Stefna Íslands í ferðaþjónustu- og náttúruverndarmálum

Við ættum að stefna að þeirri framtíðarsýn að á hálendi Íslands, á Vestfjörðum, Reykjanesskaga og víðar verði þéttriðið net þjóðgarða, verndarsvæða og þemagarða. Þarna er ekki verið að tala um svokallaða "skúffuvernd" þar sem látið er nægja að kalla þetta verndað svæði á pappírnum heldur verður sett fjármagn í að byggja upp aðstöðu fyrir ferðafólk, ráða starfsfólk til eftirlits og leiðsagnar o.s.frv. Að sjálfsögðu ætti svo að kosta eitthvað að fara inn á þessi svæði.

Nú rísa sjálfsagt einhverjir upp á afturlappirnar, "eigum við frjálsbornir Íslendingar ekki rétt á að ferðast um okkar eigið land..." segja þeir. Og jú vissulega eigum við (og frjálsbornir útlendingar líka) rétt á því. En hvaða vit er í því að hafa enga stjórn á því hver fer hvert og á hvaða farartækjum?

Af hverju erum við til í að nota hálfa milljón aukalega í að eiga jeppa í stað fólksbíls, kaupa olíu á bílinn fyrir 40 þúsund krónur og útivistargalla fyrir annað eins til að komast upp á hálendi að skoða t.d. Torfajökulssvæðið en við erum ekki til í að borga krónu fyrir að vera viss um að það verði þarna óskaddað þegar við komum?

Væri ekki allt í lagi að borga einhverja sanngjarna upphæð fyrir að fá að fara um þessi svæði ef peningarnir fara í þjóðgarðsvörslu, þjónustu við ferðafólk og aðstoð ef fólk lendir í vanda? Við þurfum að marka okkur alvöru stefnu í þessum málum sem allra fyrst. Þarna þurfa reyndar að falla saman í eina harmoníu stefnur í ferðamálum, náttúruverndarmálum, byggðamálum, samgöngumálum og orkumálum. Það er ekki seinna vænna að byrja.

Á svipuðum nótum skrifar Stefán Jón Hafstein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni "Þróunaraðstoð við Ísland?".  Ágæt grein.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein hjá Stefáni Jóni. Þar er lýst eftir kjarki til að taka raunhæf skref til verndar einnar mestu auðlindar sem við eigum, hálendinu. Íslenska náttúran er einstæð og gildi hennar til fræðslu, upplifunar og þess að njóta er ómetanlegt og fer bara vaxandi. Til þessa hafa flest skref verið ansi hæg og hikandi, kjark hefur skort til að taka ákvarðanir sem munar um ekki síst ef þær eru kannski óvinsælar í bili og stjórnvöld hafa verið fremst í flokki þeirra sem hafa ekki sýnt dug og metnað í þessu máli. Fjárframlög til umhverfisverndar og landvörslu tala þar skýru máli. Því hefur oftast ekki verið hægt að fylgja því eftir sem komið er í gang af metnaði og framsýni og illa gengið að þróa verndun, fræðslu og afþreyingu í náttúru landsins. Fyrir stjórnvöldum þessa lands hefur skammtímagróðinn verið allt, einblínt á virkjanir og patentlausnir og þá er ekkert heilagt. Og við verðum að spyrja hvort nokkuð hafi í raun breyst síðan um kosningar, nú þegar sótt er að öllum háhitasvæðum með virkjanaáform, hvort heldur sem er á Reykjanesskaga eða í Þingeyjarsýslu. Hvergi má renna spræna svo menn vilji ekki djöflast eitthvað með hana til og frá og alltaf er látið eins og við séum alveg að falla á tíma. Gallinn er að ég er ekki viss um að staðan sé nokkur tryggari undir núverandi stjórn en þeirri síðustu. Kannski verður samt greinin hans Stefáns Jóns til að ýta við félögunum í ríkisstjórninni og skerpa þau öfl í flokknum hans sem vilja horfa fram á veginn og vernda með myndarbrag íslenska náttúru. Kannski. Vonandi!

Friðrik Dagur Arnarson (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 10:53

2 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Hjartanlega sammála! Miðað við að ferðaþjónustan er ört vaxandi atvinnugrein og á framtíðina fyrir sér, þá er mér með öllu óskiljanlegt að yfirvöldin styrkja þetta ekki amk. með jafn háum framlögum og er ausið í stóriðju.

 Auðvitað þarf að vernda okkar sérstaka náttúru - eða það sem er eftir af henni - með myndarlegum hætti. Það er alveg af og frá að hver maður fær að valsa um hálendið alveg eins og honum sýnist. Þetta hefur ekkert með frelsi að gera.

Úrsúla Jünemann, 22.2.2008 kl. 15:11

3 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Fín grein hjá Stefáni Jóni. Ég hef verið að velta fyrir mér samhenginu "stærstur í Evrópu!" nú í kjölfar þess að um 27 manns sóttu um stöðu framkvæmdastjóra nýja Vatnajökulþjóðgarðs.

Við vefvafur verður maður var við að stærðinni er hampað og mikið gert úr að Skaftafell national park eða Vatnajökull national park verði stærsti þjóðgarður Evrópu.

Ég leita og leita í skýrslum og fæ engan botn í hversu stór garðurinn (eftir nýskilgreiningunni) á eiginlega að vera eða er orðinn.

Í skýrslu Rögnvaldar Guðmundssonar um áhrif Vatnajökulsþjóðgarðs á ferðaþjónustu/ferðamennsku er talað um að hann eigi að vera 10.500 km2 en í skvt. tillögur ráðgjafarnefndar umhverfisráðherra um þjóðgarðinn frá lokum 2006 er talað um að náist samningar við landeigendur muni garðurinn verða 13.433 km2 á  þeim fjórum rekstrarsvæðum sem lögð er til.

Donana National park á Spáni hefur hingað til verið einn sá stærsti í Evrópu, með Vodlozero national park í Karelíu Rússlandi fast á eftir. Það er enginn spurning að fróðlegt væri að vita hver varð niðurstaðan um stærð garðsins þegar upp var staðið. Og þó ég sé ekki húkked á stærð fremur glöð yfir að sérstaða þessa landssvæðis skuli hafa verið metin að verðleikum og þjóðgarðurinn stækkaður skiptir hún (stærðin) máli þegar að menn berja sér á brjóst og tala um stærst í einhverju samhengi að það sé rétt farið með.

Anna Karlsdóttir, 22.2.2008 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband