Gefum upp á nýtt

Heimurinn þarf leiðtoga með nýja stefnu í efnahags- og umhverfismálum til þess að  takast á við  fjármálakreppu, loftslagsbreytingar og hækkandi matar- og olíuverð. Þetta segir breskur sérfræðihópur sem sendi nýlega frá sér skýrslu um þessa nýju stefnu - nútíma „New Deal" stefnu í anda þeirrar sem Franklin Roosevelt Bandaríkjaforseti beitti til að ná Bandaríkjunum upp úr heimskreppunni miklu.

Það eru þó ekki bara sérfræðihópar þar í landi sem tala á þessum nótum heldur hafa bresk stjórnvöld með eftirtektarverðum hætti leitt umræðu um tengsl umhverfis- og efnahagsmála. Þannig hefur breska stjórnin til dæmis sett fram þau sjónarmið að nú sé rétti tíminn til að fjárfesta myndarlega í nýjum umhverfisvænum lausnum, einkum á sviði orkumála, sem skapað geta þúsundir grænna (e. green collar) starfa.

Þýsk stjórnvöld hafa um nokkurt skeið talað á sömu nótum. Þau telja helstu tækifæri Þýskalands felast í hæfni þjóðarinnar til að finna upp orkusparandi og umhverfisvænni tækni og verkferla. Heimurinn muni á allra næstu árum þurfa að taka krappa beygju í átt til umhverfisvænna efnahagslífs, umhverfisvænni iðnaðarframleiðslu, umhverfisvænni lifnaðarhátta og að í því felist miklir möguleikar fyrir Þýskaland.

Á dögunum hélt Barack Obama ræðu þar sem hann talaði um nauðsyn þess að Bandaríkin yrðu sjálfum sér nóg um orku. Ekki megi halda áfram að seðja orkufíknina með innfluttri olíu heldur verði að leita nýrra lausna. Í ræðunni hét Obama 150 milljörðum dala í 10 ára átak til að þróa hreina orku, skapa nýtt orkuhagkerfi í Bandaríkjunum og 5 milljónir nýrra starfa.

Ýmsir munu segja að framlag okkar Íslendinga til hinnar grænu heimsbyltingar sé að virkja hverja sprænu og hvern hver til að bjarga heiminum frá kolaknúnum álverum. Það er afbökun. Við munum engu bjarga með því. Það má þvert á móti færa fyrir því ágæt rök að með því að taka ekki hærra gjald fyrir þá vistvænu orku sem við höfum selt til álbræðslu höfum við tafið nauðsynlega þróun í átt til umhverfisvænni tækni.

Við höfum hins vegar tækifæri til að skapa hér sjálfbært orkusamfélag og vera á meðal þeirra þjóða sem fremstar eru í heiminum á þessu sviði. Nú þegar kreppir að í efnahagslífi þjóðarinnar eigum við ekki hlaupa til og selja orkulindir okkar á útsölu, helst án þess að vandað umhverfismat fari fram eins og sumir heimóttarlegir þingmenn hafa heimtað.

Við eigum þvert á móti að bjóða erlendum aðilum til samstarfs um það verðuga verkefni að gera Ísland að sjálfbæru orkusamfélagi. Til að ná því takmarki þarf að þróa vistvænni ökutæki, vistvænni fiskiskipaflota, vistvænni flugvélar. Það þarf að búa til innviði nýs orkusamfélags með fjölorkustöðvum út um allt land.

Vegna sérstöðu okkar er Ísland eftirsóknarvert til samstarfs um að þróa og koma í framkvæmd nýjum lausnum á þessu sviði. Rannsóknir og þróun í nýrri orkusparandi og umhverfisvænni tækni gæti á næstu árum skapað mörg hundruð, jafnvel nokkur þúsund þekkingarstörf hér á landi, auk þess sem samstarf við stóra erlenda aðila um slíkar rannsóknir getur fært þjóðinni miklar gjaldeyristekjur.

Birtist sem grein í  Viðskiptablaðinu í morgun


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband