Að bresta í söng

Stundum er lífið lyginni líkast og eftir atburði síðustu vikna í borgarmálunum kemur manni fátt á óvart. Atburður þessa morguns fannst mér þess vegna í fullu samræmi við lífið og tilveruna.

Ég var á gangi yfir Arnarhól til vinnu minnar þegar ég sá hárprúðan sjálfstæðismann á sjötugsaldri á leið til sinnar vinnu koma á móti mér. Rétt í þá mund sem við mætumst við styttuna af Ingólfi stoppar maðurinn og ræskir sig. Ég hélt að hann vildi hafa af mér tal og stoppaði líka en það reyndist misskilningur af minni hálfu.

Maðurinn breiddi þess í stað út faðminn á móti borginni og brast í söng. Lagið var hið hugljúfa lag Þorsteins Guðmundssonar við ljóð Reykjavíkurskáldsins Tómasar um Hönnu litlu, lag sem margir hafa sungið og ef til vill best okkar ástsæli söngvari Vilhjálmur Vilhjálmsson. 

Í söngleikjum brestur fólk í söng þegar venjuleg orð eru ekki nægilega sterk til að lýsa tilfinningum manna. Svo virtist einnig vera í þessu tilviki. Söngurinn kom frá dýpstu hjartans rótum og stundin var svo mögnuð að mig langar til að deila henni og ljóðinu með lesendum síðunnar.

Hanna litla

Hanna litla! Hanna litla!
Heyrirðu ekki vorið kalla?
Sérðu ekki sólskinshafið
Silfurtært um bæinn falla?
Það er líkt og ljúfur söngur
Líði enn um hjarta mitt,
ljúfur söngur æsku og ástar,
er ég heyri nafnið þitt!

Hanna litla! Hanna litla!
Hjartans barnið glaðra óma.
Ástarljóð á vorsins vörum.
Vorsins álfur meðal blóma.
Þín er borgin björt af gleði.
Borgin heit af vori og sól.
Strætin syngja. Gatan glóir.
Grasið vex á Arnarhól.

Hanna litla! Hanna litla!
Herskarar af ungum mönnum
Ganga sérhvern dag í draumi,
Dreyma þig í prófsins önnum.
Og þeir koma og yrkja til þín
Ódauðlegu kvæðin sín.
Taka núll í fimm, sex fögum
Og falla - af tómri ást til þín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Humm... þú + sjálfstæðismaður = Arnarhóll.  Sungið um Hönnu (Birnu?)

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 10:46

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

 Dásamlegt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 6.2.2008 kl. 10:52

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta hlýtur að hafa verið skemmtileg og óvenjuleg upplifun... og örugglega ógleymanleg.
Ætli þetta hafi verið Dharma...? Var þetta fyrir eða eftir sextugsafmæli foringjans?

Lára Hanna Einarsdóttir, 6.2.2008 kl. 11:03

4 Smámynd: Gísli Hjálmar

Eru allir orðnir nett geðveikir, eða er þetta bara normal uppákoma hjá Íhaldinu?

Gísli Hjálmar , 6.2.2008 kl. 11:36

5 identicon

Var þig ekki að dreyma? Eða er þetta prufukeyrsla á handriti að nýstárlegum sjónvarpsþáttum með kabarettívafi. Þessi karakter: Hárprúður sjálfstæðismaður á sjötugsaldri + á leiðinni í vinnuna á Arnarhóli + greinilega mjög skáldlegur og andríkur= Davíð Oddsson. Meira svona.

Ásdís A (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 12:41

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Gaman að þessu!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 6.2.2008 kl. 15:04

7 Smámynd: Ingólfur

Eftir umfjöllun kvöldsins um REI skýrsluna að þá er ég ekki frá því að samflokksmenn forsöngvarans af Arnarhóli hafi tekið rösklega undir og nú ómi bakraddirnar um bloggheima.

Ingólfur, 6.2.2008 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband