Að kunna að skammast sín

Á fimmtudaginn var sagði Haukur Guðmundsson, settur forstjóri Útlendingastofnunar,  í viðtali á Rúv um mál Paul Ramses og fjölskyldu hans frá Kenía:

Það hefur verið mjög gagnrýnt að menn hafi ekki þrátt fyrir þessar reglur tekið þá ákvörðun að fjalla um hælismálið hér á Íslandi og þá vegna tengsla hans hér við, við eiginkonu hans og sem, sem að hér dvelur. Vandinn í þessu máli er einfaldlega sá að hún er hér í ólöglegri dvöl og án þess að ég vilji neitt ræða hennar sérstaka mál í einhverjum þaula, þá er það náttúrulega svo með mál útlendinga sem að dveljast ólöglega á Íslandi að þau eiga þann sameiginlega endapunkt sem felst í, í brottvísun. Þannig að það er náttúrulega tómt mál að tala um að sameina hann hér einhverri fjölskyldu sem verið er að brottvísa.

Þarna fer hinn setti forstjóri rangt með. Það skiptir engu hvort kona Ramses er ólögleg í landinu eða ekki, samkvæmt útlendingalögum ber að taka mál maka þess sem leitar eftir pólitísku hæli fyrir um leið og hælisleitanda. Í Dyflinnarreglugerðinni sem Útlendingastofnun skýlir sér á bak við í þessu máli er einnig mælst til þess að mál fólks í sömu fjölskyldu séu afgreidd saman.

Hauk Guðmundsson, settan forstjóra Útlendingastofnunar, skortir því engar heimildir til að breyta rétt í þessu tilviki. Skorturinn sem forstjórinn líður er á öðru sviði. Að fela sig á bak við það að kona á síðustu vikum meðgöngunnar skuli ekki hafa skutlast til Svíþjóðar á þriggja mánaða fresti til að vera lögleg í landinu er bæði staðlaust og lítilmannlegt. Hvort forstjórinn gerir það í pólitísku umboði síns æðsta yfirmanns væri forvitnilegt að vita.

Allt þetta mál er okkur Íslendingum til skammar. Minnir óþægilega mikið á Falun Gong og leit sérsveita í bílum útivistarfólks á hálendinu. Enda skammar stærstur hluti Íslendinga sín niður í tær yfir meðferðinni á þessari kenísku fjölskyldu.

Það er mikilvægt að kunna að skammast sín. Við sjáum það best þegar við horfum upp á embættisverk þeirra sem kunna það ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr heyr!

Andrés (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 10:51

2 identicon

Takk fyrir þessa ábendingu um útlendingalögin. Ég var ekki búin að átta mig á þessu ákvæði.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 11:04

3 identicon

Vel mælt. Er ekki líka svolítið einkennilegt að heyra manninn segja:

þá er það náttúrulega svo með mál útlendinga sem að dveljast ólöglega á Íslandi að þau eiga þann sameiginlega endapunkt sem felst í, í brottvísun.

Ég hélt að annar mögulegur endapunktur væri sá að fólki væri veitt hæli af mannúðarástæðum, en það orð er kannski ekki til í orðaforða forstjórans.

Hvernig er annars með þingmenn Samfylkingarinnar, ætlar enginn að standa í lappirnar í þessu máli nema Mörður?

Jón Yngvi Jóhannsson (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 11:06

4 Smámynd: Aprílrós

Já alveg óskyljanleg hegðun gagnvart Paul, mannréttindabrot. . Einn rekinn úr landi og aðrir fá aðgang, 2 hælismenn frá Sri Lanka.

Kveðja Guðrún Ing 

Aprílrós, 7.7.2008 kl. 12:59

5 identicon

Mikið er ég sammála þér.

Valsól (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 13:12

6 identicon

Ég var að lesa að ISG hefði beðið sendiherra Íslands á Ítalíu um að hlutast til um að Paul fengi réttláta málsmeðferð þar í landi. Það er bara því miður ekki nóg til að fullnægja réttlætisþörf almennings á Íslandi. Það þarf að flytja hann aftur til Íslands og taka mál hans og fjölskyldu hans fyrir hér á landi.

Daníel (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 13:23

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta mál er okkur til skammar, ég er alveg sammála þér í því.  Við skulum bara heimta þennan mann hingað heim aftur, og hafa hátt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.7.2008 kl. 14:43

8 identicon

Ég var að skoða lögin og því miður er þetta ekki svona einfalt. Það er endalaust hægt að flækja málin með formsatriðum. Samkvæmt lögunum þarf hælisleitandi að hafa dvalarleyfi áður en makinn kemur til landsins, til að þau eigi einhvern rétt.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 15:44

9 Smámynd: Dofri Hermannsson

Katrín Theodórsdóttir, lögmaður Ramses, heldur öðru fram. Enda byrjar enginn hælisleitandi á því að sækja um dvalarleyfi áður en hann sækir um pólitískt hæli.

Það er enginn vafi á því að stjórnvöld hafa fulla heimild til að taka mál bæði Pauls og Rosmary til skoðunar saman - og ber í raun að gera það skv. tilmælum Dyflinarreglugerðarinnar. Viljinn stjórnvalda er hins vegar í hina áttina.

Dofri Hermannsson, 7.7.2008 kl. 16:03

10 Smámynd: Ásta Erna Oddgeirsdóttir

Ekki var ráðherradóttirin rekin!! Þarf fólk að vera í klíkunni til þess að ekki sé troðið á því??Hvar er sanngirnin??Hvar er mannúðin?? Hún finnst ekki hjá íslenskum ráðamönnum,því miður!

Ásta Erna Oddgeirsdóttir, 7.7.2008 kl. 19:47

11 identicon

Sæll Dofri.

Þakka þér fyrir góða færslu og upplýsingar, sem ég ekki vissi.

Þetta mál er skömm fyrir embættismenn okkar.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 01:09

12 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Takk fyrir fræðsluna og þennan pistil Dofri, djeskoti stendur þú þig annars vel.

Eva Benjamínsdóttir, 8.7.2008 kl. 01:17

13 identicon

Gripið úr umræðu um dvalarleyfi Paul Ramses og konu
hans undanfarna daga.


Í viðtali við Hauk Guðmundsson settan forstöðumann
útlendinga stofnunar þann fjórða júlí síðastliðinn
(s.l. föstudag) þá segir maðurinn þegar eru liðnar
svo mikið sem 6,26 mínútur af þættinum nákvæmlega
og orðrétt þetta:

" Það er alveg klárt mál, ef konan hefði verið hér

með lögmætum hætti þá er engin spurning við hefðum 

fallist á þetta, alveg um leið"

Nú vil ég benda á kastljós þátt gærkvöldsins 7.
júlí, í viðtali við Katrínu Theodórsdóttur
lögfræðing Paul Ramses
.

Strax í upphafi þáttar segir Katrín að Haukur
Guðmundsson hafi farið með rangt mál er hann talaði
um ólögmæta dvöl eiginkonu Paul Ramses á íslandi.

"Bæði er að eiginkonan er í löglegri dvöl þegar
Ramses sótti um hæli hér á landi og vegna
seinagangs í útlendinga stofnun þá rann leyfið út
meðan umsóknin var til meðferðar hjá stofnuninni."



Segir þetta okkur ekki að settur forstöðumeður
útlendinga stofnunar fór vísvitandi með rangt mál
og sendi Ramses úr landi á upplognum forsendum.
Það verðu fróðlegt að sjá hvernig þessu máli lýkur.

En svo er annað mál sem hægt er að benda á í
sambandi við ALLA þá hælisleitendur sem koma til
íslands, að spurning er hvort Dyflinar samkomulagið
eigi í raun og veru við hér þar sem óframkvæmanlegt
er að komast hingað öðruvísi en að koma frá öðru
evrópulandi. Finnst mér satt að segja skrýtið að
öll hin evrópulöndin sætti sig við þetta þar sem
þeirra skerfur af hælisleitendum er sennilega mun
stærri miðað við höfðatölu en íslendinga.

Ég vil taka fram að ég tel ekki USA eða Kanada með
þar sem dyflinarsamkomulagið á ekki við þar, enda 
eru líkurnar á einhver hælisleitandi komi þaðan til
íslands hverfandi.

Miðað við þetta var Paul Ramses sendur úr landi á forsendum sem ég veit ekki hvort eru lögbrot eða ei, en allavega held ég að útlendingastofnun ætti að taka sig saman og sækja mannin áður en hann verður sendur til síns heimalands og jafnvel tekinn af lífi.  

Karlotta (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 07:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband