Einhliða upptaka evru pólitískt feimnismál?

Á miðvikudaginn var birtist í Morgunblaðinu grein eftir 32 hagfræðinga undir fyrirsögninni "Einhliða upptaka evru er engin töfralausn". Af því það er útaf fyrir sig áhugavert að 32 hagfræðingar skuli geta verið sammála um eitthvað og þar sem ég hef undanfarna mánuði kynnt mér málið allvel settist ég nokkuð spenntur niður við lesturinn. Það verður að segja að miðað við það mannkostalið sem ljáir greininni nafn sitt er hún furðu lélegur pappír. Allt frá fyrirsögn til síðasta orðs gengur greinin út á þá gömlu þrætubókarlist að gera andmælandanum upp skoðun og gagnrýna hana svo frekar en það sem raunverulega er til umræðu. Þeir sem hafa bent á einhliða upptöku evru sem valkost í gjaldmiðilskreppunni hafa aldrei sagt hana töfralausn enda er slík lausn ekki til. M.a.s. innganga í ESB "er engin töfralausn" þótt ýmsir tali þannig. Hvað þessa og aðra útúrsnúninga varðar fannst mér þeim vel svarað í sama blaði daginn eftir af Ársæli Valfells og Heiðari Má Guðjónssyni. Ég ætla því ekki að endurtaka þá orðræðu en langar að benda á annað í sambandi við þessa grein sem mér þykir mun merkilegra en innihald hennar.

smokkaherferðHið fyrsta er að líklega er án fordæma að svo margir sérfræðingar séu beðnir að styðja eina innsenda grein í íslensku dagblaði. Það er þekkt að í kosningum er stuðningsfólki gjarna safnað á auglýsingar til stuðnings ákveðnum frambjóðendum, flokkum eða stefnu. Sama aðferð hefur oft gefist vel í forvörnum gegn áfengi og allir muna jú eftir hinni frægu smokkaherferð með veggspjöldum þar sem fjöldi frægra persóna lék sér með smokkinn. Bubbi samdi frægt lag um að smokkurinn mætti ekki vera neitt feimnismál.

Niðurstaða mín er í stuttu máli sú að hér sé verið að nota hagfræðingana 32 í pólitískum tilgangi. Þá niðurstöðu rökstyð ég þannig:

  1. Í greininni eru of margar augljósar rökvillur til að margir þeirra ágætu manna og kvenna sem henni ljá nafn sitt geti í raun verið höfundar hennar.
  2. Megineinkenni greinarinnar er fyrrnefnd þrætubókarlist sem gengur út á að svara ímyndaðri skoðun andmælanda til að forðast rökræður um raunveruleg efnisatriði.
  3. Mikil vinna hefur verið lögð í að safna undirskriftum fyrir þá skoðun sem fyrirsögnin endurspeglar en talsvert átak þarf til að safna saman svo mörgum hagfræðingum undir einn hatt. (Vitað er um nokkra sem báðust undan þátttöku í þessari liðssöfnun.)

Í hópi 32 menninganna eru nokkrir aðilar sem ég furða mig á að hafi ljáð nafn sitt grein sem ég trúi varla að þeir hafi séð. Í hópnum eru aðrir sem ég furða mig minna á og gæti jafnvel trúað að ættu í henni eina og eina málsgrein. Það eru einkum einstaklingar sem á síðustu árum hafa boðað ágæti peningamálastefnu Seðlabankans eins og guðsorð og eru nú með böggum hildar eftir að kennisetning þeirra beið skipbrot og keyrði landið í dýpstu kreppu sögunnar.

Mér þykir einsýnt að greinin hafi verið skrifuð í þeim pólitíska tilgangi að drepa í eitt skipti fyrir öll umræðu um þann valkost sem Íslendingar hafa í gjaldeyrismálum að taka annan gjaldmiðil upp einhliða. Nú þegar flestir fordæma andlitslaus mótmæli er hin ágenga spurning sem vaknar þessi: Hver hefur pólitíska hagsmuni af slíkri þöggun? Hver skrifaði greinina? Verður Bubbi fenginn til að semja lagið "Einhliða upptaka er engin töfralausn"?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. janúar 2009


mbl.is Fyrirtæki hanga í snöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Víðir Benediktsson

Mjög áhugaverð og skemmtileg lesning Dofri. Tek ofan fyrir þér.

Víðir Benediktsson, 11.1.2009 kl. 09:19

2 identicon

Sæll Dofri.

Mjög áhugaverð grein hjá þér Dofri.

Já gott að þú sérð að það er mjög margt svolítið gruggugt við þessa opinberu trúarjátningu þessara mynd- hagfræðinga.

Ég held að ég viti alveg hverjir það séu sem telja sér pólitískan ávinning af því að reyna að kæfa þessa umræðu nú í eitt skipti fyrir öll með svona hreintrúa trúarjátningum.

Þetta er auðvitað sjálft ESB- TRÚBOÐIÐ á Íslandi.

Þar eru ekki leyfðir neinir millileikir né einhver hliðarspor sem ekki eru sjálfu ESB Kommisara-valdinu þóknanlegt.

Þetta hefur margsinnis komið í ljós. 

Ég skora á þig Dofri að reyna að fá einhverja alvöru vitræna rökræðu um þetta í þínum eigin flokki.

En ég held að það sé reyndar alveg borin von að það takist enda flokkurinn þinn í stöðugri afneitun á sinni eigin þjóð og fyrir löngu orðin að trúboðssamtökum og alveg hættur sem eiginlegur stjórnmálaflokkur, ja nema þá kanski í borgarmálunum.

Góðar stundir.  

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 09:58

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

athyglisvert Dofri.. mjög svo.

Óskar Þorkelsson, 11.1.2009 kl. 13:49

4 identicon

Já Dofri minn það sést best að enginn þorir að tjá sig um þessa mjög svo vönduðu blogg-grein þína. 

Þetta er greinilega alveg satt hjá þér, þetta er mjög svo "pólitískt feimnismál" en reyndar langsamlega mest í þínum eigin stjórnmálasamtökum, sem hafa breytt sér í hreintrúar ESB Sértrúarsöfnuð fyrir löngu síðan !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 18:49

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Skrítð að sjá þér takast í sömu málsgrein að gagnrýna fólk fyrir að gera þér upp skoðun og gera svo um leið öðrum upp nákvæmlega sömu skoðun, þ.e. um „töfralausn“.

- Þú gengisfellir alla grein þína Dofri strax í upphafi fyrir öllum þeim sem hafa borið fram málsstað ESB-aðildar, því enginn þeirra myndi kannast við að hafa sagt hana „töfralausn“ - og alls ekki neitt nær því en þið einhliða-evru/dollar menn.  En reyndar finnst mér sú hugmynd vel að merkja vera borin fram sem hrein töfralausn sem á að frelsa okkur frá hinum illa ásetningi Evrópu í garð Íslands sem vélað hefur verið um síðan menn þóttust vera mynda bandalag til friðar og samstarfs í álfunni 1957 en hafa í raun nú myndað samfélag 500 miljóna manna og 27 ríki bara af ásælni allrar Evrópu til litla Íslands - sem svo auðvitað er ætlað allt annað hlutskipti en blasir við af sögu bandalagsins og allra aðildarríkja þess fram til þessa.

Helgi Jóhann Hauksson, 11.1.2009 kl. 20:11

6 identicon

Meginástæðan fyrir því að svo margir hagfræðingar taka sig saman um að koma þessum efnisatriðum á framfæri er að mínu mati einfaldlega sú að í umræðunni um einhliða upptöku evru hefur verið horft fram hjá grundvallaratriðum í bráðavanda okkar sem sú aðgerð leysir ekki og getur jafnvel aukið. Þau efnisatriði sem rakin eru í greininni verða að vera með í umræðunni

Helstu talsmenn einhliða upptöku evru auk sumra talsmanna einhliða upptöku dollars, hafa talað eins og slík aðgerð sé valkostur við það að taka erlend lán til að styðja við fjármálakerfið hér á landi og geta mætt fjármagnsútstreymi. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils er því ekki töfralausn í þeim skilningi að geta leyst okkur út úr núverandi gjaldeyriskreppu án erlendrar lántöku. Hún er heldur ekki töfralausn að því leyti að vera skjótvirkasta lausnin eins og hagfræðingarnir benda á.

Við núverandi aðstæður, þegar móta þarf stefnu til framtíðar í peningamálum þjóðarinnar og jafnframt stöðu hennar í alþjóðlegu samfélagi er það einfaldlega dýrkeypt að eyða verðmætum tíma í að ræða einhliða lausnir án þess að hafa allar efnislegar staðreyndir um áhrif og afleiðingar með í þeirri umræðu.

Mér sýnist hagfræðingarnar rökstyðja þetta mat sitt efnislega og myndi fagna því að sjá tilraunir til efnislegra svara. Sá siður að reyna sífellt að ráðast á persónu málflytjandans í stað efnisatriðanna fer ósegjanlega í taugarnar á mér. Hefði haldið að svo stór og ólíkur hópur hagfræðinga myndi koma í veg fyrir slíkar tilraunir til svara en það er greinilega allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Ef ég ætti að leika sama leik og skoða hagsmunina á bakvið umræðuna um einhliða upptöku evru þá teldi ég hana upprunna hjá þeim sem hafa loks áttað sig á því að krónan getur ekki verið framtíðargjaldmiðill Íslendinga en geta ekki pólitískt stigið það skref að viðurkenna að full aðild að Evrópusambandinu er besti kosturinn í stöðunni. Þetta er því "töfralausn" fyrir ráðlausa ESB andstæðinga eða jafnvel rauð síld til að drepa hinni raunverulegu og nauðsynlegu umræðu um fulla aðild á dreif.

Arnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 10:04

7 Smámynd: Dofri Hermannsson

Arnar. Skemmtilegt að vera þér loksins ósammála um eitthvað. Reyndar held ég að m.a.s. þetta atriði yrðum við sammála um ef við ræddum það í þaula. Best að taka það síðasta fyrst.

Fyrir það fyrsta er ég ekki á móti ESB og sama gildir um marga sem vilja að einhliða upptöku evru. T.d. 73% þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna en sami hópur er eins og þú veist afar hallur undir ESB aðild. Líklega er þessum hópi innan brjósts líkt og mér, finnst ESB aðild hafa upp á marga kosti að bjóða (aðra en evru) en vilja síður að fyrirtækin og heimilin í landinu séu farin á hausinn áður en við fáum aðild að nothæfum gjaldmiðli. Kenningin um rauða síld er því vafasöm. Alveg frábið ég mér að hafa ráðist á persónu nokkurs af 32 menningunum í grein minni og skil eiginlega ekki hvað þú ert að fara með þeim punkti.

Ef þér finnst hagfræðingarnir 32 svara efnislega hvet ég þig til að lesa svar Ársæls og Heiðars Más. Megin gallinn á gagnrýni 32 menningana var eins og ég segi í greininni að þar kappkostað að gagnrýna skoðanir sem ekki höfðu verið settar fram. Hitt var að auki slæmt, þótt ég gerði það ekki að umtalsefni, að þegar 32 menningarnir gagnrýna einhliða upptöku fyrir eitthvað sem stenst, t.d. að hún lagi ekki vantrú á íslenskt efnahagslíf, þá láta þeir alveg undir höfuð leggjast að benda á hvaða leið ætti að fara í staðinn. Ég er t.d. afar efins um að það auki trú umheimsins á íslenskt efnahagslíf að drepa það með mafíuvöxtum, leggja á það gjaldeyrishöft og neyða það til að nota áfram krónu sem enginn í heiminum veit hvers virði er í raunog veru. Það væri ekki úr vegi að þú renndir líka yfir grein eftir Charles Wypolsz í Mogganum í dag. Hann ætti að vera hafinn yfir grunsemdir um andstöðu við ESB!

Við núverandi aðstæður þarf að róa lífróður til að koma fyrirtækjum og heimilum landsins í skjól fyrir ölduróti í gjaldeyrismálum. Svo notuð sé fræg líking formanns Samfylkingarinnar þá er það ekki í neyðarútkalli sem Slysavarnarfélagið á að leggjast í stefnumótunarvinnu. Einhliða upptaka evru væri neyðaraðgerð til að koma á jafnvægi og rétta efnahagslífið við á ný. Umsókn um aðild að ESB með fulla aðild að myntráði sambandsins væri að mínu mati mjög jákvætt markmið (fer auðvitað eftir því hvernig um semst) og mun líklegra að við náum að uppfylla Mastricht markmiðin með einhliða evru sem gjaldmiðil en með krónuna.

Verði evra tekin upp einhliða mun íslenska ríkið vissulega þurfa að taka gjaldeyrislán (enda ríkið lánveitandi til þrautavara í reynd en ekki seðlabankar eins og víðast hvar sannast þessa dagana) en það er aðeins brot af þeirri upphæð sem til stendur að fá lánaða til að skapa trú á íslensku krónunni. Með verulegum samdrætti í þjóðarframleiðslu og niðurskurð yfirvofandi sem gerir núverandi niðurskurð hlægilegan er vandséð hvernig við ætlum að hafa efni á að borga vexti sem jafnast á við tvöföld útgjöld til heilbrigðismála.

Það eru ýmis "grundvallaratriði í bráðavanda okkar" sem einhliða upptaka lagar ekki en hins vegar nokkur talsvert mikilvæg sem slík aðgerð lagar. Ég hef hvergi séð góð rök færð fyrir því sem þú nefnir að einhliða upptaka auki á nein af þessum grundvallaratriðum og þætti vænt um að þú nefndir þau og rökstyddir (helst eftir lestur ofannefndra greina svo við þurfum ekki að endurtaka okkur).

Nú þegar við stöndum í ströngu við að bjarga þeim fyrirtækjum og heimilum sem stefna í vægðarlaus þrot verður að vera hægt að gera þá kröfu til viturra manna, hvort heldur þeir eru einir eða fleiri saman, að þegar þeir gagnrýna skárstu lausnina á vandanum fyrir þá sök að leysa hann ekki allan komi þeir með uppástungu að einhverju sem a.m.k. "gerir sama gagn". 

Helgi Jóhann. Í upphafi greinarinnar segir: "Þeir sem hafa bent á einhliða upptöku evru sem valkost í gjaldmiðilskreppunni hafa aldrei sagt hana töfralausn enda er slík lausn ekki til. M.a.s. innganga í ESB "er engin töfralausn" þótt ýmsir tali þannig." Þótt ýmsir tali þannig tel ég fráleitt að það sé almenn skoðun þeirra sem vilja fara í viðræður við aðild að ESB. Augljóst er t.a.m. að þau 73% kjósenda Samfylkingarinnar sem vilja að við tökum evru upp einhliða gera sér þetta ljóst því yfir 80% sama hóps er hlynntur aðildarviðræðum.

Dofri Hermannsson, 12.1.2009 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband