Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og borgin

Hún er ánægjuleg fyrir Samfylkinguna könnunin í Fréttablaðinu í dag en fylgi hennar á landsvísu er nú 34,8% og hefur aukist um 5% frá því í lok september. Fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar nokkuð, er 36,7% og hefur minnkað um 3,5% á landsvísu frá því í lok september. Samkvæmt könnuninni er ekki marktækur munur á fylgi þessara flokka. 68,5% styðja ríkisstjórnina.

Það er athyglisvert sem fram kemur í Fréttablaðinu að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað um 9% á höfuðborgarsvæðinu frá því í síðustu könnun í lok september. Var í 40,4% en hefur hrunið niður í 31.9%. Þetta hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir þá af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem stóðu að valdatökunni í Reykjavík nú í janúar.

Í þessu felast skýr skilaboð. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru miður sín yfir framgöngu flokksins við hina nýafstöðnu valdatöku. Lái þeim hver sem vill. Ólíkt borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins skeyta kjósendur hans um skömm og heiður og er ekki sama hvaða meðulum er beitt til að komast til valda. Taka jafnvel sæmd fram yfir völd ef bara annað er í boði.

Þá er ekki ólíklegt að þeim þyki verðmiðinn hár fyrir lítt eftirsóknarverða pólitíska endurlífgun Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar og raunalegt að 6 menningarnir svokölluðu skyldu ekki nýta afganginn af kjörtímabilinu til að klára leiðtogabaráttu sína, byggja aftur upp traust á sér sem samstilltum hóp og kasta rekunum yfir gamaldags spillingarpólitík.

Af þessu verður greinilega ekki, 6 menningarnir sem nú munu aðeins vera 5, fengu að vita af byltingu Baldurs og Konna með rétt nógum fyrirvara til að komast í sparifötin og skutlast upp á Kjarvalsstaði. Þar hafa þau fyrst fengið að vita að 10% maðurinn (6.527 atkvæði) yrði borgarstjóri, að baráttumálum þeirra hefði verið ýtt út í horn og svo korteri fyrir útsendingu að 10% maðurinn hefði ekki stuðning 1. og 2. varamanns síns. Þetta má lesa úr viðtölum við forsprakka valdatökunnar en ekki síður úr jarðarfararsvip 5 menninganna.

Samkvæmt könnun Fréttablaðsins er flestum kjósendum Sjálfstæðisflokksins í borginni eins innanbrjósts sem kemur heim og saman við það að ég hef ekki enn hitt einn einasta sjálfstæðismann utan veggja ráðhússins sem er ánægður með nýja meirihlutann. Og fáa innan sömu veggja - ef út í það er farið.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa sett sjálfan sig í 2. sæti í borginni til langrar framtíðar. Í mörgum skilningi.


mbl.is Fylgi Samfylkingar eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fylgi "hækkar" ekki eða "lækkar". Það eykst eða minnkar.

Karl (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 09:33

2 identicon

Það er ekkert skrýtið að fylgi með Samfylkinguna skuli aukast.  Solla hefur nefnilega ekki opnað munninn lengi.  Um leið og hún opnar munninn og segir eitthvað viskulegt, minnkar fylgið við Samfylkinguna. 

Þar að auki lítur út fyrir að þetta sé pöntuð skoðanakönnun.  Úrtakið er mjög lítið (800 manns) og sennilega allt af Höfuðborgarsvæðinu.  Þar að auki er 1/3 óákveðinir eða taka ekki afstöðu, þannig að einungis ca. 533 hafa svarað og tekið afstöðu.

Til að svona skoðanakönnun sé marktæk þarf úrtakið að vera mun stærra og þar að auki landsdekkandi. 

Það verður líka að taka með í reikninginn  að Samfylkingin er fyrst og fremst flokkur Höfuðborgarsvæðisins enda leggur flokkur þessi mikla rækt við þetta svæði, en er nákvæmlega sama um t.d. landsbyggðina og einhverja uppbyggingu þar og atvinnusköpun.  Samfylkingarfók veit sem svo að landsbyggðin skiptir það ekki máli, öll atkvæði þeirra koma hvort eð er af Höfuðborgarsvæðinu og því gefur Samfylkingin næstum því að segja skít í landsbyggðina. 

Ég hef til að mynda heyrt Samfylkingarfólk segja það að það eigi ekkert að vera að púkka upp á landsbyggðina, fólk þar eiga bara að drífa sig (nánast drulla sér) suður, þar sé hægt að fá nóg af húsnæði og vinnu.  Er þetta hið "fagra Ísland" sem Samfylkingin vill, Dofri??  Á landsbyggðiðna bara að vera einn allsherjar þjóðgarður og útivistarsvæði sem eigi einungis að vera opinn ca. 3 mánuði á ári???   

Hlynur Viðarsson (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 09:53

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Takk fyrir þetta Karl, það fer betur á því að hafa þetta svona.

Dofri Hermannsson, 31.1.2008 kl. 10:01

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þið eruð að verða samhljóma.. ég hef áhyggjur af því

góðir punktar hjá ykkur félagar.

Óskar Þorkelsson, 31.1.2008 kl. 11:21

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Margt er nú gott í þessum færslum tveggja andstæðinga í pólitíkinni.

Mér sýnist þó dágóður munur á D og S í afstöðunni til ESB.

Árni Gunnarsson, 31.1.2008 kl. 12:37

6 identicon

Alveg er það magnað hvað þessi Dharma getur rifið sig.

Hildur (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 15:52

7 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Ósköp er nú ánægjulegt að sjá hve Höfuðbólið og Hjáleigan koma vel útúr þessari skoðannakönnun og sýnir að stundum getur borgað sig uppskafningsflokk að stunda skæjulifnað með íhaldinu.

Jóhannes Ragnarsson, 31.1.2008 kl. 18:01

8 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Það sem gerðist í Reykjavík hefur skaðað alla borgarstjórn og þar er enginn undanskilinn.  Eini maðurinn sem þó hafði skoðun í REI málinu og stóð við hana hvort sem menn voru sammála honum eða ekki, Björn Ingi Hrafnsson, er horfinn á braut og eftir situr restin af hópnum.

Ef ég ætti að nefna hvern ég ætti að kjósa til borgarstjórnar í dag þá gæti ég það ekki.  Allir fulltrúar allra flokka hafa tapað trúðverðugleika undanfarna mánuði.  Trúverðugleika sem þarf töluvert langan tíma til að vinna til baka.

Dharma, ég er sammála þér að mörgu leyti um Villa en "Maðurinn sem ákvað, ásamt Bingó, að skammta sjálfum sér peninga í REI málinu" er rangt.  Hvorugur þessara manna skammtaði sjálfum sér eitt eða neitt í þessu máli.  Sú eina sem hefur skammtað sjálfri sér eitthvað í þessu máli, þ.e. setið báðum megin við borðið, er Svandís þegar hún skipaði OR í krafti eigendavalds síns að gera sátt við hana sjálfa og greiða 800 þúsund króna persónulegan reikning hennar vegna málskostnaðar í ónýtu máli sem hún stofnaði til í vitleysisgangi.  Það er eina tilvikið í REI málinu þegar einhver hefur setið báðum megin við borðið, þ.e. bæði ákveðið og hagnast persónulega á ákvörðuninni.

Villi klúðraði málinu hins vegar pólitískt með því að greiða atkvæði á eigendafundinum vitandi það að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna stæði ekki á bakvið hann heldur væri mjög ósáttur.  Það sprengdi allt í loft upp.  Hefði hann ekki gert það hefði þáverandi meirihluti getað frestað málinu, lagst yfir það í nokkra daga og líklega fundið lausn.  Það gerði hann hins vegar ekki.

Þá kom næsta sprengja þegar allir Sjálfstæðismennirnir fóru reiðir í viðtöl.  Maður fer aldrei reiður í viðtöl!  Þá sáum við "Albaníuaðferðina" þegar þeir máttu þeir ekki "drulla" yfir Villa þar sem hann var þeirra maður og því "drulluðu" þeir yfir alla aðra; Hauk Leósson, Guðmund Þóroddsson, Bjarna Ármannsson, verkefnið sjálft og svo að segja alla sem þeir gátu ráðist á aðra en þann sem raunverulega hélt um stýrið, tók ákvörðunina og greiddi atkvæðið á eigendafundinum, Villa borgarstjóra.

Þegar þú a) kvartar yfir að hafa engar upplýsingar um verkefnið og b) segir á sama tíma að verkefnið sem þú segist ekki hafa neinar upplýsingar um sé svona eða hinsegin þá getur það ekki endað vel.

Úr þessu varð einn allsherjar ófrýnilegur blóðgrautur, svona eins og þegar maður tekur slátur.  Gusurnar af þeim graut stóðu í allar áttir og leka enn niður andlit borgarfulltrúa allra flokka.

Það er nefnilega þannig að þegar menn hætta að fjalla um mál út frá málefninu sjálfu og fara að öskra "spilling" og "óheiðarleiki" í allar áttir þá næst engin vitræn niðurstaða.  Enda hefur hún ekki náðst í þessu máli.  Það sem náðist hins vegar var að rýja borgarfulltrúa allra flokka trúðverðugleika sínum.  Þeir hafa nú tvö og hálft ár til að ná honum aftur.  Ég efast um að öllum takist það.  Ég efast líka um að þau muni öll vilja bjóða sig fram aftur.  Þetta hefur verið verulega persónulega erfitt kjörtímabil fyrir borgarfulltrúa Reykjavíkur.  Ég efast líka um að þau sem bjóða sig fram aftur muni öll fá góða kosningu í næstu kosningum.  Ég held að grasrótin eigi eftir að verða drastískari en oftast áður í vali sínu á frambjóðendum (svolítið eins og í USA þessa dagana - hverjum hefði dottið það í hug í síðustu kosningum að valið stæði á milli konu og svertingja í forsetakjörinu - talandi um að kjósendur vilji breytingar!).  Það er nefnilega ekki svo auðvelt að smíða sér trúverðugleika þegar honum hefur einu sinni verið fleygt fyrir róða.

Nú bíðum við eftir því hver niðurstaðan verður gagnvart OR.  Verður þetta flaggskip reyrt niður og gert að afdankaðri stofnun sem ekki getur barist á frjálsum markaði um sína sérfræðinga og blæðir því út eins og leikskólarnir, hjúkrunarheimilin og aðrar stofnanir Reykvíkinga eða verður haldið áfram þeirri uppbyggingu sem staðið hefur undanfarin ár.  Í augnablikinu er hvort tveggja líklegt.  Kjartan Magnússon, nú fáum við að sjá hvað í þig er spunnið þegar í harðbakkann slær.  Nú er Reykjavíkurborg að taka 1,5 milljarða á ári út úr OR og er það vel.  Það efast fáir um að sú upphæð muni lækka verulega á næstu tíu árum verði fyrirtækinu skutlað aftur um 10 ár og því breytt í stofnun.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 31.1.2008 kl. 19:29

9 Smámynd: Dofri Hermannsson

1,5 milljarðar - það dugar til að kaupa og gera upp 3 hús við Laugaveginn!!!

Dofri Hermannsson, 31.1.2008 kl. 23:37

10 identicon

Góðir pistlar hjá ykkur Dofri, Dharma og Sigurður.   

Ég er hræddur um að greining Dharma á Villa Vinstri sé nokkuð rétt, líka hvað varðar úthlutun verðmæta til náinna aðila, t.d. Villi til systkinabarns og Bingi til kosningastjórans síns, sem fengu góða pakka hjá REI í formi vellaunaðra starfa og kaupréttarsamninga, sem var að margra áliti mjög óverðskuldað.   Þá held ég að ekki sé öll kurl komin til grafar ennþá og spurning hvort skýrsla Svandísar (sem líka kemur illa út úr þessu máli) komi til með að varpa einhverju frekara ljósi á hlutina sem gerðust hjá þessu sukkbæli, sem OR hefur verið síðustu ár.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 00:33

11 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það er langt í næstu kosningar. Nýji meirihlutinn mun láta verkin tala enda með málefnasamning sem 100 daga kvartedinn tókst ekki að gera enda mjög sundurleitur og ósamhentur hópur sem hékk saman á völdunum.
Þó það megi kanski eitthvað deila á ákveðin vinnubrögð þá held ég að aðalmálið er það að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn aftur til valda og Reykvíkingar eiga eftir að njóta góðs af því, kanski kemur 8 maðurinn upp úr kjörkössunum næst.

Það væri mjög skynsamlegt hjá Villa að gefa borgarstjórastólinn eftir til Hönnu Birnu og hann fari sjálfur í langt frí frá pólitíkinni.  

Óðinn Þórisson, 1.2.2008 kl. 11:22

12 Smámynd: Dofri Hermannsson

Þetta er mikil óskhyggja hjá þér Óðinn, Tjarnarkvartettinn var nefnilega mjög samhentur hópur og hafði komið gríðarlega miklu af stað þegar Sjálfstæðismenn hrifsuðu völdin til baka.

Sundurlyndið er hins vegar vörumerki borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Þar trónir Villi efstur í óþökk allra hinna og það er rétt að flokkurinn myndi græða á að Hanna Birna tæki við stjórnartaumum. Um þetta mun hins vegar ekki nást nein sátt því Gísli Marteinn er í hörðum slag við Hönnu Birnu um leiðtogasætið. Eins og flestum er ljóst gengur Júlíus Vífill líka með draum um borgarstjórann í maganum. Restin tvístígur og klórar sér í hausnum á milli þess sem þau tjá sig opinberlega um tilfinningakrísur sínar út af öllu klúðrinu og óeiningunni.

Ég held þið megið teljast góð ef þið náið 6 mönnum 2010.

Dofri Hermannsson, 1.2.2008 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband