"Lumar þú á vísu eftir Sigga í Krossanesi?"

Að þessu spyrja Skagfirðingar á skagafjordur.com en Sigurður Óskarsson í Krossanesi var kunnur hestamaður og hagyrðingur, lífsglaður og með húmorinn í lagi eins og Skagfirðingar eru frægir fyrir. Samkvæmt fréttinni er dóttursonur hans, Sigurður Þorsteinsson, núna að safna saman vísum eftir afa sinn og er stefnt að því að gefa safnið út á bók í haust.

Siggi í Krossanesi og Sveinbjörn Beinteinsson, allsherjargoði, ortust á. Einhvern tíma á vormánuðum þurfti Sveinbjörn að leggjast inn á spítala vegna aðgerðar á viðkvæmum stað. Eftir að búið var að gera að sárum hans mun hann hafa sent Sigga vini sínum þessa vísu:

Sjúkrahúspíunum seint mun ég gleyma
sárlega fór mig að langa í geim.
Þær tjóðruðu Grána í túninu heima
til að hann færi ekki í blettinn hjá þeim.

Siggi í Krossanesi sendi vini sínum þessi huggunarorð til baka:

Það hlýnar og fer að hlána
það hlakkar í mér og þér.
Úr túninu taka þær Grána
og teyma í blettinn hjá sér.

Eins og segir á vef Skagfirðinga átti Siggi fleiri strengi í hörpu sinni s.s. þessi ber vitni um:

Ég sef ekki seinnipart nætur
er sólin á himninum skín.
Guð ekki gleyma sér lætur
gleðina sendir til mín.

Í gullmolum hagyrðinga víða um land eru mikil verðmæti fólgin. Mörgum yfirsést þetta en það er mikil list að orða hnyttna eða ljóðræna hugsun þannig í fjórum stuttum línum með ljóðstöfum og rími að allt komist laglega til skila. Snjallar vísur eru þess vegna mikil verðmæti í sjálfu sér.

Ekki er síður verðmætt að vísurnar geyma oft lýsingar á atburðum og viðhorfum fólks sem lifði í öðru umhverfi en við flest lifum í dag. Stundum er það því eins að heyra góðar vísur og að fara í tímaferðalag og fá að horfa á lífið og tilveruna með augum skáldsins.

Sumarið 2006 gengum við nokkur Austurdal í Skagafirði undir leiðsögn kunnugra heimamanna. Víða var stoppað til að segja sögur af fornri byggð eða atburðum úr göngum. Fjölfróðir leiðsögumennirnir, sjálfir gangnamenn til margra ára, skreyttu sögur sínar með vísum eftir Sigurð Hansen, Bólu Hjálmar og aðra snjalla menn.

Skrambi gaman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir skemmtilega færslu Dofri.

Vísuna eftir Sveinbjörn hef ég heyrt, en ekki þessa sem þú hefur eftir Sigurði í Krossanesi. Í svipuðum anda er vísa sem ég heyrði eitt sinn hafða eftir Steingrími í Nesi (veit þó ekki hvort hún er rétt feðruð). En hún varð til í veiðiferð þegar maður að nafni Óttar sást á fjórum fótum framan við skráargat ráðskonunnar að kíkja:

Óttan bláa ekki dimm

augað gráa natið.

Óttar lá á fótum fimm

framan við skráargatið.

 Kveðja að vestan.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.2.2008 kl. 10:57

2 Smámynd: Dofri Hermannsson

Mér var tjáð af vísum manni að það sé útbreiddur misskiliningur að fyrri vísan um sjúkrahúspíurnar og Grána sé eftir Sveinbjörn Beinteinsson. Sveinbjörn mun sjálfur hafa sagt Einar Jónsson frá Litlu Drageyri vera réttan höfund vísunnar.

Ekki rengjum við allsherjargoðann og höfum það sem sannara reynist.

Dofri Hermannsson, 4.2.2008 kl. 21:19

3 Smámynd: Eyþór Árnason

Drjúgur reyndist Dalurinn

dreifðist um hann svitinn.

Þungur þótti malurinn

þjakaði mann hitinn.

Þetta varð til eftir Austurdalsgöngu árið 2003. Kveðja.

Eyþór Árnason, 4.2.2008 kl. 22:52

4 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Skemmtilegar vísur. Það hefur löngum verið árátta okkar íslendinga að kasta fram stökum. Fyrir nokkrum árum keypti ég mér nýjar rúmdýnur. Ein vinkona mín var með skens og sagði að sig undraði ekki að mínar rúmdýnur væru slitnar. Gaf svona eitt og annað í skyn. Ég sendi henni bara vísu sem svar.

Raunamædd er rekkjan mín,

rifnar dýnur, það er að vonum.

Heldur betur það hefnir sín

að hamast svona á mörgum konum.

Sigurður Sveinsson, 5.2.2008 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband