Vel mælt og satt

Vilhjálmur hefur verið rödd hrópandans í eyðimörkinni undanfarin misseri. Þegar svo spilaborgin hrundi til grunna kom í ljós að allt sem hann hafði bent á hafði við rök að styðjast.

Það er líka rétt hjá honum að þjóðin er stödd í sorgarferli. Þessi fyrsti hluti hefur einkennst af vantrú sem svo víkur fyrir reiði eftir því sem hið rétta kemur í ljós. Það mun reyna mikið á þjóðina, stofnanir, hjálpar- og sjálfboðaliðasamtök, fyrirtækin og ekki síst heimilin í landinu á þeim tíma sem það mun taka að koma okkur upp úr þessum djúpa dal.

Nú skiptir miklu máli að fá allan sannleikann upp á borðið. Það er engum í hag að halda því leyndu hvernig staðan er. Alveg eins og þegar fólk stendur frammi fyrir persónulegum áföllum þá má ekki draga neitt undan gagnvart þjóðinni nú þegar við förum í að meta stöðuna og gera áætlanir um hvernig við byggjum okkur upp að nýju.

Það verður að segja fólki satt - allan sannleikann - og það þarf allt að vera uppi á borði. Þeir sem brugðust á vaktinni, hvort sem er stjórnendur banka, eftirlitsaðilar eða stjórnmálamenn, þurfa að biðjast fyrirgefningar og axla ábyrgð á gjörðum sínum eða aðgerðarleysi. Það þýðir ekki að biðjast afsökunar í viðtengingarhætti, slíkt er móðgun við réttlætiskennd þjóðarinnar og gerir ekkert annað en að ýfa sárin og draga þetta ferli á langinn.

Það er líklega líka rétt hjá Vilhjálmi að við þurfum aðstoð frá öðrum ríkjum til að rétta okkur við. Hvernig við fáum hana þarf líka að ræða opinskátt og það má ekki láta flokkapólitíkina draga þá umræðu ofan í skotgrafir sínar. Þá mun ekkert gerast af viti hér næstu árin.


mbl.is Aldrei of blönk til að hugsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Dofri

Ef glöggt er skoðað voru það fleiri en Vilhjálmur sem gagnrýndu fyrra ástand, menn eins og Ragnar Önundarson ofl. Hitt er að stig viðbragða við áfalli eins og við höfum lent í er líka þekkt og hefur verið sett fram af mörgum aðilum. Við eigum til val á tveimur stigum nú það er sig uppbyggingar eða stig upplausnar. Greiningin á vandanum er að mestu leiti komin, fólk þyrstir í aðgerðir. Þeir sem ætla að eyða miklum tíma í greiningarvinnu á vandanum  nú, kalla yfir þjóðina stig upplausnar.

Sigurður Þorsteinsson, 16.2.2009 kl. 15:11

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Gleymum heldur ekki Vinstri-Grænum, Víðsjá og Speglinum hjá RÚV  og mörgum fleiri- annars get ég montað mig af því að hafa fyrst manna bloggað um það - að Vilhjálmur væri eina virka fjármálaeftirlitið á Íslandi!

María Kristjánsdóttir, 16.2.2009 kl. 15:51

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

og www.jonas.is...

16.02.2009
Veðsetning auðlindanna
Tómt mál er að tala um að selja orkuver og fossa, jarðvarma og fiskimið til að grynna á skuldum ríkisins. Þetta eru auðlindir þjóðarinnar og verða ekki lagðar undir í glórulausum fjárglæfrum frjálshyggjustjórna Davíðs og Geirs. Ef þjóðin getur ekki borgað skuldir frjálshyggjunar, þá getur hún það bara ekki. Engar veðsetningar auðlinda mega verða inni í þeirri mynd.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.2.2009 kl. 21:00

4 identicon

Það er rétt að ýmsir fleiri en Vilhjálmur gagnrýndu ástandið og þar má m.a. nefna Ragnar Önundarson sem í dag skrifar góða grein í Morgunblaðið um gjaldþrot nýfrjálshyggjunnar og þann pólitíska rétttrúanð sem henni hefur fylgt. Hvet allt hugsandi fólk til að lesa hana, http://reinhardr.blog.is/blog/reinhardr/

Reinhard Reynisson (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 21:54

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það hefur sjálfsagt verið ákveðinn flótti fólgin í því að trúa ekki Vilhjálmi og fleirum. Svo er líka annað og það er að margir hafa kannski ekki skilið það sem Vilhjálmur var að segja. Ekki að hann hefi talað óskýrt, heldur hitt að fólk er mis skilningsgott á það málfar sem tíðkast í fjármálaheiminum. En hvað með það Vilhjálmur hélt sínu striki og nú er fólk að hlusta.

Heyrði í Tryggva Þór Herbertssyni í Kastljósinu. Hann talaði þar um mikil yfirboð á "kreppusögumarkaðnum" sem hann kallaði KREPPUKLÁM. Nettóskuldir okkar eru að hans sögn um 466 milljarðar íslenskrar króna. Sem er 33% af vergri þjóðarframleiðslu. Þó þetta sé há tala, þá eru þetta smáaurar miðað við ósköpin sem heyrst hafa - 6 þúsund milljarðar.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 16.2.2009 kl. 23:31

6 identicon

Sæll Dofri

 Mikið satt segir þú ( Það þýðir ekki að biðjast afsökunar í viðtengingarhætti, slíkt er móðgun við réttlætiskennd þjóðarinnar og gerir ekkert annað en að ýfa sárin og draga þetta ferli á langinn)

Þetta skrifar maður er hefur kosið D frá fæðingu.

og biðin er löng eftir akkurat þessu frá mínum mönnum.

þar sem þú ætlar að taka slaginn..mundu þetta ávallt sem þu segir í bloggi þessu.

takk P 

Páll (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 07:56

7 identicon

Sæll Dofri.

Mér finnst pistill þinn hérna fyrir ofan vera svolítið litaður af frösum. Núna þegar kosningabaráttan fer af stað myndi ég vilja að þú og allir sem sækja um starf við Alþingi Íslands muni hver réð ykkur til starfans.

Ég er að upplifa endurnýjaðan áhuga á stjórnmálaumræðunni eftir að hafa fundist síðustu 10 ár að hvað sem á gengi hugsuðu ráðnir í stöðurnar mest um sjálfa sig. Ég hef ekkert sérstakt á móti Sjálfstæðisflokknum, en mér er ennþá mjög minnisstætt þegar Davíð Oddsson tilkynnti launahækkanir á sunnudeginum eftir kosningarnar '99 og fullyrti svo eftir á að bæði ákvörðunin og tímasetningin hefði verið ákvörðun Kjararáðs, eða hvað þetta er kallað. Eða eins og mig minnir að hann sagði að niðurstaða Kjararáðs hefði hugsanlega truflað kosningarniðurstöðuna ef hún hefði verið kynnt á föstudegi. Hver situr í Kjararáði?

Ég vil að Valgerður Bjarnadóttir haldi áfram baráttu sinni, ég hef nefnilega aldrei heyrt jafn hallærisleg rök fyrir sérkjörum stjórnmálamanna og að þeir séu bara kjörnir í 4 ár í senn og hafi verri möguleika þess vegna á vinnumarkaðinum. Ég þekki engan launamann sem er öruggur um stöðu sína næstu 4 ár, ekki vegna Kreppunnar - enginn á almennum markaði hefur nokkurn tíman verið öruggur um stöðu sína í fjögur ár!

Hér á Íslandi eru 300.000 manns, allir þekkja meira eða minna alla. Þeir sem eru sjálfum sér samkvæmir og þora að taka ákvarðanir sem koma illa við hluta fólks en eru heildinni til bóta og eru líka sanngjarnir eiga eftir að eiga mannorð sitt óskert eftir þingsetuna. Ég hef engar áhyggjur af að svoleiðis fólk geti ekki fengið vinnu framar.

Kveðja, Kata 

Kata (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 05:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband