Að endurbyggja Rauðhólana?

Í gær fór ég í afar fræðandi og skemmtilega ferð sem Orkuveita Reykjavíkur bauð stjórnar- og starfmönnum í um Heiðmörk og Elliðaárdalinn en hvort tveggja tilheyrir lendum Orkuveitunnar. Þar sem ég er í stjórn grænna svæða Orkuveitunnar taldi ég mér skylt að fara í þessa ferð en auk þess veit ég af fenginni reynslu að starfsmenn fyrirtækisins eru einkar snjallir að skipuleggja svona ferðir.  Reyndar svo mjög að hver einasta ferðaskrifstofa væri fullsæmd af.

Því miður var enginn frá meirihlutanum nema hinn harðduglegi varaformaður OR, REI og formaður stjórnar grænna svæða OR, Ásta Þorleifsdóttir. Borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var hvergi að sjá og mig er jafnvel farið að gruna að þeir hafi misskilið þetta með "Hjólað í vinnuna" og haldið að það væri eingöngu um helgar!

Við fengum stórskemmtilega fræðslu frá Skógræktarfélaginu um sögu Heiðmerkur og svo tók við hinn knái sagnfræðingur Stefán Pálsson og sagði m.a. frá ýmsu því sem Benedikt Sveinssyni á Vatni (Elliðavatni) datt í hug að taka sér fyrir hendur.

Því næst lá leiðin niður í Elliðaárdal þar sem við fræddumst um sögu rafmagnsframleiðslu og vatnsveitu í borginni og endaði í Rafheimum, skemmtilegu vísindasafni fyrir börn á öllum aldri.

Á leiðinni úr Heiðmörk lá leiðin fram hjá Rauðhólum og hinir víðfróðu leiðsögumenn fræddu gesti um það hvernig Rauðhólar hefðu verið grafnir sundur og efnið úr þeim notað sem undirlag undir flugvöllinn í Reykjavík.

Hrökk þá upp úr kunnum sagnfræðingi: "Nú þarf bara að selja Ólafi F þá hugmynd að endurbyggja Rauðhólana í upprunalegri mynd - þá er búið að redda þessu með flugvöllinn!" 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Síðasta setningin er bara snilld

Óskar Þorkelsson, 18.5.2008 kl. 11:02

2 Smámynd: Sigurbjörg Sigurðardóttir

 Sammála.

Sigurbjörg Sigurðardóttir, 18.5.2008 kl. 11:06

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Umhverfismál eru léttvæg fundin á öllum tímum og válegt hve fáir hafa rankað við sér varðandi það, sem verið er að gera við íslenska náttúru þessa dagana, vikurnar, mánuðina og árin.

Við hörmum örlög Rauðhólanna sem eru einstakt, jarðfræðilegt fyrirbæri. Munum við harma örlög fleiri jarðfræðilegra fyrirbæra eins og til dæmis Hengilssvæðisins þegar fram líða stundir?

Alveg örugglega.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.5.2008 kl. 13:50

4 identicon

Hvar á að draga mörkin?

Framfarir á kostnað náttúrunnar, eða stöðnun á vissum sviðum og halda landinu ósnortnu.

Um þetta hugsa ég oft og kemst ekki að neinni niðurstöðu.

Ég man daga Rauðhólanna svona um það leitið sem farið var svolítið að sækja efni þangað. Þeir voru fallegir og gaman að leika sér þar.

Ég man líka, þegar við vorum að koma niður af Sandskeiði og sáum Elliðavatn, og umhverfi þess og Norðlingaholtið með nokkrum húsum .

Það var ekki eins gaman eða fallegt í gær að aka í bæinn og sjá byggingar um allt þetta fallega land.

Ég hefði frekar sætt mig við að þessi byggð hefði risið á Esjumelum og náttúruperlan Elliðavatn og Norðlendingaholt hefði fengið að halda sér

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband