15.9.2008 | 09:03
Greiðar samgöngur og græn hverfi
Undanfarin misseri hafa íbúar risið upp víða um borgina og mótmælt ýmsum fyrirhuguðum umferðarmannvirkjum í nágrenni sínu. Það er andstaða við stórkarlaleg mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, andstaða við að gera Hallsveg að hraðbraut í gegnum Grafarvoginn og íbúar við Miklubraut vilja setja hið háværa, stríða og mengandi stórfljót bíla eftir Miklubraut niður í jörðina. Dæmin eru mikið fleiri.
Í samráðshópi sem ég sit í nú um lausn á deilunum um Hallsveg byrjaði hópurinn á að setja sig inn í spár um aukningu umferðar. Eins og flestir vita hefur bílaeign og bílaumferð aukist gríðarlega undanfarin ár og umferðarspárnar gera ráð fyrir að þessi þróun haldi stöðugt áfram. Vegna þessa stóradóms telja ýmsir að skilyrðislaust beri að samþykkja breiðari götur og fleiri umferðarslaufur. Það sé óábyrgt fólk sem setur sig upp á móti slíkum áformum. Er þetta svo ekki nákvæmlega sama fólkið og vill komast á 15 mínútum úr úthverfunum niður í miðbæ, eitt í bíl á háannatíma? heyrist stundum sagt í lágum hljóðum. Þetta fólk verður að velja hvort það vill greiðar samgöngur eða græn hverfi. Þessu er ég ósammála. Við eigum að velja þriðja kostinn, greiðar samgöngur og græn hverfi. Hvort það er hægt veltur þó að miklu leyti á okkur sjálfum en einnig á framtíðarskipulagi borgarinnar.
Umferðin, sem ætlað er að fara eftir Hallsvegi er annars vegar umferð innan hverfisins og hins vegar gegnumstreymisumferð til og frá Sundabraut. Við vitum það öll sem eigum þátt í að skapa umferð innan hverfisins að talsvert af henni er ónauðsynlegt. Hver hefur ekki einhvern tímann horft á bílana fyrir framan sig mjakast áfram og spurt sig af hverju allt þetta fólk fer ekki í strætó eða á hjóli og af hverju svona margir eru einir í bíl? Þetta eru spurningar sem er líka gott að spyrja sjálfan sig. Af eintómri ást og væntumþykju skutlum við líka stálpuðum börnum okkar í skólann og á íþróttaæfingar í stað þess að sammælast við foreldra hinna barnanna um að hvetja þau til að verða samferða gangandi, hjólandi eða í hverfisstrætó.
Með því að nota bílinn eins og sérbýli, úlpu og ónauðsynlega bómull utan um börnin okkar eigum við sjálf þátt í að skapa þörf fyrir hraðbrautir í gegnum hverfin okkar.
Nú er að hefjast alþjóðleg samgönguvika og í ár hefur Grafarvogurinn verið valið samgönguhverfi borgarinnar. Í því felast mörg kærkomin tækifæri.
Í fyrsta lagi gefur þetta meirihlutanum í borgarstjórn tækifæri til að endurskoða áform sín um tafarlausa tengingu Hallsvegar við Vesturlandsveg en eins og Samfylkingin sagði réttilega fyrir kosningar 2006 er engin þörf á slíkri tengingu fyrr en Sundabraut hefur verið byggð alla leið upp á Kjalarnes. Meira að segja samgönguyfirvöld með sína dómsdagsspá um bílaumferð næstu áratuga tekur undir það.
Útnefning Grafarvogs sem samgönguhverfis ársins gefur okkur líka tilefni til að endurskoða umferðarspár borgarinnar með þann möguleika í huga að fleiri noti strætó til og frá vinnu, að aðstaða fyrir hjólreiðafólk verði bætt og að ung börn geti farið í íþróttir og tómstundastarf sem næst heimili sínu strax að loknum skóla. Hugmyndir Samfylkingarinnar um "samfelldan skóla- og frístundadag" og "burt með skutlið" er innlegg í slíka endurskoðun.
Það þarf að efna til opinnar og hreinskiptinnar umræðu um samgöngu- og skipulagsmál í stærra samhengi. Umræðu sem öll hverfi borgarinnar og nágrannasveitarfélög gætu tekið þátt í og lært af. Þar mætti t.d. ræða hvort réttur hvers borgarbúa til að ryðja sér land og byggja lítið Hús á sléttunni umhverfis borgina á að vera frumkrafa eða hvort við eigum að stefna að því að margir geti þess í stað keypt sér íbúð í fjölbýli miðsvæðis í borginni.
Við stöndum nú í þeim sporum að þegar við skipuleggjum ný úthverfi í borgarjaðrinum fyrir þrjátíu þúsund íbúa gerum við núverandi úthverfi að gegnumstreymishverfum með tilheyrandi hraðbrautum. Ef við byggjum upp alvöru borgarhverfi miðsvæðis í borginni getum við bæði staðið vörð um lífsgæðin í núverandi úthverfum og skapað í miðborginni þau lífsgæði að vera í strætó, göngu- og hjólafæri við vinnu, skóla og alla helstu þjónustu.
Hér er um of mikilvægar ákvarðanir að ræða til að þær séu teknar umræðulaust af reiknilíkönum samgönguyfirvalda. Þessar ákvarðanir þarf að ræða og taka af fólkinu í hverfum borgarinnar, fólkinu á bak við stýrin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:06 | Facebook
Athugasemdir
Það þarf að bæta almenningssamgöngur, gera fólki kleift að nota strætisvagna meira. Ég er nú svo heppin að stunda vinnu í mínu hverfi. En það kemur fyrir að ég skrepp (í bæjarferð) og það tekur verulega á þolinmæðina að komast í gegn um æðarkerfið. Eins og þú segir réttilega, ein manneskja í bíl. Þetta nær ekki nokkurri átt.
Steinunn Þórisdóttir, 15.9.2008 kl. 12:25
Vel skrifað Dofri.
Anna Karlsdóttir, 15.9.2008 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.