Lítil hætta á Íslandi...

...að fólk fari unnvörpum að hjóla berrassað. Það er bara ekki nógu notalegt þrátt fyrir að loftslag fari hlýnandi. Ekki svo að skilja að ég hafi neitt á móti þessu, nema kannski af heilsufarsástæðum. Held þó í hógværð minni að persónulega fari mér talsvert betur að hjóla í fötum en án þeirra.

Það er helst að frétta af hinu gallvaska hjólaliði Betri helmingnum að þegar ég var búinn að skrá inn afrek gærdagsins vorum við komin upp í 15. sæti af tæplega 120 í okkar flokki. Það er all góður árangur en við stefnum að sjálfsögðu að því að komast á topp 10.

Það er gott markmið og nauðsynlegt að finna sér slíkar áskoranir úr því hinn helmingurinn í borgarstjórn "gleymdi" að skrá liðið sitt en eins og kannski lesendur þessarar síðu muna skoraði Betri helmingurinn á meirihlutann að keppa við sig í "Hjólað í vinnuna".

Áskorunin var birt á heimasíðu minni og send meirihlutanum í tölvupósti með afriti á alla helstu fjölmiðla. Þegar engin svör höfðu borist tveimur dögum síðar og "ekki náðist í borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins" út af málinu ítrekaði Betri helmingurinn áskorunina en það vakti engin viðbrögð heldur.

Það var ekki fyrr en á borgarstjórnarfundi daginn áður en átakið átti að hefjast sem meirihlutinn tók hinni vígreifu áskorun en því miður láðist meirihlutanum að skrá sig til þátttöku - sem er talsvert mikilvægt atriði í svona keppni.

Hálf leiðinlegt, það hefði verið svo miklu skemmtilegra að vinna þau ef þau hefðu keppt!


mbl.is Hjólreiðamaður í steininn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband