Áhugavert viðtal

Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á DO verður aldrei hægt að segja annað en að hann sé áhugaverður viðmælandi. Hann talar í skýrum frösum og á auðvelt með að setja flókna hluti í einfalt samhengi - stundum um of.

Meginlínan í kvöld var að láta ekki börnin okkar borga erlendar skuldir óreiðumannanna. Svo góður frasi áð hann endurtók hann fimm sinnum - en ég efast bara um að hann standist. IceSave netbankinn var sérstaklega hugsaður til að safna innlánum til að fjármagna hítina og þar eru 500 milljarðar sem virðast ætla að lenda á íslenskum skattborgurum - börnunum okkar - að greiða.

Enn hef ég ekki séð neina umfjöllun um þá eignatilfærslu út úr Landsbankanum sem átti sér stað eftir að ríkið hlutaðist til um málefni Glitnis en 1. október sagði Stöð 2 svo frá;

Straumur mun eignast Landsbanki Securities (UK) Limited og Landsbanki Kepler að fullu, og einnig 84% hlut Landsbankans í Merrion Landsbanki. Kaupverðið er greitt með reiðufé, það er 50 milljónir evra, útgáfu víkjandi láns og sölu útlána.

Hvort þarna voru góðir eða eitraðir bitar seldir á 57 milljarða króna áður en stjórnvöld gripu inn í þurfa kunnugri menn en ég að segja til um en hitt blasir við að íslenskir skattgreiðendur sitja eftir með innlán IceSave.

Spurður um ástæður þess að svona er komið sagði DO ekki hafa gert annað en að veita bönkunum frelsi sem svo hefði verið óvarlega notað. Hann hefði ítrekað varað við stöðunni sem seðlabankastjóri og einkum og sér í lagi við því að lána fólki í erlendri mynt sem hefði tekjur í krónum.

Því miður láðist Sigmari að spyrja af hverju fólk hefði verið svona sólgið í erlend lán. Hvort það gæti verið að verðtryggingin - sundkútur íslensku krónunnar - og verðbólgan, ásamt stighækkandi stýrivöxtum hafi hrakið fólk út stórfellda lántöku í erlendri mynt? Staðreyndin er sú að vaxtasvipa peningamálastefnunnar virkaði aldrei nema sem hvatning til fólks að forða sér úr vaxta- verðbólgu- og verðbótaokri íslensku krónunnar.

Það er auðvitað kjánalegt að á þeim eina og hálfa áratug sem er liðinn frá því við gengum inn í EES skulum við ekki vera löngu búin að afgreiða gjaldeyrisumræðuna. Þar hefur DO ráðið miklu en m.a. vegna andstöðu hans sem leiðtoga Sjálfstæðisflokksins hefur flokkurinn verið bundinn í báða skó, baklandi sínu í efnahagslífinu til sárra vonbrigða.

Í forsætisráðherratíð sinni setti DO núverandi peningamálastefnu af stað. Með henni átti að draga úr þenslu og verðbólgu með því að hækka vexti. Sem forsætisráðherra vann DO hins vegar ötullega að því að gera Seðlabankanum eins erfitt fyrir og hægt var. Þegar bankinn reyndi að hemja þensluna réðst ríkisstjórn DO í þensluhvetjandi stóriðjuframkvæmdir, afnám bindiskyldu bankanna, hellti olíu á eld íbúðarlána með 90% húsnæðislánum og afleitlega tímasettum skattalækkunum.

Sem seðlabankastjóri reyndi hann svo af hörku að sýna að kerfið virkaði en mistókst. Í raun hefur hann sannað að eins og staðið var að málum virkar kerfið alls ekki. Verðbólga og vaxtahækkanir ýttu fólki út í lántöku í erlendri mynt, aldrei mátti ræða ESB eða þá staðreynd að krónan er þungur baggi á atvinnulífi og heimilunum í landinu.

Þetta kom því miður ekki fram í vitalinu, sem eins og áður segir var áhugavert. Því enda þótt viðmælandinn hafi skaðað land og þjóð verulega með því að koma í veg fyrir nauðsynlega umræðu um brýn framfaramál þá verður hann seint talinn daufgerður.


mbl.is Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þú ert svo skemmtilega blindur í pólitíkinni, það er engu lagi líkt. Áhugaverður penni en því miður aðeins of smitaður af því hatri og öfgum sem einkennt hefur svo marga vinstri menn um árabil. Davíð er ekki bara áhugaverður, heldur hefur hann einfaldlega rétt fyrir sér í því sem hann er að segja og já hann kann að koma hlutunum skýrt frá sér. Eitthvað sem aðrir leiðtogar þessa lands eru ekki jafn færir um, því miður. Viðurkenni það fúslega að maður saknar þess að kallinn sé ekki enn við völd.

Nú segir þú sjálfsagt að ég sé blindur Davíðsmaður... svar mitt við því er stórt JÁ. Auðvelt að fylgja mönnum sem hafa ótvíræða leiðtogahæfileika með sannleikann að leiðarljósi. Davíð er og hefur aldrei verið í einhverjum feluleik eins og menn halda. Hann hefur ákveðnar og ótvíræðar skoðanir á hlutunum og segir það sem aðrir þora ekki að segja. Hann tekur ákvarðarnir sem aðrir þora ekki að taka og framkvæmir það sem aðrir þora ekki að framkvæma. Það fer alveg óskaplega fyrir hjartað á mönnum eins og þér Dofri minn. Þess vegna hef ég svona gaman að því að lesa bloggið þitt

Frelsisson (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 22:08

2 identicon

Var þetta nýr Davíð? Ekki sá sami og hleypti ruglinu af stað á sínum tíma? Var þetta góði Davíð? Hvar er hinn Davíð sem einkavinavæddi bankana sem þjóðin er nú að leysa til sín aftur með kúk og skít? Fyrirgefið á meðan ég æli.

Björn (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 23:01

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Davíð Oddsson sagði að hann hefði margsinnis varað ríkisstjórnina við en  allt kom fyrir ekki.

Sigurður Þórðarson, 7.10.2008 kl. 23:12

4 identicon

Af hverju viltu afsala fólki ábyrgð? Þú talar um að hann hafi ýtt fólki út í að taka erlent lán. Við berum ábyrgð hvert og eitt okkar..Bankarnir líka ekkert flóknara. Held að tími forsjárhyggjunnar sé svona um það bil að líða undir lok. Frelsinu fylgir nefnilega heilmikil ábyrgð.

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 07:42

5 identicon

Óneitanlega var hún snjöll, samlíking DO um brennuvarga og slökkvilið og að ekki skyldi kenna því síðarnefnda um, að húsið væri illa farið eftir brunann. Þetta er auðvitað rétt, en þó aðeins svo langt sem það nær. Það gleymdist að geta þess, að þeir sem seldu brennuvörgunum húsið (þ.á.m. DO) og nú eru að reyna að slökkva, tóku að sér að sjá um brunavarnaeftirlitið. Þeirri skyldu brugðust þeir hrapallega. Og reykskynjararnir, sem þeir settu upp (FME), voru handónýtir. Frá þessari staðreynd komast menn ekki.

Kristján Bjartmarsson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 08:51

6 identicon

Innilega sammála Frelsisson hér að ofan.  Ég er Sjálfstæðismaður og Davíð er enn minn FORINGI.   Að mínu mati voru það mikil mistök af Geir að bjóða Samfylkingunni  í stjórn, því um leið fór allt á versta veg hér á landi m.a. vegna þess að Geir smitaðist af ákvörðunarfælni Samfylkingarinnar.  Samfylkingin er mesta slys sem komið hefur fyrir Ísland.  Þessi flokkur vill byggja upp borgríki hér á landi, en gera landsbyggðina að einum stórum þjóðgarði sem stjórnað er af stóru apparati í Reykjavík.

Það er ekki rétt hjá þér að halda því fram framkvæmdirnar fyrir austan hafi verið þennsluhvetjandi.  Þessar framkvæmdir áttu að hefjast í ládeyðunni sem var í efnahagslífi þjóðarinnar árið 2001 til að hleypa lífi í efnahag þjóðarinnar þá, en út af kröftugum mótmælum sófakomma og svokallaðra umhverfissinna í þeim tilgangi að tefja og spilla fyrir þessum framkvæmdum, var ekki hægt að byrja á framkvæmdunum fyrr en árið 2003.  Framkvæmdin ein og sér hafði ekki þensluaukandi áhrfi, því 75% vinnuaflsins kom erlendis frá (því enginn íslendingur vildi vinna við svona erfiðar aðstæður) og fóru því peningarnir aftur úr landi þegar þessir erlendu verkamenn sendu launin sín heim.

90% lán Íbúðalánasjóðs áttu að koma smátt og smátt til framkvæmda á síðasta kjörtímabili, en Kaupþing þjófstartaði með því að bjóða allt að 100% lán á lægri vöxtum en Íbúðalánasjóður - (vegna þess að yfirlýst markmið Kaupþings var að knésetja ILS til að bankarnir sætu einir að íbúðalánamarkaðinum) - og hinir bankarnir fylgdu með þannig þetta þjófstart varð þessi olía á þensluna sem þú talar um.

Dofri, þú ert svo vinstrisinnaður og hefur engan skilning á hugtakinu; "atvinnulíf" að þú ert alls ekki marktækur.  Ég held að flestir líti á þig sem sófakomma sem þykist hafa lausnir á öllu.  Reyndu nú að fara rétt með staðreyndir, maður.  

Hættu þessari þráhyggjulegri andúð þinni á því að við nýtum orkuauðlindir okkar.  Ætlar þú t.d. að vera á mót því að við vinnum olíu hér við land ef olía finnst í landgrunni okkar?  Einu lausnirnar sem þú hefur á efnahagsvanda landsins er að ganga í ESB hítina, en þar yrðum við dvergríki án nokkurra áhrifa, þar sem aðgöngimiði okkar þangað væru auðlindin okkar, fiskimiðin.

Baldur Jón Þormóðsson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 09:04

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta var áhugavert viðtal, en þarna sat maður í mikilli afneitun og með mikið hugmyndaflug.  Svo ég leggi enn frekar út frá slökkvistarfi Seðlabankans (samlíking Kristjáns er mjög góð), þá gleymdi slökkviliðsstjórinn að nefna, að meðan reynt var að slökkva eldinn hjá Glitni, þá kveikti slökkviliðið í húsum út um allan bæ.  Svo kom í ljós að það var á misskilningi byggt að menn höfðu slökkt eldinn.  Þeir höfðu bara slökkt þann eld sem sást utan frá, en eldurinn lifði góðu lífi innandyra.  Og í kjölfar þess að slökkviliðið kveikti elda út um allan bæ, þá er allur bærinn meira og minna brunninn til grunna.

Marinó G. Njálsson, 8.10.2008 kl. 09:24

8 Smámynd: Sigfús Axfjörð Sigfússon

Davíð Odsson svarar trúlega aldrei spurningu nema hann fái að semja hana sjálfur. Þetta vita allir sem vilja vita. Það er ástæðan fyrir því hve vel honum tekst að smjúga úr höndum viðmælenda sinna. Það er til skammar fyrir fréttageirann, hvernig hann lætur slíka kumpána draga sig á eyrunum, viðtal eftir viðtal. Eða eru fréttamenn upp til hópa bara kjánar?

Sigfús Axfjörð Sigfússon, 8.10.2008 kl. 12:53

9 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Það er alveg ótrúlegt að lesa svona skrif eins og Frelsisson stendur fyrir. Þetta lýsir svo glórulausu ofstæki að ég er viss um að hrollur færi um Davíð ef hann læsi þetta. Það er einusinni þannig að Davíð er nefnilega maður en ekki guð. Ég hlustaði á viðtalið við hann í Kastljósi í gær of fannst hann komast nokkuð vel frá þessu. Þó standa eftir staðreyndir sem ekki er hægt að hrekja, nefnilega þær að stjórnvöld, með Davíð í forystu og síðar Geir (með Davíð sér við hlið) brugðust sem stjórnvald með að veita bönkunum skynsamlegt aðhald og fullnægjandi eftirlit og að bregðast alltof seint við þegar í óefni var komið. Fjölmargir aðilar úrí öllu litrófi stjórmálanna, verkalýðsforystan og atvinnurekendur auk fjölda fræðimanna bentu á með skýrum hætti, að bregðast þyrfti við aðsteðjandi vanda. Þetta eru staðreyndir málsins.

Guðmundur Gunnarsson, 8.10.2008 kl. 13:00

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, ég tek undir með þér að regluverk Seðlabankans/Fjármálaeftirlits brást.  Hvernig gat það t.d. gerst að Landsbankinn væri með innlánsreikninga í Bretlandi á ábyrgð Íslendinga? 

Kannski er best að lýsa vandanum þannig, að bankarnir eru eins og bílstjórar sem hafa fengið sér nýja öfluga bíla. Þeir halda sig oftast innan leyfilegs hraða (sem er hámarksharði + 10 km eða eitthvað þess háttar), en þar sem lögreglan sér ekki til, þá kitla menn pinnan meira en góðu hófi gegnir.  Löggan veit af þessu, en lætur það óátalið.  Það er nefnilega þannig, að Seðlabankinn lét allt það sem gerðist viðgangast án þess að herða reglur.  Hann hefði alveg geta aukið bindiskylduna upp í 4, 6 eða 8% til að halda aftur af vexti bankanna.  Hann hafði öll úrræði til að banna Landsbankanum að vera með IceSave reikningana skráða á Íslandi.  Hann hefði geta gert úttektir á lausafjárþörf bankanna (í gegnum FME).  Málið er bara að hann gerði ekkert af þessu.  Hann bara talaði en lét ekki verkin tala.

Marinó G. Njálsson, 8.10.2008 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband