16.7.2008 | 13:09
Betra ökulag - íslenskt hugvit
Til að geta haldið áfram starfsemi þurfti fyrirtækið að víkka út notagildi tækisins og fóru að þróa það sem stjórnunartæki fyrir fyrirtæki sem vilja að bílum þeirra sé ekið skynsamlega. Auk margvíslegra viðbóta er hvert tæki nú búið gps sendi sem sendir út merki á sekúndu fresti. Þessi viðbót gefur marga möguleika en með því að skoða punktaferil ökutækis er hægt að sjá hvernig akstri er háttað, t.d. hvort verið er að taka mjög hratt af stað og hemla til skiptis. Með hækkandi eldsneytisverði skiptir ökulag æ meira máli fyrir fjárhaginn auk þess sem skrykkjótt ökulag er óþægilegt fyrir farþega og getur skaðað varning í flutningabílum.
Meðal þeirra sem hafa nýtt sér þjónustu New Development eru fyrirtæki með stóran bílaflota sem bæði vilja spara eldsneyti, lækka viðhaldskostnað, draga úr slysahættu og vernda ímynd sína en það er ekki góð auglýsing að hafa umferðardólga akandi um á merktum fyrirtækisbílum.
Það var ánægjulegt að sjá að bærinn Jönkjöping í Svíþjóð hefur séð möguleikana í þessari tækni og nýtir hana til að spara eldsneyti, gera aksturinn þægilegri fyrir farþega og að sýna notendum hvar vagnarnir eru staddir hverju sinni og hvað langt er í næsta vagn.
Það var mjög tilkomumikið að geta fylgst með því á borgarkorti Jönkjöping hvar allir strætisvagnarnir voru staddir og ég er viss um að viðskiptavinir Strætó bs myndu fagna slíkri tækni. Hún mun reyndar hafa staðið Strætó bs til boða en einhverra hluta vegna hefur fyrirtækið ekki haft nægan áhuga á þessu til að viðskiptavinir Strætó geti notið slíkrar þjónustu. Það er óheppilegt hvað stjórn Strætó bs virðist lömuð vegna ólíkra áherslna þeirra bæjarfélaga sem að fyrirtækinu standa. Nú vill Kópavogur gefa öllum frítt í strætó á sama tíma og Garðabær sér enga ástæðu til að borga fyrir námsmenn úr Garðabæ. Á sama tíma og peninga vantar til að halda uppi viðunandi þjónustu (ferðir á 30 - 60 mínútna fresti) hefur fyrirtækið svo ekki sinnu á að nýta sér jafn mikilvægt eldsneytissparnaðar- og gæðaaksturskerfi og New Development hefur hannað.
Það er ánægjulegt að sjá íslenskt hugvit taka flugið og gott til þess að vita að fyrirtækin í landinu taka þessari tækni tveim höndum. Það er líka ánægjulegt að sjá að opinberir aðilar í nágrannalöndunum hafa séð tækifærin í þessari tækni. Nú bíður maður bara spenntur eftir að sjá hvort íslensk stjórnvöld hjá ríki og borg sem tíðrætt er um áhuga sinn á almenningssamgöngum og orkusparnaði kveiki á perunni.
Fyrst birt á www.samfylkingin.is
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:12 | Facebook
Athugasemdir
Áhugaverð grein. Ég, ásamt mörgum öðrum, bíð óþreyjufullur eftir þeim tímamótum þegar aksturstölvur munu einfaldlega sjá um allan aksturinn. Nú eru hugbúnaðir fyrir stýringu ökutækis orðnir það fjölhæfir og öruggir að þeir eru farnir að veita hæfustu ökuþórum samkeppni í rallakstri. Einn af mörgum kostum við slíkt fyrirkomulag er að séu tíu bílar staðsettir í röð við rautt ljós gætu þeir allir lagt af stað á sama tíma, þökk sé fullkomnu viðbragðskerfi sem skynjarar bílsins búa yfir. Að auki munu þeir komast hraðar milli staða og eyða mun minna eldsneyti - að ekki sé minnst á stórfækkun umferðaslysa. Þessir svörtu kassar í bílana er bara einfaldur forveri þess sem koma skal.
http://youtube.com/watch?v=DMK4Xp7g5gI
Hér er eitt dæmi þess hve mannskepnan er í raun ófullkomin til að stýra bíl.
Kristján Hrannar Pálsson, 16.7.2008 kl. 23:34
Já, eitt EF-ið ennþá.
Hvenær kemur eitthvað vitrænt frá yfirvöldum?
Það eru bara skattar og sektir sem þeir kunna að beita.
Ekki það að fá almenning í lið við sig, með góðu.
Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 21:35
Ég elska alla nýtækni og þetta eru frábærar fréttir. það eru svo margir sem gera sér ekki grein fyrir því óhemjumikla trausti sem þeir bera til annarra bílstjóra, t.d. þegar 2 bílar mætast á þjóðvegum, báðir á 100 km hraða - það þarf ekki mikið út af bregða til að annar hvor sveigi inn á rangan vegarhelming, þó ekki væri nema örfáa sentimetra.
Veit ekki með þennan sjálfvirka hugbúnað í bíla, tölvur eru ekki óskeikular, hvernig færi t.d. með slíkan búnað í bíl sem staddur er í sífelldu 15-20 gráða frosti? Væri hægt að hakka sinn í kerfið og valda viljandi umferðaröngþveiti? Þessi New Development tækni myndi frekar gera bílstjóra meðvitaðri um þá ábyrgð sem þeir bera í umferðinni, sérstaklega ef kæmi til aflesturs "svarta kassans" t.d. vegna tryggingamála (farmur skemmist í bílflutningum vegna óviðeigandi ökulags og þess háttar).
Hvað varðar svo Strætó þá skil ég ekki af hverju þeir gefa ekki frítt í ferðir fyrir alla þarna fyrir sunnan. Aðsóknin myndi stóraukast, minni slit væru á götunum, minna svifryk, sparnaður við viðhald gatnakerfisins og aukning aðsóknar myndi kalla á betra leiðarkerfi, hægt væri að réttlæta enn frekari kaup á umhverfisvænum strætisvögnum og umferð um borgina myndi minnka og þar af leiðandi mörgum slysunum. Tala nú ekki um ef þeir gætu keyrt hluta flotans allan sólarhringinn til að geta þjónustað betur vaktavinnufólk og fleiri. Fólk gæti svo nýtt sér sparnaðinn af bíleign til annarrar neyslu sem skilaði sér inn í hagkerfið án þess að slíta götum og valda slysum.
Martha Elena Laxdal (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 23:47
strætó kerfið hérna á höfuðborgasvæðinu er mér ennþá óráðin gáta....
er farin að hallast að því að þeir hjá strætó bs eigi sér ekki viðreisnar von og eina lausnin væri að henda öllu batteríinu út um gluggann og gera þetta bara upp á nýtt.
Það þarf að styrkja almenningssamgöngur hérna á höfuðborgasvæðinu og það á raunhæfan hátt svo að það gangi upp. Það verður allavegna að fara gera eitthvað í þessari asnalegu (fann ekki betra orð) umferðamenningu. Líst vel á þetta fyrirkomulag sem verið er að prófa í Jönköping, ólst nú upp í svíþjóð og það er nú varla hægt að bera saman almenningssamgöngurnar þar og hér...
E.R Gunnlaugs, 20.7.2008 kl. 23:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.