20.12.2007 | 14:07
Osmósuvirkjun við ósa Þjórsár gæfi 400 MW
Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur rætt um samstarf við norskt fyrirtæki, Statkraft, sem er að þróa osmósuvirkjanir, sjá nánari skýringar hér og hér.
Til að gefa fólki hugmynd um þá krafta sem þarna eru að verki hefur verið reiknað út að væri Þjórsá virkjuð með þessum hætti myndi hún gefa um 400 MW.
Þessi tækni er enn aðeins dýrari en hefðbundin virkjun en það verður að hafa í huga að fórnarkostnaður náttúruverðmæta hefur aldrei verið reiknaður í hið hræódýra raforkuverð hér á landi.
Þetta er umhugsunarvert, nú þegar í fullri alvöru er rætt um að eyðileggja Urriðafoss, nú eða Ölkelduháls, til að skapa 400 störf í Þorlákshöfn. Í sveitarfélaginu Ölfus voru í nóvember 11 karlar og 26 konur af 1.800 íbúum án atvinnu.
Rannsóknir með djúpborun gætu á næstu 5-15 árum skilað okkur 5-10 földun orkuaukningu þeirra svæða sem þegar hafa verið virkjuð. Tækni við virkjun varmaskipta gæti margfaldað nýtingu háhitavirkjana sem nú nýta aðeins um 13% orkunnar. Sjávarfallavirkjanir í Breiðafirði eru taldar geta skilað sama afli og 3-4 Kárhnjúkavirkjanir fyrir mun hagstæðara verð.
Hvaða neyð er það í Þorlákshöfn sem ætti að knýja okkur til að eyðileggja náttúru Þjórsár og Hengilsins nokkrum árum áður en hægt er að afla mikillar orku án þess að valda umhverfinu skaða?
Þorlákshöfn er í skreppifæri frá Selfossi og Reykjavík. Í raun tilheyra allir þessir staðir sama atvinnusvæði. Fólk keyrir í vinnuna en velur sér búsetu eftir því hvar er gott að búa, eignast og ala upp börn og eftir því hvað samfélagið er viðkunnanlegt. Og borgar útsvar þar.
Reynslan sýnir að mörg sveitarfélög eiga í vök að verjast þótt þar sé næg vinna. Það sem þá vantar eru fjölbreytni í atvinnulífi og mannlífi, skortur á þjónustu við fjölskyldufólk o.s.frv. Ungu konurnar fara og strákarnir elta þær þegar þeir hætta á sjónum. Framtíðin velur sér annan stað.
Ég hef enga trú á að svo sé komið fyrir Þorlákshöfn, þrátt fyrir svartagallsraus sveitastjórans. En ef svo er þá er ástæðan ekki skortur á verksmiðjum heldur miklu frekar skortur á kvenhylli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:36 | Facebook
Athugasemdir
Möguleikarnir, rétt handan við hornið, eru alveg gríðarlegir og það sem er stórbrotnast er að orkuöflunin frá þessum framtíðakostum er náttúruvæn sé borið saman við þá virkjanakosti sem við höfum nýtt fram að þessu- við vaxandi óvinsældir þorra þjóðarinnar.
Við höfum alveg næg efni á að hinkra um stund meðan þessir nýju möguleikar eru þróaðir áfram- við höfum allt að vinna. Það eru greinilega spennandi tímar framundan.
Fínn pistill hjá þér Dofri.
Sævar Helgason, 20.12.2007 kl. 19:43
Það er eins og ég hef sagt áður frábært þegar maður upplifir það að Samfylkingin er ekki að kaupa hroðvirknislegar virkjanahugmyndir fyrrverandi ríkisstjórnar hráar. Þessar hugmyndir eru athyglisverðar. En þar til að Samfyylkingin blæs hugmyndir Landsvirkjunar með nýlegu ehfi á virkjanir í neðri Þjórsá af er ég uggandi. Enda er þetta ehf dæmi eingöngu til að komast hjá upplýsingaskyldu gagnvart almenningi og svíðingsverk að gera bændum þarna það að semja við óskilgreinda stærð sem starfar samt í skjóli ríkisins í ríkinu. Ef Samfylkingin lætur þetta viðgangast hefur hún beygt sig í duftið fyrir mammon. Eins og ég hef áður sagt...... raforka, hrein náttúra og hreint loft verður bara dýrmætara með hverjum degi....... Okkur liggur ekkert á.
Ævar Rafn Kjartansson, 21.12.2007 kl. 01:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.