Að njóta vafans

Í umhverfisverndarmálum er oft talað um að láta náttúruna njóta vafans. Þá er venjulega til umræðu að fara í einhverjar framkvæmdir sem hætta er á að valdi óásættanlegum umhverfisspjöllum og til að forðast það er náttúran látin njóta vafans.

Þessi sama regla er í hávegum höfð þegar dæmt er í sakamálum og ástæðan er sú að það þykir skárra að láta einhvern sleppa en að eiga á hættu að dæma saklaust fólk í steininn. Það er látið njóta vafans.

Stjórnmálamenn búa ekki við þetta öryggi í störfum sínum og líklega er skýringin öðru fremur sú að þeir byggja fylgi sitt á því trausti sem þeir hafa aflað sér. Verði stjórnmálamanni á að gera eitthvað sem rýrir traust fylgismanna hans á honum á hann engan sérstakan rétt á að njóta vafans. Traust er ekki þess eðlis, það annað hvort er fyrir hendi eða ekki. Það tekur langan tíma að byggja upp traust en skamman tíma að glata því. Einmitt þess vegna er það svo dýrmætt.

Fyrir skemmstu varð ég fyrir sárum vonbrigðum með stjórnmálamann sem ég hef borið mikið traust til. Það sem olli vonbrigðum mínum var algerlega óútreiknanleg þátttaka hans í táknrænni athöfn sem bæði er í hróplegri mótsögn við einarða afstöðu hans og flokks okkar beggja í mikilvægum málum.

Því er ekki að neita að þetta hefur veikt traust mitt til viðkomandi stjórnmálamanns. Ég veit að svo er um fleiri. Í anda umhverfis- og réttlætissjónarmiða ætla ég þó að leyfa honum að njóta vafans. Kannski var einhverju laumað í kaffið hans. En ég hef á mér vara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Ég sé á þessum pistli að fleiri en ég hafa ekki skilið  tilgang viðkomandi með þessum gjörningi- en svona geta krosstré brugðist sem önnur tré.

Sævar Helgason, 11.6.2008 kl. 09:39

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég skildi þetta ekki heldur og hann nýtur einskis vafa í mínum huga. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.6.2008 kl. 10:19

3 identicon

Tarna missteig Guðni sig á suðurlendum. Ég varð hryggur en ég á það til að fyrirgefa æskunni, þó í ábyrgðarstöðum sé. Fimlega skrifað Dofri. Sneiðin skilin á guttann.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 10:55

4 identicon

Sæll. Er ekki við hæfi að nafngreina stjórnmálamanninn? A.m.k. veit ég ekki um hvern þú ert að tala. Ég er viss um að það á við um fleiri sem lesa reglulega þín ágætu skrif.

Kveðja

Karl Guðm.

Reykjavík.

Karl (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 12:04

5 identicon

Björgvin er öflugur og vaxandi stjórnmálamaður en þú ættir að halda þig við leiklistina.

jonnih (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 13:42

6 Smámynd: Óðinn Þórisson

Kanski má segja að þetta hafi verið táknrænt um þá stefnubreytingu sem sf er að gera hjá sér og er það jákvætt.

Óðinn Þórisson, 11.6.2008 kl. 18:37

7 identicon

En Samfylkingin í heild sinni, á hún að njóta vafans?  Það er verið að bregða all verulega frá markmiðum hins fagra Íslands!

Gísli (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 20:34

8 identicon

Björgvin gerir sér kannski grein fyrir því að það verður að vera atvinnuuppbygging í þessu landi með fyrirtækjum sem eru arðsöm.  Við getum víst ekki öll lifað af leiklistinni einni saman.

Sigurður Gunnarsson (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 21:30

9 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæll Dofri, það voru margir sem tóku eftir Björgvin G. Sigurðssyni með skófluna og urðu mishissa. Mér finnst ekkert óeðlilegt við að þú bæði gagnrýnir flokksbróður þinn fyrir athæfið en viljir leyfa honum að njóta vafa. Mér er spurn hvort hann tók þessa skóflustungu gegn sannfæringu sinni á líkan hátt og þegar umhverfisráðherra úrskurðaði, gegn sannfæringu sinni, ef ég skildi útvarpsviðtal við hana rétt, að ekki þyrfti sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum sama álvers og þeirra framkvæmda sem af því leiða, þ.e. raflína og virkjana.

Þótt skóflustungurnar hefðu verið teknar þrátt fyrir fjarveru Björgvins, hefði það samt verið táknrænt af honum - fyrir Fagra Ísland -að neita að vera með í athæfinu.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.6.2008 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband