Áfram sömu mistökin!

Það er merkilegt að höfundar að nýjum meirihluta skuli ekkert hafa lært af reynslunni. Aftur gerir uppbótarmaður Sjálfstæðisflokksins þau grundvallarmistök að semja um meirihlutasamstarf án þess að tala við og fá samþykki varamanns síns í borgarstjórn.

Ljóst var á fundi sem Óskar Bergsson hélt með sínu fólki í nefndum og ráðum á mánudaginn að margir voru andvígir samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og vildu halda í heiðri samkomulag sitt við Tjarnarkvartettinn. Marsibil var afdráttarlaus við Óskar um afstöðu sína á þessum fundi. Honum var því fullljóst um stöðuna þegar hann hélt áfram viðræðum sínum við Sjálfstæðismenn. Spurningin sem gaman væri að vita svarið við er þessi: Vissi Hanna Birna að Óskar hafði Marsibil ekki með sér?

Mér er það til efs að Óskar hafi verið að upplýsa Hönnu Birnu um jafn léttvægt smáatriði og það hvort varakona hans væri samþykk nýjum meirihluta eða ekki. Úr orðum hans í gærkvöldi skein að það væri bara spurning um að gefa henni nokkra daga til að jafna sig. Sjá að sér.

Það eru gömlu karlarnir í Framsókn og Sjálfstæðisflokki sem eru aðalhöfundar að þessum nýja meirihluta. Guðni á Brúnastöðum og Geir Haarde munu hafa lagt á ráðin um þetta fyrr í vikunni og í því ljósi er athyglisvert að skoða orð forsætisráðherra í fréttum á miðvikudagskvöldið. Í gær var svo Alfreð Þorsteinsson sendur í Kastljós sem andlit nýs meirihluta.

Tónninn hefur verið sleginn. Nú á að bjarga atvinnumálum í Reykjavík með því að ráðast í Bitruvirkjun þvert á alla skynsemi og niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Auk umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða sem á að fótum troða sýnir nýr meirihluti hagsmunum ferðaþjónustu löngu töngina með þessari forneskjulegu nauðhyggjustefnu.

Að ekki sé minnst á dómgreindarleysið í fjármálum Orkuveitunnar en stækkanir á Nesjavöllum og Hellisheiðarvirkjun, til viðbótar við nýja virkjun í Hverahlíð jafngildir tvöföldun á raforkuframleiðslu fyrirtækisins. Vegna mikilla erlendra skulda er eigið fé fyrirtækisins komið niður að 30% mörkunum og ljóst að Orkuveitan hefur ekki efni á að skuldsetja sig fyrir meiru en hér var talið upp að ofan.

Eins og þeir þekkja sem hafa alist upp í sveit, og jafnvel fengið það verk að vatna fénu í fjárhúsunum, að lyktin af hrútunum verður alltaf sterkari eftir því sem þeir verða eldri, frekari og geðstirðari. Hún er býsna stæk hrútalyktin af þessum meirihluta.

Marsibil á heiður skilinn fyrir að hafa ekki látið draga sig á hárinu inn í þetta samstarf gegn sannfæringu sinni. Hún skipar sér þar á bekk með Margréti Sverrisdóttur og Guðrúnu Ásmundsdóttur. Það er góður félagsskapur.


mbl.is Marsibil styður ekki nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Óskar var óskrifað blað í stjórnmálum... en nú hefur hann stimplað sig inn sem dæmigerður hentistefnu framsóknarmaður.... sem er í sjálfu sér gott fyrir kjósendur að vita.

Jón Ingi Cæsarsson, 15.8.2008 kl. 12:17

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Smiðurinn Óska hitti naglann á höfuðið ...

Kjartan Pétur Sigurðsson, 15.8.2008 kl. 13:42

3 Smámynd: Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Ég hef nú alltaf vanist því að hrútalyktin sé sterkust í kringum jólin og fengitíðina, svo dofnar hún og finnst vart yfir sumarmánuðina og því erfitt að tala um hrútalykt af hlutum sem ske síðsumars. Þeir hafa kannski verði eitthvað öðruvísi hrútarnir hinu megin við fjallið sem þú tókst þátt í að vatna ... enda var jú eitt þekktasta fjárkyn á sínum tíma þaðan

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, 15.8.2008 kl. 20:15

4 Smámynd: Hallur Magnússon

Mér þykir þú, Dofri, hafa góðar upplýsingar um það sem gerist á trúnaðarfundum Framsóknar!  Allavega lætur þú skrifin hljóma þannig.

"Ljóst var á fundi sem Óskar Bergsson hélt með sínu fólki í nefndum og ráðum á mánudaginn að margir voru andvígir samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og vildu halda í heiðri samkomulag sitt við Tjarnarkvartettinn. Marsibil var afdráttarlaus við Óskar um afstöðu sína á þessum fundi."

Hvaðan hefur þú þessa speki þína?

Ég veita að Marsibil er það heiðarleg að hún gasprar ekki um umræður á trúnaðarfundum flokksins síns við trúnaðarmenn annarra flokka.

Ef þetta er rétt sem þú segir - hvaðan hefur þú upplýsingarnar?

Eitt enn.

Það var ljóst að Óskar Bergsson setti Bitruvirjun og atvinnumálin á oddinn. Það mál skapaði bresti í Tjarnarkvartettinum.

Hefðir þú og þitt lið í Samfylkingunni verið reiðubúið að endurskoða ákvörðun ykkar um að slá af Bitruvirkjun - ef svo ólíklega hefði farið að Ólafir F. hefði staðið upp - sem við vitum öll að vara afar ólíklegt?

Hallur Magnússon, 15.8.2008 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband