Ölkelduháls

Fyrir nokkru fór hópur frá Samfylkingunni í ferð sem Íslenskir Fjallaleiðsögumenn hafa boðið kjörnum fulltrúum stjórnmálaflokkanna í. Farið var á þremur jeppum upp á Hellisheiði og þar beygt til vinstri inn á Ölkelduháls en tilgangur ferðarinnar var að kynna svæðið og náttúru þess fyrir okkur kjörnum fulltrúum flokkanna.

ÖlkelduhálsÁstæða þess að Fjallaleiðsögumenn ákváðu að bjóða til þessarar ferðar er að Orkuveita Reykjavíkur áformar að virkja á Ölkelduhálsi til að útvega rafmagn til stóriðju, nánar tiltekið til stækkunar álvers í Straumsvík. Svæðið sem Fjallaleiðsögumenn sýndu okkur var einstaklega fjölbreytt og tilkomumikið hverasvæði, líklega eitt það víðfemasta og fjölbreyttasta á landinu. Það var athyglisvert að uppgötva það hvað stutt er í jafn áhugaverð svæði fyrir borgarbúa að skoða og njóta útivistar og sérstæðra náttúrufyrirbæra eins og þessara fjölbreyttu hvera.

Verði af virkjun á Ölkelduhálsi verður það gert á svipaðan hátt og þegar hefur verið gert á Hellisheiði en þó hafa stjórnarmenn OR uppi góð orð um að lært verði af mistökunum sem þar voru gerð. Stefnt verði að því að setja öll rör og línur í jörðu og að hafa stöðvarhús jafnvel neðan jarðar líka. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn hafa áhyggjur af staðsetningu borplana en ýmsar áætlanir sem gerðar hafa verið benda til þess að þau eigi að staðsetja þannig að þau munu stórskaða svæðið sem áhugaverðan útivistar- og náttúruskoðunarstað. Þeir nefndu að þótt helst vildu þeir vera alveg lausir við virkjanir á þessu svæði væri þó eflaust hægt að virkja með mun skárra móti en fyrrnefndar áætlanir gerðu ráð fyrir.

Ferðaþjónustan er tiltölulega ung atvinnugrein og við erum enn að uppgötva fjölmargt nýtt og spennandi við okkar eigið land til að bjóða bæði innlendum og erlendum ferðamönnum að skoða og njóta. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn unnu t.d. sérstök frumkvöðlaverðlaun Icelandair fyrir nýjung sína í ferðaþjónstu, upplifun á ís, sem byggir á blöndu af ýmissi göngu og skoðun á jökli og ís.

Ferðaþjónustan er tilfinnanlega fjársvelt hvað varðar rannsóknarfé, það vantar sárlega rannsóknir á möguleikum ferðaþjónstunnar og þá um leið rannsóknir á verðmætum ýmissa náttúrugersema okkar. Við erum enn að uppgötva ómetanlegar náttúruperlur í þessu landi, náttúruperlur sem við uppgötvum oft ekki fyrr en það er búið að ákveða að granda þeim með óafturkræfum hætti t.d. vegna virkjana, lagningu vega o.s.frv.

Það er athyglisvert að velta því fyrir sér að nú er búið að kosta hundruðum milljóna til rannsókna og undirbúnings á virkjunum á þessu svæði og verið er að gera áætlun áratugi fram í tímann um orkuvinnslu úr ýmsum svæðum á Hengilssvæðinu. Í drögum að tillögu að matsáætlun fyrir Ölkelduhálsvirkjun eru möguleikar orkuframleiðslu metnir áratugi fram í tímann en hagsmunir af ferðaþjónstu eru bara metnir í núinu, sem er ekki stór biti. Með slíkum útreikningum eru flestar náttúruperlur okkar lítils virði við hliðina á stóriðjurafmagnskrónum.

OR gerði á tíma Reykjavíkurlistans samning við Alcan í Straumsvík um að afla orku til stækkunarinnar þar með virkjunum í Hverahlíð og á Ölkelduhálsi. Í þjóðfélaginu á sér hins vegar stað viðhorfsbreyting. Fólki finnst nóg komið af stóriðju, Hafnfirðingar munu að líklega hafna stækkun, enda er þar í raun ekki um stækkun að ræða. Það stendur til að byggja annað álver, helmingi stærra en við nú þekkjum, hinu megin við veginn. Aðkoma bæjarins, t.d. fyrir nánast alla útlendinga sem hingað koma, væri þá ekki bara framhjá álveri heldur hreinlega í gegnum "Aluminium Park" - upphafið að dvöl þeirra í hinni ósnortnu perlu norðursins.

Það er þess vegna ekki sjálfgefið að það verði virkjað á Ölkelduhálsi. Alla vega ekki þannig að það skerði náttúruperlur þær sem svæðið hefur að geyma og ferðaþjónustuaðilar s.s. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn og Eldhestar hafa verið að byggja starfsemi sína á.

Það er líka undarlegt að það þurfi að rjúka til og virkja meira en orðið er núna fyrir stóriðju. Við vitum vel að við sitjum á miklum orkulindum en af hverju högum við okkur eins og þær séu á síðasta söludegi? Menn segja að handan við hornið sé djúpborunartækni sem geti tífaldað orku hvers svæðis. Nanótækni sem einnig gæti verið 10-20 ár inni í framtíðinni gæti tífaldað orkunýtinguna. Við gætum með öðrum orðum verið að fá 100 sinnum meiri orku út úr hverju svæði en við erum að gera núna. Hvað liggur okkur þá á? Af hverju teljum við nauðsynlegt að rjúka til og nýta þetta allt núna? Áður en við náum tökum á þeirri tækni sem gerir okkur kleyft að virkja orkuna án þess að glata náttúrunni á yfirborði orkulindanna? Hvað liggur á?

Tillögur Samfylkingarinnar, Fagra Ísland, gera ráð fyrir að nú verði staldrað við í frekari stóriðjuframkvæmdum og sett á fullt vinna við "Rammaáætlun um náttúruvernd". Ég held að við eigum sögulegt tækifæri til að vinna þá vinnu núna á næstu misserum. Það þarf að kæla hagkerfið og á meðan getum við nýtt tímann vel og náð utan um þennan málaflokk í heild.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband