Ég er Íslendingur

Nú hvarflar ekki að mér að gera lítið úr ábyrgð stjórnmálamanna, seðlabankans, fjármálaeftirlitsins og allra síst að draga úr vanþóknun minni á græðgi og aðgæsluleysi bankanna. Síður en svo. Ábyrgð allra þessara aðila er mikil. Það sem slær mig hins vegar illa er þessi algera blinda á að mjög stór hluti þjóðarinnar hefur farið of geyst í neyslu undanfarin ár.

Grípum aðeins niður í dæmigerðan fréttatíma (hádegisfréttir RUV 2.8.2007) um sífellt aukna kortaveltu.

Í hagvísi Hagstofu Íslands sem kom út í morgun kemur fram að kreditkortavelta heimilanna hafi aukist um rúm 17% fyrstu 5 mánuði þessa árs frá því á sama tíma í fyrra, þar af jókst kortavelta Íslendinga erlendis um tæp 10%. Á sama tíma jókst debetkortavelta aðeins um 3,3%. Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, segir að þetta sýni að einkaneysla Íslendinga hafi aukist á öðrum ársfjórðungi eftir að hafa dregist saman á þeim fyrsta. Nýleg væntingavísitala Gallup staðfesti þetta enn frekar. Þetta geri það að verkum að verðbólgan minnki ekki eins hratt og hún hefði annars gert, auk þess sem Seðlabankinn ætli ekki að lækka stýrivexti fyrr en eftir áramót.

Hér eru hádegisfréttir Stöðvar 2 frá 15.9.2007.

Kortavelta hefur aukist um 12% á milli ára að raunvirði, miðað við þriggja mánaða meðaltal. Þetta sýnir að einkaneysla er enn mikil hér á landi.
Einkaneysla var mjög mikil í ágústmánuði sem kemur meðal annars fram í aukinni debet- og kreditkortaveltu. Þá var bjartsýni Íslendinga meiri í ágústmánuði en í júlí en góð lund hefur gjarnan áhrif á einkaneyslu en hér er stuðst við væntingavísitölu Gallup.

Ekki eru komnar tölur um innfluttar neysluvörur og nýskráningar bifreiða fyrir ágúst en í júlí hafði innflutningur neysluvarnings aukist um rúmlega 9% frá fyrra ári. Nýskráningum bifreiða hafði fjölgað um 7% en eins og fram kom í fréttum okkar nýverið er bílafloti landsmanna svo stór að hringvegurinn gæti ekki tekið við öllum bílunum færu þeir í einni röð inn á þjóðveg númer 1. Af þessu má ráða að þriðji ársfjórðungur fer vel af stað að mati hagspekinga og ekkert lát virðist vera á neyslugleði landsmanna.

Í kór við þessar fréttir sáum við reglulega fréttir um að viðskiptahalli við útlönd hefði enn slegið nýtt met. Svo öllu sé til haga haldið birtist svo seðlabankastjóri af og til og varaði við þróuninni (sem hann sjálfur hafði þó vissulega lagt grunninn að).

Tækið sem hann notaði til að laga ástandið - stýrivaxtahækkun - virkaði hins vegar alltaf öfugt. Með því voru erlendir áhættufjárfestar hvattir til að kaupa krónubréf, við það hækkaði gengi krónunnar, allur innfluttur varningur varð ódýrari sem hvatti til meiri neyslu og fólk sem þurfti að kaupa sér húsnæði var hrakið út í lántöku í erlendri mynt.

Margir fleiri vöruðu við þeirri hættu sem væri að skapast s.s. hagfræðingar og viðskiptafræðingar akademíunnar. Það hafði því miður lítil áhrif. Í fréttum Sjónvarpsins kl. 22 þann 18.6.2008 var þetta viðtal við Gylfa Zöega í tilefni af því að gengi krónunnar fór að lækka.

Gengislækkunin þvingar þjóðina til að lifa ekki um efni fram, eins og hún hefur gert undanfarin 5 ár. Heimilin verða að draga verulega úr neyslu, og spara, eigi efnahagsástandið að lagast. Þetta er álit prófessors í hagfræði. Að óbreyttu séu miklar hremmingar framundan.

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, segir að líta þurfi 5 ár aftur í tímann til að rekja þann vanda sem nú blasir við og leitt hafi til rýrnunar krónunnar sem skrapp mikið saman í dag og hefur aldrei verið veikari.
Mikið framboð hafi verið af ódýru fjármagni í heiminum undanfarið og á þessum tíma hafa Íslendingar tekið gríðarlega mikil lán, um það bil 10 þúsund milljarða króna.

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði: Og þessi lán hafa farið til þess að kaupa hlutabréf og það er einhver mesta hlutabréfabóla sem að hefur orðið til hérna hlutabréfaverð sjöfaldaðist á fimm árum. Fasteignaverðið hækkaði, við höfum byggt hverfi, ef maður keyrir hérna úthverfin og sér hverfi sem að maður hefur aldrei séð áður og einkaneyslan hefur verið gríðarleg.

Mikill innflutningur á bílum, há lífskjör allt byggt á lánsfé. Það séu svo aðrar þjóðir annars staðar í heiminum, Kína og Japan auk olíuframleiðsluríkjanna sem að hafi sparað.

Gylfi Zoega: Svo við erum að nota okkur sparnað annarra ríkja til að lifa um efni fram.

Það sé hins vegar ekki hægt lengur. Afleiðingarnar séu hrun á hlutabréfa og fasteignamarkaði. Himinhá verðbólga, uppsagnir og gjaldþrot.

Gylfi Zoega: Okkar verðmætasköpun ákvarðar okkar neyslustig en ekki sparnaðarhneigð Kínverja og Japana.

Nú þurfi að jafna viðskiptahallann og ná afgangi. Heimilin verði að spara annars stefni í óefni.

Gylfi Zoega: Það var einn forsvarsmaður þess, Vilhjálmur Egilsson, sem sagði heyrði ég um daginn að það væru einungis tvær atvinnugreinar sem að þyldu 10% raunvexti og þau kjör sem að fyrirtækin hafa í dag og það er vopnasmygl og vændi og við getum ekki byggt efnahagslífið á þessu tvennu, kannski sem betur fer en þar af leiðir að atvinnulífið er að lenda í stórkostlegum hremmingum. Ekki öll fyrirtæki en mjög mörg.
 

Hinn bitri sannleikur er sá að þótt margir hafi ýmist farið varlega eða hreinlega ekki haft möguleika á að taka þátt í neyslunni þá fór þjóðin sem heild óvarlega í neyslu í góðæri sem flestir máttu gera sér grein fyrir að væri að stóru leyti tekið að láni.

"Ábyrgðin er ekki okkar..." sagði hin skelegga skáldkona Gerður Kristný. Ég efast um að allir hafi getað tekið undir þessi orð með góðri samvisku. A.m.k. ekki ég. Þótt ég telji mig í hópi þeirra sem minnsta áhættu taka í fjármálum freistaðist ég engu að síður til að taka bílalán fyrir tæpu ári. Ég hefði vel getað komist af með minna. Ódýrari bíl.

Það er kannski engin furða að ráðamenn segi ekki af sér hjá þjóð þar sem engum finnst neitt vera sér að kenna. Ekki einu sinni pínulítið. Í alvöru talað þá hef ég engan heyrt segja neitt í þá áttina. Samt er það almennt viðurkennt að til þess að geta farið að bæta sig þurfi maður að viðurkenna bresti sína. Kannski ég verði fyrstur.

Ég:         Ég heiti Dofri og ég er Íslendingur!
Þjóðin:   Sæll Dofri!


mbl.is „Ábyrgðin er ekki okkar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk fyrir innganginn, Dofri - ég tengi við margt, sem þú bendir á. Og ekki sakar að benda fólki á að lesa „Stóru Bókina“, Sjálfstætt fólk...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 6.12.2008 kl. 23:27

2 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Tja.... ég ætla að leyfa mér að vera svo grimmur að segja að þeir sem að hafa farið sér of geyst í dansinum í kringum gullkálfinn og sókn sinni eftir vindi, geti sjálfum sér kennt og eigi að vera ábyrgir sinna eigin gerða.

Hinsvegar verður ekki horft fram hja því að fólk þarf að

a) mennta sig b) sjá um börn sín c) eignast húsnæði d) safna fé til mögru árana

og því er það absúrd að bera saman fólk sem að hefur ekki kunnað fótum sínum fjör í neyslulánum við fólk sem hefur neyðst til að sinna grunnþörfum sínum.  

Pétur Henry Petersen, 6.12.2008 kl. 23:35

3 identicon

Sæll Dofri. Og hvað er krónan annað en hitamælir á þessa sjúklegu hegðun?

Meðalið virkaði ekki enda útvatnað, svo sem með verðtryggingu og áframhaldandi lágum húsnæðisvöxtum ríkisbankans. Hvað þá með ódýru erlendu lánin kann einhver að spyrja. Eigum við ekki að segja að það hafi verið spíttið sem hélt okkur gangandi á fylleríinu!

Samsekur.

Sigmundur Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 00:10

4 identicon

Hér er ruglað saman afleiðingu og orsök.

Meginhhlutverk stjórnvalda er að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og friði við aðrar þjóðir. Stjórnvöld brugðust þessu hlutverki sínu.

Þess vegna var viðskiptahalli

þess vegna voru heimilin skuldsett

þess vegna féll krónan

Þess vegna þurftum við að standa í milliríkjadeilum

þess vegna er orðstír íslensku þjóðarinnar í svaðinu

Þess vegna er sparifé og eignir almennings að engu orðið

Þess vegna munu 30 þúsund manns hverfa af landinu

Þess vegna munu erlend fyrirtæki eignast allar auðlindir Íslands

Þess vegna ferðast íslenskir ráðmenn og seðlabankastjórar með lífverði með sér.

Semsagt: ástandið er stjórnvöldum að kenna - ekki almenningi nema að þvi leiti að stjórnvöld sitja í umboði almennnings og þau mistök er aðeins hægt að leiðrétta með þvi að kjósa nýtt þing eða með byltingu.

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 00:40

5 identicon

Einka(of)neysla hafði ekkert með hrun bankanna að gera. Útlán bankanna til einkaneyslu voru örsmátt brot af þeirra útlánum. 59% af útlánum bankanna voru til "erlendra aðila´" í árslok 2007, á því ári jukust útlán til "erlendra aðila" um 143%. Þessi þróun hélt áfram af fullum krafti meginpart þessa árs, á sama tíma og skrúfað var fyrir lán til heimilanna. Bankarnir voru í ljótum leik og fréttin sem þú vitnar í þ. 18.6.2008 tengist þeim leik.

Hefðu bankarnir starfað heiðarlega, og stjórnmálamenn og eftirlitsaðilar unnið vinnuna sína þá hefðu aðeins ofneyslu-Jón og Gunna þurft að taka afleiðingum gerða sinna. Vegna þess að bankarnir, stjórnmálamenn og eftirlitsaðilar klikkuðu þarf öll þjóðin að blæða. Þjóðin þarf að taka lán að upphæð sem skrifuð er með 14 tölustöfum sem við og afkomendur þurfum að endurgreiða með vöxtum.

Þú vitnar í Gylfa Zoega: "á þessum tíma hafa Íslendingar tekið gríðarlega mikil lán, um það bil 10 þúsund milljarða króna." Spurðu útrásarvíkingana hvar þessir peningar eru nú. Þeir fengu til afnota uþb 80% af þeim.

Skuldir heimilanna eru að mestu leiti við Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði. Neysluskuldir heimilanna við bankana voru um 3% af heildarútlánum bankanna. Það voru bankarnir sem rúlluðu, ekki íb.lánasj eða lífeyrissjóðir.

sigurvin (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 01:06

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ef ársskýrsla seðlabankans fyrir 2007 er skoðuð og aðrar upplýsingar má sjá að útlán bankanna skiptust nokkurnveginn svona:

59% til erlendra aðila

32% til innlendra fyrirtækja, sveitarfélaga o.sl.

9% til heimilanna

Af þessum 9% voru ca 60% íbúðarlán sem þýðir að ca 3,6% útlána bankanna voru s.k. neyslulán þ.e. yfirdráttur, bílar, sumarhús, hjólhýsi, flatskjáir....

Svanur Gísli Þorkelsson, 7.12.2008 kl. 01:40

7 identicon

Og í framhaldi af innleggi Svans hér á undan:

  • Erlendir aðilar bera enga ábyrgð og fá allt sitt bætt.
  • Fyrirtæki eru látin bera nokkra ábyrgð, sérstaklega smærri iðn og þjónustufyrirtæki.  Mestöllu púðri sem eftir er sé notað til að verja þau stóru, sem hafa staðið fyrir mestu sukkinu.  Og talandi um þennan flokk... gaman væri að vita hve stórt hlutfall af þessu eru lán sem fyrirtæki fengu til að fjárfesta í hlutabréfum, mundu að inní þessu eru bankarnir sjálfir og önnur fjármálafyrirtæki.
  • Heimilin, þó þau hafi nánast ekkert lagt af mörkum, eiga ekki bara að taka skellinn fyrir alla fullum skrefum, heldur á almúginn að trúa því að þetta sé alveg jafn mikið þeim að kenna líka.

Nenni ekki að skammast meira núna.  Það er sunnudagsmorgun.

Jón Helgi (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 11:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband