13.5.2008 | 15:02
Síðasti dagur í dag...
...til að gera athugasemdir við tillögur sveitastjórnar Öfluss um breytingu á Aðalskipulagi á svæðinu við Ölkelduháls og Bitru.
Það mega allir gera athugasemdir við skipulagstillöguna og hægt er að nálgast uppkast að slíku bréfi á http://www.hengill.nu/
Athugið að það þarf að prenta bréfið út, undirrita það með nafni, kennitölu og heimilisfangi og senda í pósti. Það er opið til kl 18 á pósthúsunum.
Þeim sem vilja er velkomið að styðjast við mína athugasemd hér fyrir neðan.
13. maí 2008
Sveitarfélagið Ölfus
Hafnarbergi 1
815 Þorlákshöfn
Efni: Athugasemd við breytingu Aðalskipulags sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 - atriði nr. 1 í auglýsingu er varðar Bitru; bygging allt að 135 MW jarðvarmavirkjun.
Ég undirritaður mótmæli breytingu Aðalskipulags sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 - atriði nr. 1 í auglýsingu; 285 ha opnu, óbyggðu svæði á Bitru / Ölkelduhálsi sem að hluta er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar, er breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun.
Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess eru ein helsta útivistarparadís íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar 2005.
Fjölgun fólks í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum s.s. í Hveragerði, Þorlákshöfn og Árborg gerir útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarinnar æ verðmætari.
Umrætt svæði er einnig afar verðmætt fyrir sveitarfélög, s.s. Ölfus sem á næstu árum og áratugum á mikla möguleika í uppbyggingu dreifðra íbúðarbyggða fyrir fólk sem bæði vill njóta nálægðar við náttúruna og höfuðborgarsvæðið.
Þá er ótalið mikilvægi Ölkelduháls/Bitru fyrir ferðaþjónustu en nú þegar ferðafólk sækir í mjög auknum mæli í dagsferðir út frá höfuðborginni en svæðið er einstakt fyrir fegurð og fjölbreytileika, enda hefur ferðamönnum í skipulögðum ferðum um það fjölgað ár frá ári og mun á næstu árum geta dregið til sín margfalt fleiri ef ekki verður virkjað. Hér er um mikil atvinnutækifæri að ræða fyrir íbúa Ölfus rétt eins og annarra sveitarfélaga.
Á Ölkelduhálsi/Bitru er um tvær auðlindir að ræða. Önnur er sú sem hér að ofan er lýst en hin er orkugeymirinn undir því fagra og fjölbreytta yfirborði. Eigi að nýta þá síðari með þeim hætti sem stefnt er að er sú fyrri eyðilögð. Þetta er skammsýni sem undirritaður mótmælir harðlega. Þróun í bortækni hefur verið hröð á undanförnum árum og nú þegar heimurinn gerir auknar kröfur um sjálfbæra orku er öruggt að þróunin á eftir að verða enn hraðari á næstu árum. Það er því nánast öruggt að innan tiltölulega fárra ára megi skábora í orkugeyminn undir Ölkelduhálsi/Bitru og virkja þannig þá orku sem þar er að finna án þess að koma með nokkurt einasta mannvirki inn á svæðið.
Undirritaður telur það vera skyldu okkar að varðveita umræddar náttúrperlur fyrir komandi kynslóðir og leggur til að í staðinn fyrir að breyta þessu frábæra útivistarsvæði í iðnaðarsvæði þá verði breytingin fólgin í því að friðlýsa svæðið. Í samræmi við það verði hugað að flutningi Búrfellslínu 3 þegar að endurnýjun hennar kemur, borplönin sem gerð voru án umhverfismats verði tekin upp eins og hægt er og svæðið fært sem næst upprunalegri mynd.
_________________________
Nafn, kennitala
heimilisfang.
Hveragerði mótmælir áformum um Bitruvirkjun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:09 | Facebook
Athugasemdir
Auðvitað byrja íslendingar ekki að mótmæla fyrr en í fyrsta lagi á síðasta degi...
Bjarki (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 15:45
Takk fyrir ábendinguna, ég vinn í Borgartúni og fann á vefnum að ritfangaverslunin Oddi er með póstkassa og dreif þetta af - með persónulegri útfærslu á bréfinu.
Það er rétt sem Lára Hanna gagnrýnir, það er ekki aðgengilegt fyrir alla að fara í pósthús, auk þess erum við mörg sofandi í slíkum málum. Mér er eðlislægt að treysta þeim sem eru kjörnir fulltrúar og hef ekki tíma til að setja mig inn í öll mál.
Gísli H. Friðgeirsson, 13.5.2008 kl. 16:38
Takk!!! Gangi okkur vel!
Petra Mazetti (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.