Ótrúverðug svör, flóttaæfingar og væl

Það hafa svo sem ekki verið jólin hjá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins undanfarnar vikur. Þau hafa eiginlega ekki brosað síðan fyrir Kjarvalsstaðafundinn - ekki brostu þau á honum, nema Villi og Kjartan.

Reyndar mátti sjá bregða fyrir brosvipru á andliti Hönnu Birnu þegar hún fékk afgerandi stuðning í skoðanakönnun í vikunni. En hún vissi að það var óviðeigandi að gleðjast yfir því, af því allt er nú eins og það er, þannig að brosið gufaði upp.

Hún segist auðvitað vera ánægð með stuðninginn og mun að sjálfsögðu taka sæti borgarstjóra ef til hennar verður leitað. Þessu trúi ég vel. Hún segir hins vegar líka að ef Vilhjálmur velur að sitja áfram og taka sæti borgarstjóra eftir ár þá muni hún styðja hann heils hugar. Þessu trúi ég alls ekki - og reyndar held ég að það trúi því ekki nokkur maður, að Hönnu Birnu sjálfri meðtalinni.

Svona talar Gísli Marteinn Baldursson líka og ég trúi honum ekki heldur, eins og mér finnst hann nú oft trúverðugur og fínn. Af hverju segja þau ekki bara eins og er? "Villi hefur ekki reynst traustsins verður og við viljum að hann láti forystuhlutverkið af hendi." Það liggur í augum uppi að þetta er staðan. Er svona erfitt að segja það? Er virkilega á sig leggjandi að flýja fjölmiðlamenn út um kjallara, bakdyr og brunastiga a´la Annþór til að losna við svona spurningar?

Og hvað var þetta í gær út af bloggi Össurar? Nú ætla ég ekki að halda því fram að færslan um Gísla Martein í blóðugum riddarasögustíl hafi verið alger snilld og hugsanlega fór grínið alveg yfir strikið. (Skopskyn manna er mismunandi og að sumra áliti eru Spaugstofumenn hatursmenn en ekki spaugarar.) En að senda Sigurð Kára tárvotan í tvo umræðuþætti til að tala um skammarlegt hneyksli og aðför að vesalings Gísla Marteini fannst mér líka skot yfir markið. Eiginlega óttalegt væl.

Ætti ekki Sjálfstæðisflokkurinn frekar að ræða á fundum sínum hvort og þá hvernig þeir ætla að koma á alvöru stjórn í borginni? Ættu borgarfulltrúarnir ekki að reyna að segja Vilhjálmi eins og er um hvort þeir styðja hann eða ekki? Þá þarf hann kannski ekki allt þetta andrými og borgin þarf ekki að bíða í kyrrstöðu á meðan.

Þá geta þeir kannski tekið næsta skref, að koma sér saman um hvert þeirra sest í borgarstjórastólinn þegar Ólafur F er búinn með sinn tíma í stólnum - gjaldið fyrir meirihlutasamstarfið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband