Lausnin - að banna afleiðingar kreppunnar!

Ég verð að viðurkenna að ég bjóst við aðeins meiri hugkvæmni en þetta þegar stærsti flokkur landsins boðaði til sérstaks aukafundar og kynnti aðgerðaráætlun sína.

Ekki orð um hinar undirliggjandi ástæður kreppunnar. Peningamálastefnuna, hvaða gjaldmiðil eigi að nota í framtíðinni. Hvernig eigi að koma fyrirtækjum og fólki í skjól frá vaxtaokri og krónu sem ekki er tekin gild í útlöndum. Ekki orð um það hvernig við eigum að koma okkur út úr ólgusjó gjaldmiðlakrísunnar. Lausnin er að banna afleiðingar kreppunnar. Banna nauðungaruppboð og setja þak á hækkun höfuðsstóls skulda. Verður líka bannað að verða svangur?

Það er út af fyrir sig snjallt hjá Vg að opna í hálfa gátt til ESB um leið og lýst er yfir þeirri staðföstu skoðun að Íslandi sé betur borgið utan ESB. Þarna er verið að friða grasrótina og fylgið sem vill sækja um aðild þvert á gömlu karlanna sem eru algerlega handvissir um að það sé rugl. Ef ekki landráð.

Og af hverju þarf að kjósa um það hvort við eigum að fara í aðildarviðræður? Eru þeir margir sem vilja ekki komast að því hvað við gætum fengið út úr aðildarviðræðum? Er ekki einfaldast að Alþingi komi sér saman um samningsmarkmið okkar - þau ættu ekki að vera flókin - og svo verði kosið um hvað kemur út úr viðræðunum. Þessi tvöfalda kosning virðist vera fyrirsláttur.


mbl.is Vilja þak á verðtryggð lán og frystingu uppboða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Samfylkingin er í stjórn. Hún er nútímalegur flokkur.  Afleiðingar kreppunnar verða allar leyfðar.

Doddi (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 01:25

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Dorfi.

Gættu að þér þegar þú hæðist af þeim, sem eitthvað vilja gera, núna, fyrir almenning.  ESB aðild eftir 4 ár og Evra eftir, 10 ár?, 15 ár? eða þá nokkurtímann miðað við skuldastöðu ríkissjóðs, er lítil hjálp fyrir skuldsettan almenning og fyrirtæki.  Og fólk étur ekki aðildarumsóknina þó það ferli gæti hugsanlega nýst til atvinnusköpunar fyrir nokkra stjórnmálafræðinga. 

Hvernig gat það gerst að peningafólk og hagfræðingar yfirtóku sál jafnaðarmannaflokks?  Frelsi, jafnrétti og bræðlag fellst ekki í því að almenningur taki á sig skuldir auðmanna.  Það fellst ekki í því að BÓLUKRÓNAN sé varin á meðan bólueignir fólks falla.  Það fellst ekki í því að peningur almennings sé notaður í að greiða skuldbindingar stórþjóða á meðan velferðarkerfi þess er skorið niður.  

Frelsi, jafnrétti og bræðralag fellst í því að hinum venjulega manni sé gert að lifa mannsæmandi lífi, í dag og á morgunn og daginn þar á eftir.  Það fellst í því að allir taki á sig byrðarnar, þegar þeim þarf að deila.  Það fellst ekki í því að boða útópíu en gleyma vandamálum líðandi stundar.  Það módel var fullreynt í Sovétríkjunum sálugu.  Skynjið þið Samfylkingarfólk ekki, að eitthvað verður að gera strax til að gera fólki kleyft að þrauka, þá verður engin þjóð eftir til að ganga í ESB.  Hafið þið eitthvað raunhæfara til málanna að leggja en Vinstri Grænir, þá í guðanna bænum komið með það sem stefnu þessarrar ríkisstjórnar.  Hörmungaraðgerðir (orðið dregið af því að þær ýta undir hörmungar fólks), sem stjórnin kallar björgunaraðgerðir, hjálpa hinum venjulega manni ekkert í neyð hans. 

Og það þarf ekkert að banna svengd, það nægir að eitthvað sé afgangs í heimilisbókhaldinu til að hægt sé að kaupa mat.  Þetta hafa jafnaðarmenn vitað í 150 ár og þetta ætti ekki að vera fréttir fyrir íslenska jafnaðarmenn. 

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.12.2008 kl. 01:42

3 Smámynd: Magnús Guðjónsson

Ég tek undir hjá austanmanninum, undir stjórn Samfylkingarinnar erum við að verða ein skuldugasta þjóð í heimi, það er hummað og haað með öllu sama gamla liðinu við völd, og kosningar, nei ekki aldeilis hrokinn og yfirlætið í formanninum er flokknum til vansa, hvert og eitt okkar er partur af þjóðinni og saman myndum við þjóð. Nei Dofri gerðu ekki grín að VG það fer þér ekki vel vegna þess að það er ekki björgulegt sem komið hefur frá þínum  eða fyrrum okkar flokki.  Hinum almenna íbúa þessa lands er að blæða út undir styrkri stjórn íhaldsflokkanna tveggja.

Kveðja

Magnús

Magnús Guðjónsson, 8.12.2008 kl. 07:43

4 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ég er svo sannarlega ekki að gera grín að Vg. Ég er að lýsa vonbrigðum mínum með að það skuli ekkert bitastætt koma út úr fundi þeirra nema þeirra eigin sáttaleið í ESB - hin tvöfalda kosningaleið. Vg hefur með fullum rétti gagnrýnt aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og þess vegna hefur flokkurinn reist væntingar um að frá honum komi tillögur að lausn vandans - jafnvel betri en frá öðrum. Það veldur því vonbrigðum að ekkert skuli vera sagt um hinn undirliggjandi vanda sem á öllum brennur, vaxtastig og gjaldmiðlamál.

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að Sf eða ríkisstjórnin sé með öll svörin á hreinu og ekki ætlaði ég að fara í meting Magnús en mér finnst pakkinn sem ríkisstjórnin kynnti um daginn vera talsvert meira úthugsað en það framlag Vg sem er niðurstaða 120 manna aukafundar - að banna afleiðingar kreppunnar.
Fyrirtækjapakki ríkisstjórnarinnar frá 2. des. er hér til upprifjunar.

1.    Stjórnvöld gera bankaráðum hinna nýju banka að setja sér skýrar viðmiðunarreglur um fyrirgreiðslu við fyrirtæki í landinu með það að markmiði að vernda störf og stuðla að áframhaldandi starfsemi lífvænlegra fyrirtækja. Reglurnar taki m.a. til lengingar lána, niðurfærslu skulda, breytingar lána í eigið fé og sameiningar fyrirtækja. Settar verði reglur sem tryggi gegnsæi í ákvarðanatöku bankanna og hlutlæga fyrirgreiðslu, þar sem hugað verði að samræmdum vinnubrögðum gagnvart fyrirtækjum. Innra eftirlit bankanna verði eflt.

2.    Stofnuð verði sérstök eignaumsýslufélög á vegum bankanna sem hafi umsjón með eignar­hlutum ríkis í fyrirtækjum, þar sem ákveðið hefur verið að breyta skuldum í eigið fé.

3.    Skipaður verði óháður umboðsmaður viðskiptavina í hverjum banka. Skal hann m.a. hafa það hlutverk að gæta þess að viðkomandi banki mismuni ekki viðskiptavinum með óeðlilegum hætti, að ferli við endurskipulagningu fyrirtækja og aðrar mikilvægar ráðstafanir sé gagnsætt og skráð og að bankinn gæti að samkeppnisjónarmiðum. Bankaráð velji umboðsmann í hverjum banka og tryggi að hann geti sinnt eftirliti sínu.

4.    Við endurskipulagningu fyrirtækja verða valdar leiðir sem efla samkeppni eða hamla samkeppni minnst.  Á sama hátt verði svigrúm til að draga úr fákeppni eða markaðsráðandi stöðu nýtt sem kostur er. Þeim tilmælum er beint til bankaráða að hafa hliðsjón af þeim meginreglum um samkeppnissjónarmið sem koma fram í áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008.

5.    Ríkisstjórnin mun liðka fyrir stofnun endurreisnarsjóðs, öflugs fjárfestingarsjóðs atvinnulífsins með þátttöku lífeyrissjóða, banka og annarra fjárfesta, þar á meðal erlendra.  Ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita sér fyrir lagasetningu sem rýmkar heimildir lífeyrissjóða til að taka þátt í slíkum fjárfestingum innanlands.

6.    Ríkisstjórnin hvetur til þess að í fjárfestingarstefnu sinni taki endurreisnarsjóður m.a. tillit til sjónarmiða er lúta að góðum stjórnunarháttum og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja, þar á meðal áherslu fyrirtækja á að viðhalda eða fjölga störfum. Auk þess verður lögð áhersla á launastefnu, jafnréttisstefnu, umhverfisstefnu, framlög til rannsókna og þróunar, mikilvægi starfsemi fyrir grunnþjónustu samfélagsins o.s.frv.

7.    Ríkisstjórnin lýsir yfir vilja til að greiða fyrir uppgjöri við erlenda kröfuhafa með því að bjóða þeim hlutafé í nýju bönkunum, m.a. í því skyni að tryggja endurfjármögnun bankanna, fjölbreyttara bankaumhverfi og greiða fyrir eðlilegum lánaviðskiptum innlendra aðila og erlendra banka.

8.    Fyrirtækjum sem uppfylla að öðru leyti skilyrði laga verði gert kleift að gera ársreikninga upp í erlendri mynt með lagasetningu sem gildi afturvirkt frá 1. janúar 2008.

9.    Stjórnvöld greiði með lagasetningu fyrir langtímaeign lífeyrissjóða á fasteignum sem þeir hafa lánað fyrir. Þannig má bjóða einstaklingum og fyrirtækjum sem missa fasteignir sínar þann kost að búa eða starfa áfram í fasteigninni með því að leigja hana af lífeyrissjóðunum.

10.    Lögð verði sérstök áhersla á mannaflsfrekar atvinnuskapandi aðgerðir á vegum ríkisins. Leitað verði eftir samstarfi við sveitarfélög um tímasetningu framkvæmda með það fyrir augum að standa vörð um atvinnu fólks og auka hagkvæmni.

11.    Stjórnvöld munu beita sér fyrir endurskoðun á ákvæðum hlutafélagalaga, skattalaga og annarra laga í því skyni að auðvelda stjórnendum fyrirtækja að komast í gegnum tímabundna erfiðleika vegna efnahagsástandsins.

12.    Ríkisstjórnin mun í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins fara yfir nýsettar reglur um gjaldeyrishömlur sem ætlað er að styrkja gengi krónunnar til að takmarka neikvæð hliðaráhrif þeirra eins og kostur er.

Dofri Hermannsson, 8.12.2008 kl. 09:04

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Dofri.

Sá sem telur þessar tillögur vera raunhæfar fyrir almenn fyrirtæki á Íslandi, hlýtur að vera teingdur mjög skuldugum aðila.  Þeir skuldugustu eru femstir í röðinni og á meðan sætir hinn venjulegi skuldari afarkostum.  Það er að gerast núna um allt land.

Þessi aðgerðarpakki er mjög almennt orðaður og mjög mikið vald er falið stjórnendum bankanna.  Þeir eiga að koma með tillögurnar og útfæra, þeir móta stefnu núverandi ríkisstjórnar.  Í því eina atriði sem minnst er á framkvæmdir (annars berast bara fréttir um niðurskurð framkvæmda á vegum ríkis og sveitarfélaga) til að örfa atvinnulífið, þá er það svo almennt orðað að ekkert er fast í hendi.  Ekkert eftir tíu vikna umþóttunartíma, ekki einu einasta framkvæmd er hægt að minnast á.  Meira að segja stjórnarsáttmáli Ólafs F. var beinskeyttari en þessi orðavaðall. 

Samræðustjórnmál eru til að kalla fram hugmyndir og ákvarðanir.  Falleg orð á blaði eru í verkahring skálda, sum þeirra bera heiti upplýningafulltrúa eða ímyndunarsmiða.  

Eitt af stóru vandamálunum, sem stjórnin þarf að horfast í augu við er að Íslensk fyrirtæki eru skuldsett miðað við góðærisveltu.  Í núverandi samdrætti ráða þau ekki við skuldbindingar sínar og vandinn er of víðtækur til að stjórnin geti sett ábyrgðina á einhverja bankastarfsmenn.  Þó þeir vinni af góðvilja dag og nótt, þá er umfang vandans það víðtækur að ekkert getur hindrað keðjuverkun gjaldþrota og rekstrarstöðvana nema tilkomi víðtækar efnahgasráðstafnir, strax.  Á þetta hafa mætir hagfræðingar bent, t.d Yngvi í Markaðnum á Stöð 2.  og fleiri og fleiri.

Stundum hvarflar að manni að þið talsmenn Samfylkingarinnar, sem verjið þetta aðgerðarleysi og hæðist af þeim sem þó eitthvað leggja til málanna, að þið  séuð ekki staddir á Íslandi 2008.  Þið séuð staddir í bíómynd, t.d "Innvasion from Outerspace" eða einhverri slíkri B mynd.  Tengist þið engu fólki, vinum eða ættingjum, sem eru að upplifa hörmungar verðtryggingar og atvinnuleysis.  Er þetta fólk ekki hluti að þjóð okkar.??  Betur má ef duga skal.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 8.12.2008 kl. 13:54

6 Smámynd: Héðinn Björnsson

Það er stór aðgerð að ákveða að fara í aðildarviðræður og þeim sem fer með samningsumboð Íslendinga við ESB fer með mikið vald. Það treystir enginn núverandi stjórnvöldum til að leiða þessar samningarviðræður enda hafa þau sýnt að þau hafa enga samningshæfileika þegar kemur að útlöndum. Það er ástæðulaust að gera lítið úr hugmyndum VG um að almenningur komi að þessarri ákvörðun áður en farið verður í að framkvæma hana. Sértaklega finnst mér þingmenn Sjálfstæðisflokksins vera umboðslausir til að sækja um aðild að ESB án kosninga og skiftir þá engu máli hvað landsfundur þeirra ákveður. Vilji ríkisstjórnin sækja um aðild er eðlilegast að eftirfarandi atburðarrás fari í gang:

  • Ríkisstjórnin lýsir yfir vilja sínum.
  • Ríkisstjórnin leggur fram stjórnarskrárbreytingu sem þarf til þess að Ísland geti gengið í ESB (þarf að samþykkja á tvemur þingum með kosningum á milli).
  • Ríkisstjórn boðar kosningar og samhliða þeim væri kosið í sendinefnd sem gæti samið fyrir Íslands hönd við ESB.
  • Sé enn vilji fyrir aðildarviðræðum hjá nýju þingi er stjórnarskárbreytingin endursamþykkt og sendinefndin sett í samningarviðræður.
  • Náist samningur er hann settur fyrir þjóðina til samþykktar þar sem bæði talsmenn með og móti samningnum geta fengið stuðning til að kynna sína hlið málsins.

Héðinn Björnsson, 16.12.2008 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband