11.4.2008 | 00:07
Skrýtin tík
Ég hitti á þriðjudaginn góðan kunningja sem studdi mig með ráðum og dáð í prófkjörinu 2006 og hefur aldrei talið eftir sér að eiga opinská samtöl við mig um umhverfismál, hvort sem honum fannst ég og Samfylkingin standa sig vel eða illa.
- Ég sá þig í Kastljósinu, sagði hann.
- Jæja og hvað fannst þér? spurði ég. Það kom þögn og svo...
- Æææji Dofri! Það breytir engu þótt Steingrímur hafi ekki heldur treyst sér til að stoppa Helguvík og kannski er það alveg rétt að Þórunn hafi ekki getað úrskurðað öðru vísi, en þið sögðuð að þið vilduð ekki þetta álver og manni finnst bara skítt ef þið getið ekki stoppað það.
- Auðvitað er það skítt! Alveg hábölvað! sagði ég og hélt að það segði sig sjálft.
- Já ÉG veit að þér finnst það en þú sagðir það ekki í Kastljósinu. Þú sagðir bara að Vinstri græn væru ekkert betri en þið. Ef ég vissi ekki að þú ert þú þá hefði ég bara haldið að þetta væri einhver sjálfstæðis- eða framsóknarmaður!
- Þú meinar það, sagði ég og upp í hugann kom ákveðinn framsóknarmaður sem stöðugt var í sjónvarpinu að verja málstað flokksins þar til hann fékk fyrir hjartað. Ekki sérlega eftirsóknarvert að feta þá slóð - hvorki fyrir mig eða flokkinn.
Svona er hún skrýtin tík þessi pólitík. Manni er boðið í Kastljós til að svara fyrir Fagra Ísland og grípur fegins hendi tækifæri til að útskýra hvað það gengur út á en endar í stagli við Katrínu Jakobsdóttur um það hvort Vg hefði getað stoppað Helguvík ef Vg hefði verið í stjórn. Líklega hvorki jákvætt né uppbyggilegt - og ábyggilega ekki það sem fólk langaði að heyra.
Því langar mig að setja eftirfarandi fram í einni færslu:
- Afstöðu mína til Helguvíkur og álit á stöðunni (stutt útgáfa)
- Nokkrar línur um Fagra Ísland (enn styttri útgáfa)
Helguvík
Rétt eins og Steingrímur J gerði ég mér grein fyrir að það yrði erfitt að koma í veg fyrir byggingu álvers í Helguvík. Undirbúningur þess hófst 2006 og þegar ný ríkisstjórn tók við var a) búið að koma skipulagsvaldinu í hendur sveitarfélaganna, b) búið að setja lög um losunarheimildir sem segja fyrstur kemur fyrstur fær og c) framkvæmdin komin í matsferli. Til að stoppa þá framkvæmd með valdi hefði því þurft að setja afturvirk lög sem hvergi þykir sérlega góð latína. Ég taldi hins vegar alltaf og tel enn miklar líkur á að þessi framkvæmd sigli í strand vegna vandræða við orkuöflun og línulagnir.
Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að þegar erlendir fjárfestar komu í kynnisferð til Norðuráls í nóvember á síðasta ári hafi Árni Sigfússon sagt í söluræðu sinni að 1. áfangi væri bara formsatriði, 2. áfangi væri skammt undan og svo yrði stefnt á 400 þúsund tonn - "or why not 500.000!"
Ég held að fjárfestar í ævintýrinu ættu að hugleiða að það er tæpt að næg orka fáist í 1. áfanga og nánast útilokað að orka fáist í 2. áfanga. Hvað þá helmingi meira eins og Árni sagði í söluræðu sinni.
Ég tel líka að það verði stórkostlegum erfiðleikum bundið að ná sátt um línulagnir eftir endilöngum Reykjanesskaganum. Hugsanlega mun Landsnet þurfa að fara fram á eignarnám og mér finnst afar ólíklegt að ráðherra verði við beiðni um slíkt ofbeldi enda erfitt að sýna fram á brýna almannahagsmuni í því tilfelli frekar en í tilfelli virkjana í neðri Þjórsá.
Hins vegar er afar brýnt að náttúruverndarfólk í öllum flokkum jafnt sem óflokksbundið náttúruverndarfólk búi sig undir baráttu um þessi tvö atriði - orkuöflun og línulögnina. Það er gríðarlega mikilvægt - ef þessi framkvæmd fer í gegn - að standa vörð um náttúruperlur Reykjanesskagans sem þessir aðilar, Reykjanesbær, Garður, Norðurál, OR og HS, ýmist áforma að virkja eða leggja línur í gegnum.
Fagra Ísland
Í aðdraganda kosninga 2007 var allt náttúruverndarfólk, hvar í pólitík sem það stóð, uggandi yfir því að sífellt væru ný svæði tekin til orkunýtingar. Þess vegna lagði Samfylkingin megináherslu á Rammaáætlun um náttúruvernd þar sem verndargildi svæða yrði metið svo hægt væri að ákveða hvað skuli nýta með verndun og hvað með öðrum hætti. Þessi vinna er þegar komin af stað og á að ljúka í lok árs 2009. Á meðan henni stendur verður ekki farið inn á nein ný óröskuð náttúrusvæði en um þetta tvennt samdi Samfylkingin í stjórnarsáttmálanum.
Í Fagra Íslandi voru ákveðin svæði nefnd sem sérstök ástæða þykir til að vernda. Samtals 9 svæði. Í stjórnarsáttmálanum var ákveðið að tryggja vernd 6 af þessara svæða auk annarra sem ekki voru nefnd sérstaklega í Fagra Íslandi. Ég get því ekki sagt annað en að ég var og er afskaplega ánægður með að þessi gríðarlega mikilvægu meginatriði Fagra Íslands náðust inn í stjórnarsáttmálann.
Því er samt ekki að leyna að það þarf að gera margt fleira. Eitt allra brýnasta verkefnið er að stjórnvöld fái aftur vald á skipulaginu í stórum málum. Vinna við þetta er þegar hafin en Þórunn Sveinbjarnardóttir er með frumvarp í þinginu um Landsskipulag sem verður ofar aðalskipulagi sveitarfélaga.
Sú staðreynd að prívataðilar og misjafnlega fjölmenn sveitarfélög skuli geta vaðið áfram með framkvæmd án þess að sýna fram á orkuöflun fyrir alla framkvæmdina eða línulagnir að fyrirtækinu er það sem fólki ofbýður.
Það er freklegt brot gegn rétti almennings í landinu að orkufyrirtæki með misgóðar stjórnir geti valsað um náttúru landsins og borið fé á sveitarfélög til að láta þau "haga skipulagi sínu" þannig að það henti þeim og stjórnvöld hafi enga aðkomu að málinu.
Vonandi munu boðaðar breytingar Umhverfisráðherra á lögum um mat á umhverfisáhrifum og frumvarp um Landsskipulag breyta þessu og fá samþykki Alþingis sem fyrst.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:11 | Facebook
Athugasemdir
"Ég held að fjárfestar í ævintýrinu ættu að hugleiða að það er tæpt að næg orka fáist í 1. áfanga og nánast útilokað að orka fáist í 2. áfanga. Hvað þá helmingi meira eins og Árni sagði í söluræðu sinni".
Þetta hefði ég haldið að ætti að vera á sviði fjárfestanna eingöngu, þ.e. kaupanda og seljanda orkunnar, en ekki fyrir misvitra pólitíkusa að velta sér upp úr. Ég treysti bissnessmönnunum betur en pólitíkusum þegar kemur að umsýslu með fé.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.4.2008 kl. 00:22
Þú stóðst þig samt vel í Kastljósinu, og þér tókst, að ýta því að, afhverju þú varst þarna komin. Þó ítrekað hafi verið reynt að tala yfir þig, er þú skýrðir út, að þú hafir komið til að tala um Fagra Ísland. Þakka þér fyrir Dofri að rifja upp og lofa okkur að heyra þína sýn á þessi mál. - Vona að Umhverfisráðherra nái að leggja þetta frumvarp fram, svo hægt sé að samþykkja áður en þingi lýkur í vor, því það gerist alltaf svo mikið á meðan þingið er í fríi. - Gangi þér áfram vel í baráttunni. Kær kveðja.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 11.4.2008 kl. 00:27
Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál hér og nú. Ég varð fyrir þvílíku áfalli með úrskurð umhverfisráðherra að ég ætla ekkert að reyna að tjá mig um það alveg á næstunni. Á eftir að anda djúpt nokkrum sinnum í viðbót fyrst. En svo tek ég líka til máls og það hressilega, vænti ég.
EN... mig langar að varpa fram spurningu. Hvað varð um reglugerðir? Ég man ekki betur en að í gegnum tíðina hafi ráðherrar sett reglugerðir um allt milli himins og jarðar ef ákvæði í lögum heimiluðu ekki þetta eða hitt. Af hverju í ósköpunum gat Þórunn ekki sett reglugerð um málið? Geturðu sagt mér það?
Svo vil ég benda á atriði sem er MJÖG mikilvægt í öllu þessu ferlið. Sveitarfélagið Ölfus hefur með landssvæðið að gera þar sem fyrirhuguð Bitruvirkjun á að rísa - Ölkelduháls. Þann 19. mars sl. auglýsti sveitarfélagið breytingu á aðalskipulagi þar sem fyrsti liður breytinganna er að breyta svæðinu úr útivistarsvæði í iðnaðarsvæði. Liðurinn hljóðar svona:
"285 ha opnu, óbyggðu svæði á Bitru/Ölkelduhálsi sem að hluta er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar, er breytt í iðnaðarsvæði (I2) fyrir jarðgufuvirkjun."
Ekki einungis er þetta svæði útivistarperla á náttúruminjaskrá, heldur einnig grannsvæði vatnsverndar - sem nú stendur til að breyta í iðnaðarsvæði til að reisa þar brennisteinsvetnisspúandi jarðgufuvirkjun sem mengar allt suðvesturhornið til að framleiða rafmagn fyrir álver í Helguvík.
Í lok auglýsingarinnar stendur: "Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera skriflegar athugasemdir við aðalskipulagið. Frestur til þess að skila þeim inn er til 2. maí 2008"
Allir landsmenn hafa hagsmuna að gæta, og þá einkum íbúar suðvesturhornsins. Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að fara inn á heimasíðuna www.hengill.nu og kynna sér málið. Þar er hægt að ná í uppkast af athugasemdarbréfi til að senda inn til Sveitarfélagsins Ölfuss og taka þátt í að stöðva þessa eyðileggingu á náttúruverðmætum.
Lára Hanna Einarsdóttir, 11.4.2008 kl. 00:55
Ágætt að lesa þessa færslu frá þér Dofri. Í þetta sinn var ég fyrir vonbrigðum með þig í Kastljósinu og eins og kunningja þínum fannst mér þú tala eins og hver annar þreyttur og argur stjórnmálamaður. Það hlýtur að hafa verið mörgum náttúruverndurum vonbrigði að heyra niðurstöðu umhverfisráðherra og erfitt fyrir þig að standa til svara. Hins vegar verðum við öll að draga djúpt andann eins og Lára Hanna og standa saman í baráttunni um það sem mestu máli skiptir.
Sigurður Hrellir, 11.4.2008 kl. 21:14
Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur með úrskurði sínum og hvernig hún útskýrði sitt mál hækkað mikið í ályti hjá mér. Það er mjög mikilvægt að ábyrgir raðherra eins og Þórunn er að sýna okkur nú taka ákvarðanir sem byggjast á þeim lögum og reglum sem eru í landinu.
"Það er ráðherrans að taka slaginn og láta á það reyna. Ef það hefði þá brotið á Norðuráli þá hefðu þeir væntanlega sótt sinn rétt og einhverjar skaðabætur“
Álfheiður Ingadóttir Silfri Egils 06.04.2008
Svona ummæla dæma sig sjálf og er þingmanninum til mikillar minnkunar.
Lára Hanna fær hrós fyrir sitt innlegg þó svo ég sé alveg ósammála henni en við erum þó bæði umhverfis og náttúruverndarsinnar.
Óðinn Þórisson, 12.4.2008 kl. 09:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.