Fjarnám - starf án staðsetningar

Fjarnámið á Bifröst er gott dæmi um hvað er hægt að gera margt með aðstoð nýrrar tækni í fjarskiptum. Reynsla mín af slíku námi er mjög góð en námið hófst á vinnulotu um sumarið þar sem allir kynntust hratt og vel en eftir það sátum við hvert við sína tölvu dreifð út um allt land og sum hver í útlöndum. Það kom ekki að sök, samskiptin voru mikil og við hjálpuðumst að við verkefni, spjölluðum daglega saman og unnum hópverkefni rétt eins og við værum öll á sama stað.

Það var frábært að geta vaknað á morgnana, komið börnunum í skólann, hellt upp á kaffi, sest við tölvuna og ýtt svo á "Play" á nýjustu fyrirlestrunum. Ekki var verra að geta bakkað í fyrirlestrunum ef maður missti af eða skildi ekki eitthvað. Eða að geta stöðvað myndbandið á meðan maður fletti upp á viðkomandi kafla í bókinni eða leitaði á netinu að nýlegu dæmi í fréttum sem tengdist náminu. Ég get því mælt með fjarnámi við hvern sem er.

Nám er í raun vinna (og öfugt) og á þessu tvennu er enginn eðlismunur. Í umræðum um störf án staðsetningar væri fróðlegt að vita hvað margir á landsvísu stunda fjarnám. Líklega eru það nokkur þúsund manns.


mbl.is Bifröst opnar útibú í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er allt satt og rétt hjá þér. Ég þekki nokkra sem hafa stundað fjarnám með góðum árangri.

EN... því miður sitja ekki allir við sama borð á landinu hvað þetta varðar. Á ótrúlega mörgum stöðum eru ekki háhraðatengingar sem gera fólki kleift að stunda fjarnám - eða tenginin er flöktandi og ótraust. Nægir kannski að nefna Vestfirðina í þessu sambandi, einkum fámennari hreppi s.s. Arnarfjörð og Árneshrepp á Ströndum. Og ég man ekki betur en fyrir ekki svo ýkja löngu síðan hafi Ragnar skjálfti haft forgöngu um stofnun félags til að þrýsta á um háhraðatengingu fyrir norðan þar sem hann á heima.

Góðar samgöngur og traustur aðgangur að háhraðatengingum og öðrum samskiptamöguleikum er ein af undirstöðum þess að fólk vilji og geti búið á afskekktari stöðum landsins - og stundað m.a. fjarnám.

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.9.2008 kl. 10:36

2 Smámynd: Dofri Hermannsson

Öldungis hárrétt Lára Hanna. Það þarf að drífa þetta verkefni áfram, að háhraðavæða landið. Það er eitthvað bölvað ólag á þessum málum sem veldur því að sums staðar er ekkert netsamband að fá og svo verður að segjast eins og er að manni ofbýður gjörsamlega verðið á þjónustunni á stöku stað.

Ég veit t.d. að Skagfirðingar í dreifbýli hafa fengið það kostaboð, eða hitt þó heldur, að fá þráðlausa háhraðatengingu fyrir litlar 150 þúsund krónur!!! Þá er eftir að greiða fyrir notkun. Þetta finnst mér hneyksli. Er þetta ekki grunnþjónusta? Það er ekki eins og það sé verið að leggja streng inn í afdal, heldur bara að veita aðgang að útsendingu í sæmilega þéttbýlli sveit.

Dofri Hermannsson, 8.9.2008 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband