Jarðsprengjupólitík

Jarðsprengjur eru subbuleg stríðstól. Þær eru oftast notaðar af her á flótta sem vill valda sem mestu tjóni hjá þeim sem reka flóttann. Oftast valda þær þó almenningi mestum skaða.

Sú stjórn sem nú er að fara frá hefur verið umboðslaus frá því henni var slitið fyrir um viku. Til að tryggja að þjóðin væri ekki án framkvæmdavalds á meðan verið er að mynda nýja stjórn fól forseti lýðveldisins fráfarandi stjórn að starfa þangað til.

Nú þegar mest ríður á að grípa til aðgerða til bjargar fyrirtækjum og heimilum í landinu lætur einn ráðherra Sjálfstæðisflokksins sér sæma að planta jarðsprengjum í fótspor sín. Ákvörðun Einars K Guðfinnssonar um hvalveiðikvóta til 5 ára líklega ein siðlausasta aðgerð stjórnmálamanns á síðari tímum, jafnvel þótt skipanir ættingja og vina sjálfstæðismanna í dómarastöður séu taldar með.

Hið augljósa siðleysi er að taka afar umdeilda stefnumótandi ákvörðun án þess að hafa til þess umboð. Hinn augljósi tilgangur Einars er þó verri, hann er ekki bara siðlaus heldur ber hann vitni um pólitískt hugleysi.

Hvalveiðar eru og munu verða umdeildar. Skoðanir með og á móti ganga þvert á flokkspólitískar línur. Ágreining um þær eiga menn ekki að nota til að hindra björgunarstörf þótt þeir séu fúlir yfir að hafa misst traust almennings og verið sendir heim af vettvangi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þarna er Einar líka að afhjúpa undirgefni sína við útgerðarelítuna með afgerandi hætti. Skaðsemi þessarar ákvörðunar er svo margþætt að það er með ólíkindum að hún sé tekin nú til dags.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 31.1.2009 kl. 15:12

2 identicon

Í þessari frétt  á vef hins ríkisrekna frjálshyggjurits Viðskiptablaðsins segir frá réttlætingu ráðherrans á leyfinu til hvalveiða á lofgjörðarsamkomu Sjálfstæðisflokksins. Hann gerði þetta vegna umhyggju fyrir Framsókn, Frjálslyndum og sumum þingmönnum Samfylkingar sem vilja leyfa hvalveiðar.

Það er gott að eiga góða vini meðal pólitískra andstæðinga.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 15:18

3 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Þarna tók Einar ómakið af væntanlegum sjávarútvegsráðherra það er vont að taka þessa ákvörðun en hún er tekin og sá er við tekur í ráðaneytinu seigir bara ég hef ekki stuðning við að afturkalla reglugerðina skammið Einar hann tók þessa ákvörðun.

Við vitum að við veðum að nýta allar auðlindir okkar án rányrkju og hvalveiðar eru innan þeirra marka og markaður á góðu verði er í Japan.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 31.1.2009 kl. 22:19

4 identicon

Fyrir mér er nýting hvalastofna með sjálfbærun hætti rétt eins og nýting annara stofna dýra, svo sem hreindýra.

Allt þetta fárviðri um nýtingu hvalaafurða er ranglega uppblásið af alþjóðasamtökum sem kunna/vilja eða hafa ekki skilning á sjálfbærum veiðum.

Þetta minnir mig á konuna sem kom í fjárréttir í minni heimasveit og sagði stundarhátt, "hversvegna að slátra öllum þessum fallegu lömbum, eins og það sé ekki nóg af kjöti í kjötbúðunum".

Persónulega finnst mér það fólk sem er andsnúið nýtingu sjávarfangs í þessu tilfelli verði að hugsa með opnari huga og hlusta á niðurstöður sérfróðra manna.

Hólmgeir (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 23:34

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

Já, já Hólmgeir. Mér finnst súrt rengi alveg hreint lostæti en ef það fólk úti í heimi sem við þurfum að eiga viðskipti við neitar að sjá okkar hlið á málinu höfum við um tvennt að velja:

  1. berjast til síðustu krónu fyrir hinum heilaga rétti okkar til að drepa hvali og selja af þeim kjötið (hef enn ekki séð neina útreikninga á hagnaðinum og minni á að KL hefur áður stundað þann leik að selja sjálfum sér hvalkjöt til að "sanna" að það sé eftirspurn eftir því)
  2. sýna sjónarmiðum viðskiptaþjóða okkar tillitsemi (hversu illa ígrunduð sem okkur kunna að þykja þau) og borða svo bara hvalkjöt og súrt rengi á laun þyki okkur það þjóðleg nauðsyn.

Ég vel síðari kostinn. Annars fjallaði þessi færsla ekki um með eða á mót hvalveiðum heldur um siðferðið að baki svona jarðsprengjupólitík eins og Einar K ástundar í flóttaliði sjálfstæðismanna.

Dofri Hermannsson, 31.1.2009 kl. 23:47

6 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

   Það er mesti misskilningur að reyna að hengja einhvers konar "þjóðhollustu-stimpil" aftan í sporðinn á því ferlíki sem hvalveiðidellan var, er og verður.

En var ekki líka, til skamms tíma, voðalega væmið og óraunsætt að efast um snilli útrásarinnar ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 1.2.2009 kl. 02:00

7 identicon

Þeir sem vilja veiða hvali og neita að og þeir sem neita að greiða Icesave eru sami hópurinn.

Sveitamenn sem halda að Ísland sé eyland.

Annars vil ég frekar líkja þessu aulabragði Einars við mann sem rekinn er úr vinnunni og mígur á gólfið áður enn hann hleypur út.

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 11:39

8 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Þráinn, þetta er mjög passleg samlíking.

Úrsúla Jünemann, 1.2.2009 kl. 20:56

9 identicon

Held að það sé nauðsynlegt að draga fram það, sem ég held að sé aðalatriðið í máli Dofra. En það skil ég svo að sé að benda á það, að burtséð frá allri tilfinningavellu, sem þessum málum tengist óhjákvæmilega að því er virðist, annarsvegar gæludýradýrkun erlendra þjóða og hinsvegar þjóðrembu sumra íslendinga, þá séum við tilneydd til að horfa á peningalega hagsmuni okkar. Ef ég skil Dofra rétt, þá bendir hann á að við getum skaðast meira fjárhagslega á því að veiða hvali, vegna neikvæðra áhrifa veiðanna á verð og sölumöguleika fiskafurða, en nemur þeim hugsanlega tekjuauka, sem fylgja kann hvalveiðunum.  Þeir, sem starfa að sölu fiskafurða erlendis segja manni, að salan sé nógu andskoti erfið núna um þessar mundir, verðið lækkandi og allt hvað heitir, þótt þetta bætist ekki við. Arthur Björgvin Bollason fréttaritari RÚV í Þýskalandi var einmitt að benda á það í fréttum kvöldsins að fram hefðu komið í þýskum fjölmiðlum gríðarlega hörð viðbrögð við þessari ákvörðun Einars Kristins Guðfinssonar.

Þorskabítur (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband