Stefgjöld af Þjórsárverum og Dettifossi

Ég hef í dag fengið góð viðbrögð við umsókn minni um rannsóknarleyfi á verðmætum náttúrusvæðum Íslands. Mest þó tölvupósta, símtöl og sms, fyrir utan fólk á förnum vegi.

Allir sjá í hendi sér að þau verðmæti sem felast í náttúruperlum landsins eru vanmetin og að þær stofnanir sem eiga að sjá um að meta þær - t.d. Náttúruverndarstofnun - eru algerlega fjársveltar.

Allir kveikja líka á því um leið að ef svæðin yrðu vernduð væru ótal möguleikar á að nýta þau til atvinnustarfsemi.

Fólk furðar sig á því að ekki ein einasta króna fer í að kanna möguleika ferðaþjónustunnar á að nýta hina einstæðu náttúru okkar án þess að eyðileggja hana. Hins vegar hefur orkubransinn milljarða árlega í að rannsaka það hvernig hann getur grætt á því að bora í og sökkva sömu náttúru.

Það sem fáir virðast hafa áttað sig á er hve mikils virði náttúra landsins er annars vegar fyrir ímynd landsins t.d. ferðaþjónustu og útflutningsfyrirtæki og hins vegar fyrir sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Og menn reka upp stór augu þegar ég held áfram... 

Ef ég hefði einkarétt á nýtingu þessarar auðlindar gæti ég án vafa rukkað stefgjöld af henni. Þannig yrðu ekki aðeins þeir sem búa til bílaauglýsingar og Bondmyndir að borga stefgjald af t.d. Torfajökulssvæðinu heldur líka stjórnmálamenn þegar þeir tala um fegurð Þjórsárvera, málarar sem vilja mála mynd af Brennisteinsfjöllum, skáld sem vilja yrkja um Dettifoss og almennir borgarar sem taka myndir í gönguferð um Austurdal eða skrifa skemmtilega ferðasögu á blog.is.

En hvað segir þetta okkur? Þarna er velt upp hugmyndinni að borgað verði fyrir verðmæti sem við höfum til þessa talið sjálfsögð og ókeypis. En eru þau það? Ég tel að svo sé ekki. Ekki lengur.

Spurningin er hvort það er rétt sem menn eins og Illugi Gunnarsson hafa sagt, að einkarétturinn sé forsenda þess að vel sé gengið um sameiginlegar auðlindir okkar. Sé það besta leiðin til að bjarga þessum 10 svæðum sem ég nefndi í umsókn minni um rannsóknarleyfi, þá skal ég með ánægju taka að mér að fá einkaleyfi á nýtingu þeirra - með þeim hætti sem samrýmist verndun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær hugmynd...  Bravó.

 Teitur Atlason

teitur atlason (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband