Huldufólk í peningaleit

Áhugaverður punktur í "Klippt og skorið" í 24 stundum í dag.

Þar er sagt frá leit Ólafs Egilssonar fyrrverandi sendiherra að peningum í rannsóknir á möguleikum þess að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Allt er á huldu um hvaða stórfyrirtæki það eru sem Ólafur segist hafa á bak við sig en alla vega ljóst að þeir hafa ekki efni á að leggja 8,5 milljónir í rannsóknirnar.

Í "Klippt og skorið" segir að gárungarnir í Iðnaðarráðuneytinu telji að Ólafur sé að fara húsavillt. Ef hann vantar peninga fyrir huldufólk ætti hann að tala við Magnús bróður iðnaðarráðherra, huldufólk sé hans deild, ekki Össurar!

Það sem er áhugavert í þessu er hins vegar sú staðreynd að huldurisarnir hans Ólafs skuli ekki eiga smáaura sem þessa í forathuganir. Þetta bendir til þess að hin svokallaða "Íslenska hátækni" sé í raun bara nafnið eitt yfir fjárvana stóriðjumakara sem ætlar sér að hagnast á því að vera milliliður. Afla fylgis við og aðstöðu fyrir olíuhreinsistöð og láta svo einhverja olíurisa bjóða í pakkann. Hvílík hátækni!

Flest sveitarfélög í Fjórðungssambandi Vestfjarða munu vera talsvert minna en yfir sig hrifin af framtakinu og þeirri staðreynd að Fjórðungssambandið skuli vera að kosta þessar rannsóknir. Lái þeim hver sem vill.

Í stað þess að elta olíupottinn undir regnboga hinna hátæknilegu huldumanna gætu Vestfirðingar fylkt sér um vestfirskan Háskóla. Það er raunverulegt og metnaðarfullt markmið og hefur gefist vel í Norðurárdalnum og á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

heyr heyr

Óskar Þorkelsson, 21.12.2007 kl. 16:54

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Athyglisverðar upplýsingar. Óskaði Íslenskur hátækniiðnaður eftir pening frá Össuri iðnaðarráðherra? Það er rétt að framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar upplýsi þjóðina betur um það. Hvað var beðið um mikið og í hvað?

Ekki síður er athyglisvert að lesa út úr þessu að Vestfirðingar hafi borgað rannsóknir og/eða forathuganir. Út af blankheitum Íslensks hátækniiðnaðar, mætti ætla af textanum. Ég velti þessu einmitt fyrir mér og fékk þær upplýsingar að þetta hafi verið meðvituð ákvörðun. Eða með öðrum orðum: Værir þú, Dofri, ekki að gagnrýna þessar rannsóknir/forathuganir ef Íslenskur hátækniiðnaður hefði borgað þær? Keyptar niðurstöður og allt það? Mjög gagnlegt væri fyrir umræðuna að fá fram með óyggjandi hætti vort það er eðlilegt eða óeðlilegt að heimamenn hafi kostað þessar rannsóknir.

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.12.2007 kl. 17:53

3 identicon

Friðrik Þór spyr hvort eðlilegt sé eða óeðlilegt að Vestfirðingar greiði fyrir rannsóknir á mögulegri nýtingu landsvæðis á Vestjförðum eða á rannsóknum vegna nýtingar auðlinda á svæðinu.  Ég tel ekkert athugavert við það.  T.d. stóð Fjórðungssamband Vestfirðinga í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða fyrir því að gerðar yrðu nauðsynlegar rannskóknir á Arnarfirði í tengslum við hugsanlega nýtingu kalkþörunga í firðinum.  Hefðu heimamenn ekki haft frumkvæði í þessu máli væri kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal ekki orðin að veruleika ennþá.  Lítill áhugi suðvesturhornsins á hag landsbyggðarinnar, nema þegar kemur að því að hafa skoðun á hvað við megum og megum ekki, kemur okkur ekki á óvart.

Haukur Már Sigurðarson (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 19:18

4 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Gleðileg jól og takk fyrir skemmtilegt bloggár :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 22.12.2007 kl. 00:49

5 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Góður Haukur ! En svo er það stærsta málið samhliða byggingu olíuhreinsunarstöðvar að samfylkingin bretti upp ermarnar og standi við stóru orðin er varðar fyrningu aflaheimilda.

Það er ljóst í hugum flestra ef boðuð yrði fyrning aflaheimilda td, um 7,5% á ári þá mundi strax verðið á varanlegum þorskkvóta dömpast niður í það sama og hjá nágrönnum okkar norðmönnum eða niður í kr, 600 pr. kg, sem er nær því að vera það verð (eðlilegt) sem veiðar og vinnsla geta borið.

Í dag er verðinu handstýrt (óveiddur þorskkvóti í dag við Ísland er verðlagður á kr, 4.200 pr. kg) af bönkunum og hækkar stöðugt eftir því sem skuldir sjávarútvegsfyrirtækjana vaxa.

Með öðrum orðum þá yrði loftinu tappað af verði aflaheimilda líkt og er að gerast með hlutabréfin. Fyrning aflaheimilda mundi strax  hafa gríðarleg áhrif á stöðu vestfjarða vegna nálægðar fiskimiðanna. Sem sagt, kvótin færi á þeirra hendur sem á honum þurfa að halda vegna búsetu sinnar og atvinnu en færi úr höndum braskarana sem búnir eru að veðsetja kvótan upp í rjáfur og nota peningana út úr greininni td, í hlutabréf í óskyldum greinum sjávarútvegs.

Líklegast er eftir stöðu fjármálamarkaða að dæma að lang stærsti hluti þeirra peninga sem kvótinn hefur verið veðsettur fyrir sé brunnin upp á altari (græðgisaflana).

Nú þarf að grípa inn í þessa fádæma vitleysu og snúa dæminu við.

Níels A. Ársælsson., 22.12.2007 kl. 09:57

6 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Gleðileg jól

Valgerður Halldórsdóttir, 22.12.2007 kl. 13:22

7 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

 Lokaorð mín til þín á þessu ári kæri bloggvinur eru frá Nelson Mandela sem setur sig yfir eigin þarfir og hugsar sig sem heildina. Boðskapur inn í hið nýja ár sem á erindi til okkar allra.

Steina

Okkar dýpsti ótti er ekki að við séum vanmáttug.

Okkar dýpsti ótti er að við erum óendanlega máttug.



Það er ljósið innra með okkur ekki myrkrið sem við hræðumst mest.Við spyrjum sjálf okkur hvað á ég með að vera frábær, yndisfögur, hæfileikarík og mikilfengleg manneskja.



Enn í raun hvað átt þú með að vera það ekki?



Þú ert barn Guðs.



Það þjónar ekki heiminum að gera lítið úr sjálfum sér.

Það er ekkert uppljómað við það að gera lítið úr sjálfum sér til þess að annað fólk verði ekki óöruggt í kringum þig.



Við fæddumst til að staðfesta dýrð guðs innra með okkur, það er ekki bara í sumum okkar, heldur í hverju einasta mannsbarni.Og þegar við leyfum ljósinu okkar að skína, gefum við öðrum, ómeðvitað, leyfi til að gera slíkt hið sama.Um leið og við erum frjáls undan eigin ótta mun nærvera okkar ósjálfrátt frelsa aðra.

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 22.12.2007 kl. 15:58

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hvar er Dofri og af hverju svarar hann mér ekki?

Framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar er í beinu daglegu sambandi við þingmenn og ráðherra flokksins. Um það mál sem hann fjallar um hér hlýtur hann að hafa beina vitneskju beint upp úr ráðherra iðnaðarmála. Því endurtek ég: Er það rétt að fulltrúar Íslensks hátækniiðnaðar hafi sótt um pening til iðnaðarráðuneytisins eða annarra stjórnvalda? Er það rétt að Vestfirðingar hafi borgað téðar rannsóknir og ef svo er, er það eðlilegt eða óeðlilegt? Koma svo!

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.12.2007 kl. 18:52

9 Smámynd: Sigurður Hrellir

Fróðlegt væri að vita eitthvað um hina meintu bakhjarla Íslensks hátækniiðnaðar. Slæmt er að vera með áform um byggingu olíuhreinsunarstöðvar í Arnarfirði eða Dýrafirði. Sýnu verra er að þykjast hafa fjármagn á bak við sig sem líklega er háð þeim skilyrðum að öll tilskilin leyfi hafi fengist og að arður sé tryggður af hverri rúblu.

Ólafur Egilsson og Hilmar F. Foss verða að útskýra nánar viðskiptahugmynd sína og fjármögnun hennar. Það er ekki réttlætanlegt að vekja falskar vonir hjá fólki á Vestfjörðum. Olíuhreinsunarfyrirtæki með þessu nafni hringir strax nokkrum viðvörunarbjöllum.

Dofri, ertu farinn í jólafrí? Gleðileg jól! 

Sigurður Hrellir, 23.12.2007 kl. 01:08

10 Smámynd: Bryndís G Friðgeirsdóttir

Gott að vekja athygli á þessu Dofri. Núna talar bæjarstóri Ísafjarðarbæjar um olíuhreinsistöð sem hátækniiðnað, ekki stóriðju. Áður fyrr var hann fánaberi stóriðjulausra Vestfjarða.

Haft var eftir Össuri Skarphéðinssyni að hann væri ekkert sérstaklega hrifinn af fyrirbærinu en ef Vestfirðingar ÓSKUÐU sérstaklega eftir þessari stóriðju þá yrði á þá hlustað. Þetta er ekki aðeins spurning um afstöðu Vestfirðinga  (þeir búa að vísu um allt land) heldur hvort Íslendingar vilji bæta þessu í stóriðjusögutímabilið sitt.

Bryndís G Friðgeirsdóttir, 23.12.2007 kl. 10:11

11 Smámynd: Dofri Hermannsson

Skýrslur um möguleika á staðsetningu olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum eru unnar fyrir opinbert fé. Það vekur furðu þar sem meintir viðskiptavinir Ólafs Egilssonar eru sagðir vera olíurisar á heimsmælikvarða.

Venjan er sú að þegar fyrirtæki hefur áhuga á að staðsetja sig einhvers staðar að það sér sjálft um rannsóknir á hagkvæmni þess. Annað er í raun afar óeðlilegt og bendir til þess að huldumenn Ólafs séu ekki jafn einbeittir í þessu bralli og hann sjálfur.

Að nota opinbert fé til að kosta rannsóknir fyrir subbuiðnað sem ekki hefur nægan áhuga á viðskiptunum til að borga smáupphæðir sjálfur endurspeglar nákvæmlega sömu viðhorfin og útsölubæklingurinn "Lowest Energy Prices" gerði hér um árið. 

Þeir sveitastjórnarmenn sem eru farnir að líta á þetta sem lífhring sinn hafa gefist upp við raunverulegt hlutverk. Þeir eiga að hætta og hleypa þeim að sem hafa dug og þor.

Dofri Hermannsson, 23.12.2007 kl. 16:35

12 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Dofri, þú svarar ekki spurningum mínum. Það er ekki kurteist. Ertu ekki búinn að tala við Össur? Ég hef fengið aðalatriði málsins staðfest: Ísl. Hátækniiðnaður hefur ekki sótt um pening hjá ríkinu og það var ákvörðun iðnaðarráðuneytisins en ekki ÍH að ríkið og Vestfirðingar myndu greiða og eiga viðkomandi rannsóknir (m.a. í ljósi fordæma). Ég hef einnig fengið staðfest að 24 stundir hafi dregið umrædd skrif til baka, beðist afsökunar og muni birta leiðréttingu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.12.2007 kl. 17:41

13 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Varðandi olíuhreinsistöðina:  Þetta eru áhugaverðar fréttir af þessu en ekki óeðlileg aðkoma samt sem áður.  Tek undir með honum Hauk hér nokkru fyrr, að áhugi á þessum landshluta er aðdáunarverður og góðra gjalda - en þarf að vera á réttum forsendum.  Ekki nóg að koma og gagnrýna fyrir að reyna að bjarga sér - áhugaleysi er algert á milli; ekki síst hjá hinum ágæta Össuri. 

En hvað um það, þú er hinn besti drengur að minni vitan og ekkert eðlilegra en að fylgja sínum skoðunum.  Menn má greina á um hvaðeina - það er ekki þar með sagt að himin og haf séu á milli.  Þarna er það viðhorf þeirra sem byggja staðina vs. þá sem hafa enga hagsmuna að gæta nema sem heildrænna.  Það geta verið óskýrar línur rétt eins og landsmálapólitíkin er ólík sveitarstjórnarpólitíkinni.

En að allt öðru;

Óska þér og þinni fjölskyldu gleðilegra jóla, góðs og farsæls komandi árs.  Megið þið hafa það sem allra best.  Þakka góð kynni.

vcd 

Bragi Þór Thoroddsen, 23.12.2007 kl. 21:15

14 Smámynd: Ingigerður Friðgeirsdóttir

Gleðileg Jól.

Ingigerður Friðgeirsdóttir, 23.12.2007 kl. 23:47

15 Smámynd: Gísli Hjálmar

 

Ég vil óska þér og þínum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs. Jafnframt þakka ég skemmtileg bloggviðkynni á árinu sem er að líða ...

kv, GHs

Gísli Hjálmar , 24.12.2007 kl. 11:43

16 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Gleðileg jól

Gunnlaugur B Ólafsson, 24.12.2007 kl. 15:06

17 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég held að Ragnar Jörundsson og félagar hans í sveitarstjórn Vesturbyggðar ættu í alvöru að leita sér að öðru starfi við þeirra hæfi.

Ragnar skreytir sig með lánsfjöðrum þegar hann segist vera náttúru- og umhverfissinni á bloggsíðu sinni. Annað hvort er hann haldinn ranghugmyndum á háu stigi eða er vísvitandi sem úlfur að klæðast sauðargæru. Hann vill blygðunarlaust setja niður olíuhreinsunarstöð í einum fegursta firði landsins og skeytir engu um þá hættu sem það hefði í för með sér. Veit hann sjálfur hvaða meintu bakhjarlar ætla að skaffa fjármagn í þetta eða er það svo mikið viðskiptaleyndarmál að sveitarstjórnin sjálf má ekki fá upplýsingar um það?

Ég hef verið mjög tíður gestur í Vesturbyggð og Tálknafirði á undanförnum árum og hef jafnvel íhugað að flytja vestur. Það er hins vegar á hreinu að af því verður ekki á meðan að menn eins Ragnar og Jón Hákon Ágústsson eru þar í sveitarstjórn. Rétt fyrir jól skrifaði Jón eftirfarandi í vefdagbókina:

"Boltinn er að sjálfsögðu hjá Íslenskum Hátækniiðnaði."
 
"Íslenskur Hátækniiðnaður, ykkur er frjálst að gefa boltann bara strax til okkar þannig að við getum byrjað að gera klárt "

"Með olíu- og jólakveðju,
Jón Hákon"

Líklega væri það bara vel við hæfi að ráða Jón til starfa í olíuhreinsunarstöð. Múrmansk heitir staðurinn!

Sigurður Hrellir, 27.12.2007 kl. 11:10

18 identicon

Sigurður Hr. Sigurðsson sendir mér tóninn. Telur að ég sé að skreyta mig lánsfjöðrum þegar ég segist vera náttúru- og umhverfissinni. Lánsfjöðrum hvers? Sigurðar og Dofra Hermannssonar? Eru Sigurður eða Dofri þess umkomnir að geta skreytt sig þessum titlum vegna sinna skoðana? Eru þær hinar einu sönnu í umhverfismálum? Ég held að íslenska þjóðin ætti bágt ef skoðanabræður þeirra hefðu yfirhöndina í þeim málaflokki. Hver er með ranghugmyndir? Ég gæti trúað því að ég sé búinn að ferðast meira um Ísland heldur en þeir báðir, gangandi, ríðandi um allar trissur og akandi. Ég er búinn að búa úti á landi á nokkrum stöðum í 26 ár. Þar af 11 ár á Vestfjörðum.  Það segir Sigurður satt, að ég vil án blygðunar setja niður olíuhreinsistöð í hinum fallega og tilkomumikla Arnarfirði. Mín skoðun er sú að olíuhreinsistöð getur fallið vel inn í þetta umhverfi og sem við getum orðið stolt af. Þið sem talið á þessum nótum, hafið það gott í R.vík og búið á einum fegursta stað á Íslandi sem búið er að "eyðileggja" vegna bygginga og annara mannvirkja. Þið reynið ekkert að sporna við. Sífellt er verið að þenja út fleiri byggingarsvæði og jarðraskanir, bæði til meiri “eyðileggingar” og losunar gróðurhúsaloftegunda (vegna jarðrasks). Ekki heyrist bofs frá ykkur svokölluðum "umhverfissinnum". Málið er einfalt! Við mannfólkið verðum að búa einhversstaðar. Ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Aftur á móti viljið þið hafa vit fyrir okkur á Vestfjörðum!!!!! Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum! Nei takk, það viljum VIÐ á höfuðborgarsvæðinu ekki!!! Við miðbæjarrotturnar (fyrirgefið orðbragðið) viljum geta farið á sumrin og skoðað náttúruna á Vestfjörðum. Skítt með allt fólkið sem býr þar allt árið. Svo leyfið þið ykkur að segja að það sé af nógu að taka –eitthvað annað- ?????   “hleypa þeim að sem hafa dug og þor.” eins og Dofri segir í sínu bloggi. Ég held að enginn í forsvari fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum, hafi staðið í vegi fyrir því að taka á móti einhverju öðru og þeim sem hafa dug og þor. En ég spyr, hvar þetta eitthvað annað og hvar eru þeir sem hafa dug og þor?

Sigurður sem, með vísan til upplýsinga um hann á bloggsíðu sinni, er með gríðarlangan lýsingarferil á hverju hann hefur áorkað. Það væri ekki amalegt að fá slíkan mann til búsetu hér fyrir vestan. Fegurðin er mikil á svæðinu og getur hann sjálfsagt fengið mikinn tónlistarlegan og annan innblástur. En á hverju ætlar slíkur maður að lifa? Vinna hjá RUV? Það er nefnilega mikill fjöldi fólks sem hefur áhuga á að búa á þessu svæði, en ekki fundið neina afkomumöguleika. Ég tel þetta vera hræsni að segjast jafnvel hafa verið að hugsa um að flytja vestur. Af hverju er hann ekki fluttur? Er það vegna þess hverjir stjórna sveitarfélaginu? Þá fylgir hugur varla máli.

Ég ætla ekki að munnhöggvast mikið við Sigurð eða aðra skoðanabræður hans. Ég skrifa ekki oft á opinberum vettfangi eða blogga. En þegar manni ofbýður, þá getur maður ekki orða bundist.  Gleðilegt ár.

Ragnar Jörundsson (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 22:32

19 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég setti athugasemd inn á bloggsíðu bæjarstjórans í gærkvöldi sem lesa má hér. Annars skora ég á alla að senda honum góðar hugmyndir svo að hann hætti að hugsa um þessa  olíuhreinsunarstöð sem ég neita að trúa að verði að veruleika.

Það er hins vegar ljóst að bestu hugmyndirnar fæðast ekki endilega í kollinum á stjórnmálamönnum eða örfáum umhverfissinnum heldur þarf miklu meira til.

Sigurður Hrellir, 28.12.2007 kl. 06:12

20 identicon

Lýsi yfir eindreignum stuðningi við skoðanir Ragnar í þessu máli.

Íbúi í Vesturbyggð.

Geir Gestsson (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 02:06

21 identicon

Er ekki rétt að athuga hvað pólverjum finnst um olíuhreinsistöðina, hvort þeir eru jákvæðir í málinu. Það liggur nokkuð ljóst fyrir að það vantar mannskap á svæðið, því ekki munu t.d. 101-verjar vera manna líklegastir að flytja vestur á hvaðþaðnúheitir, til að manna stöðina.

Þetta lítur nú samt vel út við fyrstu sýn sem verbúðadæmi fyrir pólverja, þannig að ef þeir taka vel í málið, ætti endilega að drífa þetta af stað.

fjölmenningarvitinn (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 01:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband