Samviskuspurningar

Síðast varð ekki neitt við ráðið, sá sem fyrstur sá bjarndýrið á Þverárfjalli byrjaði á að hringja í útvarpið og skömmu síðar var allt fullt af fólki á vettvangi. Hætta var á að missa þann ísbjörn upp í svartaþoku á fjallinu, skammt frá mannabyggð. Myndatökumaður sem langaði að ná myndskeiði ársins fór of nálægt bjarndýrinu sem auðvitað varð að drepa þegar það nálgaðist hinn gómsæta myndatökumann um of.

Þjóðfélagið fór á hvolf og kaffistofur vinnustaða loguðu stafna á milli í deilum um hvort rétt hefði verið að skjóta björinn eða hvort mögulegt hefði verið að bjarga honum. Nú er kominn annar ísbjörn. Aftur stöndum við frammi fyrir sömu spurningum.

Nú er bjarndýrið bókstaflega steinsnar frá íbúðarhúsinu á Hrauni á Skaga. Engu mátti muna að 10 ára stúlka lenti í klónum á honum í morgun þegar hún hljóp á eftir heimilishundinum út í æðarvarpið þar sem bjarndýrið sat og gæddi sér á eggjum. Sem betur fer slapp hún. Það var heppni. En aftur er spurt - hvað á að gera við ísbjörninn? Er hægt að fanga hann og flytja hann aftur til síns heima?

Hugsanlega er hægt að svæfa björninn. Það dugar í u.þ.b. 15-20 mínútur. Dugar það til að koma bjarndýrinu í búr? Það er ekki víst að ísbirninum henti að standa á bílaplaninu akkúrat þegar deyfiskotið ríður af. Er hægt að reka björninn eða lokka í aðhald? Ekki gott að segja. Kannski Jón Bjarnason þingmaður Skagfirðinga vilji ganga með kjötstykki á undan birninum inn í gám?

Þetta er ekkert gamanmál. Auðvitað er best ef hægt er að handsama björninn og flytja hann heim til Grænlands. Það má hins vegar ekki ganga svo langt í þeim leiðangri að mannslífum sé teflt í tvísýnu. Það má heldur ekki ganga svo langt í manngæskunni að dýrið kveljist, t.d. vegna síendurtekinna svæfinga en það hefur komið fram að slík meðferð myndi fara mjög illa með líffæri dýrsins og hugsanlega drepa það með kvalarfullum hætti.

Kannski erum við líka að gleyma aðalatriðinu í þessu máli. Það er ekki venjulegt að ísbirnir komi hingað af sundi og þetta styður það sem við jú vissum fyrir að tilveru ísbjarna er ógnað af loftslagsbreytingum - sem eru af manna völdum. (M.a.s. Illugi Gunnarsson er hættur að mótmæla því!)

Við þurfum því að spyrja okkur nokkurra samviskuspurninga. Hve langt á að ganga í að bjarga bjarndýrinu? Má tefla mannslífi í tvísýnu? Má kvelja dýrið til að bjarga því? Getur verið að okkur sé svona umhugað um að bjarga birninum af því í raun viljum við bjarga okkur sjálfum frá því að taka á orsök vandans?

Hugsum kannski um það næst þegar við stígum upp í jeppann til að skreppa bæjarleið.


mbl.is „Allt í biðstöðu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæll Dofri

Hér á landi er fullt af færu fólki sem hefur búið á ísbjarnarslóðum og lifað þær hremmingar af. Ég veit um fólk sem hefur búið í Alaska, Svalbarða, Grænlandi, Norður Kanada og fleiri stöðum þar sem viðbúið er að ísbirnir banki upp á. Ég spyr sjálfa mig hvort að húsdýragarðurinn íslenski gæti gegnt einhverju hlutverki í millibilsástandi því sem skapast þegar búið er að svæfa björninn og koma honum í búr. Ég ímynda mér einhvern veginn að þetta sé ekki í fyrsta skipti í heimssögunni sem slíkt hafi verið gert. 

Anna Karlsdóttir, 16.6.2008 kl. 17:39

2 identicon

Sæll Dofri

 Þetta mál er a.m.k. gott fyrir settan umhverfisráðherra sem nú getur látið ljós sitt skína á gáfulegri hátt en þegar hann steig á skófluna í Helguvík núna nýlega.

Einar Torfi Finnsson (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 01:55

3 identicon

Dofri, mér er eiginlega spurn, er þessi bloggfærsla svona klaufaleg "flamebait" eða ertu að upplýsa alþjóð um það sem mér finnst vera algert áhugaleysi, sinnuleysi og þekkingaleysi á umhverfismálum? Ef svo er þá mætti e.t.v. benda þér á önnur störf í samfélaginu þar sem hæfileikum þínum er betur borgið.

Hvað segir samviska þín um það?

Magnús (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 15:57

4 Smámynd: Dofri Hermannsson

Kæri Magnús - ég veit ekki einu sinni hvað flaimbait er! Bíð spenntur eftir að þú upplýsir mig svo ég geti beint hæfileikum mínum í réttar áttir.

Dofri Hermannsson, 17.6.2008 kl. 16:38

5 Smámynd: Evert S

Húsdýragarðurinn býður ekki upp á aðstöðu fyrir svona dýr og tekur það þó nokkurn tíma að byggja up slíka aðstöðu, þannig að húsdýragarðurinn getur varla tekið við svona dýri nema með nokkra mánaða fyrir vara.

Búið er að breyta ísbjarnargryfjunni í hafnarfirði í púttvöll svo ekki er hún í boði en væntanlega væri samt fljótlegra að grafa upp úr henni en að byggja nýja en það myndi þó taka verulegan tíma og er ekki í boði með ekki lengri fyrirvara.

Hins vegar finnst mer hann Dofri taka málið og fjalla um það á raunhæfum nótum en mér finnst þó vanta í hans ummfjöllun hvort það teljist til mannúðlegrar meðferðar að loka svona dýr í búrum/gryfjum í dýragörðum, ég tel að það sé ómannúðlegt.

Evert S, 17.6.2008 kl. 16:48

6 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Það hefur margt verið ritað um ísbirnina tvo. Fátt viturlegt. Þetta fellur þó í þann flokkinn sem telja má vera vit í. Það er alveg klárt að gera þarf viðbragðsáætlun. Sú áætlun getur eftir ítarlega skoðun á öllum möguleikum og að teknu tilliti til reynslu eftir heimsókn 2 ísbjarna, verið mjög einföld:

SKJÓTA STRAX

Við ættum aðeins að koma okkur niður á jörðina og átta okkur á að náttúruvernd snýst um eitthvað annað og meira en "björgun" einstakra dýra. Flutningur 2 bjarndýra til Grænlands hefur engin áhrif á stærð og viðkomu ísbjarnarstofnsins.

Kristjana Bjarnadóttir, 17.6.2008 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband