Samfélagslegur kostnaður af notkun nagladekkja verður rannsakaður

Meirihluti Umhverfisráðs samþykkti á nýafstöðnum fundi eftirfarandi tillögu:

Umverfisráð leggur til að gerð verði hagræn rannsókn á heildarkostnaði samfélagsins af notkun nagladekkja í Reykjavík.

Greinargerð:
Kostnaður samfélagsins af notkun nagladekkja í borginni er umtalsverður. Augljósastur er kostnaðurinn við að bæta slit á götum borgarinnar. Annar kostnaður t.d. vegna óþrifa af tjöruaustri og heilsuspillandi áhrifa svifryks af völdum nagladekkja hefur hins vegar ekki verið rannsakaður. Umhverfisráði þykir brýnt að það verði gert, einkum til að þessar upplýsingar liggi fyrir og séu almenningi aðgengilegar en ekki síður til að hægt verði að ákveða gjald á notkun nagladekkja í anda mengunarbótareglunnar ef þörf verður talin á. 

Þetta er fagnaðarefni og mikilvægt fyrir almenning að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvort valin eru nagla- eða naglalaus vetrardekk.  

Það kemur á óvart að minni hlutinn skyldi velja að sitja hjá við afgreiðslu þessarar tillögu því fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Umhverfisráði hafa hingað til verið fylgjandi því að stemma stigu við notkun nagladekkja í borginni, ekki síst vegna svifryksmengunar.

Sjálfstæðismenn í Umhverfisráði hafa hingað til tekið undir þau sjónarmið að þeir gjaldi sem valdi í mengunarmálum og því kemur á óvart að þeir sitji hjá þegar komast á að því hver hinn raunverulegi kostnaður er. 

Ef til vill hefur breyting á skipan sjálfstæðismanna í ráðinu breytt afstöðu flokksins til málsins og ekki lengur full eining á meðal þeirra um að draga úr notkun nagladekkja í borginni. Varla hafa þeir skipt um skoðun við það eitt að fara í minnihluta. Það væri afturhvarf til verri tíma ef brýnar úrbætur í umhverfismálum ættu nú að verða tækifærismennsku að bráð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Það væri nú gaman að sjá rannsókn á samfélagslegum kostnaði við að skipta um nýjan meirihluta. Eða er kannski eitthvað annað svið innan borgarinnar sem sér um það?

Magnús V. Skúlason, 11.12.2007 kl. 19:31

2 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Það ætti að vera búið að banna nagladekkin fyrir löngu. Svifryksmengunin ein er næg ástæða til. Það eru fleiri en ein ágæt lausn sem getur komið í staðinn.

Sigurður Sveinsson, 12.12.2007 kl. 15:26

3 identicon

Það er ekki nóg fyrir borgaryfirvöld, að vilja banna nagladekk á meðan þeir standa sig slælega við að ryðja snjó af götum borgarinnar. Borgin þarf nefnilega líka að gera kröfur til sín. Auðvitað er slæmt að hafa svifryksmengun, en viljum við fórna lífi fólks með því að banna nagladekk? Það er ekki hægt að reikna allt út í peningum. Menn fara nú ekki í ófærð yfir Hellisheiðina án nagladekkja. Því hefur verið haldið fram, að þessi mikla svifryksmengun sé lélegu malbiki um að kenna. Borgin ætti kannski að bæta úr því. Ég bý sjálfur í Engjaseli og þar fer snjóruðningur yfirleitt fram tveimur sólarhringum eftir að snjó hefur kyngt niður. Það kemst enginn þaðan út án nagladekkja, ef mikið hefur snjóað. Ég er auðvitað líka fylgjandi því að draga úr svifryksmengun, en borgin þarf þá að veita mun betri snjóruðningsþjónustu á veturna. Þá gætu þeir, sem ekki fara út úr bænum yfir veturinn sleppt því að vera á nagladekkjum.

Stebbi (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 15:48

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Hvar eru rannsóknirnar sem sýna tengslin milli nagladekkja og aukins svifryks, með óyggjandi hætti?

Ég er enn að leita, svo viti einhver um þær má sá hinn sami senda mér link. Takk.

Brjánn Guðjónsson, 12.12.2007 kl. 18:27

5 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Það þarf ekki mörg tilvik ar sem nagladekk bjarga hugsanlega mannslífi til að afsaka notkun þeirra.  Á meðan enn er svona mikil bílaumferð um borgina sé ég ekkert að notkun þeirra, enda ekki akandi á öðru í þessum óþverra saltpækli sem verður þegar búið er að sáldra göturnar.  Ef einhver alvara væri með þessu væri búið að niðurgreiða aðra kosti, ss heilsársdekk eða loftbóludekk.  Óttast þó frekar að farið verði í að setja aukinn kostnað á þá sem aka á nöglum.   Allt eins hægt að banna umferð jeppa innan borgarmarka, enda tæpast þörf fyrir þá í borgarumferðinni.

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 12.12.2007 kl. 20:02

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Meirihluti bíla í umferð á götum Reykjavíkur er bara á leið milli a og b. Lýst vel á þá hugmynd að niðurgreiða grófrifluð heilsársdekk um svona svipaða upphæð og kostar að negla dekk. Hugsanlega líka hægt að skilyrða slíkan styrk við það að fartækið uppfylli einhverjar umhverfiskröfur að öðru leyti t.d. sparneytin smábíll.

Gunnlaugur B Ólafsson, 12.12.2007 kl. 23:44

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

......það eru náttúrulega allir á leið milli a og b, punkturinn minn er þarna óskýr en er sá að þeir bílar sem að eru mikið í akstri út á land er skiljanlegt að þurfi að vera negldir, en 70-80% bíla fara eingöngu vegalengdir innan Reykjavíkur og ætti að vera hægt að hafa óneglda ...

Gunnlaugur B Ólafsson, 14.12.2007 kl. 13:45

8 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég get aðeins talað út frá minni reynslu. Ég bjó á Húsavík í nokkur ár en er nú fluttur suður. Síðustu 5 - 6 árin hef ég ekki notað negld dekk heldur ekið á loftbóludekkjum og nú í vetur fínskornum vetrardekkjum. Ég hef alls ekki lent í neinum vandræðum þó ég hafi farið milli landshluta í hvernig veðri sem er. Loftbóludekkin hafa alveg ótrúlegt grip í snjó. Einu skilyrðin sem eru krítísk er blautt svell, en hvaða dekk eru góð á því? Að vísu hefur ekki komið hálka í vetur svo orð sé á gerandi og að vera að rífa upp malbikið með nöglum er auðvitað bara rugl.

Gísli Sigurðsson, 20.12.2007 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband