Ingibjörg Sólrún sér engin rök fyrir eignarnámi

Á visi.is segir er frétt þar sem haft er eftir formanni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að hún sjái engin rök fyrir eignarnámi vegna fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá.

Þetta eru mikilvæg orð því Landsvirkjun hefur gengið mjög hart fram í samningum sínum við landeigendur. Haldið hótun um eignarnám yfir höfuðsvörðum manna eins og sverði meðan talað er í blíðum rómi um krónur og aura við fólk sem ekki vill selja.

Orð Ingibjargar nú og Þórunnar Sveinbjarnardóttur í vikunni styrkja landeigendur í baráttu fyrir þeim rétti sínum að selja ekki land sitt. Hvað sem ólund forstjóra Landsvirkjunar líður og sjá má í Morgunblaðinu í gær en af þeim pistli má glöggt ráða hve fráleitt honum finnst að nokkrir einstaklingar geti með lögvörðum eignarrétti komið í veg fyrir að Landsvirkjun komi fram vilja sínum. 

Fréttin á visi.is er á þessa leið:

Formaður Samfylkingar segir að ríkir almannahagsmunir verði að vera til staðar ef beita eigi eignarnámi jarða vegna Þjórsárvirkjana og ekki eigi að fara þá leið nema nauðsyn krefji. Enn hafi hún ekki séð rök sem styðji slíkt eignarnám.

Við undirskrift samninga um netþjónabú á Suðurnesjum í febrúar sagði forstjóri Landsvirkjunar að fyrirhugað væri að nota orku úr virkjunum neðri hluta þjórsár fyrir netþjónabúið. Landeigendur austan þjórsár á svæði fyrirhugaðrar urriðafossvirkjunar hafa lýst andstöðu við virkjunina og ætla ekki að semja við Landsvirkjun.

Eignarnám jarða er eitt úrræða sem Landsvirkjun getur beitt að uppfylltum skilyrðum og með leyfi iðnaðarráðherra. Umhverfisráðherra leggst harðlega gegn því að að Landsvirkjun verði veitt slíkt leyfi sem óneitanlega setur iðnaðaráðherra í erfiða stöðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Stendurðu með Össuri ef og þegar?

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 11.5.2008 kl. 09:38

2 Smámynd: Sævar Helgason

Fyrir tæpum sjötíu árum var reist raforkuver í Fljótum, Skeiðsfossvirkjun, til að sjá örtvaxandi síldariðnaðarbæ , Siglufirði, fyrir raforku. 

Nokkrar jarðir og stór hluti jarða var tekin eignarnámi. Stíflu í Fljótum var að miklu leyti sökkt undir vatn.  

Þarna var minni hagsmunum fórnað fyrir mjög mikla þjóðarhagsmuni. Síldarvinnslan á Siglufirði skipti þjóðarbúið mjög miklu.

Engum dytti í hug að fara í þá framkvæmd í dag.

Neðri hluti Þjórsár  er allur á svæði eignajarða og bújarða góðra. Stór hluti þeirra færi undir vatn næðu þessi virkjanaáform fram að ganga, alveg eins og í Stíflu forðum.

Þá er það spurningin : Eru þjóðarhagsmunir það ríkir núna að þjóðin verði að beita neyðarrétti og framkvæma eignarnám á þeim jörðum sem um ræðir ?

Sævar Helgason, 11.5.2008 kl. 09:52

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sævar. Það er nú ekki stór hluti jarða sem fer undir vatn í þessum rennslisvirkjunum sem fyrirhugaðar eru. Aftur á móti getur eignarnámsheimildin varla átt rétt á sér í tilfellum þar sem ekki sé verið að fjalla um mál sem varða þjóðarheill, eins og Skeiðsfossvirkjun forðum. Í þessari umræðu verður samt að greina á milli þeirra jarða sem hafa selt virkjanaréttindin frá sér til Fossafélagsins, eins og tilfellið er með marga af þeim Flóamönnum sem eru að mótmæla núna og hafa skuldbundið sig til að láta land undir virkjun, gegn bótum og þeirra sem aldrei hafa selt réttindin.

Gestur Guðjónsson, 11.5.2008 kl. 10:10

4 Smámynd: Sævar Helgason

Gestur

Ef um rennslisvirkjanir væri að ræðar þá væri þetta lítið mál.  En þarna á að gera þrjú vatnsmiðlunarlón.  Og vatnsmiðlunarlón krefst þess að jarðir eða jarðahlutar fara undir vatn. Rennsli Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar er stýrt rennsli þ.e rennslið er jafnt og þétt. Það sýnist gefa gefa mjög góða möguleika á hreinum rennslisvirkjunum og þar með nýtir Landsvirkjun sín vatnsréttindi án þess að ganga á eigur annarar. Eða hvað ?

Sævar Helgason, 11.5.2008 kl. 10:27

5 identicon

Þjóðarhagsmunir KREFJAST EIGNARNÁMS. Svo einfalt er það. Solla mun  draga í land - eins öruggt og nótt kemur eftir degi !

 Sauðskinnsskóa framleiðsla vistri-grænna er dauð . Þjóðin vill fram - ekki í stöðnum fyrri alda.

Magnús Erlendsson (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 10:50

6 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Það eru sterk rök fyrir eignarnámi. 

Í fyrsta lagi:  Það eru ríkir hagsmunir til þess að nýta orkuna í neðanverðri Þjórá. 

Í öðru lagi:  Mjög lítið land fer undir vatn.

Í þriðja lagi:  Flestir jarðeigendur höfðu áður selt vatnsréttindin til Fossafélagsins, nú eign Landsvirkjunar

Í fjórða lagi:  Svokallaður Urriðafoss (foss eða flúð í ánni?) hverfur ekki.  Áfram verður vatn í honum, bara ekki eins mikið.

Í fimmta lagi:  Fossinn/flúðin er ekki nema svipur hjá sjón í dag.  Á síðustu árum og áratugum hefur kantur hans verið að færast upp eftir ánni því stöðugt brotnar úr honum.  Með sama árframhaldi verður hann horfinn innan nokkura áratuga.  Ef þessi foss/flúð hefur verndargildi þá fullyrði ég að allar misfellur í vatnsföllum Íslands falli undir sama flokk.

Í sjötta lagi:  Það er dapurlegt að sjá góðan málstað náttúruverndar eyðilagðan með mislagðri baráttu gegn nýtingu þessarar orku.  Í mínum huga snýst hún fyrst og fremst um eitt í hugum landeigenda; peninga...og ekkert annað. 

Dofri og félagar í baráttunni.  Ég styð ykkur og tel mig einlægan náttúrverndarsinna.   Mikil óþarfa spjöll hafa verið unnin af Landsvirkjun um árabil og fyrirætlanir þeirra um Norðlingaölduveitu og Skaftárveitu hljómar skelfilega í mínum eyrum.  Þeir hafa um árabil vaðið á skítugum skónum um landið og virt rétt landeiganda lítils.  Það er ekki málið þarna.  Það er fyrst og fremst ein jörð sem verður fyrir tjóni vegna Núpsvirkjunar og er gert í fullri sátt við landeigendur.  Það eru fyrst og fremst þeir sem telja sig verða fyrir óbeinum áhrifum eða hættu (jarðskjálfta/stíflurof) sem hafa beitt sér hvað harðast gegn áætlunum Landsvirkjunar.  Loks þegar Landsvirkjun setur fram áætlun um virkjun í sátt við umhverfi sitt án spjalla á ósnortnu landi þá ætlar allt vitlaust að verða.  

Ætlum við að búa áfram í landinu, halda lífskjörum okkar óbreyttum eða jafnvel bæta þau.  Það er margt sem við getum breytt og bætt í umgegni okkar við náttúruna en við hljótum að geta nýtt hana innan skynsamlegra marka.   

Sveinn Ingi Lýðsson, 11.5.2008 kl. 11:28

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

hvað verður um fiskinn í ánni ?

Óskar Þorkelsson, 11.5.2008 kl. 11:44

8 identicon

Finnst mönnum þetta ekki nægjanlega skýrt. Formaður Samfylkingarinnar hefur tjáð sig og klárlega mun iðnaðaráðherra gera. Já, og svo fjarlægum við eftirlaunaósómann. En sumir sjá bara brestina. kv gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 19:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband