24.1.2008 | 00:01
Til upprifjunar
Hvað hefur gerst á 100 dögum?
Nokkur áherslumál meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, F-lista og Framsóknarflokks, sett fram og unnin í samræmi við þau áhersluatriði sem komu fram í yfirgripsmikilli stefnuræðu meirihlutans, fluttri af borgarstjóra við framlagningu fjárhagsáætlunar 20.nóvember sl:
SÉRKENNSLA OG MENNTASÓKN. Stóraukin framlög til sérkennslu bæði á leikskólasviði og menntasviði. Nýjar áherslur náðu einnig til Velferðarsviðs með starfi inn á Þjónustumiðstöðvunum og um tímamótabreytingar á því hvernig fengist er við börn með félagslegar og tilfinningalegar raskanir. Ríflega 100 milljónir á báðum skólastigum í aukningu + samstarf við Velferðarsvið og ÍTR.
FORVARNIR. 100 milljóna forvarnarsjóður í hverfatengd verkefni á sviði forvarna felur líka í sér straumhvörf. Alls er um að ræða 300 milljón króna sjóð sem setur 100 milljónir á ári til þessara verkefna. Fyrri upphæð var 10 milljónir.
HÚSNÆÐISMÁL. Félagslegar áherslur okkar komu líka fram í því hvernig tekið var á húsnæðisvanda fólks. Ákveðið var að setja 270 milljónir í ýmsar nauðsynlegar aðgerðir sem þarf að grípa til svo fólk hafi einfaldlega þak yfir höfuðið.
HVERFAUPPBYGGING/LÝÐRÆÐISÁTAK. Ríflega milljarður var á þessu ári tekinn frá til að byggja upp útivistarsvæði, hverfatorg, sparkvelli, stíga, götur og bekki í hverfunum, auk þess sem meira fjármagn (250 milljónir) fer í uppbyggingu skólalóða.
Meirihlutinn hefur stóreflt hverfaráðin, og verkefni hafið um skipulagt og víðtækt samráð við íbúa hverfanna í Reykjavík um það hvaða framkvæmdir þeir vilja helst setja á oddinn til þes að bæta nærumhverfi sitt. Átakið ber yfirskriftina: 1,2 og Reykjavík.
UPPBYGGING MIÐBORGAR. Stóraukin áhersla á varðveislu gamalla húsa er þegar í farvatninu- Ziemsenhús, Gröndalshús, Norðurpóll og fleiri. Nýtt Lækjartorg er á teikniborðinu, ásamt Kvos og nýju Ingólfstorgi, þar sem gömlum húsum yrði gert hátt undir höfði. Listaháskóli í miðbænum er á hönnunarstigi og uppbygging á Barónsreit. Sýnileg löggæsla hefur jafnframt verið mikið áhersluatriði meirihlutans enda fátt sem bætir öryggið betur í miðbænum.
METNAÐARFULL MANNAUÐSSTEFNA. Á fyrsta starfsdegi var farið í starfsmannaðgerðir upp á 800 milljónir, sem hækkaði m.a. laun leikskólakennara umtalsvert. Í komandi kjarasamningum stóð til að leggja mikla áherslu á það að styrkja þjónustuna, við börn og aldraðra, til muna.
Vilji til að hækka laun kennara var skýr.
MANNRÉTTINDIN. Mannréttindaskrifstofa var stofnuð, og til þess lagðar 85 milljónir. Skýr stefna var mörkuð um að Reykjavíkurborg yrði áfram í fararbroddi í jafnréttismálum. Metnaðarfullur samningur við Alþjóðahús var á lokastigi.
UMHVERFI OG UMGENGNI. Mikil áhersla hafði verið lögð á hreinsun borgarinnar, ekki síst viðureignina við veggjakrot. Samstillt hreinsunarátak þar sem íbúar, borgin, fyrirtæki og félagasamtök í öllum hverfum voru virkjuð til þátttöku var áætlað á vormánuðum.
Einnig var í vinnslu að Reykjavík setti sér loftslags- og umhverfisstefnu á heimsmælikvarða. Skoðun á léttlestarkerfi, umhverfisvænum almenningssamgöngum og algerlega nýrri hugsun í stefnumörkun í samgöngumálum var næsta skref.
ALDRAÐIR. Stóð til að fara í mikið uppbyggingarátak í málefnum aldraðra í samvinnu við ríkið. Leggja átti til lóðir og nota fjármagn sem þegar er fyrir hendi til hjúkrunarrýma. Vinna við þetta var hafin og langt komin í samvinnu við félagsmálaráðherra. Stórátakið átti ekki síst að verða á húsnæðissviðinu, þar sem Velferðarsvið var farið í það af miklum krafti að fjölga búsetumöguleikum aldraðra.
SUNDABRAUT Í GÖNGUM. Þrýstingur um það mikla hagsmunamál höfuðborgarbúa og raunar landsins alls var farinn að skila árangri.
MIKLABRAUT Í STOKK. Þetta baráttumál íbúa í Hlíðunum var komið í ferli og teikningar lagðar á borðið.
NIÐURSTAÐA ALÞJÓÐLEGRAR samkeppni um skipulag í Vatnsmýri stendur til að kynna 14.febrúar. Hér erum að ræða gífurlega metnaðarfullt skipulagsverkefni og niðurstaðan og hvernig farið verður eftir henni, burtséð frá því hvert framtíðarstæði flugvallarins verður, hefur grundvallarþýðingu um þróun borgarinnar.
KVIKMYNDABORGIN REYKJAVÍK. Vinna var farin af stað við það að gera Reykjavík að kjörborg fyrir kvikmyndagerðamenn að starfa í. Til stóð að mynda kvikmyndaþorp í Reykjavík, með alþjóðlegu kvikmyndaveri og stórefla kvikmyndahátíðina.
Hér er aðeins fátt eitt nefnt. Vinna við yfirgripsmikla málefnaskrá, byggða á stefnuræðu meirihlutans frá 20.11 2007 var hafin og átti að klárast samhliða gerð þriggja ára áætlunar fyrir borgina í febrúar.
Vinnuferðir voru komnar á dagskrá, verklag ákveðið og efnisþættir höfðu verið lagðir fram.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú gleymdir að minnast á hækkun á fasteignagjöldum
Elvar Atli Konráðsson, 24.1.2008 kl. 14:01
Í hreiskilni sagt Dofri, VAKNAÐU DRENGUR, ÞÚ VEIZT ÞÚ ERT AÐ FARA MEÐ FLEIPUR. Því í ósköpunum genguð þið ekki svona til verka á þessu 12 ára tímabili, HA?? Farðu í skoðun. Með beztu kveðju.
bumba (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 15:57
Ztyrmir farinn að kommenta?
Dofri Hermannsson, 24.1.2008 kl. 16:08
Þetta er nú bara fyndið að lesa. Meirihlutinn var algerlega óstarfhæfur og andvana fæddur. Eina sem hann var sammála um var völd... annað einkenndist af gaufi, töfum, ráðaleysi, stefnuleysi og einfaldlega sinnuleysi. REI nefndin var ekki búin að skila neinu , enginn málefnasamningur, vandræði með 2 hús á laugaveginum gott dæmi, stöðvuðuð verkefni á rekspöl í borgarkerfinu (sem fyrri meirihluti var að vinna í) já og merkilegt nokk....skattahækkanir. Og svo núna þegar sjálfstæðisflokkurinn reynir að mynda starfhæfan meirihluta, verður allt brjálað. Það er enginn munur á stjórnarskiptum nú og fyrir 110 dögum...nema kannski að þá var meirihlutinn sem fór frá fullkomlega starfhæfur já og að núna hefur (svikinn) sjálfstæðisflokkur tilefni til að svara þeim svikum sem áttu sér stað þegar þeim var ýtt út í kuldan.
Helgi Már Bjarnason, 24.1.2008 kl. 16:49
Ykkur tókst m.a.o. að eyða rúmum 2 milljörðum á 100 dögum, ég tala nú ekki um þessa 4,2 sem dagur skrifaði upp á í gær. Lausn á vandamálum virðist vera að henda í þau peningum eða það er þegar vinstrimenn eru við völd. Dofri ég hef nú haft ágætis álit á þér og sérstaklega tekið af ofan fyrir þér vegna áhuga á skólamálum, eitthvað sem ekki margir hafa, en plís ekki monta þig af peningaeyðslu sérstaklega þar sem þetta eru ekki þínir peningar.
Með bestu kveðju,
Vilhjálmur Andri
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 17:16
Til upprifjunar:
Ólafur F. í Silfrinu 2. des. 07
Hér er slóð á viðtal við Ólaf F. Magnússon í Silfri Egils 2. desember síðastliðinn:
http://http.ruv.straumar.is/static.ruv.is/geyma/olafurf.2007-12-02.wmv
Kristján Þór Júlíusson um nýja meirihlutann í Reykjavík:
http://www.visir.is/article/20080124/FRETTIR01/80124016
Hér er því haldið fram að sjálfstæðismenn hafi lekið upplýsingum um heilbrigðisvottorð
Ólafs F,Magnússonar:
http://eyjan.is/hux/2008/01/22/bjortu-hli%c3%b0arnar/
kv. gb
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 17:17
Þarna átti auðvitað að standa "með öðrum orðum" ekki m.a.o.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 17:17
"Ykkur tókst m.a.o. að eyða rúmum 2 milljörðum á 100 dögum"
Vilhjálmur átti líklega ekki von á að hans menn mundu kaupa tvo kofa á 550 milljónum strax annan daginn sinn. Ef það heldur áfram svona að þá verður allur Laugarvegurinn í eigu borgarinnar eftir 100 daga og borgarbúar tæpum 30 milljörðum fátækari.
Ingólfur, 26.1.2008 kl. 15:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.