Sprungið á hjólinu í morgun

Þegar ég ætlaði að sveifla mér í hnakkinn á hjólinu í morgun sá ég mér til hrellingar að það var sprungið á afturdekkinu. Veit ekki hvað veldur en þetta er í 5 skipti frá því ég byrjaði að hjóla í vor. Dálítið pirrandi og ef einhver er með góð ráð væri ég feginn að fá þau.

Ég skellti mér í skrifstofugallann og korteri seinna var ég kominn upp í strætó þéttsetinn ungum sem öldnum. Það var gaman að fara eftir nýju forgangsakreininni fram úr öllum sem voru að fara einir í bíl í vinnuna.

Það er brýnt að fá svoleiðis akrein í báðar áttir og alveg frá Höfðabakkabrúnni og vestur úr. Og eins eftir suður-norður ásnum frá Hafnarfirði að Sæbraut. Þá fyrst fer fólk að skila sér í strætó þegar það sér að það tekur bara 15 mínútur að fara með strætó niður í bæ en 30 mínútur í bíl á háannatíma.

Ég var snöggur í bæinn, seinni partinn þarf ég að mæta á fund í Árbæjarsafni og nokkru síðar í Miðgarði í Rimahverfinu. Búinn að slá því upp á www.straeto.is og sé að þetta er einfalt mál. Ég er 20 mínútur upp á Árbæjarsafn og þaðan er ég korter yfir í Miðgarð.

Það skemmtilegasta við að taka strætó er að maður hittir oft gamla kunningja sem maður hefur ekki rabbað við lengi. Um daginn varð ég samferða gömlum skólafélaga frá Reykhólum sem vinnur í næstelstu verslun Laugavegarins. Hann tekur alltaf strætó og hefur ekki séð tilganginn í því að taka bílpróf. Við ræddum um Laugaveginn, verslunina Brynju og þá blandaði sér í umræðuna kona sem hefur lengi unnið í verslun Guðsteins. Mjög fróðlegt og skemmtilegt spjall.

Við Oddný Sturludóttir tökum stundum strætó, félagar mínir í Græna netinu eru duglegir við þetta líka en sá ágæti hópur notaði einmitt strætó í vettvangsferð sína í Mosfellsbæinn í fyrravor. Þegar ég tók strætó úr Logafoldinni upp í Egilshöll á landsfund Samfylkingarinnar fyrir rúmu ári fannst mér gaman að rekast þar á Dag B Eggertsson sem var á leiðinni á sama fund.

Ég man ekki til þess að hafa séð borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í strætó. Í upphafi kjörtímabilsins héldu þeir að ég hefði misst prófið vegna drykkju af því ég kom alltaf á hjóli eða með strætó. Viðhorf fólks mótast auðvitað af reynslu hvers og eins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í hjólaveldinu Danmörku var mér oftar en einu sinni boðið að kaupa hjóladekk sem geta ekki sprungið. Að því sem mér skildist þá er ekki loft í þeim, heldur fjaðrandi gúmístangir. Ég lagði nú aldrei í þessi dekk þar sem þau eru mun dýrari en venjuleg dekk. Það er nú samt spurning um að splæsa í ein slík þegar dekkin hafa sprungið 5 sinnum á hálfu ári.... (þetta er allt glerbrotið á götunum!)

Krista (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 12:36

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

eftir 5 sprungin dekk mundi ég láta athuga gjörðina.. einn teinninn gæti verið eitthvað klikk og sprengt slönguna innanfrá..

Í stað þess að tómir strætóar fái enn eina akrein fyrir rassinn á sjálfum sér þá vil ég heldur að það verði klárað að gera almennilega hjólastíga um borgina ;) 

Óskar Þorkelsson, 11.9.2008 kl. 17:08

3 identicon

Ég mundi kaupa nýja slöngu og láta athuga gjörðina og innan í dekkinu gettur líka verið lítið rusl sem hefur nuddað slönguna í sundur þarf þá bara að skola með vatni :D

Konráð Logi (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 18:46

4 Smámynd: Sævar Helgason

Á mínum upphafs fjallahjólaárum lenti ég nokkuð oft í svona loftleysi - við nákvæma skoðun þá reyndust örsmá glerbrot af götunni aðalsökudólgurinn. Fyrst festust þau við dekkið og síðan smá boraðist það innúr og gegnum slönguna.  Eftir þá uppgötvun forðaðist ég mjög alla glermylsnu á hjólreiðinni og loftleysi í dekkjum hætti að hrjá mig...

Sævar Helgason, 11.9.2008 kl. 19:25

5 identicon

Flott hjá þér að taka Strætó!

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 20:53

6 Smámynd: 365

Borgið þið borgarfulltrúarnir fullt gjald þegar þið takið strætó, eða eruð þið á fríkorti.  Svar óskast.

365, 12.9.2008 kl. 10:30

7 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sjálfsagt að svara þessari fyrirspurn kæri/kæra 365 þótt almennt finnist mér skemmtilegra að eiga svona samskiptum undir nafni.

Borgarfulltrúar fá eftir því sem ég best veit engan afslátt - nema þeir séu námsmenn! Hef ekki séð aðra í strætó en þá sem ég nefndi og þeir borga fullt gjald.

Dofri Hermannsson, 12.9.2008 kl. 12:04

8 identicon

Sæll Dofri

Sem hjólreiða commuter í Reykjavík þá þekki ég vandamálið með sprungin dekk í höfuðborginni enda stígar og götur oft á tíðum í bágbornu ástandi til hjólreiða.

Skammtímaráð er að strjúka innan úr dekkinu og gjörðinni með rökum klút, yfirleitt er einhver aðskotahlutur t.d. glerbrot fast í gjarðarlímbandinu eða í dekkinu innaverðu. Þvínæst yrðir þú að setja í nýja slöngu því aðskotahluturinn gæti legið í slöngunni líka.

Næsta ráð er að vera alltaf með lítið verkfærasett og auka slöngu i hnakktösku og litla pumpu, þannig geturðu skipt fljótt um sprungna slöngu.

Þriðja og líklega það besta er að að kaupa sér alvöru commuter dekk, ef ég man rétt þá ertu að ferðast á fjallahjóli með orginal fjallahjóladekkjum. Mesta og besta breyting sem þú getur gert á hjólinu þínu er að fjárfesta í fínmunstruðum dekkjum með "sprengju"vörn (puncture resistant). Markið er yfirleitt með ágæt dekk en ég hef verið mjög hrifinn af Schwalbe Marathon Plus  sem fást því miður ekki hér en sára auðvelt er að panta svona dekk á netinu m.a. á ChainRectionCycles. Í leiðinni væri ekki úr vegi að fjárfesta í nagladekkjum og kanna af eigin raun hve misvel mokstur gengur á veturnar fyrir hjólreiðamenn. Það er alveg ótrúlega gaman að hjóla í vinnuna á veturnar ef maður er vel búinn. Örninn selur frábær nagladekk á góðu verði frá Nokian. Svona fjárfesting er fljót að borga sig bæði fjárhagslega og heilsulega!

Ég hef ekki sprengt dekk á vinnuhjólinu mínu í eitt og hálft ár. 

Gangi þér annars vel í samgöngumálum bæði pólitískt og persónulega.

Bifrastarkveðjur,

Bárður Örn

Bárður Örn (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband