Nú er komið nóg!

Vörubílsstjórar hafa haft vondan málstað frá upphafi. Kröfur þeirra eru ekki sanngjarnar og það má jafnvel færa ágæt rök fyrir því að þungaflutningar borgi hærra veggjald en þeir gera í dag vegna þess hve mikið þeir slíta þjóðvegunum meira en léttari bílar. 

Ég er líka viss um að flestum sem nú þegar finnst óþægilegt að mæta fullhlöðnum trukki á fullri ferð á þjóðvegunum finnst ekki endilega æskilegt að íslenskir bílstjórar megi keyra þreyttari en bílstjórar í öðrum löndum. 

Bílstjórarnir hafa æ ofan í æ stöðvað umferð samborgara sinna í krafti gríðarlega öflugra tækja sinna. Með því hafa þeir ítrekað skapað hættu. Lögreglan hefur til þessa sýnt þeim einstaka þolinmæði og hefur reyndar legið undir ámæli fyrir linkind gagnvart trukkabílstjórum á meðan hart hefur verið tekið á krökkum sem klifra upp í krana.

Það er ekkert að því að mótmæla til að vekja athygli á sjónarmiðum sínum. Yfirleitt er það gert af þeim sem eru minni máttar að völdum og afli, fólki sem leggur á sig að standa í kulda og trekki með mótmælaspjöld, ganga til Keflavíkur eða hlekkja sig við tæki og tól.

Trukkabílstjórarnir sýna hins vegar vald sitt. Þenja trukkana og þeyta flautur sínar. Þeir eru miklu frekar í skæruhernaði en að mótmæla til að benda á eitthvert misrétti. Enda er fáum ljóst, eftir tveggja vikna skærur bílstjóranna, hvert hið mikla óréttlæti er sem stjórnvöld eiga að bæta úr.

Vörubílstjórarnir verða að endurskoða bæði kröfur sínar og þau meðöl sem þeir hafa hingað til notað til að reyna að knýja þær fram. Ég mótmæli svona mótmælum.


mbl.is Ráðist á lögregluþjón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þetta er rétt að byrja og samfylkingin hljóð og stillt að vanda.

Óskar Þorkelsson, 24.4.2008 kl. 18:15

2 Smámynd: Sævar Helgason

Haldi þessi vitleysa áfram þá hlýtur að koma til vörslusviftingar á þessum risatrukkum í langan tíma- þetta er ekkert orði annað en skæruhernaður með þessum tólum í umferðinni.

Við almenningur eigum rétt á því að umferð sé greið og hættulaus vegna óaldar þessara trukkabílstjóra.

Sævar Helgason, 24.4.2008 kl. 18:31

3 identicon

Mér finnst ömurlegt að vita að þetta skuli vera komið út í handalögmál. Vona bara að þessi lögreglumaður nái sér fljótt. Keyri ekki sjálfur en þekki eins og flestir þó nokkra sem starfa við þessa grein. Þau eru ekki hlynnt ofbeldi. Þetta sýnir líka hitann sem kominn er í málið. Sjálfur dauðsé ég eftir sjóflutningum eins og þeir voru í den.

Lestir væru ágætis lausn!

kristján (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 18:31

4 identicon

Hmm.... þetta er lýsandi dæmi fyrir lélega fréttamennskum, auðtrúa lesendur sem margir hverjir eru búnir að mynda sér skoðun út frá titli fréttarinnar og fara yfir innihaldið á hundavaði.

Fréttamanninum tekst greinilega að fá fólk til að trúa því sem hann vill án þess að nokkurn tímann skrifa það hreint út...

Maðurinn sem kýldi lögreglumanninn var ekki atvinnubílstjóri!

Takið eftir að í fréttinni stendur að lögreglumaðurinn hafi verið kýldur "þegar atvinnubílstjórarnir voru að sækja bíla sína" - ekki að hann hafi verið kýldur "af atvinnubílstjóra"!

Íris (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 18:42

5 identicon

það má færa rök fyrir því að aðgerðir vörubílstjórana skapi hættu.

En er hægt að réttlæta vinnubrögð lögreglunar við rauðavatn?

Myndbönd sýna að fólk er úðað eiturefnum af handahófi og handtekið af handahófi, ég get ekki séð að mótmælendur hafi beitt lögregluna líkamlegu ofbeldi á bensínstöðvarplaninu sem gæti réttlætt svona vinnubrögð.

Fólkið í landinu er búið að fá nóg af efnahagslegum fasisma.

Hér er heimildarmynd sem færir rök fyrir því að við búum við hrikalegan efnahagslegan fasisma, http://ca.youtube.com/watch?v=cy-fD78zyvI

Andri (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 18:43

6 identicon

Er hjartanlega sammál þér Dofri, þetta er allt komið í rugl. Finnst einna helst að lögreglan taki of létt á þessum sveppum.

 Það er algerlega óþolandi að þessir menn skuli hefta för mína ítrekað, leggja fólk í stórhættu og orsaka umerðarslys með þessari framkomu sinni. Já ég segi "orsaka umferðarslys", því að þegar þessir trukkar stoppa alla umferð fyrirvaralaust, þá getur það komið fólki í opna skjöldu, og hef ég orðið vitni að a.m.k. einu síku atviki þar sem ég sat fastur í klóm þessara "Umferðarterrorista" undir forrustu Sturlu Jónssonar. ( Hann er a.m.k. titlaður Talsmaður, en engan hef ég séð kynntan sem leiðtoga þessa hóps.)

 Styð lögregluna 100% í því að fjarlægja þessa lögbrjóta með öllum tiltækum ráðum.

 Skil ekki þetta komment frá Óskari, held að hryðjuverkastarsemi af þeirri gráðu sem verið er að stunda hér sé engan vegin pólitísk. Finnst því frekar ódýrt að reyna að koma því að í þessu samhengi.

 Þessir menn eru að brjóta lög, hvort heldur þeir eru bláir, gulir grænir erða appelsínugulir í pólitík.

 Ef þeir eru í kjarabaráttu, þá eru löglega boðuð verkföll verkfærið til þess, ekki lögbrot !

Ef menn vilja mótmæla, þá eru líka til verkferlar um það, en eftir því sem ég hef heyrt, þá eru þessir menn einfaldlega í kjarabaráttu. Má vera að vont sé fyrir einyrkja að fara í verkfall, en það er einmitt það sem þeir eru, og ástæða þess að þeir fara í mínus og tapa pening við hækkun olíu, er sú að þeir eru sjálfir að undirbjóða hvorn annan svo undan svíður... Svo bara á "ríkið" að redda þeim !!! Þetta er eitthvað það mesta bull sem ég hef heyrt !

Pilko (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 18:55

7 Smámynd: Sævar Helgason

Þessir trukkabílstjórar eru smáatvinnurekendur-ekki launþegar . Þeir reka þessi fyrirtæki sín fyri eigin reikning.  Verkfall og boðun slíkra aðgerða er einfaldlega ekki inni í myndinni eins og hjá verkalýðsfélögunum.

Aðalmálið hjá þeim er að fá lögum um hvíldartímaákvæði breytt eða afnumin 

Nú verða þeir að hvíla sig í 45 mín. eftir hverja 4 klst í akstri og hámarksakstur er 10 klst/ sólarhring.  Þessi lagaákvæði  eru ekki sett sérstaklega fyrir þá heldur eru þær hættur sem umferðinni stafar af  útkeyrðum og vansvefta trukkabílstjórum - almenningi í umferðinni stórhættulegar.  Kröfur þeirra eru því raun gegn almannaöryggi.

Veit almenningur sem hefur verið að styðja þessa menn í aðgerðum þeirra hvað það er að gera ? 

Sævar Helgason, 24.4.2008 kl. 19:32

8 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Óska þér og þínum gleðilegs sumars. 

Er búinn að blása út um þessar bílstjóraskorur...

(')

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 24.4.2008 kl. 21:05

9 Smámynd: Sigurður Hrellir

Trukkarnir eru í flestum tilvikum keyptir á lánum eða með aðkomu fjármögnunarfyrirtækja. Skyldi ein veigamikil ástæða mótmælanna vera sú að lánin og afborganir af þeim hafa hækkað óhóflega mikið með gengisfellingu krónunnar? Það hefur verið bent á að gjöld af olíu og akstri er óhjákvæmilega ýtt út í verðlag/tilboð en erfitt gæti reynst að vera samkeppnishæfur sem vöruflutningabílstjóri ef þungur lánakostnaður er tekinn með í reikninginn.

Sigurður Hrellir, 24.4.2008 kl. 22:21

10 Smámynd: Sævar Helgason

Til að standa undir þyngri greiðslubyrði lánanna - sjá trukkabílstjórarnir bara eina leið.

Sú leið er að bæta við sig vinnu- auka viðveruna í vinnunni.  Þar stendur hnífurinn í kúnni.   Hvíldartímareglurnar leyfa 10 klst keyrslu/sólarhring .

Allur slagurinn stendur því um að fá að keyra fleiri klst/sólarhring.  Þá koma almannaöryggishagsmurnir inní myndina. 

Örþreyttur og svefnvana trukkabílstjóri er lífshættulegur fyrir aðra í umferðinni.  Þessar reglur sem gilda hér eru frá ESB komnar um EES samninginn okkar. 

Þær eru miðaðar við hraðbrautir Evrópu- ekki þvengmjóa og vangerða íslanska vegi. Í raun ætti kannski að takmarka ennfrekar leyfilegan ökutíma /sólarhring frá því sem nú er.

Þetta virðist vera vandinn í hnotskurn. 

Sævar Helgason, 24.4.2008 kl. 22:59

11 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Dofri.....

Þessir menn sitja uppi með það að lifa ekki af atvinnu sinni. Ekki festast í því sama og mér finnst flestir Samfylkingarmenn vera að gera núna. Hlutverki framsóknarmanna í ríkisstjórn.

Og af hverju mætti lögreglan tilbúin með skildi, hjálma, gas og kylfur? Hefur verið einhver þörf fyrir þetta sl. áratugi? Ekki reyna að réttlæta þessa eðveiki. 

Ævar Rafn Kjartansson, 24.4.2008 kl. 23:06

12 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

geðveiki átti þetta að vera.

Ævar Rafn Kjartansson, 24.4.2008 kl. 23:07

13 identicon

Sæll Dorfi

Samfylkingin talaði um að lækka álögur á vöruflutninga þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Með Kristján Möller fremstan í flokki. hvar er hann núna. Við á landsbyggðinni eru farinn að finna fyrir hækkandi  flutningskostnaði. það er út af háu olíuverði. Líklega er hann sammála  þér "Kröfur þeirra eru ekki sanngjarnar og það má jafnvel færa ágæt rök fyrir því að þungaflutningar borgi hærra veggjald en þeir gera í dag vegna þess hve mikið þeir slíta þjóðvegunum meira en léttari bílar."

Jón Haukdal (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 23:33

14 identicon

Ég er almennt fylgjandi því að fólk taki sig til og mótmæli þegar því er ofboðið, en verð að vera hreinskilinn og segi að ég hef takmarkaða samúð með málstað vörubílstjóra. Skil að vísu það sjónarmið að þeir hafi boðið í verkin út frá því að bensínverð myndi ekki hækka mikið, en svona eru bara viðskipti. Fólk tekur alltaf áhættu í þeim. Finnst punkturinn um að vöruflutningabílstjórar borgi hærra veggjald líka góður og gildur. Þessi mótmæli eru því miður að snúast upp í allsherjarmúgæsingu og viss hvati að eitthvað fari úr böndunum þegar fjölmiðlar eru á staðnum. Finnst að lækkun bensíngjalds ætti ekki að vera efst á forgangslistanum hjá ríkisstjórninni. Sé frekar fyrir mér að fólk verði meðvitaðra um að kaupa sér sparneytnari bíla og gæti þannig minnkað þannig heildarútblásturinn, þannig að eitthvað gott gæti komið út úr þessu til lengri tíma litið.

Hinrik (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 02:41

15 Smámynd: Sævar Einarsson

Hvenær ætlar fólk að átta sig á því að það er bannað að mótmæla á Íslandi ? tja nema kannski undirskriftarmótmælum sem enginn hlustar á, það eru þægilegustu mótmælin fyrir ráðamenn enda hafa þeir sagt að það sé stórt pláss í skúffum fyrir þá lista.

Sævar Einarsson, 25.4.2008 kl. 06:31

16 Smámynd: Bylgja Hafþórsdóttir

Málið  með hvíldartímann er að það er ekkert svigrúm. Finnst ykkur í alvörunni almenningi bjóðandi að alls staðar í vegköntum séu vörubílar sem á okkar mjóu vegum getur skapað gríðarlega hættu. Í þessari sömu reglugerð og hvíldartíminn er tekinn úr er nefnilega ákvæði sem segir að vegagerðin eigi að skapa nauðsynlegt svigrúm með því að búa til hvíldarplön og aðstöðu fyrir bílstjórana til að hvíla sig. En þeir bara kjósa að horfa fram hjá þeim hluta reglugerðarinnar sem snýr að þeim. Og það vita það allir að á Íslandi getur hver mínúta skipt máli um hvort þú kemst á áfangastað áður en verður ófært. Myndi ykkur langa til að hanga uppi á einhverri heiði fyrir vestan í þrjú korter í vitlausu veðri til þess eins að framfylgja reglugerð sem er gerð af hvítflibbakörlum sem aldrei hafa til Íslands komið. Gera sér enga grein fyrir íslenskri veðráttu og að hér eru ekki hraðbrautir og er skítsama.

Bylgja Hafþórsdóttir, 25.4.2008 kl. 07:47

17 Smámynd: Óðinn Þórisson

Sammála þér Dofri það er komið nóg.
Mkilvægt er að þeir fái sér nýjan talsmann því  þessi ágæti maður Sturla virðist ekki geta komið einni setningu út sér af skynsemi og virðist ekki vera í jafnvægi.
Það var sorglegt þegar Sturla afneitaði einn af sínum eigin mönnum.
Ummæli Láru Ómarsdóttur um eggjakast eru gríðarlegt áfall fyrir fréttastofu Stöðvar 2.
Ég ætla ekki að minnast á tölvupóstana sem Björn Bjarnason hefur fengið.

Óðinn Þórisson, 25.4.2008 kl. 08:23

18 identicon

Heyr! Heyr! Sammála hverju orði!

 Atburðir síðustu daga, ómaklegar árásir á lögregluna og ekki síður Björn Bjarnason, skrílslæti og óheiðarleiki "trukkaranna" fær mig til að langa frekar til að mótmæla mótmælunum en að styðja við bakið á þessum köppum!

Solla (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 09:34

19 Smámynd: Ingólfur

Bylgja, það er ákveðið svigrúm í reglugerðinni. Hægt er að skipta stoppunum upp og það er engin skylda til þess að keyra alveg út 4 og hálfan tíma og stoppa nákvæmlega á punktinum.

Einnig er líka gert ráð fyrir því að hægt sé að víkja frá reglunni ef það er gert til þess að " tryggja öryggi fólks eða til þess að koma í veg fyrir tjón á bifreið eða farmi."

Það ákvæði hlýtur að eiga við ef bíll væri annars stoppaður hálfur inni á vegi í blindbyl.

Það er hins vegar megin munur á því að biðja um að reglugerð sé aðlöguð íslenskum aðstæðum eða að krefjast þess að hún sé alveg felld úr gildi ásamt öllum sektum sem gefnar hafa verið út fyrir brot á henni. 

Ingólfur, 25.4.2008 kl. 10:06

20 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þú gleymir´óþarflega mörgu núna, Dofri. Hvernig varð þessi stétt manna til? Hverjir tóku ákvarðanir um að leggja niður sjóflutninga? Eða kannski réttara sagt afleiðingar af hvaða ákvörðunum urðu til þess? Hvar er hvíldaraðstaðan? Henta Evróputilskipanir bara átómatískt á Íslandi? Lásu ekki þingmenn eða Bruxellesliðið þessar tilskipanir áður en þeir samþykktu þær? Af hverju er búið að þrýsta stórum hluta launamanna út í það að vera verktakar? Af hverju eru þessir menn svona örvæntingarfullir?

María Kristjánsdóttir, 25.4.2008 kl. 10:36

21 identicon

Heill og sæll Dofri :) 

Skutu sig i fótin þessir vörubilstjórar, helv. .. kjánar virðing mín fyrir fólki sem ræðst á lögregluna er núll, og það að vörubilstjórarnir skuli voga sér að segja " hvað með árásarmannin þeir voru 2, 5, 10, lögregluþjonar á honum"  þessi blessaði árasarmaður átt þetta og mun meira skilið af mínu mati svo hjartanlega sammála Solla með að mótmæla mótmælunum atvinnuveitendur þessara vörubilstjóra ættu kannski fara grisja út hverja þeir nota i ferðir en ... þetta er bara mín litla skoðun á þessu, hef keyrt oft og mikið um landið og flestir vörubilstjórar framúrskarandi almennilegir þegar þeir geta a vegum landsins

jæja skjótið ummæli min nu i kaf .. :D:D

Tító (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 11:34

22 Smámynd: Theódór Norðkvist

Gleymum ekki að vörubílstjórar eru að flytja vörur fyrir almenning. Þeir eru ekki á þessum eyðslufreku skrímslum bara til að þykjast vera stórir karlar.

Annars gleðilegt sumar, Dofri og takk fyrir ágætis færslur á liðnum vetri.

Theódór Norðkvist, 25.4.2008 kl. 13:57

23 identicon

AUGLÝSI EFTIR HETJU. 

Mig langar að minna þig Dofri á að Samfylkingafólk lætur ekki mata sig með fréttaflutningi né skiptir um skoðun vegna ummæla stjórnmálamanna. Ég er ekki Samfylkingarmaður til að láta ganga yfir mig og fjölskyldu mína, ég stend með þeim sem eru minnimáttar og hafa sáran málstað að verja og virði allar skoðanir manna, þótt þær séu all ólíkar mínum.

Nú vil ég sjá stjórnmála "hetju" með góða hugmynd leysa þetta. Vinsamlegast gerið það fyrir þegna landsins sem kom ykkur fyrir í valdastöðu og setjast niður með trukkurum landsins og reynið lendingu MEÐ þeim.

Ykkar persónulega skoðun á liðnum atburðum skiptir ekki máli eins og staðan er í dag. 

GMB (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 18:29

24 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Ég er nú satt að segja svolítið hissa á þessari færslu hjá þér Dofri.

Hvað er að því að trukkabílstjórar sýni vald sitt eins og þú orðar það?

Hefur þú gert mikið af því að keyra vörubíla?

Veistu af eigin raun hvernig vinnuaðstæður þeirra og rekstrarumhverfi kemur út fyrir þá sem fjölskyldumenn til dæmis?

Hefur þú stundað einyrkju af einhverju tagi?

Ég þekki vöru-trukka-bíla-starfið ekki en þykist þó vita að aðstæður margra þeirra séu um margt líkar aðstæðum verkamanna almennt á Íslandi - nema hvað þeir geta ekki nýtt sér verkfallsrétt og önnur þau hlunnindi sem almennir launþegar geta. Veruleika einyrkja þekki ég hins vegar fullvel ef eitthvað er og það eitt dugar til að ég leggst á flautuna með þessum mönnum.

Skrifaðu heldur um það að jafnvel þótt hækkandi olíverð á heimsmarkaði (nú eða samráð olífélaganna sem eru látin ÓÁREITT) verði til þess að ríkissjóður fái milljarða tekjuaukningu þá þurfa þessir tilteknu atvinnubílstjórar að keyra alla daga á vegum sem eru eins og reiðhjólastígar miðað við til dæmis í Danmörku.

Ætli þér og mér yrði ekki eitthvað örlítið öðruvísi við að mæta vörubílatrukkum á þjóðvegum landsins ef þeim sem fara með framkvæmdavaldið í þessu landi yrði það á að vinna vinnuna sína og bæta samgöngur í samræmi við tekjuaukninguna.

Soffía Valdimarsdóttir, 25.4.2008 kl. 21:27

25 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þegar ég vann hjá Vegagerðinni sá ég plagg um slit á vegum vegna flutningabíla. Ég man ekki töluna nákvæmlega, en 1 vörubíll slítur vegum xþúsundfalt á við 1 fólksbíl. Mig minnir 1 vörubíll = 3000 fólksbílar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.4.2008 kl. 17:32

26 identicon

Skítt með þreyttu vörubílstjórana... bráðskondnir þykja mér plebbarnir á jeppunum og sportbílunum sem mótmæla því hvað þeir þurfa að borga ossa mikið í eldsneyti!  Greyin.

...désú (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 01:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband