AF STYRMI Í MANIPULY

Til er skemmtilegt spil sem heitir Monopoly þar sem sá sigrar sem eignast flestar götur, hús og eignir og nær með því yfirburðum gagnvart meðspilurum sínum. Í þessum leik gilda skýrar reglur, allir hafa sömu möguleika, fólk ræður sjálft hvort það tekur þátt og þegar leik er hætt standa allir upp jafn ríkir og þegar leikurinn hófst - því þetta er jú leikur.

Uppi í Hádegismóum situr ritstjóri sem í gegnum áratugina, allt frá því kalda stríðið stóð sem hæst, hefur þróað með sér áhugamál sem mætti kalla Manupuly. Þetta er leikur sem gengur út á að manipulera fólk, stjórnmálaflokka, samtök og atburðarás - að drottna yfir meðspilurum sínum.

Ólíkt fyrra spilinu ráða meðspilarar ritstjórans ekki hvort þeir eru með, í leiknum eru engar reglur, ritstjórinn hefur yfirburðastöðu sem stjórnandi fjölmiðils og innmúraður valdamannavinur og þegar leiknum er lokið standa þeir sem ritstjórinn dró inn í leikinn oftar en ekki níddir eftir.

Finnur Þór Vilhjálmsson lýsir þessu frá öðru sjónarhorni í ágætum pistli sínum, Styrmir býr til strámann. Ég hvet fólk til að lesa pistil Finns en þar notar hann þráð ritstjórans undanfarna daga til að skýra út spunafræði ritstjóra Morgunblaðsins.

Mér hefur lengi verið ljóst að hinn innmúraði ritstjóri er haldinn drottnunaráráttu á alvarlegu stigi og að hann skeytir hvorki um skömm né heiður, hvað þá eðlilegar siðareglur fjórða valdsins eða sanngirni í upplýstri umræðu. Líklega hefur hann aldrei beðið þess bætur að vera aðalplottari Sjálfstæðisflokksins á dögum kalda stríðsins og innmúraður vinur ónefnds aðaldrottnara í sama flokki til margra ára. Ef til vill hefur von hans um frama í stjórnmálum, sem strandaði margt fyrir löngu, einnig ýtt undir þörf ritstjórans til að deila og drottna á bak við tjöldin.

Við þessu er svo sem ekki margt hægt að gera, ekki er hægt að skrifa bloggfærslu eða grein í hvert skipti sem afstyrmislegt plott birtist í nafnlausum leiðurum eða Staksteinum Morgunblaðsins. Því í hvert sinn sem maður bölvar fitnar púkinn á fjósbitanum, svo vitnað sé í visku úr íslenskum þjóðsagnaarfi.

Það er hins vegar hægt að ákveða með sjálfum sér að nú nenni maður ekki að taka þátt í þessu lengur. Ef Árvakur, eigandi Morgunblaðsins, vill styðja svona ritstjóra til starfa þá vil ég ekki vera áskrifandi að Morgunblaðinu. Ég hef því sagt blaðinu upp. Ef áframhald verður á spunaleikjum í skjóli Árvakurs mun ég einnig íhuga að sniðganga þær vörur og þjónustu sem auglýst er í Morgunblaðinu.

Sjálfstæðisflokkurinn ætti einnig, að mínu mati, að íhuga það vandlega hvort klækjasýki ritstjórans er flokknum til framdráttar. Af öllum sólarmerkjum að dæma virðist þjóðin hafa fengið sig fullsadda af slíku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verst að ég sagði upp Mogganum f. 5 árum

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 13:56

2 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Þessi pistill Finns er tær snilld og segir allt sem segja þarf um þetta mál.

Sigurður Haukur Gíslason, 28.1.2008 kl. 14:37

3 identicon

Hvernig hyggst þú sniðganga vörur og þjónustu sem auglýst er í Morgunblaðinu ef þú segir áskriftinni upp? Ætlar þú sem sé að halda áfram að lesa blaðið en bara ekki kaupa það? Er þetta nú sterkt útspil? Mér þykir þetta heldur aumt.

Karl (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 14:45

4 identicon

Er það ekki sterkt útspila að hætta að borga fyrir blaðið, harðneita því að lesa það í könnunum en lesa það samt og sniðganga þær vörur og þjónustu sem er auglýst í blaðinu? Er ekki bara málið að láta hart mæta hörðu og fara í álíka herferð gegn Styrmi eins og hann hefur staðið fyrir gegn einum stjórnmálaflokki og þar af leiðandi um 30% þjóðarinnar sem kýs hann?

 Það hefur líka sýnt sig að leið Moggans hefur legið hratt og örugglega niður á við eftir að Styrmi varð einn ritstjóri þar, ef ég væri að stjórna þessu companíi þá væri ég löngu búinn að reka hann...

IG (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 15:23

5 Smámynd: Óðinn Þórisson

Mín ráðlegging til þín Dofri er að hringja strax í áskriftardeild Morgunblaðsins og gerast áskrifandi aftur.
Mikilvægt er að ekki verði frekari breytingar í borgarpólitínni á þessu kjörtímabili, þetta er orðið ágætt enda samkvæmt óskari bergssyni er framsóknarflokkurinn óstarfhæfur vegna innanflokksátaka því lítið annað í stöðunni en að þessi meirihluti fái að starfa í friði og ró til loka kjörtímabilsins.

Óðinn Þórisson, 28.1.2008 kl. 16:17

6 identicon

Styrmir má hafa sínar skoðanir í friði fyrir mér og hann má vera ritstjóri Morgunblaðsins til eilífðarnóns án þess að ég hafi nokkuð við það að athuga.  Ég sé afturámóti ekki ástæðu til að vera áskrifandi að því sem hann skrifar - mínum peningum er betur varið til annars en að taka þátt í rekstri hans.

Björgvi Valur (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 17:32

7 identicon

Dharma, Er eitthver að tala um að takmarka málfrelsi Styrmis? Það er mikilvægt að tryggja málfrelsi. En það, eins og annað frelsi, er bæði hægt að nota til góða og slæms, og þegar það er misnotað af einum öflugasta fjölmiðli landsins að þá við því að búast að fólki misbjóði það.

Varðandi mótmælin í Ráðhúsinu að þá voru það ansi mikið fleiri en einn 1. bekkur í MR sem mætti. Þó ekki nema vegna þess að í MR er enginn 1. bekkur.

Ingi (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 20:06

8 Smámynd: Karl Ólafsson

Afstyrmi? Góður titill á færslunni :-)

Karl Ólafsson, 28.1.2008 kl. 20:30

9 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Hefur einhver athugað flokksskírteini gömlu konunar sem altaf er verið að vitna í ?

Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 29.1.2008 kl. 07:53

10 identicon

„Ekki talar Styrmir fyrir munn ALLRA Sjálfstæðismanna, síður en svo. Hann er einn úti í horni, síðasti fulltrúi einhvers "arms" innan Sjálfstæðisflokksins sem dó út fyrir 20 árum síðan. Aðhlátursefni. Væri svona svipað og ef Einar Olgeirsson færi að tjá sig að handan um nútímastjórnmál og við Sjálfstæðismenn yrðum ábúðarmiklir og hneykslaðir. Sennilega er Styrmir eini núlifandi Íslendingurinn sem flokkar stjórnmálamenn í Valtýinga og Heimastjórnarmenn, og meinar það.“

Þarna finnst mér Dharma komast vel að orði og skynsamlega. 

Benedikt (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband