Hörundssárir huldumenn

Með bloggfærslu um huldufólk í peningaleit (www.dofri.blog.is) virðist ég hafa strokið Ragnari Jörundssyni bæjarstjóra Vesturbyggðar andhæris. Á síðum þessa blaðs í gær og á bloggi sínu (www.rjor.blog.is) fer hann hamförum yfir því sem hann kallar öfgar, offors, skilningsleysi, dónaskap og vanþekkingu í skrifum mínum. Áhugamönnum um dónaskap og vanþekkingu er bent á að skoða báðar færslurnar með það í huga hvor hefur betur.

Dónaskapurinn er vísast gamanmál um huldumenn Ólafs Egilssonar sem víða hefur falast eftir stuðningi við hugmyndir sínar um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Bakhjarla sína segir Ólafur vera olíurisa úr þremur heimsálfum en þar sem hann hefur aldrei gefið upp nöfn þeirra hafa þeir fengið á sig huldumannsorð.
Skilningsleysi mitt játa ég fúslega en mér hefur reynst erfitt að skilja af hverju fyrirtæki með svo sterka bakhjarla þarf að láta Fjórðungssamband Vestfjarða leggja almannafé í þær forathuganir sem það sjálft pantar. Sjá ummæli framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfjarða í fréttum Rúv 13. desember um forathuganirnar."Skýrslurnar eru náttúrulega skrifaðar líka að beiðni Íslenska hátækniiðnaðar sem að hefur óskað eftir að kanna aðstæður fyrir olíuhreinsunarstöð og þeir hafa fengið þessi gögn afhent núna."

Sterkari landsbyggð
Viðkvæmni bæjarstjórans fyrir gagnrýninni er skiljanleg. Hann hefur áhyggjur af byggðaþróuninni og þeim deili ég með honum. Öfugt við Ragnar tel ég hins vegar að olíuhreinsistöð sé ekki leiðin til að byggja upp sterkara samfélag á Vestfjörðum. Undanfarna áratugi hefur fólk sótt í þéttbýlið eftir fjölbreytni í störfum, menntun og menningu. Ungu konurnar fara á undan og piltarnir í humátt á eftir. Meðan miðaldra karlar hittast til að leggja drög að nógu stórri verksmiðju til að allir bæjarbúar geti unnið þar pakka dæturnar ofan í töskur.
Þessi þróun er ekki séríslenskt fyrirbæri, um allan heim er reynslan sú sama.
Þessar staðreyndir lágu til grundvallar stefnu Samfylkingarinnar í byggðamálum í aðdraganda nýafstaðinna kosninga. Þess vegna var gríðarleg áhersla lögð á að bæta samgöngur á landsbyggðinni, sameina atvinnu- og menntasvæði, tryggja háhraða nettengingar og efla framhalds- og háskólastigið. Og vinnan er hafin.

Háskóli á Vestfjörðum
Fyrir réttum 20 árum var stofnaður háskóli á Akureyri og þótti ýmsum fáheyrð vitleysa. Frekar ætti að endurreisa skipa- og skinnaiðnaðinn og fá álver í fjörðinn. Háskólanum óx hins vegar fiskur um hrygg og íbúaþróun á Akureyri og í nágrenni tók miklum breytingum til hins betra.
Ragnar átelur mig fyrir að mæla með því að Vestfirðingar fylki sér um háskóla í stað olíuhreinsistöðvar af því háskóli yrði staðsettur á Ísafirði sem ekki er í góðu vegasambandi við suðurfirðina.
Það er rétt að samgöngur við suðurfirðina þarf að bæta. T.d yrði vandkvæðum bundið að manna olíuhreinsistöð í Hvestu nema til kæmu verulega bættar samgöngur við Ísafjörð. Rökin bíta því Ragnar sjálfan.

101
Í hálfgerðum skætingi titlar Ragnar mig umhverfissinna og skriffinna úr 101. Glaður gengst ég við hvoru tveggja en bendi Ragnari á að ég er líka "landsbyggðarsinni" úr 371, 380, 200 og 600. Bara annarrar gerðar en hann.
Bæjarstjórinn ætti að spara sér hnjóðsyrði í garð þeirra sem hafa aðra sýn en hann sjálfur. Með slíku viðmóti er líklegra að hann fækki fólki enn frekar í Vesturbyggð en að því fjölgi. Nær væri að bæjarstjórinn gerði sér far um að hlusta á önnur sjónarmið, t.d. hið sterka en vannýtta bakland í Vestfirðingum sem flutt hafa suður eða til útlanda, aflað sér verðmætrar þekkingar og reynslu en væru til í að taka þátt í markvissu uppbyggingarstarfi fyrir heimabyggðina sína. Það væri öflugur þrýstihópur sem ég tel að myndi frekar vilja berjast með Ragnari fyrir uppbyggingu vestfirsks háskóla en olíuhreinsistöðvar.

Með nýjárskveðju úr 112,
Dofri Hermannsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

112 er fyrir austan Elliðaáa.. þú ert úti á landi Dofri

Óskar Þorkelsson, 30.12.2007 kl. 01:22

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Gleðilegt nýtt ár Dofri!

Ég er alveg sammála þér að það er vissulega annarlegt að þessi öflugi huldu-fjárfestahópur sé að leita fjárframlags meðal almennings í gegnum fjórðungssambandið, eða eins og þú segir sjálfur .."í forathuganir sem það sjálft pantar".  Ef að hagsmunaaðilarnir eru svo margir - má leiða að því líkum að þeir ættu að vera nógu voldugir til að fjármagna forathuganirnar sjálfir, það gera þeir allavega annarstaðar, t.d á Grænlandi.

Svo verð ég að vera þér sammála í því að á meðan að hagsmunaaðilarnir eru ekki nafngreindir, er erfitt að taka þreifingar þeirra af alvöru.

Þannig er nú bara það.

Menn eru auðvitað hörundsárir á Vestfjörðum. En ég veit allavega eitt að þar eru blendnar tilfinningar gagnvart þessum þreifingum eða áformum, allt eftir því hvernig maður túlkar alvöru hugmyndanna.

Anna Karlsdóttir, 30.12.2007 kl. 01:36

3 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

Gleðileg áramót til þín og þinna. vonandi farið þið í rólegheitum inn í hið nýja ár

Mahatma Gandhi sagði svo rétt Kærleikurinn er sterkasta aflið sem til er í heiminum og jafnframt hið hógværasta sem unnt er að hugsa sér.

Megir þú vera í Kærleikanum nú og alltaf.

AlheimsKærleikur til þín

Steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 30.12.2007 kl. 14:47

4 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Þú vinnur aldrei keppnina um dónaskapinn - - en haltu áfram að kalla eftir góðum rökum og gagnsæi í undirbúningi "stórmæla" eins og olíhreinsi-virki hlýtur að verða. - - um leið og þú stillir upp hóflegri orðræðu og rökum með hækkaðir menntun, þróun og hátækni-valkostum í atvinnulífi og sjálfbærum efnahag samfélaganna á landsbyggð.      Það eru sannarlega breyttar forsendur með nútímanum . . . .  og möguleikar um land allt sem aldrei hafa verið fyrir hendi áður - - en til að þá megi nýta þarf að fjárfesta í sæstrengjum og samskiptakerfum og samgöngum - um leið og við gerum landið allt að einu skattheimtusvæði og ráðstöfum opinberum fjármunum svæðisbundið - líkt og Danir og Svíar hafa gert um lengri tíma og telst þó Danmörk tæplega til drefbýlla landa.

Benedikt Sigurðarson, 30.12.2007 kl. 14:54

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Úbs - nú er skyndilega horfið úr haus bloggsins, Dofri, að þú sért framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar! Hvað gerðist?

Ég spurði þig spurninga í athugasemdum við fyrra bloggið út frá því að þú gegndir þeirri stöðu og ættir því daglegan aðgang að t.d. iðnaðarráðherra. En svo virðist þá ekki vera.

En burt séð frá þeirri stöðu þá hefur það komið fram, áður en þú ritaðir nýrra bloggið og birtir hér og í "24 stundum", að sú tilhögun að ríkið og/eða heimamenn á Vestfjörðum (Fjórðungssambandið) myndu greiða þennan forathugunarkostnað væri samkvæmt tillögu iðnaðarráðuneytisins. Ergo: Össurar og/eða hans embættismanna. Þetta var komið fram áður, en samt undrar það þig að huldumennirnir hafi ekki borgað þessar forathuganir. Þú nefnir skrif þín að vísu "gamanmál" og ert ekki lengur framkvæmdastjóri þingflokksins (og ég spyr þig þá alls ekki sem fréttamaður), en í þessari rökræðu finnst mér að það gangi ekki að horfa framhjá téðri tillögu iðnaðarráðuneytisins um fjármögnun forathugana.

Friðrik Þór Guðmundsson, 30.12.2007 kl. 15:55

6 identicon

Sæll Dofri

Varðandi stefnu Samflykingarinnar segir þú:

bæta samgöngur á landsbyggðinni, sameina atvinnu- og menntasvæði, tryggja háhraða nettengingar og efla framhalds- og háskólastigið. Og vinnan er hafin.

Hvað varð um stefnu ykkar sem fólst í störfum án staðsetningar?  Er vinna við það hafin? Eða einfaldlega gleymd?  Ég spyr að þessu vegna þess að nú er umsækjandi um ferðamálastjóra sem óskar eftir því að starfið sé ekki engöngu einskorðað við Reykjavík heldur megi ferðamálasjóri einnig sinna stafi sínu frá hinni starfsstöð Ferðamálastofu, þ.e. Akrueyri.  Síðustu fréttir voru þær að sá sem ekki vildi vinna starfið frá Reykjavík kæmi ekki til greina, hversu góður sem hann væri.  Má bæta því við að Kristján Möller fer með þessi mál, ráðherra og þingmaður Norðausturkjördæmis sem áður fyrr var einarðasti talsmaður þess að landsbyggðin nyti sanngirni í málum sem þessum.

Jón Þorvaldur Heiðarsson (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 17:30

7 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Farið að hitna í þessu þrátt fyrir að lítið sé að gerast í þessum málum, þökk sé Össuri.

Þetta er ekki SF til framdráttar málefnalega að vera að höggva í tilraun deyjandi byggaðar til að bjarga sér á forsendum græniðju, en það hefur ekki verið skilgreiningaratriði á öllum gerðum SF.  Allur þungi er á að brytja niður þessa hugmynd, hvort sem er frá iðnaðarráðuneyti eða u-ráðuneyti. 

Mikið talað um háskóla og fleiri "góðar" hugmyndir, en staðreyndin er hins vegar sú að syðri byggðum hefur í raun alveg dugað að reyna að halda uppi kennslu á framhaldsskólastigi.  Þetta eru mjög óraunverulegar hugmyndir enda er ekki frekar mannskapur tiltækur til slíkrar kennslu fremur en mönnun olíuhreinsistöðvar ef því er að skipta.  Enda er ekki um auðugan garð að gresja í kennarastétt, enda lítt betur að henni hlúð en landsbyggð. 

Ekki að sjá heldur að auðlegð myndi allskostar streyma frá slíkri stofnun næstu misserin, enda hefur ekki verið almennt stefna Þorgerðar í hennar ráðuneyti að fjölga svo mjög háskólum.  Þetta er svo sem góðra gjalda vert að hugsa svo hlítt til allrar æsku sem eftir er á fjörðunum.

Hvað varðar samgöngur og vinnusækni frá Ísafirði suður í Arnarfjörð, þá held ég að það hafi aldrei verið hugsunin.  Það í raun fer allskostar gegn því hvernig samgöngum undanfarinna alda á svæðinu.  Jafn vanhugsað og að hafa miðstöð löggæslu fyrir svæðið á Ísafirði.  Þarf ekki mikla þekkingu á staðháttum til.

Samgöngubót fyrir vestan á ekki að standa og falla með þessari olíuhreinsistöð og er í raun kappsmál þinni stjórn að efla eitthvað af loforðum sínum í þeim efnum, enda mannréttindi fremur en atvinnuefling.  Ætti í báðum tilvikum að vera það.

Ekki er svo að SF hafi lagst af þunga gegn álverum vegna mengunar og er það umhugsunarefni út af fyrir sig.  Spurning hvað er látið af hendi rakna í til eflingar flokksins af þeim brunni.

Fyrst þetta er svo afleit hugmynd væri nær að kalla eftir vitrænum framlögum um jafngóðan eða jafnslæman kost til eflingar byggðarþróun og sóknarfæra í atvinnumálum til handa landsbyggðar, hér fyrir suðurfirði vestfjarða.

Það mætti vera betra en framlag Einars Kristins stjórnarliða og vestfjarðaþingmanns sem lagði það af að heita má að hægt sé að stunda stangveiði innanfjarðar með útlendinga (vistvænt) svona til að minna á mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar.

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 30.12.2007 kl. 20:38

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka góðan pistil, Dofri, sem er á svipuðum nótum og ég hef verið að blogga. Það er dapurlegt ef það eina menn sjá fyrir vestan sé að taka upp á sína arma verksmiðjur sem aðrar þjóðir vilja helst ekki hafa hjá sér. Dapurlegast er þegar íslenskir ráðamenn sjá þá einu lausn að fara út í meira en hundrað milljarða óarðbæra fjárfestingu eins og við Kárahnjúka en geta ekki hugsað sér að neins fjármagns sé leitað í annað og segja síðan á eftir að það sanni að annað sé ekki framkvæmanlegt en stóriðjustefna.

Ómar Ragnarsson, 30.12.2007 kl. 23:08

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir þessa bloggfærslu Dofri. Gleðilegt ár.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 31.12.2007 kl. 14:43

10 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Óneitanlega klórar maður sér í höfðinu yfir talinu um huldumenn, þegar maður les þetta eftir iðnaðarráðherra haft: "Össur gefur ekki upp hvaða fyrirtæki þetta eru, þó séu sum þeirra heimsþekkt stórfyrirtæki á sínu sviði". Þarna er ráðherrann að tala um "huldumenn" að baki hugmyndum um kísilmálmverksmiðju (sem er verulega subbulegur iðnaður) og gagnageymslur (netþjóna), en einnig hefur enginn hugmynd um hvaða fyrirtæki kunna að vera að baki leit ráðherrans að olíu á Drekasvæðinu.

Má maður gera ráð fyrir því að iðnaðarráðherra sé krafinn svara um hverjir hans huldumenn eru, af talsmanni flokksins í umhverfismálum? Dofri hefur reyndar ekki verið að svara spurningum mínum hér, sem er miður, því þetta eru sjálfsagðar spurningar og undarlegt hversu hann kemur sér kerfisbundið hjá því að svara þeim. Hver er munurinn á huldumönnunum í olíuhreinsistöðvarmálinu og huldumönnunum iðnaðarráðherrans að baki kísilmálmnum, gagnageymslunum og olíuleitinni á Drekasvæðinu? Fyrir hverja af þessum huldumönnum erum við skattgreiðendur að borga kostnað?

Friðrik Þór Guðmundsson, 31.12.2007 kl. 14:51

11 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ágæti Ragnar.

Ekki veit ég hvernig þér tekst að finna út að ég hafi logið upp á Ólaf Egilsson í bloggi mínu. Þar vitnaði ég í spaug í "Klippt og skorið" þar sem sagt var að huldumenn Ólafs væru að fara húsavillt. Reyndar gildir það sama um allar aðrar upphrópanir þínar um lygar - engin þeirra stenst skoðun.

Þú ert greinilega bæði mjög reiður og mjög rökþrota maður. Það er ekki gott til afspurnar fyrir mann í stöðu bæjarstjóra, allra síst þegar það sviptir mann svo ráði og rænu að maður ræðst að fólki með skætingi og ásökunum um lygar líkt og þér hefur ítrekað orðið á nú um hátíðarnar.

Í ljósi þess hvað staða mín innan flokksins er þér hugleikin ættir þú að vera þér betur meðvitaður um þína eigin stöðu og hvort það er gott til afspurnar fyrir Vesturbyggð að bæjarstjóri sveitarfélagsins skuli ganga fram með slíkum hætti.

Til að svala sárþyrstri forvitni þinni um störf mín sem framkvæmdastjóra þingflokksins get ég upplýst þig um það sem kom fram í blöðum (og bloggi iðnaðarráðherra) í október að ég sagði þá starfi mínu lausu frá og með jólum til að takast á við aukin verkefni í borgarstjórn.

Ég þakka þér innilega auðsýnda umhyggju fyrir velferð minni í stjórnmálum en hvet þig jafnframt til að rifja upp eitthvað af þeim mannasiðum sem ég er viss um að foreldrar þínir hljóta að hafa kennt þér í æsku.

Með vinsemd, 

Dofri Hermannsson, 4.1.2008 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband