Evran og alþjóðleg fyrirtæki

Áhugi Moggans á gömlum húsum er lofsverður og vert að þakka blaðinu fyrir metnaðarfulla umfjöllun þess um Laugarveg 4 og 6. Maður saknar þess hins vegar dálítið að Morgunblaðið skuli ekki hafa nokkurn minnsta áhuga á að fjalla um gjaldmiðilsmál.

Varla er hægt að finna um það nokkurn stafkrók í Morgunblaðinu að Seðlabanki Íslands hefur bannað Kaupþingi að gera upp reikninga sína í evrum. Þetta hefði ég haldið að væru stórtíðindi sem verðskulduðu vandaða umfjöllun um stöðu íslensku krónunnar og möguleikann á því að alþjóðleg stórfyrirtæki flýi land.

Fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins og núverandi ritstjóri 24 stunda helgar þessu máli leiðara sinn í dag þar sem hann segir meðal annars:

Það fer hins vegar ekkert á milli mála að sum sum innlendu fjármálafyrirtækin með Kaupþing og Straum-Burðarás í fararbroddi telja mjög mikilvægt að geta fært bókhald sitt í evrum og skráð hlutafé í sama gjaldmiðli.
Forsvarsmenn þessara fyrirtækja hafa lýst því yfir að krónan dugi þeim ekki. Þeir hafa hins vegar talið mikilvægt að geta farið þessa millileið; að starfa í raun í stórum alþjóðlegum gjaldmiðli þótt þeir hafi höfuðstöðvar sínar í landi, sem rekur minnsta sjálfstæða gjaldmiðil í heimi.
Með því að hafa þessa millileið hafa menn getað frestað því að hefja fyrir alvöru hina erfiðu umræðu um hvort skipta eigi um gjaldmiðil hér á landi og taka upp evruna. Umræða er ekki sízt erfið vegna þess að Ísland á ekki raunhæfan möguleika á að taka upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið, með kostum þess og göllum.
Nú segir Seðlabankinn alveg skýrt við fjármálageirann: Millileiðin er ekki til. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef fjármálafyrirtækin vilja hafa höfuðstöðvar sínar á Íslandi, nota þau íslenzku krónuna.
Í ljósi þess að fjármálafyrirtæki á borð við Kaupþing og Straum hafa þegar hafnað krónunni eiga þau varla nema tvo kosti; að færa höfuðstöðvar sínar annað eða þrýsta á um að Ísland gangi í ESB til að geta tekið upp evruna. Seðlabankinn hefur skýrt línurnar.

 Við blasir að þessi stóru og öflugu fyrirtæki forði sér úr minnsta gjaldmiðli í heimi, flytji heimilisfesti sína annað og borgi sína skatta og gjöld þar en ekki hér. Ætli hinn aldni ritstjóri Morgunblaðsins sé of upptekinn við að leika sér í pólitísku "Manipuly" til að gera jafn mikilvægum málefnum samtímans skil?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Ágæti bloggvinur. Velti því stundum fyrir mér, hvers vegna í ósköpunum þið Samfylkingarmenn leggið svona mikið upp úr skrifum um Evruna sem gjaldmiðil fyrir okkur Íslendinga, svo og Evrópusambandið.  Ekki það, að menn ræði þessi mál, heldur það, hvort ekki sé meiri ástæða á umræður um velferðarmál aldraðra og öryrkja, heilbrigðismál, menntamál, skattamál kvótamál,ráðningarmáti ráðherra, launamál og óafgreiddir samninga atvinnurekenda og verkafólks og fleira mætti upp telja.  Kveðja.

Þorkell Sigurjónsson, 15.1.2008 kl. 15:35

2 Smámynd: Dofri Hermannsson

Stöðugur gjaldmiðill og viðráðanlegir vextir á lánum er brýnasta hagsmunamál fyrirtækjanna, launþeganna og heimilanna í landinu.

Það munar 100 milljónum á því hvað maður greiðir til baka af 20 milljóna húsnæðisláni annars vegar í verðtryggðri íslenskri krónu og hins vegar í evrum. Það er hægt að fá heilmikla velferð fyrir það!

Dofri Hermannsson, 15.1.2008 kl. 17:29

3 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Þetta er ansi ófullkomin umræða sem af er. 

Skiljanlegt að fjármálafyrirtæki sem starfa að mestu utan seilingar íslenska ríkisins hafi hug á að gera upp í þeim gjaldmiðli sem mest er sýslað með og er stöðugri en krónan.

Annað mál er að slíkt verði valkvætt hér heima í viðskiptum almennt.  Það er ekkert mál fyrir bankana að jafna slíkar sveiflur sem þeir eru að vísa til, geta gert upp við sína í evrum og hafa alla aðstöðu til þess að fá alltaf mjúka lendingu.

Hins vegar er annað uppi með almenning sem getur ekki valið um gjaldmiðil hverju sinni að þurfa að sæta því að slíkir aðila sem bankar og stærri fjármálafyrirtæki geti gert upp í evrum eða hverju sem nafni tjáir að nefna, eftir því sem henta þykir, en almenningur þurfi að taka því sem að höndum ber.

Slíkur hringlandi með uppgjör svo stórra aðila myndi höggva verulega að íslenskri krónu sem er ekki svo burðug fyrir, eða hvað?  Kjör myndu jafnvel rýrna eða verða handahófskenndari en áður þar sem ójafnvægi myndi skapast við slík gjaldeyrisviðskipti.  Það er ekki almenningi ætlandi að þurfa að meta hvort taka á lán í evrum eða íslenskum krónum, hvað þá blandaðri körfu, fá uppgert í krónum eða evrum eða einhverju öðru.  Það hefur í að minnsta sýnt sig að bankar hafa ýtt fólki í slík gjaldeyrislán með sinn hag að brjósti en ekki einstaklinga.  Enn fremur hefur sterklega komið í ljós að almenningur er ekki meðvitaðri en svo um lán og gjalmiðla en svo að hafa vald á fjáfestingum með mið af vaxtabreytingum og sveiflum - hvað þá gengismun.

Svo færi fljótlega að koma upp sá þáttur í bankastarfsemi með slíkt blandað hagkerfi að taka "þjónustugjöld" fyrir að skipta og breyta gjaldmiðlum.

Það vantar margt inn í þessa umræðu svo hún verði marktæk, en mikið verði á óraunhæfum nótum um að taka upp evru einhliða fram hjá myntbandalagi EB.

En ég geri passlega ráð fyrir að Dofri þekki nokk möguleika breta til sparnaðar með og án áhættu...

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 15.1.2008 kl. 22:50

4 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Dharma: Við getum farið að ræða um góða ávöxtun á sparifé þegar Íslensk heimili eru hætt að vera þau skuldsettustu í heimi. Ákvarðanir sem eru teknar í þessu landi verða að þjóna almenningi, en ekki bara peningamönnunum sem er mjög lítill hluti landsins. Hinsvegar vill svo skemmtilega til að innganga í Evrópusambandið og upptaka Evru þjónar einmitt báðum hópum mjög vel; stórfyrirtækin vilja Evru, almenningur greiðir lægri vexti og fær tollfrjáls og vörugjaldalaus matvæli frá Evrópu. Það verður alltaf skemmtilegra og skemmtilegra að lesa skrif þín samt, þau eru orðin svo absúrd - sérstaklega þegar kemur að Samfylkingunni. Þér hlýtur að finnast ansi sárt að horfa upp á Samfó leiða bæði ríkistjórnarsamstarfið og borgarstjórnina :)

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 16.1.2008 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband