Stöðugleika takk - ekki afréttara

Það er gott að Illugi og Bjarni tjái sig um hvað þeir vilja gera til að efla bankana. Án öflugra banka og fjármagns á viðráðanlegum kjörum fara hjól efnahagslífsins í hægagang. Hitt er svo annað mál að undanfarin ár hefur almenningur og smærri fyrirtæki verið að taka lán á óeðlilega háum vöxtum.

Íbúðalán með 7% vöxtum ofan á 4% verðbólgu er okurlán þegar sambærileg lán í Evrópu eru um 3% án verðtryggingar. Bankarnir segja þetta vera fórnarkostnað krónunnar en marga grunar að samkeppnin sé e.t.v. ekki næg á þessum hluta markaðarins. Illugi og Bjarni hafa horn í síðu Íbúðalánasjóðs en margir spyrja sig á móti hvort samkeppni bankanna væri nokkur yfir höfuð ef Íbúðasjóður væri ekki til að veita þeim aðhald.

Ýmsir málsmetandi stjórnmálamenn, einkum í Sjálfstæðisflokki, tala nú um nauðsyn þess að fá innspýtingu í efnahagslífið í formi erlendrar fjárfestingar - og eiga þá einkum og sér í lagi við álver. Þessu er ég ekki alls kostar sammála.

Í fyrsta lagi tel ég að stór innspýting sé ekki það sem við þurfum á að halda, heldur jafnvægi. Við erum enn með hæstu stýrivexti í heimi, efnahagslífið hefur verið á gríðarlegum yfirsnúningi, viðvarandi mannekla í fjölda atvinnugreina og viðskiptahallinn hefur slegið hvert metið af fætur öðru.

Erlend fjárfesting er jákvæð en álver er ekki eina leiðin til að ná í erlent fjármagn. Í upphafi var talið að um 40% af fjárfestingunni í stóriðjuframkvæmdunum fyrir austan myndu skila sér inn í íslenskt efnahagslíf. Reyndin varð um 20%.

Ef fyrirtækjum sem þess óska yrði leyft að gera upp í erlendri mynt myndi slíkt auðvelda mjög erlenda fjárfestingu í íslenskum fyrirtækjum. Líklega myndi slíkt leyfi skila mun meira erlendu fjármagni inn í efnahagslífið á næstu misserum en álver í Helguvík.

Þegar Finnar lentu í falli Rússamarkaðarins og efnahagskreppu í kjölfarið juku þeir framlög í rannsóknir og þróun um allan helming. Afraksturinn af því var einn sterkasti hátækni- og þekkingariðnaður í heimi.

Af hverju setjum við Íslendingar ekki aukið fjármagn í rannsóknir og þróun? Þar er iðulega unnið í samstarfi við erlenda aðila sem taka með sér umtalsvert fjármagn inn í landið. Verðmætasköpun í hátækni- og þekkingariðnaði er þreföld á við stóriðjuna og í þessum geira er unga menntaða fólkið okkar - fólkið sem við ættum að byggja framtíðina á.

Við sjáum hvað kvikmyndaiðnaðurinn hefur tekið við sér. Þar er formúla sem virkar og ekki er hægt að segja að Ísland tapi á þeim viðskiptum - fyrir u.þ.b. hver 20% af kostnaði kvikmyndar sem greiddur er með innlendu fé koma um 80% á móti af erlendu fé.

Við eigum ekki að líta á efnahagslífið sem túramann sem er að þynnast upp og þarf að fá sér vænan sjúss á formi álvera og olíuhreinsunarstöðva. Það væri nær að líta á efnahagslífið sem heilsuræktarmann sem þarf að borða fjölbreytt fæði og borða oft og reglulega.

Við þurfum að ná stöðugleika.


mbl.is Brýnt að grípa strax til aðgerða vegna bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Ágæt samlíking hjá þér með túramanninn- þjóðarlíkaminn er kominn að fótum fram og þetta langa „fyllerí“, sem byrjaði í Seinni Heimsstyrjöldinni og stendur enn, er orðið nokkuð gott. Nú er kominn tími á alls herjar meðferð!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 26.2.2008 kl. 13:19

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Hvaða bankar eru það í Evrópu sem bjóða upp á 3% vexti.  Endilega að setja inn hlekki á þá.  Það eru upplýsingar sem kæmu öllum vel.

G. Tómas Gunnarsson, 26.2.2008 kl. 19:59

3 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Sæll Dofri

Þú segir:"Ýmsir málsmetandi stjórnmálamenn, einkum í Sjálfstæðisflokki, tala nú um nauðsyn þess að fá innspýtingu í efnahagslífið í formi erlendrar fjárfestingar - og eiga þá einkum og sér í lagi við álver. Þessu er ég ekki alls kostar sammála". ´

Ertu farinn að sjá kostina við stóriðju?

Tryggvi L. Skjaldarson, 26.2.2008 kl. 20:33

4 Smámynd: corvus corax

Ég held að þetta sé einmitt rétt hjá þér Dofri, sjálfgræðgismenn vilja núna innspýtingu í efnahagslífið svo bankarnir sem þeir gáfu vinum sínum geti okrað meira í vöxtum á almennum viðskiptaþrælum sínum. Samkeppni væri engin ef bankarnir gætu haft sín samráð um íbúðalánavexti þegar íbúðalánasjóður væri ekki lengur að þvælast fyrir með lága vexti sem reyndar eru okurvextir miðað við hinn siðmenntaða heim ef út í það er farið. Bankahyskið er búið að moka milljörðum í eigin vasa og vina sinna og ekki naut almenningur þess á nokkurn hátt en varð að láta bjóða sér vaxtaokur á meðan sömu bankar buðu miklu lægri vexti á almennum markaði í útlöndum. Og svo þegar þeir eru búnir að spila rassgatið úr buxunum á ríkið (þ.e. við íslenskur almenningur) að borga brúsann í gegnum ríkissjóð og einhverjar reglugerðatilfæringar með hagsmuni bankanna að leiðarljósi. Við heimtum afnám verðtryggingar og að bankarnir taki sinn hlut af áhættu í viðskiptum eins og annars staðar í heiminum en fái ekki endalausar tryggingar frá þriðja aðila í gervi ættingja og vina lántaka eða elliærum öfum og ömmum sem er nauðungarkrafa á hendur viðskiptaþrælanna sem ætti alfarið að banna. Lánaviðskipti innlána og útlána eiga að vera á milli banka og viðskiptaþræls en ekki með margföldum tryggingum fyrir hlut bankans frá mörgum ættliðum viðskiptaþrælsins.

corvus corax, 26.2.2008 kl. 21:39

5 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Jammm. Ég held að aukinn stuðningur við að íhuga inngöngu í Evrópubandalagið, stafi m.a. af því að almenningur í þessu landi er farinn að skilja (sem hann hefur grunað lengi) að það er ekki farið að eðlilegum verkreglum á þessu landi. Ekkert fengum við fá bönkunum meðan að vel gekk og nú eigum við að bjarga þeim. Og ekki hækka launin, verðbólgan maður!

Maður vonar, en er þó ekki alveg viss, að með því að ganga inn í samfélag siðaðra evrópumanna þá væri maður ekki fangi þeirra afla sem maka krókinn sama hvernig efnahagskerfið virðist hafa það. Augljóslega ekki hægt að treysta þingmönnum sbr. eftirlaunafrumvarpið sem æ sjaldnar er minnst á. Cirkus Borgarinnar sýnir líka að fólki er nú nánast sama um hag fjöldans eða hag flokksins en mest annt um sinn eiginn afturenda.  

Pétur Henry Petersen, 27.2.2008 kl. 16:19

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þar sem enginn linkur er kominn á banka sem býður upp á 3% vexti á húsnæðislán þá á ég ekki von á því að þeir komi héðan af, ég veit reyndar ekki um neinn banka í Evrópu sem býður upp á slík lán, en var að vona að þú gætir bakkað upp fullyrðingu þína.

Ég vil hins vegar benda þér á þessa frétt af mbl.is, það væri óneitanlega hagstætt að taka lán með 3% vöxtum, þegar verðbólgan er ríflega það.

Hins vegar langar mig líka til að benda þér á þessa síðu og síðan þessa

Hitt er svo auðvitað rétt að vissulega er umhverfið á eurosvæðinu hagstæðara lántakendum heldur en á Íslandi, en það er samt betra að fara rétt með, og ég treysti mér til að fullyrða að 3% lán eru ekki algeng á evrusvæðinu í dag og nokkuð langt frá því að teljast normið.  Svo ber líka að hafa í huga að yfirleitt hækka vextir umtalsvert, ef lántakandi vill binda þá til lengri tíma.

G. Tómas Gunnarsson, 29.2.2008 kl. 15:31

7 identicon

ER G. Tómas  mjög umhugað um að það verði áfram farið að leikreglum Sjálftökuflokksins og frjálshyggjukjaftæðið fái óhindrað að mergsjúga almenning? Það virðist vera viðkvæðið hjá hægrimönnum að þó svo illa hafi farið þá eigi bara að halda áfram á sömu braut, og nú skuli Íbúðalánasjóði fórnað á altari frjálshyggjunnar þó svo hún virki ekki. Skiptir engu máli, enda um trúmál að ræða. Almenningur hefur ekki haft neinn hag af þessari frjálshyggju heldur örfáir einstaklingar. Það hlýtur því að vera erfitt fyrir þá sem mest hafa akiterað fyrir frjálshyggjunni að horfa upp á herlegheitin. Vinstri menn marg vöruðu til dæmis við því að ekki ætti að selja alla bankana í einu, en það var ekkert hlustað á það. Hugsið ykkur að hlusta frekar á pólitíska ruglukolla og hugmyndasmið frjálshyggjunnar sem hafa haft hag örfárra einstaklinga að leiðarljósi, og þar er kvótinn stærsta dæmið á eftir bönkunum.  Þetta hefur snert réttlætiskennd þjóðarinnar og Það vita hægrimenn en verja þrátt fyrir það.

Valsól (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 17:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband