala um "margvísleg" ráð. Eingöngu er verið að tala um eitt ráð: Draga úr losun manna á CO2 í andrúmsloftið.
Enginn er að tala um að hylja jörðina með segli til að hindra geimgeisla. Enginn er að tala um að takmarka losun H20 (vatnsgufu) í andrúmsloftið - öflugustu gróðurhúsalofttegundarinnar! Enginn er að tala um að setja tappa á eldfjöll eða komast til botns á náttúrulegum sveiflum hitastigs og stöðva þær.
Eingöngu er verið að tala um eitt "ráð", sem er hvergi nær sannað að hafi nokkuð um eitt né neitt marktækt að segja þegar kemur að hitastigi þurra, blautra, kaldra, heitra svæða, hvorki að nóttu né degi.
Samt er verið að tala um sársaukafullar aðgerðir í nafni "ráðsins" eina og hvergi nærri margvíslega. Eitthvað til að hugleiða mundi ég segja.
Geir Ágústsson, 4.12.2007 kl. 23:39
Geir : Hefur þú kíkt á realclimate.org ?
Morten Lange, 5.12.2007 kl. 00:32
Morten, já.
Hef þú kíkt á globalwarming.org?
Annars hef ég þá reynslu af linkastríðum (nóg er til sama hver afstaða manns er til vísinda og stjórnmála).
Menn þurfa bara að gera upp við sig hvort þeir vilji fresta hraðri útrýmingu fátæktar (hraðri útbreiðslu iðnvæðingar, orkunotkunaraukningar og þróunar) til að hafa áhrif á hinn hluta heildar-CO2-losunar lofthjúpsins sem er af mannavöldum, eða ekki.
Ég hef a.m.k. ekki séð neinn stinga upp á bótum fyrir stöðvun iðnvæðingar fátæklinga nema í formi enn meiri þróunaraðstoðar sem allir þekkja reynsluna af.
Geir Ágústsson, 5.12.2007 kl. 17:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.