4.7.2008 | 11:16
Ókindarkvæði
Munið þið þegar netbólan sprakk eftir aldamótin? Margir höfðu tekið lán til að kaupa hlutabréf sem féllu í verði, gengið féll með tilheyrandi verðbólguskoti, það varð erfiðara að fá vinnu og þjóðin hlustaði hnípin á landfeður syngja hvern með sínu nefi: Það verður þröngt í búi ef ekki verður virkjað við Kárahnjúka". Það verður atvinnuleysi ef ekki verður virkjað." Lífskjör munu versna ef ekki verður virkjað." Bakraddir sungu ýmsir stjórnmálamenn, hagsmunaaðilar og nokkur verkalýsðsamtök. Hljómar kunnuglega?
Fræjum óttans var sáð og þeim til varnar, líkt og fulgahræða, var skrattinn gerður að veggskrauti. Ríkisstjórnin snéri við úrskurði Skipulagsstofnunar um að hætta skyldi við Kárahnjúkavirkjun vegna umtalsverðra óafturkræfra umhverfisáhrifa". Björgun þjóðar í nauðum var tryggð. Þjóðin fylltist bjartsýni eins og uppgötvast hefði ný fiskitegund við strendur landsins.
Á sama tíma náðu vextir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sögulegu lágmarki, valdir aðilar gátu fundið peninga til að kaupa bankana og jafnvel götustrákar" gátu tekið stór lán til að fara í útrás með viðskiptahugmyndir sínar. Það var almenn uppsveifla í heiminum og duglegt fólk nýtti sér tækifærin sem í því fólust. Það hafði ekkert með ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um Kárahnjúkavirkjun að gera.
Sem betur fer urðu hin efnahagslegu áhrif af stóriðjuframkvæmdunum miklu minni en ríkisstjórnin hafði lofað. Landsfeðurnir höfðu lofað að um 40% af heildarkostnaði framkvæmda myndi skila sér inn í landið. Reyndin varð nálægt 20% því engin var nauðin, allir höfðu vinnu og flytja þurfti inn mörg hundruð flugvélafarma af erlendum verkamönnum til að koma mannvirkjunum upp.
Of langt mál er að telja upp öll hagstjórnarmistök Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á undanförnum árum. Fyrir utan sjálfa Kárahnjúkavirkjun má þó nefna kosningaloforðið um 90% húsnæðislán, afnám bindiskyldu bankanna og skattalækkanir sem nú þegar hafa með aðstoð verðbólgu og verðtryggingar étið upp miklu meira en þær skiluðu skattgreiðendum í vasann. Við þessu öllu varaði fjöldi hagfræðinga.
Nú er aftur komið samdráttarskeið. Ástæðan er tímabundinn skortur á lánsfé og hinn heimatilbúni vandi sem síðasta ríkisstjórn ber ein fulla ábyrgð á. Og aftur er hafinn upp sami söngur; Að það verði að virkja og byggja álver. Annars muni illa fara. Forsætisráðherra telur að álver í Helguvík muni bjarga okkur frá atvinnuleysi, fjármálaráðherra telur að það muni stórauka erlent fjárstreymi inn í landið og virka sem (falsað) heilbrigðisvottorð fyrir íslenskt efnahagslíf. Hvort tveggja er alrangt.
Eins og Vinnumálastofnun hefur bent á sér sveigjanleiki vinnumarkaðarins til þess að atvinnuleysi eykst ekki að sama skapi þótt störfum fækki nú þegar þensluskeiði lýkur. Í landinu hafa undanfarin misseri starfað um 17 þúsund farandverkamenn. Þegar störfum fækkar í landinu og verðmæti krónu gagnvart evru lækkar leita farandverkamenn annað. Á Suðurnesjum er atvinnuleysi einkum hjá konum sem reynslan sýnir að vilja síður vinna í álveri (16% á Grundartanga). Álver í Helguvík mun því engu breyta um atvinnuástand í landinu.
Þá að hinu meinta stórstreymi erlends gjaldeyris inn í landið vegna byggingar álvers í Helguvík.
Meira en helmingur þeirra 60-70 milljarða sem áætlað er að myndi kosta að byggja álver í Helguvík er erlendur kostnaður við kaup á framleiðslubúnaði og tækni. Um 15% færu í byggingarefni og -búnað (ekki torf og grjót). Aðeins um 15% eða um 10 milljarðar myndu fara í laun og líklegt er að langstærstur hluti launþega yrðu erlendir verkamenn sem senda tekjur sínar heim. Aðeins hönnun, framkvæmdastýring og eftirlit upp á um 6 milljarða er talið að myndi að miklu leyti renna til íslenskra aðila. Heildarinnstreymi erlends gjaldeyris vegna byggingar álvers í Helguvík yrði því tæpast meira en 2 - 3 milljarðar á ári í þrjú ár.
Til að setja þessa tölu í samhengi má geta þess að 12% verðbólga á ári mun auka verðtryggðar skuldir heimilanna (1.300 ma kr.) um 156 milljarða á ári. Hagkerfi þar sem slík verðbólga geisar er ekki heilbrigt. Tveir milljarðar á ári í gjaldeyristekjur af álversbyggingu í Helguvík breyta engu þar um. Álver í Helguvík getur þannig aldrei orðið það heilbrigðisvottorð sem sumir dýralæknar hafa látið sig dreyma um. Sjúkravottorð væri nær sanni.
Það var barn í dalnum sem datt onum gat
en þar fyrir neðan Ókindin sat..."
Tilgangur þessa söngs er að halda fólki í skefjum. Að stjórna með ótta af því samtal og útskýringar eru of flókin leið til að halda völdum. Það er skiljanlegt að talsmenn bankanna, eigendur steypustöðva, hagsmunasamtök mannvirkjageirans og aðrir sem hafa beinna hagsmuna að gæta láti freistast til að kyrja Ókindarkvæðið gegn betri vitund. Það er jafnvel hægt að skilja þá í verkalýðsforystunni sem jafnan skipa sér gagnrýnislítið í bakraddakórinn um leið og atvinnuleysisgrýlunni er veifað.
Það væri á hinn bóginn afar torskilið ef aðilar sem hafa talað fyrir nýrri hugsun í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar tækju undir þennan söng.
Birt í Morgunblaðinu 4. júlí
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Væri ekki ráð að fara að vinna álið meira hér heima áður en það er allt sent úr landi - óunnið. Stórt stökk í verðmætasköpun í fiskveiðum var þegar hætt var að selja fiskinn óunnin úr landi. Hér mætti t.d. framleiða ýmsa hluti í bíla. Stutt er að flytja slíka hluti frá Íslandi beint á markaði í Ameríku og Evrópu.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 5.7.2008 kl. 01:01
Kristinn segir ,,með nútíma faglegri umhverfiskröfum skv. lögum" Þið voruð nú ekki í vandræðum með að snú öllum svoleiðis úrskurðum virkjunum í hag. Svoleiðis að það trúir enginn lengur á lög og reglur í því sambandi lengur. Dofri bendir á bullið sem viðhaft var til þess að koma Kárahnjúkum á koppinn. Þetta var allt saman handvirkt, fræum óttans sáð af stjórnmálamönnum Sjálfstæðisflokksins og Samtökum atvinnulífsins. Sjálfstæðisflokkurinn er bara óheiðarlegur flokkur sem hikar ekki við að nota lúalegar aðferðir til að ná sínum málum fram. Smjörklýpuaðferð Davíðs Oddssonar er núna sem stór bolti í heila Sjálfstæðisflokksins og sem betur fer eru blikur á lofti þess efnis að fólk sé farið að átta sig á því fyrir hvað þessi spillingar flokkur stendur. Óheiðarleika!
Valsól (IP-tala skráð) 6.7.2008 kl. 08:03
Dofri, við þessu er engu að bæta. Bara hryllingur, að þessi þjóð getur ekki lært úr mistökunum. Og mistökin voru mörg þegar Kárahnjúkavirkjunin og álver á Austurlandi urðu að veruleikanum. Neikvæðu áhrifin vega talsvert þyngra en jákvæðu áhrifin.
Úrsúla Jünemann, 6.7.2008 kl. 20:36
Dofri, eins fyrri daginn er ég algjörlega sammála þér. Þú hittir alltaf naglann á höfuðið í þessum pistlum þínum.
Þess vegna finnst mér sorglegt að þú skulir tilheyra öðrum tveggja stóriðjuflokkanna sem nú stjórna. Ég sé í sjálfu sér engan mun á SF og Framsókn. SF er verri ef eitthvað er.
Stuðningi mínum við SF lauk daginn þegar Björgvin tók skóflustunguna í Helguvík. Það var þá sem rann upp fyrir mér að sem kjósandi flokksins hafði ég verið hafður að algjöru fífli.
Ellert Grétarsson (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 17:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.