Allir á hjólum!

Ég hjólaði í vinnuna í fyrsta skipti í langan tíma í morgun. Það tók mig 30 mínútur að hjóla úr Foldahverfinu í Grafarvogi og niður í miðbæ. Um 5 mínútum lengur en ef ég fer sömu leið með bíl um kl. 8 á morgnana.
Leiðin er að mörgu leyti ágæt, á hjóla-/göngustíg meðfram voginum, framhjá Bryggjuhverfinu, upp með Elliðavoginum og yfir árnar á gömlu brúnni, yfir Sæbrautina við Súðavog og þaðan eftir Suðurlandsbrautinni og svo Laugaveginum niður í bæ.

Það sem mætti með einföldum hætti bæta er sandurinn og svifrykið á kaflanum meðfram athafnasvæði Björgunar. Það er með ólíkindum að fyrirtækið skuli ekki fjárfesta í skolunarbúnaði sem skolar sand og drullu af hjólum allra þeirra ofurtrukka sem frá þeim fara. Það eru ævinlega skaflar af sandi og leir meðfram götunni og jafnvel í logni er loftið þannig að ef maður andar með opinn munninn getur maður tuggið svifrykið.

Ef vilji er fyrir því hjá stjórnvöldum má reyndar bæta þessa hjólaleið mikið. Þá væri ráð að byrja á spottanum frá Elliðavoginum upp á enda Suðurlandsbrautar en sú leið er óttalegt klúður fyrir hjólandi fólk. Það kostar lítið. Ef yfirvöld hafa svo áhuga á að gera eitthvað sem verulega munar um fyrir hjólandi fólk ofan úr Grafarvogi þá væri bráðsnjallt að setja göngu- og hjólabrú yfir Elliðaárnar um Geirsnef, aðra yfir Sæbraut á móts við Knarrarvog og gera góða hjólaleið þaðan vestur á Gnoðarvog og eftir hjólabraut á Gnoðarvogi niður í Laugardal. Með þessu móti yrði ég án vafa jafn fljótur eða fljótari á hjóli í vinnuna en á bíl í morgunumferðinni.

Á leið minni í morgun sá ég talsvert af hjólandi fólki á sömu leið og reyndar hjólaði ég samsíða konu meðfram Elliðaánum sem kastaði á mig kveðju og við tókum dálíð spjall saman á leið okkar frá Sorpu yfir í Súðavog. Hún var líka nýbúin að taka fram hjólið, vinnur í austurvogunum og hafði prófað að hjóla þessa leið um helgina. Fannst það svo skemmtilegt að hún er búin að ákveða að ferðast til og frá vinnu með þessum hætti næstu mánuði. Ég tók undir með henni - ég ætla líka að nota þennan ferðamáta næstu mánuðina til og frá vinnu.

Þetta er ekki bara holl hreyfing, sparnaður fyrir budduna og umhverfið heldur er maður einfaldlega miklu ferskari í vinnunni eftir að hafa fengið loft í lungun. Svo skiptir hitt ekki minna máli að það er nánast sama hvað gengið hefur á í vinnunni, þótt maður setjist útúrustressaður upp á hjólið þegar maður leggur af stað heim þá er það alltaf rokið úr manni eftir einn til tvo kílómetra á hjólinu. Og maður mætir stæltur og stresslaus heim í faðm fjölskyldunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst nú bara með ólíkindum að fyrirtækinu Björgun skuli líðast að vera þarna það sem það er við hliðina á íbúðarhverfi.

Þórdís (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 16:56

2 Smámynd: Steinunn Þórisdóttir

Hef nú verið svo hagsýn s.l 16 ár, að sækja vinnu í mínu hverfi og notið þess að ganga í vinnu. Þannig hef ég sparað, ekki bara fyrir mig og umhverfið, heldur líka heilbrigðiskerfið. Því með því að ganga og hreyfa sig öðlast maður betri heilsu.

Steinunn Þórisdóttir, 14.4.2008 kl. 17:11

3 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Dofri þú ættir bara að fara með þyrlu, þú myndir spara fullt af tíma, skítt með umhverfið. Læra af meisturunum ISG og GHH.

Gísli Sigurðsson, 14.4.2008 kl. 18:24

4 Smámynd: Morten Lange

Til hamingju að taka fram hjólið. 

Tek undir þetta með brýrnar.    Stendur ekki til í að gera eitthvað í þessa veru til að koma til móts við hjólreiðamenn sem ekki mega hjóla Sundagöng ? 

Annað er að ég  sé ekki alveg fyrir mér að það sé hægt með góðu móti að koma fyrir góða hjólabraut í báðar áttir eftir Gnoðarvog allan.  Og þessi gata ætti að henta vel til að hjóla á fyrir hjólreiðamenn með smá reynslu.  Eins og lagt var til við  vinuhóp borgarinnar um hjólreiðaáætlun,  þá mætti gera bílstjóra viðvart og styrkja þor hjólreiðamanna til að hjóla á tilteknum götum með því að mála hjólavísa í götustæði.   Stutt umfjöllun má sjá í grein á vefsíðu  ÍFHK :   Brýnustu aðgerðir í málefnum hjólreiðamanna . Vinnuhópurinn fékk senda tengla í frekari efni , til dæmis bandarísks rannsókn um virkni og útfærslu hjólavísa ( Bike and Chevron = Sharrows = Share the road arrows)

Þetta klúður við Sæbraut / Karfavog er að sjálfsögðu komið til vegna þess að rísagatamótin Sæbraut/Reykjanesbraut - Miklabraut/Vesturlandsvegur eru svo stór í sniðum að þeir sem um þetta svæði fara og ekki nota gatnamótin þurfa að taka á sér rísa sveig.  Hér er enn eitt dæmið um að jafnræði samgöngumáta  ríki einmitt ekki.  Það væri vel við hæfi að þegar óskað er og mælt með því að hjólandi og gangandi noti  ekki þessi mannvirki, þá fáum við eitthvað á móti, til dæmis samgöngustyrki sem slær bílastyrki við.  Ekki vegna þessum gatnamótum einum,  að sjálfsögðu, heldur vegna alráðandi stefnunnar sem þetta er dæmi um.

En í staðinn fá þeir sem mæta á bíl í vinnuna margir hver gjaldfrjálst og skattfrjálst bílastæði og bílastyrk sem er skattfrjáls að hluta,  en við hin fáum ekki neitt fyrir okkar snúð.   ( OK það er gjaldfrjálst að "leggja" hjól, líka en það  tekur tíundiparturinn af plássinu, og aðstæður  fyrir geymslu reiðhjóla mætti bæta svo um munar ). Sumir segja að bílinn sé mjólkurkú en þegar allt er tekið með er þetta þveröfugt farið. Samfélagið borgar beint og óbeint með bílamannvirkin, olíuna, förgun bíla, ber kostnaði af mengun og árekstrar (að hluta)  og svo framvegis. 

Jæja, þarna endaði ég á alvarlegu nótunum.

Við skulum sannarlega ekki gleyma hið jákvæða : Frelsistilfinningin á góðu hjóli,  og þessi góði tilfinning sem stundum hríslast um mann í snertingu við umhverfinu.  Ekki síst hjólandi á útivistarstigum á Höfuðborgarsvæðinu seint um sumarkvöld.

Morten Lange, 14.4.2008 kl. 18:57

5 Smámynd: Morten Lange

Til hamingju með að hafa tekið fram hjólið og með ákvörðunina um að nota  það ... átti ég við 

Morten Lange, 14.4.2008 kl. 18:59

6 identicon

Ég var svo óheppin að það var bíll sem ók á mig, ég var farþegi í öðrum bíl) Hef ekki getað hjólað síðan, og ekki gengið langt heldur. Hvar fell ég og mínir líkar inní þessa fögru og mengunarlausu mynd?

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 20:59

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér skilst að búið sé að kumra út af hinu stóra svæði malarnáms og steypustöðvar og áhrifum þess í meira en áratug. Stærstu krossgötur Íslands eru skammt frá þessu svæði sem spannar yfir Ártúnshöfða-Mjódd-Smára og hagkvæmni þess að gera þetta að verslunar- og þjónustuhverfi er æpandi.

Ómar Ragnarsson, 15.4.2008 kl. 00:22

8 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Gaman að heyra þennan vorhug í mönnum. Til hamingju með að vera stokkin á bak á hjólinu og njóttu þess út í ystu æsar. Veistu hvort Reykjavíkurborg gefi út hjólreiðakort? Vonandi verð ég hjólandi fljótlega, þvílík frelsistilfinning. Farðu varlega en gefðu í framhjá Björgun.

Eva Benjamínsdóttir, 15.4.2008 kl. 00:44

9 identicon

Gaman að sjá að þú takir þátt Dofri. Það er frábært að hjóla í vinnuna, sérstaklega þegar veðrið er gott.

Stundum verður maður reyndar fúll og þá aðallega yfir því að borgin er ekki að sjá um stígana, þeir eru illa ruddir á veturna (þó það hafi batnað) og svo þarf að sópa þá núna. Svo koma einhverjir verktakar og grafa stíginn í sundur og laga hann á næsta ári.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 20:26

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Gott framtak.

Theódór Norðkvist, 17.4.2008 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband