Að bulla, bulla og áfram bulla

Mikið var hressandi að heyra Jónas Haralz, hagfræðing og efnahagsráðgjafa viðreisnarstjórnarinnar, slá út af borðinu það sem ýmsir málsmetandi menn hafa undanfarið haldið fram; að áframhaldandi stjóriðja sé helsta og jafnvel eina lausn efnahagsvanda þjóðarinnar. Að álversbygging sé aðkallandi og nauðsynlegt verkefni til að afla gjaldeyris, skapa störf og útvega íslenska efnahagskerfinu það heilbrigðisvottorð sem það svo sárlega þarfnast. En skoðum hana aðeins nánar. Trúna á stóriðjubjargráðið.

Samkeppnisstaða
Nýlega var boðin út bygging Sæmundarskóla í Reykjavík. Erlendur aðili var með lægsta tilboðið. Líklegt er að slíkt endurtaki sig í Helguvík, ekki síst af því fjármagnskostnaður er hér til muna hærri en annars staðar. Hagfræðingar hafa slegið á að nettóinnstreymi af 60–70 milljarða framkvæmdum gætu orðið um 2–3 milljarðar á ári í þrjú ár. Á það að bjarga gjaldeyrisstöðunni? Setjum þessa tölu í samhengi. Verðtryggðar skuldir heimilanna eru um 1.300 milljarðar króna. Í 14% verðbólgu munu þær hækka um 182 milljarða á ári. Er líklegt að álver lagi það?

Atvinnuástand
Vegna ótryggs efnahagsástands óttast margir atvinnuleysi nú í vetur. Slíkar áhyggjur eru skiljanlegar en þó er vert að hafa í huga að enn er hátt á annan tug þúsunda erlendra farandverkamanna við störf í landinu. Atvinnuleysi mælist 1,2% sem er eitt það lægsta á byggðu bóli. En segjum að við blasti atvinnuleysi. Finnst fólki líklegt að besta leiðin til að bjarga fólki frá atvinnuleysi í vetur væri að byggja álver sem skaffar 200 manns vinnu eftir 2–5 ár?

Alþjóðleg bankakreppa
Það er lausafjárkreppa í heiminum. Á Íslandi bætist við sú staðreynd að íslenska krónan er óstöðugur gjaldmiðill og skuldir almennings og fyrirtækja eru þær hæstu í heimi. Bankarnir standa höllum fæti og Seðlabankinn þykir ekki traustur lánveitandi til þrautavara gagnvart gríðarlegum umsvifum íslenskra banka erlendis. Að lækna slíkt ástand með því að fá erlenda aðila til að byggja álver er hins vegar álíka líklegt til árangurs og að gefa fíl með alvarlega inflúensu hálfa magnýl. Tveimur árum síðar. Hvaða dýralæknir myndi gera það?

Ábyrg umræða
Það var ánægjulegt að heyra formann Samfylkingarinnar slá þessa hugmynd um stóriðjubjargráðið út af borðinu í umræðum um efnhagsmál á Alþingi í síðustu viku. Það er okkur ekki hollt að hugsa og tala um virkjanir og álversbyggingar sem skammtímareddingu. Sjúss í þynnkunni.
Við eigum að nýta orkuauðlindir landsins en af fyllstu varfærni gagnvart náttúrunni. Þess vegna er lykilatriði, líkt og formaður Samfylkingarinnar benti á, að klára Rammaáætlun um verndun og aðra nýtingu náttúrusvæða. Og við eigum að vanda okkur frekar en flýta.

Orkupólitík
Við eigum einnig að gera fyllstu kröfur um arðsemi virkjana, fjölda starfa og virðisauka af hverju megavatti. Nú skapa 75% íslenskrar orku einungis 1% allra starfa í landinu. Ætti ekki að vera hægt að gera eitthvað meira og verðmætara úr allri þessari orku? Alls kyns fyrirtæki standa nú í röð eftir að fá að kaupa orku. Fremst standa hins vegar orkufrekjurnar í Helguvík og á Bakka svo aðrir fá lítið sem ekkert til sinnar starfsemi. Er kannski brýnasta aðgerðin í orkumálum að segja upp lausum samningum við álverin og losa um rafmagn til þeirra aðila sem bæði skila okkur fleiri störfum, meiri gjaldeyristekjum og virðisauka inn í samfélagið?

Bullið burt
Stóriðjupredikunin boðar einfalda lausn á bráðum vanda. Gallinn er bara sá að vandinn er flókinn og það er engin einföld lausn til. Hlutverk stjórnmálamanna er að skapa viðskiptalífinu góð almenn skilyrði til vaxtar. Það mistókst síðustu ríkisstjórn hrapallega, góðærið var tekið að láni eins margir bentu á og nú er komið á daginn. Þá er freistandi að predika einfaldar lausnir. Það er hins vegar ábyrgðarlaust. Vonandi hefur Jónas hringt bjöllum á réttum stöðum. Og bullið burt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dofri Hermannsson

Það er talið að nettóútflutningur (raunverulegar gjaldeyristekjur) af álflutningi séu um 30% af brúttótölunni. Skv. því hefur álið halað inn gjaldeyri að verðmæti 24 ma. á árinu 2007. Ál er hins vegar ekki eina leiðin til að afla gjaldeyris og ég vara eindregið við þeim röddum sem gagnrýnislaust vilja rjúka til og virkja hér hverja sprænu um leið og harðnar í ári í þeirri barnalegu trú að það bjargi öllu.

Það eru tæplega 1500 manns að vinna í álveri en um 3000 manns að vinna í háskólum landsins. Nú segir kannski einhver að það skapi ekki gjaldeyristekjur. Það er alltaf einhver hluti þjóðarinnar sem segir að bókvitið sé ekki í askana látið, gott ef það er ekki fast hlutfall. Þetta er hins vegar rangt. Aukin menntun skilar meiri afköstum, auknum hagvexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins og samfélagsins. Ég leyfi mér að fullyrða að menntun skili meiri gjaldeyristekjum beint og óbeint en öll álver landsins til samans.

Ég tek undir með þér að við verðum að snúa við blaðinu og fara að afla meiri gjaldeyris en við eyðum. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að við hugleiðum aðeins hvort við getum ekki sparað okkur talsverðan gjaldeyri. Það er með þjóðfélagið rétt eins og heimilisbókhaldið - það skiptir ekki minna máli hve miku er eytt en hve mikils er aflað.

Ef við gætum notað rafmagnið okkar til að gera hér sjálfbært orkusamfélag og þyrftum ekki á olíu að halda gætum við sparað stórfé í gjaldeyri. Á síðasta ári fluttum við inn olíu og bensín fyrir 37 ma króna.

Dofri Hermannsson, 10.9.2008 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband